En hvað Píratar?

Posted: ágúst 16, 2013 in Tónlist, Umræða
Efnisorð:,

Umræða um höfundarrétt og ólöglega dreifingu efnis er orðin ansi ruglingsleg.

Fyrr í vikunni birtist grein í Fréttablaðinu (muni ég rétt) sem var eflaust vel meint til varnar þeim sem eiga efni sem verið er að dreifa ólöglega. Greinin var því miður ruglingsleg og talsvert af misskilningi og jafnvel rangfærslum.. sem gerði þeim hálfgerðan bjarnargreiða sem ætlunin var væntanlega að styðja.

Talsmaður Pírata svaraði svo eitthvað á þeim nótum að þeir væru ekki bófaflokkur og það þyrfti að ræða málið. Ágætt svar, en kannski frekar efnislítið.

Ég hef rætt þetta og skrifast á við marga Pírata og aðra sem áhuga hafa – og satt best að segja fengið lítið um nothæf svör – langlokur um sögulega hluti sem leysa ekkert og svara engu, sumir tala um að ólögleg dreifing sé nú bara allt í lagi og aðrir hafa hugmyndir sem eru kannski ágætar út af fyrir sig (eins og að stytta tíma eftir lát höfundar).. en breyta engu um eðli málsins.

Þannig að mig langar að ítreka spurningu til Pírata.. og fara fram á skýr svör, í texta, ekki á YouTube, ekki með tilvísun í YouTube efni eða greinar eða hugmyndir annarra. Heldur ykkar eigin svör í læsilegum texta, ef ég má vera svo frekur.

1. Finnst ykkur í lagi að dreifa efni í óþökk höfundar?

(já, ég veit að sumir njóta þess að efni er dreift og já ég veit að það er erfitt að stöðva þetta, en það er ekki spurningin, heldur hvort ykkur finnist þetta í lagi?)

2. Finnst ykkur í lagi að sækja efni sem boðið er upp á ókeypis í óþökk höfundar?

Ég veit að þið hafið talað um að það þurfi að ræða þetta og finna lausnir. Sem er gott, en þið hljótið að hafa einhverjar hugmyndir. Nafnið Píratar vísar (amk. sögulega, ef ég hef skilið rétt) í að vera á móti löggjöf („anti piracy) sem var umdeild, þannig að ef ég skil rétt eruð þið „anti – anti – Piracy“.

Það er í góðu lagi að vera á móti.. en það kostar líka kröfu (frá mér amk.) um að koma með betri hugmyndir.

Hverjar eru ykkur hugmyndir? Ekki niðurnegldar, heldur til umræðu. Í hvað vísar Pírata nafnið?

PS. Og að fenginni reynslu verð ég að ítreka ósk um skýr svör og ekki einhverju spjalli út um víðan völl

Athugasemdir
 1. Bjarki skrifar:

  Afstaða Pírata í höfundarréttarmálum liggur fyrir í samþykktu stefnumáli þeirra um endurskoðun höfundaréttar. Í henni felst frjáls dreifing manna á milli á öllu efni svo lengi sem fjárhagslegur ágóði er ekki í spilinu og einkaréttur höfundar í tiltekinn tíma til þess að hafa fjárhagslegan ágóða af verki sínu. Er þá spurningum 1. og 2. svarað játandi? Eins og ég skil þetta þá er þessi afstaða ekki byggð á því að Píratar vilji ekki borga listamönnum fyrir vinnuna sína heldur á því að framkvæmd höfundarlaganna eins og þau eru í dag er í raun ómöguleg öðruvísi en með víðtæku eftirliti með rafrænum samskiptum og ritskoðun þeirra.

  • Takk, ég hef lesið stefnuna.. en punkturinn er að þetta segir mér ekki mikið.

   Fjárhagslegur ágóði getur verið óbeinn og jafnvel þó hann sé ekki til staðar spillir þetta tekjumöguleikum þeirra sem búa til efni og eru að reyna að lifa af því. Ég hef líka heyrt Pírata segja að þeir vilji að listamenn (og aðrir sem koma að verkefnum) fái greitt fyrir sína vinnu, sem er gott, og ekki umdeilt. Spurningin er um raunhæfar tillögur til að leysa þetta.

   Ég geri mér líka grein fyrir erfiðleikunum við að fylgja eftir, en fyrsta skrefið fyrir mér er að ákveða hvernig við viljum hafa hlutina og hvernig lögin eiga að vera… áður en við förum að hugsa um hvernig við fylgjum þeim eftir.

   • Bjarki skrifar:

    Ég skil ekki alveg hvers vegna það á að halda í ónýt og óframkvæmanleg lög vegna þess að við vitum ekki nákvæmlega hvað kemur í staðinn. Það gerir núgildandi löggjöf ekki að nokkru leyti betri.

    • Það gerir þau kannski ekkert betri, en mér finnst allt í lagi að fá fram raunhæfar hugmyndir – frekar en bara eitthvað annað, eins og mér finnst einkenna umræðuna.

     Og núverandi lög, með öllum sínum göllum – við getum verið ósammála um hversu gölluð þau eru – eru auðvitað betri en engin.

 2. Einar Þór Einarsson skrifar:

  Ég tala ekki fyrir pírata, en skal samt skjóta 🙂

  Orðalagið í spurningunum litar þær með gefinni afstöðu. Mig grunar að þú sért í raun að spyrja að öðru, og ég ætla því frekar að svara spurningunni:

  „Finnst ykkur í lagi að dreifa eða sækja efni í óþökk höfundar án þess rétthafi fái greitt fyrir?“

  Svarið við því er „Nei“.

  En á sama hátt og ekki þarf að fá leyfi höfundar/rétthafa til að spila lag í útvarpi (útvarpsstöðin einfaldlega borgar STEF-gjöld) tel ég ekki að rétthafi eigi að hafa koma í veg fyrir dreifingu, en ég tel hann eigi skýlausan rétt til að fá greitt.

  Ein af hugmyndunum sem ég hef sett fram (og sem mér sýnist að sé smám saman að verða að veruleika eftir krókaleiðum, sbr Spotify) er „compulsory licensing“.

  Í mjög einfölduðu (og þarafleiðandi röngu 😉 máli er þetta sama hugmynd og STEF gjöld ganga útá; eftir einhvern X tíma eftir að hugverk hafi verið birt opinberlega geti höfundur eingöngu krafist greiðslu fyrir dreifingu/flutning en einkaréttur á dreifingu fellur niður. Þannig geti hver sem er dreift efni eða endurflutt það, re-mixað, boðið uppá streaming service, gert mashup, haldið sveitaball, o.s.frv , svo framarlega sem fyrirfram ákveðið gjald er greitt í miðlunarsjóð þess efnisforms.

  Útfærsla á gjaldtökunni, „úreldingu“, miðlun og svo framvegis eru svo útfærsluatriði sem má rífast um.

  • Takk, nei, þetta er þá bara klaufaskapur af minni hálfu ef þú lest það út að ég sé að með litaða spurningu eða að fiska eftir einhverju öðru.

   Ég er sammála þér að þetta er sennilega eina raunhæfa nálgunin, set reyndar smá fyrirvara um re-mix og að nota efnið í öðru samhengi. En mig vantar enn að sjá hvernig þetta á að ganga fyrir sig, þeas. hvernig á að framkvæma þetta, hver ákveður gjaldið og hvernig greiðslur komast til skila.

   Ég skal játa að ég hef (amk.) tvær skoðanir á Spotify.. þarna virðist um heiðarlega tilraun til að nálgast verkefnið þannig að aðgengi sé opið en listamenn fái sitt – sem er gott. En þetta virðist enn skila frekar litlu, jafnvel til þeirra sem fá mjög mikla spilun.

 3. Sæll Valgarður, ég skil vel að það skuli vera smá ruglingur í þessum málum enda eru svörin yfirleitt til þess að svara misvísandi spurningum eða leiðrétta grundvallarmisskilning.

  Til þess að hafa þetta alveg á hreinu þá er þetta ályktun Pírata um endurskoðun á höfundarétti (sjá https://x.piratar.is/polity/1/document/36/)

  – Endurskoðun á sæmdarrétti.
  – Frjáls dreifing á efni sem er ekki í fjárhagsskyni.
  – 20 ár á efni sem er í fjárhagsskyni.
  – Skráning eftir 5 ár til að nýta 20 ára rétt í fjárhagsskyni að fullu.
  – Betri skilgreining á sanngjarnri notkun.
  – Leyfa aflæsingu á afritunarvörn. Greinilegt skal vera fyrir kaupanda að vara sé læst með afritunarvörn
  – Ríkið skuli ekki vera með höfundarrétt.

  Varðandi spurningarnar þínar þá þýðir þetta eftirfarandi:
  „1. Finnst ykkur í lagi að dreifa efni í óþökk höfundar?“

  Þetta er leiðandi spurning og því verður svarið að vera bæði já og nei. Auðvitað vill maður ekki gera neitt í óþökk höfundar en svarið er auðvitað ‘já’ vegna þess að (að okkar mati) þá er engin ástæða fyrir því að vera á móti frjálsri dreifingu sem er ekki í fjárhagsskyni. Ég er nokkuð viss um að ef höfundur biður einlæglega um að efni hans verði ekki dreift – með tilvísun kannski í það að fá tíma til þess að setja upp aðgengi að efninu sjálfur – þá yrði fólk almennt séð við því, óháð lögum.

  „2. Finnst ykkur í lagi að sækja efni sem boðið er upp á ókeypis í óþökk höfundar?“
  Þessi spurning fær í raun nákvæmlega sama svar og fyrsta spurningin. Aftur leiðandi spurning á þann veg að ef maður svarar ‘já’ þá er maður að setja sig í sektarkenndarspor. Svarið verður hins vegar að vera ‘já’ af nákvæmlega sömu ástæðum og áður. Orðið ‘óþökk’ er einfaldlega villandi fyrir umræðuna þar sem það kemur lagaumhverfinu nákvæmlega ekkert við (miðað við tillögur Pírata).

  Hugmyndirnar eru skýrar og greinilegar að grunni til með nokkrum fyrirvörum — almenn endurskoðun og breytt skilgreining á sanngjarnri notkun, í samvinnu við alla hlutaðeigandi.

  „Hverjar eru ykkur hugmyndir? Ekki niðurnegldar, heldur til umræðu. Í hvað vísar Pírata nafnið?“
  Hugmyndin er semsagt frjáls dreifing sem er ekki í fjárhagsskyni, Allt að 20 ára dreifingaréttur höfundar. Nafnið Píratar er upprunalega grískt orð sem merkir ‘að reyna’ eða ‘að ráðast’ … nokkurn vegin ‘að fara gegn’, í okkar skilgreiningu er þetta að fara gegn úreldum aðferðum.

  Ég vona að þetta svari spurningum þínum og vil endilega endurtaka athugasemd mína varðandi ‘óþökkina’ … það er eðlilegt að finnast breytingar erfiðar og jafnvel vera á móti þeim. Þess vegna hafa Píratar oft vísað í sögulegar hliðstæður til þess einmitt að segja hversu gagnslaust það er að reyna að vera á móti þessum breytingum. Miðað við reynslu okkar og kunnáttu á því hvernig internetið virkar þá sjáum við ekki fram á að það sé hægt að koma í veg fyrir frjálsa dreifingu efnis. Það er tæknilega ómögulegt NEMA ef dulkóðun á efni sé bönnuð … það myndi hafa í för með sér ýmsar breytingar á internetinu sem ég er ekki viss um að fólk væri tilbúið til þess að sætta sig við (enginn netbanki, allur tölvupóstur og samskipti aðgengileg næstum hverjum sem er …).

  Niðurstaða Pírata byggir því á því að það er ómögulegt að koma í veg fyrir þetta — finnum lausn sem vinnur með kerfinu. Ég tel ályktunina vera mjög skýra varðandi skoðun Pírata á málinu og vona að þetta svar útskýri hvernig og af hverju fyrir þér líka.

  Takk fyrir að vilja skilja – endilega spyrja meira ef eitthvað er óljóst 🙂

  • Takk fyrir þetta, verð tímans vegna að fá að svara betur seinna – skal hafa opið fyrir athugasemdir lengur.

   En „ekki í fjárhagsskyni“ truflar mig mikið. Ef ég læt félaga minn fá efni sem ég hef keypt og fæ í staðinn efni sem hann hefur keypt – hvorugur okkar borgar fyrir það sem við fáum frá hinum. Þá erum við ekki að fá beinlínis greitt fyrir að dreifa efninu. En við erum að spara okkur að kaupa efnið sem við fáum frá hinum. Hvað ef ég sel auglýsingar á síðurnar sem dreifa efni. Viðkomandi er ekki að selja einstaka efni, en er klárlega að hagnast á því að reka síðuna.

   Mér finnst vanta betri og skýrari skilgreiningar.

   Það eru auðvitað næg dæmi um að efni er dreift í óþökk listamanna þrátt fyrir beiðni þeirra um annað.

   • Af hverju truflar ‘ekki í fjárhagsskyni’ þig miðað við þetta dæmi? Ég sé engan mun á þessu dæmi hjá þér (ég býst við að dæmið sem þú notar sé í gegnum stafræn skipti) og ef þessir tveir félagar myndu skiptast á bókum eða geisladiskum.

    Eðli hefðbundinna stafrænna skráaskipta gengur hins vegar yfirleitt skrefinu lengra, þar sem það eru ekki bara tveir félagar sem skiptast á efninu … og ef þeir vilja eintakið sitt ’til baka’ þá þurfa þeir ekki að bíða eða taka eintak til baka.

    Í fyrsta sinn í mannkynssögunni erum við að glíma við auðlind sem er hægt að fjölfalda endalaust svo til án kostnaðar (rafmagn og geymslupláss). Það er ekki nema eðlilegt að við meðhöndlum slíkt efni öðruvísi en hvað sem er bara til í takmörkuðu upplagi. Það eina sem flækir málið er að það er einhver tilbúinn afritunarréttur settur á eintökin.

    Í umhverfi þar sem bara eru til takmörkað upplag eða afritunarkostnaður er hár er eðlilegt að setja takmörkun á afritun því það er auðvelt. Í umhverfi þar sem afritun er ókeypis er ‘skrítið’ að rukka fyrir aðgerðina (fyrir suma gætu Star trek replicators verið góð samlíking, en ef hún virkar ekki pældu þá ekki meira í því). Vegna þess að það er svo mikið auðveldara að afrita en að pæla í ‘óþökk’ höfundar þá er ‘ólögleg’ dreifing til. Hins vegar er ég alveg viss um að lang flestir eru til í að greiða eitthvað fyrir notkun á efninu.

    Hvernig þá? Ef ég næ í eitthvað efni þá þýðir það ekki endilega að ég horfi eða hlusti á það, þetta er ekki útvarps- eða sjónvarpsmiðill þar sem það eru skilgreind tímatakmörk – útsending = hlustun. Kannski spila ég aldrei það sem ég næ í (þekki fullt af svoleiðis fólki sem bara safnar en myndi ekki endast ævin í að neyta) og kannski horfi ég ekki á allt af því að mér finnst það leiðinlegt. Ég hef einu sinni farið á svo leiðinlega mynd í bíó að ég gekk út (sofnaði meira að segja líka) … sem betur fer var það frímiði. Ég hefði orðið verulega ósáttur við að borga fyrir þá mynd. Nú er hins vegar til ‘möguleiki’ þar sem ég þarf ekki að treysta á trailers eða útvarpshlustun til þess að ákveða hvort það sé eitthvað varið í myndir eða tónlist … eða hvað annað.

    Ég get neytt efnisins fyrst og ákveðið síðan hvort og hversu mikils virði það er. Eins og Amanda Palmer sagði: Ekki knýja fólk til þess að borga, leyfið því að borga … stundum borga ég með því að kaupa bókina eða diskinn einhvern tíma seinna. Yfirleitt hins vegar er verðmiðinn allt of hár (rauneintak innifelur efniskostnað sem ég hef engan áhuga á) … og ég þarf bíða eftir að verðið lækki. Þetta tengist svarinu að ofan (mín vegna allavega), er ástæðan fyrir því að mér finnst allt í lagi að ná í efni í ‘óþökk’, ég borga fyrir efnið á mínum forsendum. Yfirleitt hins vegar er enginn auðveldur möguleiki til þess. Þetta er, að mínu mati, framtíðarumhverfið. Borga eftir á, eins mikið og þú vilt.

    • Aðeins meira, fyrirgefðu hversu mikill texti þetta er orðinn.

     Ef listamenn vilja stöðugra umhverfi og ágóða þá geta þeir líklega samið við einhvern aðila um að vera innheimtuaðili … það yrði ekkert mjög ólíkt núverandi dreifingarfyrirtækja pælingu. Innheimtuaðilinn tæki þá ‘áhættuna’.

     Það er hins vegar til sá möguleiki líka að innheimtuþjónustan sé frí, gogoyoko til dæmis er frí fyrir listamenn. Tónlistamenn setja tónlistina sína þar inn og ákveða verðið sjálfir og fá allan ágóða af sölu (ef ég man það sem einn starfsmaður þar sagði mér rétt).

     Er mikil sala þar? Ég veit ekki, sú tónlist þar sem ég hef íhugað að kaupa var of dýr fyrir minn smekk (fast verð, ekki ákveðið af notanda).

     • Takk fyrir, verð að fá að svara ítarlegar síðar… (er ekki með gott netsamband).

      Þó það séu ekki tveir að skiptast á efni – ég tók það bara sem dæmi til að einfalda hugmyndina.. þá eru menn klárlega að spara sér að greiða fyrir efnið – og það er í fjárhagsskyni. Það er engin leið framhjá því að ólögleg dreifing er nákvæmlega í fjárhagsskyni. Þetta truflar mig. Öll þessi „frjálsa“ dreifing er nefnilega í fjárhagsskyni.

      Þá truflar mig líka ein aðalrökin fyrir að það eigi að breyta höfundarlögum er að það sé engin leið að stöðva dreifingu yfir netið. En sömu rök gilda auðvitað um þessar hugmyndir.

      Aðalatriðið – og það sem truflar mig mest – er að ég er fullkomlega ósammála því að það megi dreifa efni fjálst. Það kostar vissulega ekki mikið að fjölfalda – þó raunkostnaðurinn sé nú meiri en margir vilja viðurkenna en .. aðalatriðið er að ef höfundar fá ekki greitt þegar efni er fjöldfaldað og dreift í leyfisleysi… Ég hef áhyggjur af að þetta verði til þess að smám saman hætti höfundar menn að vinna efni, nema þetta miðjumeð sem tröllríður YouTube og orðið flestum útvarpsstöðvum.

      En takk fyrir málefnaleg svör.

      • „Ég hef áhyggjur af að þetta verði til þess að smám saman hætti höfundar menn að vinna efni, nema þetta miðjumeð sem tröllríður YouTube og orðið flestum útvarpsstöðvum.“

       Önnur ástæða fyrir því að það er alltaf vísað í söguna. … hér er John Philop Sousa að mótmæla upptökutækjum:

       These talking machines are going to ruin the artistic development of music in this country. When I was a boy…in front of every house in the summer evenings, you would find young people together singing the songs of the day or old songs. Today you hear these infernal machines going night and day. We will not have a vocal cord left. The vocal cord will be eliminated by a process of evolution, as was the tail of man when he came from the ape.

       Þó að framtíðarsýn hans á líffræðilegri þróun mannsins er dálítið spes þá hefur hann einmitt nákvæmlega sömu áhyggjur og þú … en hvernig lítur dæmið út ef fjöldi íslenskra bóka, tónlistar og myndefnis nú og fyrir 20 árum síðan (eða eitthvað svoleiðis)? Hvað með í öllum heiminum?

       Hérna eru tölur um bíómyndir: http://www.boxofficemojo.com/yearly/
       Tölur úr tónlistaiðnaðinum: https://en.wikipedia.org/wiki/Music_industry#Total_revenue_by_year
       Tölvuleikir: http://www.statisticbrain.com/video-game-yearly-sales/
       Hérna er smá um fjölda útgefna bóka: http://www.scribd.com/doc/96057629/2002-2011-ISBN-Output-Chart-via-Bowker … rúmlega 500% aukning síðan 2002 (fann ekkert í fljótu bragði um sölutölur)

       Meiri tónlist, fleiri leikir, fleiri bækur, meira bíó … semsagt, ekkert sem styður þær áhyggjur að höfundar séu að hætta að vinna efni. Bæði sagan og tölurnar mæla á móti því. Það getur hins vegar verið alveg rétt að þetta sé bara eitthvað ‘miðjumeð’ en Bítlarnir voru nú einu sinni Bieber síns tíma — sagan dæmir svo um gæðin.

       • Ég verð að játa að ég er ekki að kveikja á hvað þessi saga af Sousa kemur málinu við – hvað þá hvernig þú færð út að hann hafi nákvæmlega sömu áhyggjur og ég.

        Það er einfaldlega þannig að ef vinnu fólks er stolið þá finnur það sér eitthvað annað að gera til að draga fram lífið. Ég er ekki að tala um stóru sýnilegu dæmin og meiri sala af einhverju miðjumoði réttlætir ekki að stela jaðar efni.

        Þetta er spurning um hvað okkur finnst rétt og hvað okkur finnst rangt.

        PS. Ég er svo gamall að ég man eftir Bítlunum – og þeir voru svo sannarlega ekki Bieber síns tíma.

     • Ég sé ekki hvernig þetta á að virka, innheimtuþjónusta, frekar en önnur þjónusta verður aldrei frí… ég verð að játa að ég skil ekki hvaðan þessi hugsun kemur að vilja fá vinnu annarra frítt.

      Ég þekki ekki sölutölur frá GogoYoko… en ef þér finnst efnið dýrt þar átta ég mig ekki á hvernig tónlistar útgáfa á að geta borið sig.

      • Ég nefndi áðan að gokoyoko er svona ‘bændamarkaður’ fyrir tónlistamenn. Innheimtuþjónustan þar er frí. Mér finnst efnið dýrt af því að það

       Nýr diskur á rétt rúmar 5 evrur er svo sem ágætt verð. Ég er vanur að kaupa tölvuleiki á $2.50 — og ég skal veðja að það eru mikið fleiri vinnutímar sem fara í að búa til tölvuleikinn. Ég var að vísu kannski frekar að vísa í dýrt gamalt efni. Nýr diskur á 5 evrur er fínt en ég finn líka gamalt efni á 10 evrur sem er jafn dýrt og diskur út úr búð. Frekar augljóst hversu heimskulegt það er miðað við að efniskostnaður hvefur.

       Ég skil ekki af hverju þú ert enn að hjakkast í „hvaðan þessi hugsun kemur að vilja fá vinnu annarra frítt“ — Lagabreytingin (og hugarfarsbreytingin) sem Píratar eru að tala fyrir er einmitt EKKI að dreifa vinnu annarra frítt heldur að útskýra hvernig umhverfið hefur breyst. Í staðinn fyrir að gera fólk að glæpamönnum fyrir eitthvað sem er ekki mikið öðruvísi en að skoða vefsíðu, þá viljum við að listamenn taki þátt í breytingunum og nýti þau nýju tækifæri sem bjóðast á netinu. Ástæðan fyrir því er, í okkar augum, af því að breytingarnar eru óhjákvæmilegar.

       Það er ekki hægt að koma í veg fyrir frjálsa dreifingu, sannleikurinn í þessum orðum er óvéfengjanlegur (tæknilega) ef við viljum halda internetinu eins og það er með netbönkum, öruggum tölvusamskiptum og svo framvegis. Um leið og fólk áttar sig á þessu þá sé ég ekki hvernig það getur með nokkru móti stutt núverandi kerfi.

       Varðandi sölutölurnar og svoleiðis, þá þarf því miður oft svona ‘critical mass’ … reksturinn á tilbúinni vefsíðu ‘ætti’ hins vegar ekki að vera svo hár. Mér finnst annars vanta ‘pay what you like’ möguleika. Ég veit annars ekki, ég kaupi ekki mikið af tónlist (né hlusta á) … kaupi tölvuleiki, bíómyndir og sjónvarpsþætti. Það er kannski ekki alveg allt nákvæmlega eins (örugglega ekki) en það er eitthvað sameiginlegt.

       • Ég er að hjakkast í þessu vegna þess að ég fæ ekki nothæf svör. Og ætla að þrjóskast áfram.

        Hvernig skilgreinið þið „ekki í fjárhagsskyni“? [Ég held að ég sé búinn að spyrja fjórum sinnum að þessu, en fæ eingöngu tal um eitthvað allt annað]. Má viðkomandi hafa tekjur af auglýsingum? Auglýsingum sem hann getur selt vegna þess að hann hjálpar til við að dreifa efni í leyfisleysi?

        Er það ekki í fjárhagsskyni að sækja sér efni án þess að borga fyrir það?

        Og hvernig réttlætið þið það að dreifing efnis í óþökk rétthafa sé í lagi ef sá sem stendur að dreifingunni er ekki að gera það í fjárhagsskyni? Er ekki verið að styðja þjófnað?

        Ég er heldur ekki að segja að það sé hægt að koma í veg fyrir ólöglega dreifingu, ég er að spyrja hvort ykkur finnist það í lagi. Sé ekki betur en að þið verjið það með loðinni skilgreiningu og tali um óskylt efni.

        Ég er ekki að spyrja vegna þess að ég vilji sjá víðtækar aðgerðir eða lagasetningar. Ég spyr vegna þess að ég vil fá umræðu og vegna þess að ég vil að fólk geri sér grein fyrir því að þetta er ekki í lagi. Því fleiri sem ég get sannfært um það, því fleiri borga sjálfviljugir. Og því meiri möguleikir eru fyrir listamenn sem ekki falla undir einstaka dæmi um stórgróða. En á meðan þið „hjakkið“ í því að segja fólki að þetta sé nú bara allt í lagi og það græði nú allir á þessu á endanum… því fleiri gefast upp.

        Satt best að segja finnst mér þessi umræða hér orðin ansi mikið óþarfa suð og farin út um víðan völl.. þeas. umræða og dæmisögur og tilvísanir og skoðanir og upplýsingar sem tengjast málinu, en koma ekki upphaflegri færslu við.

        Mikil almenn sala og mögulegar aðrar leiðir eru kannski rök fyrir því að sannfæra listamenn um að nota þessar leiðir, ef rétt er. En það eru ekki rök fyrir að dreifa efni í leyfisleysi.

        Þær tillögur sem hafa komið hér um almennar breytingar á höfundarrétti hjálpa ekki við að koma í veg fyrir ólöglega dreifinu.. og koma málinu þess vegna ekki við.

 4. Halldóra Mogensen skrifar:

  Mér finnst erfitt að taka þátt í þessari umræðu án þess að vitna í hugmyndir annara. stjórnmálaflokkur Pírata er sprottin upp úr alþjóðlegri hreyfingu sem er byggð á hugmyndum annara. Grunnstefna Pírata er byggð á hugmyndum annara. Það vill svo til að evrópuþingmaður Pírata, Christian Engström, og upprunalegur hugmyndasmiður Pírata hreyfingarinnar, Rick Falkvinge, skrifuðu saman bók sem heitir „The Case for Copyright Reform“. Bókin er stutt, eða um 64 blaðsíður og svarar öllum spurningum sem mögulega geta komið upp um höfundarétt og stöðu Pírata í þeim málum. Hér er texti úr byrjunarkaflanum sem nefnist „There is a better Way“:

  „Today’s copyright legislation is out of balance, and out of tune with the times. It has turned an entire generation of young people into criminals in the eyes of the law, in a futile attempt at stopping technological development. Yet file sharing has continued to grow exponentially. Neither propaganda, fear tactics, nor ever harsher laws have been able to stop the development.

  It is impossible to enforce the ban against non-commercial file sharing without infringing on fundamental human rights. As long as there are ways for citizens to communicate in private, they will be used to share copyrighted materials. The only way to even try to limit file sharing is to remove the right to private communication. In the last decade, this is the direction that copyright enforcement legislation has moved in, under pressure from big business lobbyists who see their monopolies under threat. We need to reverse this trend to safeguard fundamental rights.

  At the same time, we want a society where culture flourishes, and where artists and creative people have a chance to make a living as cultural workers. Fortunately, there is no contradiction between file sharing and culture. This is something we know from a decade’s experience of massive file sharing on the Internet.

  In the economic statistics, we can see that household spending on culture and entertainment is slowly increasing year by year. If we spend less money on buying CDs, we spend more on something else, such as going to live concerts. This is great news for artists. An artist will typically get 5-7% of the revenues from a CD, but 50% of the revenues from a concert. The record companies lose out, but this is only because they are no longer adding any value.

  It may well be that it will become more difficult to make money within some parts of the cultural sector, but if so, it will become easier in some others – including new ones, that we have not even imagined so far. But as long as the total household spending on culture continues to be on the same level or rising, nobody can claim that artists in general will have anything to lose from a reformed copyright.“

  Hægt er að nálgast bókina ókeypis hér: http://www.copyrightreform.eu/

 5. Takk fyrir þetta. Jú, ég hef séð þetta amk. svipaðan úrdrátt. Það er rétt, svo langt sem það nær, að það er erfitt ef ekki útilokað að koma í veg fyrir ólöglega dreifingu. En ég er ekki sáttur við að þá eigi bara að gefast upp.

  En mér finnst verra að í þessu eru ákveðnar hugsanavillur. Það hentar ekkert öllum að gefa efni og sækja tekjur af hljómleikum. Lagahöfundar, sem ekki halda hljómleika, eru að gefast upp, þetta á kannski frekar við um „jaðar“ höfunda. Sem er skelfilegt því mér finnst (amk. fyrir minn undarlega smekk) að fjölbreytnin sé stöðugt minni. YouTube kynslóðin leitar í stöðugt einsleitari tónlist til að mynda.

  Þá eru tekjumöguleikar auðvitað mismunandi eftir landi og landssvæðum og dýrt að fara í langar hljómleikaferðir upp á von og óvon.

  En mér finnst verst að ég upplifi það að fólk sem sækir tónlist frítt og er að alast upp við að allt sé frítt að þessu leyti – er farið að kvarta yfir að þurfa að borga inn á hljómleika.

  Í stuttu máli finnast mér þessar hugmyndir mótast af ákveðinni „rörsýn“ – sumir geta nýtt sér breytt umhverfi og þá á það að vera í lagi fyrir alla.

 6. Einar Þór Einarsson skrifar:

  Í sem stystu máli, þá langar öllum að tryggja listamönnum tekjur. Píratar vilja, öðrum fremur, alls alls alls ekki fórna friðhelgi einkalífs eða réttindum til að vera látinn í friði til þess og helst ekki einu sinni þeirri hefð sem til er og felst í því að leyfa öðrum að njóta góðra hluta með sér.

 7. Helgi Hrafn Gunnarsson skrifar:

  Nú verð ég aðeins að pirra þig, félagi og bróðir. Píratar eru ekki heimspekiklúbbur heldur stjórnmálaafl sem miðar að því að breyta lögum í takt við raunveruleikann, ekki að segja til um „rétt“ eða „rangt“ í öllu sem varðar stefnuna á einhvern hátt. Eins og að við erum hlynnt aðskilnaði ríkis og kirkju án þess að taka afstöðu til kristninnar. Sömuleiðis erum við hlynnt frelsi til þess að gera hluti í einkarúmi sem okkur þykir kannski persónulega ósiðlegir. Sem dæmi finnst mér BDSM kynlíf vægast sagt óheillandi hugmynd og myndi frekar (ef ég væri alráður) að kynlíf væri aldrei tengt ofbeldi á neinn hátt… en samt styð ég frelsið til þss að stunda BDSM kynlíf svo lengi sem allir aðkomandi séu sannanlega viljugir í athæfinu. – Þar er stjórnmálastefna mín á móti mínu persónulega siðferði og í þeirri staðreynd liggur engin mótsögn.

  Þannig er það ekki stjórnmálaafls að svara þessum spurningum vegna þess að með fullri virðingu og þökkum fyrir forvitnina, er það einfaldlega ekki okkar hlutverk sem stjórnmálaflokki að svara þessum spurningum. Stefnan og nauðsyn á breytingum á höfundarétti eru algerlega óháð siðferðislegum skoðunum okkar gagnvart höfundaréttarbroti. Okkar verksvið er fyrst og fremst að verja, tryggja og styrkja borgararéttindi og upplýsingafrelsi. Þróun seinasta áratugs hefur sýnt bersýnilega að borgararéttindum stafar gríðarleg ógn af þeim öflum sem ennþá halda að einn daginn verði aftur arðvænlegt og skynsamlegt að hafa búðir á götuhornum að selja tónlist og kvikmyndir.

  Að því sögðu, skal ég svara fyrir sjálfan mig. Ég ítreka að þetta er mín persónulega skoðun, ekki skoðun Pírata, enda svarar stefnan okkar öllum spurningum sem okkur ber að svara sem stjórnmálaafli með stefnu okkar.

  1. Finnst ykkur í lagi að dreifa efni í óþökk höfundar?

  Þetta er ekki já/nei spurning, fyrirgefðu. Svarið er: stundum, stundum ekki. Mér finnst ekki í lagi til dæmis að dreifa dagbókum eða öðru persónulegu efni sem hefur óvart lekið á netið. Ég tæki ekki þátt í því sjálfur og efast um siðferðismeðvitund þeirra sem myndu gera slíkt. Að sama skapi geri ég mér grein fyrir því að þegar eitthvað er komið á netið er ógerningur að stöðva það og fólk verður að gjöra svo vel að passa að það leki ekki á netið til að byrja með því þá er ekkert hægt að gera með góðu, alveg sama hversu rangt það er og alveg sama hversu alvarlegar afleiðingarnar séu. Í því tilfelli er svarið við spurningu þinni skýrt nei; mér finnst það alls ekki í lagi.

  Mér finnst síðan fullkomlega eðlilegt t.d. að dreifa Microsoft Windows ólöglega. Reyndar finnst mér siðferðislega vafasamra, persónulega, að styrkja Microsoft með því að kaupa Windows löglega, þar sem þetta fyrirtæki hefur gert allt sem í sínu valdi stendur til þess að gera Windows að nauðsynjavöru við venjulega tölvunotkun, á kostnað bæði notenda sinna og tölvuþróunar almennt. Ég ber nákvæmlega enga virðingu fyrir „rétti“ Microsofts á því að hagnast af stýrikerfi sem það hefur prangað upp á allan heiminn með viðbjóðslegum viðskiptaháttum og taktík sem ítalska mafían myndi stæra sig af. Þar er svarið skýrt já; ég fengi samviskubit ef ég borgaði fyrir Microsoft Windows ótilneyddur. (Hinsvegar myndi ég glaður borga fyrir Microsoft Visual Studio, sem dæmi.)

  En lögum með Jónasi Sigurðssyni og Ritvélum Framtíðarinnar? Mér liði persónulega illa af því að niðurhala þeirri tónlist ólöglega. Þá tónlist kaupi ég með bros á vör og fæ mildan good-guy complex við greiðsluna í þokkabót. Þar er svarið nei; mér finnst það ekki í lagi.

  En svo t.d. niðurhala ég ólöglega kvikmyndum ef ég kemst ekki öðruvísi í þær með góðu móti, til dæmis arabískum kvikmyndum. (Þú mátt gjarnan láta mig vita hvernig ég fæ lögleg eintök af þeim á auðveldan og skítsæmilega ódýran máta.). Þar er svarið; mér finnst það óþægilegt en ekki alvarlegt og myndi gjarnan vilja borga fyrir efnið ef það stæði til boða og væri ekki of dýrt.

  Þannig að þetta er ekki já/nei spurning. Hún þarf að vera nákvæmari til að svarið sé já eða nei.

  En síðan MÁ ALVEG tala um að það er ekki eins og að „réttlæti“ sé það fyrsta sem manni detti í hug við að hugsa til þess hvernig listamenn hafa fengið launað í gegnum tíðina. Paul McCartney, einn af heimsins bestu tónsmiðum, er sagður eiga u.þ.b. 800 milljón Bandaríkjadali. Nú, það er frábært að hann geti lifað af tónlist sinni, en í alvöru, á hann skilið 800 milljón Bandaríkjadali? Þetta eru hundrað milljarðar íslenskra króna. Er það eðlilegt kerfi sem mismunar tónlistarmönnum þannig? Er *það* siðlegt? – Spyr sá sem ekki veit, athugaðu, ég er fyrst og fremst að benda á að „sanngirni“ er ekki það fyrsta sem mér dettur í hug þegar ég lít til tónlistarsögunnar fyrir tíma internetsins.

  Að lokum ítreka ég að þessi spurning er ágæt til heimspekilegrar umræðu en hreinlega kemur málinu ekki við þegar kemur að því hvernig lagaumhverfið eigi að vera, vegna þess að lagaumhverfið einfaldlega verður, með fullri virðingu, að halda sig innan ramma raunveruleikans. Raunveruleikinn er sá að stórfelld höfundaréttarbrot verða ekki stöðvuð nema með því að brjóta á borgararéttindum, og það er ekki eins og þetta sé einhver tilgáta; SOPA, PIPA og ACTA eru raunveruleg fyrirbæri sem í alvörunni hafa næstum því orðið að lögum. Nú hefur DMCA verið í gildi í Bandaríkjunum í u.þ.b. 14 ár og hefur ekki gert nokkurn skapaðan hlut til að draga úr ólöglegu niðurhali og reyndar hefur aldrei verið auðveldara að niðurhala ólöglega heldur en nú og þess vegna mun ALLTAF þurfa að ganga lengra. Ekkert minna en upplýsingagerræði mun gera hefðbundinn höfundarrétt raunhæfan. Það ÞARF róttækar aðgerðir á borð við ritskoðun og hleranir til þess að viðhalda hefðbundnum hugmyndum um höfundarétt og við Píratar leggjum til, að það sé einfaldlega ekki í boði. Frekar skal ég hætta að forrita og moka skít það sem eftir er lífsins en að gefa upp á bátinn borgararéttindi mín.

  Ekki að þess þurfi. Netflix og Spotify græða á tá og fingri. Hvernig stemmar það? – Jú, fólk vill borga og borgar ótilneytt. Það borgar hinsvegar ekki lengur fyrir vinnuna sem er orðin að mestu óþörf, svosem framleiðslu- og dreifingarkostnað.

  En gefum okkur samt að valið standi milli borgararéttinda og atvinnuöryggis listamanna, sem er þó alls ekkert á hreinu, athugaðu. Ég vona að þú fyrirgefir í mér kuldann og hrokann, en mér finnst atvinnuöryggi listamanna engu máli skipta við hliðina á borgararéttindum. Þau þykja mér reyndar skipta meira máli en nokkuð mörg mannslíf, enda hafa milljónir fórnað lífum sínum þeim til verndar, og með réttu.

  Hvað sem öllu þessu líður, þá fyrirgefðu, en þetta er einfaldlega ekki já/nei spurning.

  2. Finnst ykkur í lagi að sækja efni sem boðið er upp á ókeypis í óþökk höfundar?

  Ég get bara boðið sama svar og við spurningu eitt.

  Ég vona að þetta útskýri eitthvað smá. Takk fyrir áhugann.

  (P.S.: Ég kann sjálfur næstum því ekkert nema það sem varðar höfundarrétt; tónlist og hugbúnaðarsmíð. Hef aldrei gefið út tónlistina mína en ég kem aldrei til með að hafa viðurværi af öðru en hugverkum. Ég skil áhyggjur og gremju listamanna mjög vel.)

  • Takk fyrir svarið… (þarf að svara þessu í stuttu máli, er úti í sveit með lélegt samband) og nei það er enginn pirringur að fá umræðu, og sé engan hroka í þessu svari – umræða er nú það sem ég er að biðja um.

   En…

   Ég var nú ekki að biðja um heimspekilega umræðu, heldur praktískar lausnir… ég vona að þið hafið skipt um skoðun og séuð hætt að hafa skoðun á því hvað er rétt og hvað er rangt – mig rámar að minnsta kosti í ansi margt frá ykkur sem snýr einmitt að því hvað er rétt og hvað er rangt – sem ég kann að meta hjá ykkur. Ykkur finnst til dæmis rétt að verja borgaraleg réttindi, snýst það ekki um hvað er rétt og hvað er rangt? Er einhver eðlismunur á því réttlæti / ranglæti og því að taka hluti í leyfisleysi?

   Ég er alveg ósammála þér með Windows, fólk hefur einfaldlega aðra valkosti.. hitt er að þó gróði Microsoft hafi verið mikill þá er þróunarkostnaður svona hugbúnaðar gríðarlegur. Viðskiptahættir Microsoft eru allt annar handleggur og á að taka fyrir á öðrum vettvangi – hefur verið reynt, en gengur hægt.

   Ég hef líka skilning á efni sem er ekki fáanlegt eftir öðrum leiðum.. en það er ekki aðalatriðið, þú mátt breyta spurningunni og gera undantekningu á því ef það hjálpar.

   Auðæfi Paul’s eru heldur ekki aðalatriði í þessu samhengi, hans tekjur koma reyndar ekki af hans eigin lögum… og þið megið gjarnan setja eitthvert þak á mögulegan gróða ef þið getið komið með raunhæfar tillögur. En stakt dæmi eins og McCartney breytir engu fyrir allan þann fjölda sem er að gefast upp á öðru en „mainstream“ efni.

   Ég er svo engan veginn sammála að þó að tilraunir til lagasetningar hafi verið vondar þá eigi að gefast upp fyrir því verkefni að setja lög sem virka án þess að skerða persónufrelsi.. þetta er einfaldlega verkefni sem þarf að vinna. Mér finnst engin ástæða til að gefa sér að valið standi á milli réttinda og atvinnuöryggis.

   Ég þekki ekki gróðann hjá Spotify, að hluta til jákvætt að verið sé að reyna að tryggja greiðslur til listamanna, en þetta eru bókstaflega smáaurar sem listamenn fá fyrir talsvert mikla spilun.

   • Hey, keypti Michael Jackson ekki réttindin af Bítlalögunum hérna fyrir nokkrum árum … þrátt fyrir að Paul vildi fá þau?

    Það er smá hryllingsdæmisaga um hvernig höfundaréttur/afritunarréttur getur orðið.

    • Það er rétt og Paul keypti ma. réttinn að lögum Buddy Holly… en þetta snýst ekki um einstök dæmi um þá sem græða hvað mest.

     Ég er að tala um hvað okkur finnst rétt að gera, ef okkur finnst ekki í lagi að dreifa efni í óþökk höfunda, útgefenda og þeirra sem eiga efni – hvernig viljum við sjá til þess að þeir fái greitt fyrir sína vinnu.

 8. Svavar Ottesen Berg skrifar:

  Mér finnst vanta eitt í þessa umræðu sem mér finnst skipta mjög miklu máli og það er að tónlistarmennska er „non job“ þar sem margir eru kallaðir en fáir útvaldir til að geta lifað á því að semja tónlist.

  Höfundarréttur = copyright er ekki leið til að vernda höfunda gegn því að efninu þeirra sé stolið og eða selt áfram, heldur eru þau lög einungis til fyrir útgáfufyrirtækið sem á copyright á efninu sem listamaður er búinn að búa til sem þeir hagnast á.

  Það eru endalausar sögurnar af því hvernig útgáfufyrirtækin taka listamennina í þurrt og hljómsveitirnar enda jafnvel á því að skulda útgáfufyrirtækinu fúlgur fjár þótt svo að plöturnar þeirra seljist í bílförmum.

  Það var gerð 10 ára könnun í noregi frá 99 – 2009 þar sem peningar eru sérstaklega teknir fyrir á þessum árum hefur 4% aukning verið í tónlistarbransanum (4% þegar tekið er mið af verðbólgu) stærsta misræmið í tölunum eru þær að listamenn eru að fá 114% meira greitt fyrir sína tónlist á meðan að útgáfufyrirtækin með sína plast diska eru að svelta.

  Tónlistarmenn hafa þurft að leita annarra leiða til að græða peninga með því sækja á aðra markaði en cd markaðinn. frá 99-2009 hefur live spilun á tónlist þrefaldast í bandaríkjunum, styrktaraðilar, auglýsingar, fatalínur. Ég sá einn um daginn bjóða hljómleika á skype fyrir partý fyrir þúsund dollara sem mér fannst fín hugmynd.

  Píratapartíið er ekki á móti því að listamenn græði peninga síður en svo. Ég kaupi alla diska bróður míns þó svo að þeir séu allir í plastinu ennþá því ég er löngu kominn með efnið í tölvuna.
  Ég kaupi einnig alla íslenska tónlist sem ég ætla að hlusta á. Þó svo að mér finnist rán að borga 2000-3000 krónur fyrir focking geisladisk. Uppáhalds íslenski diskurinn minn sem er ennþá í plastinu er með Ultra Mega Technobandinu Stefán

  Það sem píratapartíið er á móti er að með núverandi lagakerfi er hægt og er gert að lögsækja venjulegt fólk fyrir marga tugi milljóna fyrir það eitt að hafa deilt efni á internetinu.
  Píratapartíið er einnig á móti núverandi tilraunum til að búa til lög sem gefa dreifingaraðilum leifi til að loka á heilu hlutana á internetinu án sannana um að nokkuð brot hafi átt sér stað, acta, sopa, pipa.

  • Takk, það er vissulega rétt að það eru mörg dæmi um að útgáfufyrirtæki hafi farið illa með listamenn. En það eru enn fleiri dæmi þess að listamenn hafi notið góðs af höfundarrétti og langt frá því að allir listamenn selji útgáfufyrirtækjum höfundarréttinn á tónlistinni.

   Það er líka rétt að sumir hafa notið þess að umhverfið er breytt.. en aðrir hafa farið illa út úr þessu – kannski mín sérviska, en mér finnst til að mynda tónlistarheimurinn einhæfari (og leiðinlegri fyrir vikið).

   Ég líka sammála ykkur í því að stöðva svona lagasetningar… en mig vantar enn svar um hvernig lög þið viljið setja.

   • Mér finnst fjöldbreytnin í íslenskri tónlist aldrei hafa verið meiri … ég er kannski ekki sérfræðingur né hef ekki mjög langa sögu að vísa í – en tilvísun mín spannar þann tíma sem veraldarvefurinn og frjáls dreifing varð til.

   • Svavar Ottesen Berg skrifar:

    Hérna er svolítið þar sem íslenska þýðingin klikkar og einhver snillingur ákvað að íslenska svona fáránlega „höfundarréttur“ og veldur oft miskilningi hjá fólki og sérstaklega mér fyrst þegar ég fór að kynna mér þetta á sínum tíma.

    intellectual property er nær því að vera réttur höfundar, svo koma undirleyfin sem eru

    copyright sem er leyfi útgáfu/listamanns til að afrita og selja efni listamanns í einhvern ákveðinn tíma.
    og svo að lokum trademarks, patents, industrial design rights og trade dress.

    Í dag eru útgáfufyrirtæki að flestu ef ekki öllu leyti óþörf. (mér finnst mugison vera frábært dæmi)
    Það eina sem tónlistarmaður þarf í dag til að gefa út tónlist er hljóðfæri til að semja hana á og upptökubúnaður, þetta getur verið misdýrt eftir því hvað maður ætlar að semja og hvaða gæði maður er tilbúinn til að sætta sig við.
    Ég held að stúdíótíminn í sýrlandi sé ekkert að fara að lækka þó svo að útgáfufyrirtækin fari undir, en við erum ekki lengur að tala um margar milljónir dollara í útgáfu. Hvað þýðir það nákvæmlega? Það einfaldlega þýðir það að á þessum tímapunkti eru miklu fleiri tónlistarmenn að gefa út tónlistina sína.

    Tónlistarheimurinn einhæfari fyrir vikið?
    Með tilkomu internetsinns var í fyrsta skipti á auðveldan hátt hægt að komast framhjá útgáfumaskínunni sem fjöldaframleiðir fyrirfram matreitt sálarlaust pay for play drasl einungis til að græða peninga.
    Áður en internetið kom var maður með endalaust af bootlegguðum kasettum í drasl analog gæðum. Ef þú ert að hlusta á útvarp eða fara í plötubúðir þá er sá tónlistarheimur talsvert einhæfur.

    Á internetinu eru plötugagnrýnendur og heilu samfélögin fyrir þá tónlistarstefnu sem maður hefur áhuga á. Ég fylgist með þessari fréttasíðu hérna http://www.blabbermouth.net/ en hún er einskorðuð við heavy metal, hart rock og allar subsenurnar undir því.
    Mér finnst þessi gagngrýnandi hérna mjög góður http://www.youtube.com/watch?v=RE9pUpdFmeE.

    Lögin sem píratapartíið vill setja eru alþjóðleg og eru sem stendur
    copyright = 20 ár af commercial monopoly = listamaður,forritari/útgáfufyrirtæki, whatever hefur einungis 20 ár af rétt sínum til að græða pening á því sem hann býr til.

    5 ára enduráskriftartími, það þýðir að þegar þú ert búinn að höfundarréttaverja efnið þitt til 20 ára þá þarftu að endurnýja höfundarréttinn á 5 árum.

    Ekkert drm, en það skiptir ekki svo miklu máli á meðan það er svo auðvelt að komast framhjá því hvort eð er.

    píratapartíið hefur enga sérstaka skoðun á intellectual property nema að þau séu viðurkennd as is og að það er aldrei hægt að stela efni höfundar og endurútgefa án samþykkiss.

    Nánari lýsingu er hægt að finna á bls 10 í bókinni, the case for copyright reform. Hérna er hægt að lesa hana.
    http://www.copyrightreform.eu/

    • Takk,

     já, tónlistarheimurinn einhæfari, það er einfaldlega fullt af tónlistarmönnum sem leggja í talsverða vinnu en fá lítið fyrir sinn snúð – en myndu fá greitt ef ekki væri ólögleg dreifing. Stöku dæmin um velgengni breyta því heldur ekki hvort það er rétt að taka eitthvað í heimildarleysi. Þeir listamenn sem vilja hafa þann hátt á – og klárlega hentar það mörgum – og ekki ætla ég að gera lítið úr möguleikum sem netið gefur.

     Mér finnst þetta einfaldlega ekki breyta neinu um hvað er rétt eða rangt í ólöglegri dreifingu.

     Ég sé ekki að 20 ára réttur hjálpi til við að leysa þetta? Og satt best að segja finnst mér hugmyndin fráleit. Ef ég gef út lag sem hverfur í dag og skilar ekki krónu, verður svo vinsælt eftir 20 ár (já, ég má láta mig dreyma) af hverju ætti ég ekki að njóta þess?? Hver er tilgangurinn með þessu enduráskrift? Ég sé þetta einfaldlega ekki leysa neitt.

 9. Jack skrifar:

  Hér á landi höfum við enga þjónustu sem gerir okkur kleyft að kaupa okkur höfundarvarið efni á netinu og það virðist ekki vera á döfinni að sá möguleiki verði í boði á næstunni vegna þröngsýni og heimsku þeirra sem sitja í stjórnum STEF og SMÁÍS enda hafa þeir aðeins eitt markmið í sínum þröngsýna haus og það er að loka, loka, loka og loka á allt niðurhal. Skilningur þessara einstaklinga á Internetinu er nákvæmlega enginn. NADA!
  Síðan koma einstaklingar á borð við þig sem éta upp þvæluna í þessu liði og básúna vanþekkingu sína yfir almenning sem hefur álíka þekkingu á netinu og belja hefur á raforkuframleiðslu.

  Það sem Píratar vilja gera er einmitt það sem skynsamlegast er en það er að koma upp þjónustu þar sem hægt er að kaupa efni á sanngjörnu verði, taktu eftir þessu, sanngjörnu verði en ekki þeim okurprísum sem tíðkaðist á tónlist.is og að geta niðurhalað efninu til eignar í stafrænu formi.
  Með því að koma á fót slikri þjónustu, STEF og SMÁÍS gætu, (ef þeir réðu sér sérfræðinga til starfa í stað þeirra heilalausu fábjána sem þar ráða núna) haft eftirlit og séð um rekstur slíks fyrirtækis í samvinnu við rétthafa og þar með væru málin leyst því fólk mundi nota þannig þjónustu og greiða fyrir efnið.

  Ég persónulega nota skrárskiptasíður erlendis til að sækja mér efni sem er algerlega óaðgengilegt hérna en ég tek fram að ég er ekki að sækja mér íslenskt efni þar sem það er ekki á mínu áhugasviði.

  • Ég kannnast ekki við að vera að éta eitt eða neitt upp – og hef alveg ágætis þekkingu á netinu. Ég geri mér alveg grein fyrir praktískum vandamálum, en ég vil byrja á hinum endanum.

   Það er rétt að það vantar talsvert upp á að efni sé aðgengilegt hér – og klárlega eitthvað sem þarf að bæta.

   Ég sé samt enn engin svör um hvernig Píaratar vilja útfæra þetta.. og það hjálpar umræðunni ekkert að uppnefna fólk.

   Hvað er sanngjarn verð? Og hver á að ákveða? Ég er ekki sammála því að verðið á tonlist.is sé okurverð, það er reyndar mismunandi, eflaust mætti það vera eitthvað lægra í sumum tilfellum, GogoYoko er annar valkostur. En fólk er enn dreifa og sækja efni sem er þar í boði fyrir lítinn pening.

   En… það gleymist líka að svona lausnir eru alveg jafn varnarlausar gegn því hvernig netið virkar eins og núverandi kerfi.

 10. Jack skrifar:

  Úps, tók þetta annarsstaðar frá og gleymdi að klippa út smáræði 😉

  Sjá hérna. http://www.visir.is/steldu.net-/article/2013708129959

 11. Til að svara spurningu þinni um við hvað Píratar kenna sig þá finnst mér oft gott að vísa í þessa sögulegu staðreynd.

  Píratar og einkaaðilar (Privateers) á 16. – 19. öld höguðu sér á svipaðan hátt, nema fyrir það að einkaaðilarnir fengu leyfi sinna yfirvalda til þess að stunda sjórán gegn aðilum annara ríkja, m.a. flutningsskipum.

  Það er við hæfi að vísa í þetta, enda eigum við Píratar oft svolítið erfitt með að sætta okkur við einkaleyfi hverskonar.

  • OK, en nú finnst mér ég vera aðeins að fá misvísandi svör… finnst þér þá ekki að höfundar eigi rétt á greiðslu fyrir sína vinnu?

   • Ég var einvörðungu að tala um nafngiftina. Ég eiginlega sé ekki hvernig það getur mögulega litið út fyrir að ég sé að svara neinum öðrum hluta fyrirspurna þinna.

    En svona til að svara þér, þá jú. Auðvitað eiga höfundar á rétt á greiðslu fyrir sína vinnu. Það mun enginn pírati neinstaðar segja þér neitt annað.

    • Ég skildi talið um einkaleyfi þannig, sennilega minn misskilningur / fljótfærni.

     En mig vantar enn upplýsingar um hvernig Píratar vilja koma þessu fyrir þannig höfundar fái greitt fyrir sína vinnu.

 12. Guðmundur Eiríksson skrifar:

  Ég er tónlistarmaður, ég hef eitt töluverðum tíma (18-19 af 25 lifðum árum) í það að læra á hljóðfærið mitt í rándýrum tónlistarskólum, semja tónlist, hlusta á tónlist, spila á ég veit ekki hvað mörgum tónleikum og gefa út og selja plötur.

  Ég á ekki aur til að sýna fyrir þetta, jafnvel þó að allt plast og allur fatnaður sem mín hljómsveit hefur gefið út sé nú uppselt. Sá peningur hefur farið í það að koma út á núlli eftir að hafa eitt töluvert af eigin fjármunum í að koma út geisladisk og eftirstöður hafa ýmist farið í nýjar útgáfur eða upptökutíma.

  Ég myndi elska það að geta lifað á tónlist minni en staðreyndin er sú að umhverfið er ekki til staðar.
  Ég myndi gjarnan vilja fá borgað fyrir að spila á tónleikum en viðhorfið sem maður mætir oft er „það er svo gott tækifæri fyrir ykkur að spila….“ eða eitthvað í þá áttina. Eins og það var nú gott tækifæri síðustu 10 skipti sem við spiluðum þarna.

  Hvað er ég að borga fyrir þegar ég kaupi geisladisk? Er ég að styðja listamanninn eða er ég að styðja Warner Bros./Sony/Virgin/EMI etc…..?

  Að vera í listum er vinna, vinna sem borgar yfirleitt ekki neitt. Ef tími væru peningar þá væri ég hinsvegar orðinn milljarðamæringur. Það að umhverfið hafi breyst til hins verra eftir niðurhalsvæðingu er bara bull. Alvöru peningurinn kemur þegar þú ert búinn að meika það og þú/þið eruð orðin söluvara. Hinsvegar græða stór útgáfufyrirtæki formúgu á sölu geisladiska (þeir henda út pening, listamaðurinn gerir alla hugmyndavinnunna en fyrirtækið hirðir peninginn).
  Nú er umhverfið öðruvísi og eru þessi fyrirtæki að gera í brækurnar vegna þess að þau eru hætt að græða jafnmikið á geisladiskasölu.

  Eru það listamennirnir sem tapa eða eru það hrægamms kapítalistarnir í glerturnunum?
  Maður spyr sig…

  Mér fannst þennann vinkil vanta

  • Í mörgum tilfellum er útgáfuréttur seldur, stundum fyrir ágætis pening.. það eru auðvitað til dæmi um að þetta séu útgáfufyrirtæki sem tapa, en það sem verra er, það er nóg af dæmum um að höfundar séu hlunnfarnir af ólöglegri dreifingu.

   Annars gef ég ekki mikið fyrir hrægamma-kenninguna… eflaust til en í mörgum tilfellum virkar þetta þannig að útgefendur greiða fyrir efni. Þannig geta listamenn lifað af sinni framleiðslu. Þekktu dæmin eru auðvitað þau mest sýnilegu, þegar menn græða á tá og fingri á höfundarrétti annarra. Það gleymist hins vegar að margir þessara útgefenda kaupa haug af efni sem aldrei skilar neinu.

   Það er ekkert að þessu, amk. ekki innan skynsamlegra marka, þó það henti ekki öllum.

 13. Gunnlaugur Lárusson skrifar:

  Ég er tónlistarmaður. Ég myndi tapa ef ég skil þessar tillögur rétt. Ég fæ borgað inn á reikninginn minn ef lögin mín fara í spilun. Ekki útgáfan eins og sumir virðast halda. Ég. Höfundurinn. Útgáfufyrirtækið og minni bisniss í prentun geisladiska hefur nákvæmlega ekkert með það að gera.

  Mér sýnist Píratar vilja taka af mér höfundarréttinn eftir x tíma. Ég vil ákveða hvenær ég gef lögin mín.

  • Að meðaltali er ágóðinn af sölu mestur stuttu eftir útgáfu, Ágóðinn minnkar eftir veldisfalli eftir fjölda ára – eftir 20 ár er lítill sem enginn ágóði af sölu (að meðaltali), þess vegna er þess ‘töfratala’ um 20 notuð.

   Kannski væri ágætis hugmynd að hægt væri að framlengja afritunar- og höfundarétt fram yfir 20 ár ef _höfundur_ (ekki fyrirtæki eða einhver sem hefur keypt réttinn) getur sýnt fram á ágóða. Semsagt, ef höfundur er hvort eð er ekkert að græða þá ætti líklega ekki að skipta máli ef rétturinn falli í almenning. Mér lýst allavega ágætlega á þessa hugmynd … ?

  • Guðmundur Eiríksson skrifar:

   Ég er að sjálfsögðu ekki að tala um stefgjöld/spotify, við fáum líka borgað fyrir spilun.
   Sú fjárhæð er ekki há en molar eru líka brauð. Ég er ekki að segja að prentun ætti að vera frí en hún er dýr og í raun óþörf með nýjum leiðum í tónlistarmiðlun. Pointið er að geisladiskar eru alveg að verða niche markaður. Sölutölur á geisladiskum og dvd diskum hafa lækkað stöðugt síðan árið 2000 og munu halda áfram að lækka þar til að formið deyr út.

   Hverjir kvarta hæst, eru það stórfyrirtækin/lobbyistarnir/ríkisstjórnir eða eru það listamenn?

  • Það er rétt að þú færð greitt fyrir útvarpsspilun. Það var amk. þannig að höfundar eiga að fá greitt fyrir sölu. Og svo eru auðvitað margir flytjendur sem fá hlut í sölu, en þetta er auðvitað mismunandi.

 14. Fyrir mitt leyti, þá felst lykilspurningin í þessari setningu hér. „Mér finnst engin ástæða til að gefa sér að valið standi á milli réttinda og atvinnuöryggis.“. Fyrir mig þá er svarið að það þarf ekki að gefa sér neitt þarna, það er staðreynd að við stöndum frammi fyrir þessu vali. Skal rökstyðja það aðeins. Nú þegar er atvinnuöryggi allra þeirra sem eru milliliðir í drefingu í verulegu uppnámi, t.d. er held ég búið að loka miklum meirihluta Virgin búðanna í Evrópu. Vídeóleigur eru á sömu leið, hérlendis sem erlendis, og í leiðinni allir milliliðir sem þjónusta þessa aðila. Áhrifin á listamenn eru ekki jafn augljós, hef helst orðið var við stóra aðila að kvarta undan tekjuminnkun, en það er ekki eins og tónlist í útvarpinu hafi minnkað/versnað eða sé minna af myndum í bíó. En svar þessara aðila, aðallega milliliðanna, eins og Warner Brothers og Sony í USA, hafa verið að pressa á löggjöf sem heimila dreifingaraðilum að fara í mjög róttækar aðgerðir, eins og setja upp „rootkits“ á tölvum sem jafnvel gætu gert þær ónothæfar ef hugbúnaðurinn heldur að höfundarréttarbrot sé í gangi. Og náttúrulega hlera nettraffík til að finna hverjir eru að hala niður höfundarréttarvörðu efni. Þetta gengur á tvenn réttindi, eignarréttindi og rétt til einkalífs. Þannig að ég held að sé ekki hægt að deila um að við stöndum frammi fyrir þessu vali hér og nú.

  Þannig að móralska, og praktíska spurningin er, hvernig bregðumst við þessu, sér í lagi til skamms tíma? Með því að vernda núverandi dreifingarleiðir og aðila, eða með því að standa gegn ágangi á grunnréttindi eins og margoft hefur verið minnst á hér. Ef atvinnuöryggi listamanna og höfundarréttarhafa skerðist í leiðinni til skamms tíma við að vernda grunnréttindi, þá verður að svo að vera. Það er rétt að minnast aftur á að milljónir manna hafa látið lífið svo við getum notið þessara réttinda, bara svona að skerpa á hversu dýrmæt þau eru. En á sama tíma er ýmislegt að gerast eins og bent hefur verið á hér að ofan, eins og Spotify, iTunes, Netflix, VOD hjá sjónvarpsstöðvunum, og margt fleira. Nákvæmlega hvernig framtíðar viðskiptamódelin líta út getur ekki verið stjórnmálamanna að svara, aðal atriðið er að það sé ekki verið að vernda núverandi viðskiptamódel með því að ganga á borgaraleg réttindi.

  • Milliliðirnir = Munkarnir sem voru á móti prentvélinni.

   Vélmennin eru ekki enn búin að taka störf okkar allra hinna (alveg). Það er til dæmis allt öðruvísi að fara í sveit núna en fyrir 30 árum.

   Í alvöru, þá sé ég þessar breytingar sem gríðarlegt tækifæri fyrir listamenn en dauða og djöful fyrir milliliði. Ég felli ekki tár fyrir þá sem græða á vinnu annara.

   Eftir stendur spurningin, fá listamenn að minnsta kosti jafn mikið (í heildina) í nýja kerfinu (þar sem frjáls dreifing er til staðar) eða ekki? Það er einlæg trú mín miðað við reynslu, gögn og sögulegt samhengi … að þetta er jákvætt tækifæri fyrir listamenn almennt.

   Það sem er erfitt við þetta er að fólk kann ekki! Það er erfitt að læra að gera allt upp á nýtt og alveg víst að sumir geta það ekki. Við búum við nýtt umhverfi, við verðum að aðlagast.

  • Ég hef ekki talað fyrir að ganga á borgaraleg réttindi – og er sammála að hugmyndir eins og þú segir frá eru fráleitar.

   Það er rétt að stóru plötubúðirnar eru að hverfa, skal játa að ég sakna þeirra, en það er kannski einhver „nostalgía“.

   Fyrsta skrefið fyrir mér er að það sé á hreinu að það sé ekki í lagi að taka efni án leyfis höfundar. Það er eflaust engin fullkomin lausn, en mér finnst ekki trúverðugt að vera á móti núverandi kerfi án þess að hafa raunhæfar tillögur.

 15. Kristín Amalía Atladóttir skrifar:

  Það er tvennt sem vekur strax athygli þegar rennt er yfir listann um breytingar á höfundaréttarlöggjöfinni sem Píratar leggja til og ég hefði gaman að fá frekari upplýsingar um. Í fyrsta lagi væri gaman að heyra hvers vegna Píratar vilja leggja sæmdarréttinn af. Nú fæ ég ekki betur séð en að Creative Commons sé ólögformleg leið til þess að virkja sæmdarréttinn í U.S. (þar sem hann er ekki gildur) – tvær meginstoðir sæmdarréttarinns eru; (1) right of attribution og (2) right of integrity. Fyrir utan réttin til að afsala sér fjárhagslegum nytjum eru þessi tvö atriði kjarninn í CC. Annað atriði sem skiptir miklu máli varðandi sæmdarréttinn er samningsstaða listamanna. Án sæmdarréttarins fælu flestir útgáfusamningar í sér (nánast) endanlega yfirfærslu á réttindum frá höfundi til útgefenda og þar sem samkeppni ríkir væru fáir listamenn, aðrir en þeir allra stærstu, sem héldu eftir einhverjum rétti. En hugsanlega eru einhver rök fyrir því að leggja sæmdarréttinn af og væri forvitnilegt að heyra þau.
  Annað sem mér þætti mjög áhugavert að heyra er með hvaða hætti Píratar sjá þessar breytingar komast á með tilliti til skuldbindinga landsins gagnvart Evrópulögum, Bernarsáttmála og TRIPs? Þætti vænt um ef einhver nennti að svara þessu þar sem ég þekki ekki þá umræðu sem á sér stað innan raða Pírata mjög vel.

 16. Kristín Amalía Atladóttir skrifar:

  Sé það núna þegar ég skoða innslögin hér að ofan aftur að talað er um breytingar á sæmdarréttinum en nú veit ég ekki hvort sá texti er úr stefnuskrá Pírata eður ei. Ef svo er þyrftu að eiga sér stað breytingar á þessum tveim atriðum því annað felur sæmdarrétturinn í raun og veru ekki í sér. Í íslenskum lögum eru þessi tvö atriði ofin inn í önnur ákvæði að þýskum sið (kallast Monist nálgun) en í Bernarsáttmálanum og t.d. frönskum lögum eru þau tilgreind sérstaklega (sjá grein 6bis í Bern).

 17. Gunnlaugur Lárusson skrifar:

  „Eftir stendur spurningin, fá listamenn að minnsta kosti jafn mikið (í heildina) í nýja kerfinu (þar sem frjáls dreifing er til staðar) eða ekki? Það er einlæg trú mín miðað við reynslu, gögn og sögulegt samhengi … að þetta er jákvætt tækifæri fyrir listamenn almennt. “

  Hvaða gögn?

 18. Birgir Þórarinsson skrifar:

  „Frjáls dreifing á efni sem er ekki í fjárhagsskyni“ er náttúrulega sjálfkrafa Já við fyrstu spurningunni. Ég sem listamaður legg ekki blessun mína yfir það að tónlistin mín sé í boði gefins á torretsíðum né neinu sambærilegu. En Píratar verja það á þeim forsendum að „það sé ekki dreyfing í fjárhagsskyni“. Þannig að Valgarður minn, þú hefur svarið „Já“ við báðum þessum spurningum frá Pírötum.

  • Ekki alveg rétt Birgir – Píratar segja að þessi frjálsa dreifing sé ekki skaðleg fyrir listamenn. Við viljum verja þessa dreifingu á fjárhagslegum forsendum fyrir listamenn. Nokkurs konar „hey, núverandi kerfi er drasl og listamenn eiga eftir að fara illa út úr því en sjáið hérna, ef þið vinnið MEÐ frjálsri dreifingu þá er það í alvöru betra“. Sögulega, þá viljum við hjálpa munkunum að koma hæfileikum sínum á framfæri í staðinn fyrir að þeir missi vinnuna sína (tilvísun í baráttu munka gegn prentvélinni … sem þeir töpuðu)

   • Það er einfaldlega mismunandi fyrir listamenn hvort frjáls dreifing hjálpar eða ekki. Aðalatriðið er að listamaðurinn ræður þessu sjálfur og það beinlínis fráleitt að ætla að hafa vit fyrir honum með því að taka af honum sjálfsagðan rétt.

    Samlíkingin við munkana er svo nokkuð fráleit, það var enginn að stela þeirra efni og gefa frítt.

  • Takk fyrir svarið..

   Ég skil heldur ekki alveg þetta tal um dreifingu sem ekki sé í fjárhagsskyni. Og ég skil heldur ekki hvers vegna það ætti að vera í lagi.. niðurstaðan er sú að fólk sækir efni án greiðslu í leyfisleysi sem það myndi greiða fyrir ef það vill eignast efnið. Ég þekki ekki nákvæmlega hvernig sumar þessar síður eru reknar, hvort þetta er allt saman fólk sem gefur sína vinnu og fær ekkert fyrir sinn snúð. Það skiptir einfaldlega ekki máli.

   Myndu sömu gilda um að það sé í lagi að hjálpa fólki að stela úr búð ef viðkomandi græðir ekki á því sjálfur? Auðvitað ekki (vona ég). Eða ef ég sest á bar og tek bjórinn af einum borðfélaganum og rétti þeim næsta til að drekka, er það þá í lagi ef ég er ekki sjálfur að gera þetta í fjárhagsskyni??

   Það er einhver rosalega hugsunarvilla í þessu „ekki í fjárhagsskyni“.. þetta kann að hljóma eins og einhvers konar skaðleysi, en það er það ekki.

 19. Birgir Þórarinsson skrifar:

  Síðan er alveg fáranlegt að stilla upp þessu sem Roobin Hood á móti vondu risadreifingaraðilunum sem hvort sem er stela öllu frá listamanninum. Þeir sem tala þannig vita ekki neitt um hvernig þessi bransi er og ég held að þeir séu bara réttlæta sinn eigin þjófnað í gegnum torret síður. T.d. er sá samningur sem hljómsveit sem ég þekki vel til með 50/50 splitt á digital sölu og þetta fyrirtæki er enginn risi (innan við 20 starfsmenn). Ég hugsa að þetta torret niðurhal komi minnst við lífsafkomu stóru artistanna og risafyrirtækjanna, þó þau fái helmingi minna úr sölu vegna niðurhals, þá eru þau þó með tryggða fjárhaglsega afkomu af sínu starfi. Þeir artistar sem eru að berjast við að ná inn lágmarks árslaunum eru þeir sem bera mestan skaða. Spottify og Youtube eru áhugaverðir kyningarmiðlar en það er dáldið erfitt fyrir artista að reiða lífsviðurværi sitt á þeim miðlum. T.d. á spottify held ég að greiðslan til rétthafa sé um 0,4 kr fyrir hlustun. Og eitthvað svipað hjá Youtube.

  Þannig að þá samsvara fyrir tónlistarmanninn sirca 3000 hlustanir einu seldu digital eintaki af plötu.

  kveðja…

  • bíddu, eru þetta ekki 0.4 krónum meira en var til áður? Hversu stórt hlutfall af þeim sem heyrir fer og kaupir svo? Allavega stærra hlutfall en hefði keypt ef þeir hefðu aldrei heyrt. Skýrslan frá ESB styður það.

  • já, mér finnst það ansi léleg réttlæting við að taka efni ófrjálsri hendi frá meðalstórum og litlum aðilum að benda á einstök dæmi um hagnað stærstu aðilanna.

   Mér finnst jákvætt við Spotify að þarna er þó viðurkenndur rétturinn, en eins og þú segir.. þetta er ekki til að lifa af.

 20. Mér finnst ekki eðlilega krafa að stjórnmálaflokkur sem kennir sig við frelsi eigi að þurfa að gefa út einhverskonar viðskiptaáætlun sem “leysir” niðurhals vandann. Það er nokkurnveginn sú krafa sem mér sýnist Valgarður gera í þessari færslu. Auk þess að biðja um afdráttarlausari afstöðu, sem er gott og blessað. Hrós áttu skilið Valgarður fyrir að viðurkenna að hér sé vandi sem þurfi lausn, sem óbeint felur í sér að núverandi lög séu ekki lausn sem slíl.

  Það hafa komið fram margar fínar hugmyndir gegnum tíðina, til dæmis hugmynd sem ég hafði 2005-2006 (og eflaust margir fleiri fengið sömu hugmynd) um að útgáfufyrirtæki myndu nýta sér BitTorrent tæknina til að lágmarka dreifingarkostnað, með því að setja á fót verslunarkerfi þar sem fólk gæti áunnið sér niðurhalsréttindi með því að taka þátt í dreifingarálaginu. Vandinn þá, sem nú, hefur verið að fyrirtækin sem mestra hagsmuna eiga að gæta hafa ekki áhuga á lausnum af þessu tagi. Afhverju? Því að lögin, úrelt og illframkvæmanleg sem þau eru, eru sniðin að eldra samhengi og fyrirtækin sjá sér (eðlilega!) engan hag í því að bregðast við lögbrotum með betri þjónustu.

  Ef við hugsum um vandamálið ekki sem þessa óáþreifanlegu tilfinningaslepju um fátæka listamanninn sem skyndilega fær ekkert frá útgefanda sínum, heldur sem efnahagslegt, viðskiptalegt, eða markaðslegt vandamál, þar sem hundruðir milljóna fólks vill nálgast efni á tilteknu sniði, en annaðhvort fær það ekki eða hefur ekki efni á uppsettu verði í þeim fáu tilfellum þar sem löglega er hægt að nálgast non-DRM (stafrænar ráðstafanir) læst efni, þá fyrst er hægt að hugsa um vandamálið uppbyggilega og sem tækifæri en ekki vandamál.

  Útgáfa menningarefnis er ekki góðgerðarstarfsemi þar sem neytendur þakka fyrir aðgang að höfundaréttarvörðu efni eins og um ölmustu væri að ræða, og sveltandi listamenn þakka útgefandanum fyrir lífgjöfina í hverri borðbæn. Þetta eru viðskipti eins og hver önnur, þar sem einhverjir vilja kaupa og aðrir vilja selja. Sú staðreynd að markaðsumhverfið er að breytast með nýjum dreifimöguleikum, á ekki að vera þessum fyrirtækjum neinn fjötur um fót. Hinsvegar eins og venjulega þegar fólk hefur hagnast á tilteknu ástandi, grípur um sig talsverður ótti og jafnvel „hystería“ þegar því ástandi er ógnað. Það er mjög skiljanlegt.

  Nú er komið fram stjórnmálaafl sem bendir réttilega á að undanfarna áratugi hefur lagaumhverfið í kringum höfundarétt tekið talsverðum breytingum í átt að sterkari og lengri höfundarétti, sem mögulega stangast á við menningarlega hagsmuni þjóðfélagsins, og samræmist sérstaklega illa tækniframþróunum sem gera fólki kleyft að skiptast á upplýsingum á sífellt skilvirkari og einfaldari hátt.

  Með því að krefja þá sem benda á þessar staðreyndir um lausn vanda fyrirtækja og samtaka sem byggja afkomu sína á viðskiptamódelum sem virka ekki jafn vel vegna tækniframþróana, er verið að ganga útfrá því að hér sé á ferð starfsemi og viðskiptamódel sem séu svo félagslega mikilvæg að ekki megi uppfæra regluvirki samfélagsins nema tryggja þeim áframhaldandi líf. Hefði átt að banna bíla til að vernda lífskjör hrossabænda, hestvagnstjóra, skeifusmiða, osfrv. Eða hefði átt að krefja bílaframleiðendur um lausnir á vandamálum þessara hagsmunahópa?

  Að banna fólki að skiptast á upplýsingum er því miður keimlíkt því að banna fólki að lána bækur, bíómyndir eða hljómplötur. Eina leiðin til að skiptast á stafrænum upplýsingum er að afrita þær. Nú er orðið tímabært að útgefendur leitist til þess að nota nýja tækni til að dreifa efni til kaupenda á þægilegri hátt með minni tilkostnaði og í raun auknum hægindum og þjónustu fyrir sína viðskiptavini. Margfalt minni framleiðslu og dreifikostnaður þarf ekki bara að skila sér í vasa neytenda, þó hluta hagræðingarinnar ætti auðvitað að gæta þar — líklega mun fólk bara neyta meira menningarefnis, það sýna a.m.k. rannsóknir um verðlækkanir og afslætti. Hæglega má sjá fyrir sér að með auknum kaupmætti í krafti lægri framleiðslukostnaðar kaupi fólk efni fleiri listamanna, og því fækki “stóru kökusneiðunum” og sanngirni aukist. Útgefendur geta jafnvel hagrætt hjá sér og fundið nýjar leiðir til að koma til móts við sína viðskiptavini, ný tækifæri þegar orka og kostnaður sem fer í dag í framleiðslu (og jafnvel DRM-læsi-brölt) leysist úr læðingi og nýta má í skapandi kynningu, umbrot, nýstárlegar og skemmtilegar dreifi-aðferðir og auglýsingar. Svona mætti lengi telja.

  Ég er „pírati“ (kaus þau a.m.k. í síðustu kosningum), og mér finnst ekki alltaf í lagi að dreifa efni í óþökk höfundar, og mér finnst ekki alltaf í lagi að sækja efni í óþökk höfundar. Oftast held ég samt að sé um að ræða óþökk dreifingaraðila, ekki höfundar.

  • Eins og Birgir bendir á þá eiga höfundar og listamenn gjarnan talsvert undir sölunni.. það er rétt að við þurfum kannski ekki að vera með einhverja ímynd af fátækum listamanni.. aðeins að hafa í huga hvað er rétt í þessu.

   Mér finnst þetta ekki sambærilegt við að lána hluti, það er ekki verið að fjölfalda.

   Mér finnst ég ekkert sérstaklega ósanngjarn að biðja þá sem segja núverandi lög ómögulega að benda á hvaða lausnir þeir hafa.

 21. Svavar Ottesen Berg skrifar:

  Stuttur úrdráttur

  Það er ekki hægt að stoppa deilingu digital efnis á nokkurn hátt púnktur. Þessvegna eru allar umræður um boð, bönn og reglugerðir gegn því gagnslausar hvort eð er.

  Píratapartíið er ekki business flokkur og hefur engar lausnir á því hvernig listamenn ætla sér að græða peninga í nýjum heimi sem notast við nýja tækni í miðlun á efni.

  Tónlistarmennska eins og svo margt annað þar sem margir eru kallaðir en fáir útvaldir er „non job“ þar sem 95% verða einfaldlega að skilja það að það er ekki hægt að lifa á þessu einungis.
  Það eru engin plön á dagskrá um listamannabætur fyrir alla atvinnulausa listamenn.

  Hægt er að leita á internetinu um hvað listamenn eru að gera í dag til að verða sér útum peninga og mæli ég með því að þeir sem hafa áhuga á þeim business kynni sér það nánar.

  • Þar er ég ósammála þér. Fyrsta skrefið er að viðurkenna að það er ekki rétt að dreifa og sækja efni í heimildarleysi. Þó ekki væri annað en að koma fólki í skilning um að þetta er rangt og það verði til að fólk greiði sjálfviljugt án boða og banna þá er það eitt hænufet og þess vegna umræðan gagnleg.

   Ég veit svo sem að Píratar eru ekki „business flokkur“ en mér finnst það ansi ódýrt að hafa skoðun á því að það sé allt í lagi að dreifa efni í óþökk höfunda og að núverandi lög séu vitlaus… en hafa svo engin haldbær svör þegar spurt er um hvað eigi að koma í staðinn.

   Ég veit ekkert um hlutfall þeirra sem ekki geta lifað og skil ekki hvað það kemur málinu við hvort rétt er að dreifa og sækja efni í heimildarleysi.

 22. Stærsta og í raun fyrsta spurningarnar sem Píratar verða að svara eru þessar.

  Á listamaður að hafa rétt á því að ákveða hvar og hvort verkum hans er dreif og í hversu miklu upplagi og hver gerir afrit.

  Á réttur/möguleiki manna til að dreifa efni að yfirstíga rétt listamannsins í ákvörðunarétti yfir verkum sínum?

  Átta Píratar sig á því að höfundaréttur gildir jafnt um Tónlistarmenn sem Skúlptúrista?

  • „Á listamaður að hafa rétt á því að ákveða hvar og hvort verkum hans er dreif og í hversu miklu upplagi og hver gerir afrit?“

   Já, en í stafrænu umhverfi er það ekki hægt. Með tilvísun í síðustu spurninguna þá er þetta eitthvað sem listamenn (og dreifingarfyrirtækin sérstaklega) verða að átta sig á. Vegna þess að það er ekki hægt eigum við þá bara að velta okkur á magann og gefast upp? Nei, við aðlögumst eins og við höfum alltaf gert áður.

   „Á réttur/möguleiki manna til að dreifa efni að yfirstíga rétt listamannsins í ákvörðunarétti yfir verkum sínum?“

   Eins og hefur áður verið bent á þá er þetta ‘svipað’ og að lána vini sínum bók eða jafnvel taka upp úr útvarpi eða sjónvarpi. Eina leiðin til þess að gera það í stafrænu umhverfi er að afrita … að ætlast til þess að fólk eyði út sínu eintaki eftir svoleiðis athöfn er bara heimskulegt. Þessi spurning á við um takmarkaðan og dýran afritunarmöguleika … ekki um ótakmarkaðan og frían. Það er hins vegar réttur listamannsins að hagnast á hugverki sínu. Það er miklu auðveldara að fylgja peningaslóðinni … ómögulegt að fylgja afritunarslóðinni.

   „Átta Píratar sig á því að höfundaréttur gildir jafnt um Tónlistarmenn sem Skúlptúrista?“

   Já, og hvað? Verði hverjum sem að því að afrita skúlptúr … réttara sagt er það frekar auðvelt þegar kemur að þrívíddarlistamönnum. Ályktaðu frekar að við skiljum um hvað málið snýst takk.

   • Enn og aftur (kannski er ég aðeins að missa þráðinn í öllum svörunum)

    Fyrsta skrefið er að ná áttum um hvað er rétt og hvað er rangt… að ekki sé hægt að fylgja einhverju eftir.

    Á meðan þið teljið í lagi að deifa efni ef það er ekki gert í fjárhagsskyni þá verð ég að vera ykkur fullkomlega ósammála. En þar fyrir utan veit ég ekki hvernig þið viljið skilgreina í fjárhagsskyni. Síða sem býður upp á ólöglegt efni en rakar saman auglýsingtekjum, er hún í lagi að ykkar mati? Og er í lagi að hjálpa manni að stela úr næstu búð ef viðkomandi gerir það ekki í fjárhagsskyni? Þetta „ekki í fjárhagsskyni“ hljómar kannski vel, virkar kannski í fyrstu eins og einhvers konar „skaðleysi“ en þetta skaðar listamanninn.

    Þetta er auðvitað ekkert líkt því að fá lánaða bók.

    Og það að taka efni ófrjálsri hendi er ekkert réttlætanlegra vegna þess að það er auðvelt – eða erfitt að koma í veg fyrir það.

  • Svavar Ottesen Berg skrifar:

   Það er ekki til já eða nei svar sem skiptir máli við stærstu fyrstu spurningunni, því raunveruleikin er sá að í dag er svarið nei hjá löggjöfum en það hefur engin áhrif á hverju fólk vill deila með sér.

   möguleikinn til að afrita efni er og verður alltaf til staðar nema hætt verði með internetið. Píratapartíið hefur ekki áhuga á af.

   Já copyright er á fleiri hlutum en tónlist, ss húsum, bókum ogsfr.

   • Það skiptir öllu máli að fá fólk til að skilja að þetta er ekki í lagi. Þess vegna skiptir svarið máli.

    • Allt í lagi, ég held að ég sé búinn að fatta skilgreiningarmuninn hérna. Pírötum finnst frjáls dreifing vera í lagi en ekki í lagi að greiða ekki höfundum fyrir hugsmíð þeirra. Við sjáum þetta tvennt ekki sem ‘mutually exclusive’.

     Gætir þú vinsamlega hætt að gera ráð fyrir að Pírötum finnist það rétt að borga ekki listamönnum … það er einfaldlega rangt.

     • Ef ykkur finnst í lagi að deila og sækja efni í leyfisleysi og án þess að greiða fyrir þá get ég ekki með nokkru móti séð það öðru vísi en sem samþykki fyrir að borga ekki listamönnum.

      Þetta er að mínu viti fullkomin mótsögn hjá ykkur og á meðan þið haldið ykkur við að það sé í lagi að dreifa og sækja í leyfisleysi þá geri ég svo sannarlega ráð fyrir að ykkur finnist í lagi að sleppa því að borga listamönnum.

      Þá hafið þið ekki enn svarað hvernig þið skilgreinið „ekki í fjárhagsskyni“. Var þetta bara eitthvað sem hljómaði vel en enginn hafði hugsað hvað þýddi?

      • Þarna liggur nákvæmlega misskilningurinn í þessu máli. Okkur finnst ‘frjáls dreifing’ ekki vera áhyggjuefni OG okkur finnst ekki í lagi að listamönnum sé ekki greitt fyrir verk sín.

       Röksemdin fyrir þessu er nokkurn vegin svona:
       Frjáls dreifing er óhjákvæmileg, í staðinn fyrir að gera fólk að glæpamönnum fyrir að þá iðju þá er betra að kenna hvernig list virkar og hvernig á að launa listamanninum. Boðskapurinn er, dreifðu efninu og sá sem neytir efnisins launar listamanninum.

       Lögbrotið er hins vegar ef þú dreifir efni gegn gjaldi í óþökk höfunda- og afritunarréttar. Það er ‘ekkert mál’ að elta peningaslóðina.

       Ekki í fjárhagsskyni = afrita geisladisk og gefa vini þínum. Slík skipti jafngilda ekki ‘tapaðri sölu’

       Í fjárhagsskyni = afrita geisladisk og selja (ekki einu sinni fyrir efniskostnað). Slík skipti jafngilda ‘tapaðri sölu’.

       Munurinn hérna er að allir geta verið dreifendur fyrir efnið þitt, í sjálfboðastarfi. Þeir dreifa efninu til mögulegra viðskiptavina … og í staðinn fyrir að gera þá mögulegu viðskiptavini að glæpamönnum (og hvað þá þann sem er í sjálfboðavinnunni) þá gerir þú þeim kleift að verða alvöru viðskiptavinir með því að bjóða upp á einfaldan, öruggan (!), og fljótlegan greiðslumáta.

       Þetta er nefnilega ekki mótsögn, það er nákvæmlega það sem ég held að fólk eigi svo erfitt með að átta sig á. Það er búið að berja því inn í hausinn á fólki einhvern vegin að nýtt starfrænt afrit jafngildi tapaðri sölu. Það er einfaldlega ekki rétt, eins og kemur fram í rannsókn ESB „clicks on legal purchase websites would have been two percent lower in the absence of illegal downloading websites“. Þannig að ekki bara hefur frjáls dreifing áhrif, heldur JÁKVÆÐ áhrif á sölu (í versta falli engin áhrif). Þarna er mótsögnin þín horfin … ég get ekki sagt þetta skýrar en þetta.

       Nú verð ég að spyrja, er mögulegt að breyta skoðun þinni á frjálsri dreifingu yfirleitt? Hafa gögnin sem ég hef vísað í einhver áhrif? Þú spyrð spurninganna en ferð alltaf aftur og aftur í sömu skoðanirnar eins og þú sért að leita eftir ákveðnu svari sem styður fyrirfram ákveðna skoðun sem þú hefur. Ég er ekki viss um að það sé endilega rétt hjá mér, en þannig lítur þetta orðið út eftir að ég hef reynt að sýna fram á hvernig þessi mótsögn er einfaldlega ekki til. Það er rétt að ‘innri tilfinning’ myndi álykta að það væri mótsögn þarna (dreifing = töpuð sala) en gögnin sýna nákvæmlega enga svoleiðis tengingu.

       • Ég kannast ekki við að hafa viljað gera fólk að glæpamönnum… Mitt markmið er að fá fólk til að skilja að þetta er ekki í lagi. Gott lagaumhverfi (það mætti vera betra) getur klárlega virkað til að leggja línur um hvað er í lagi og hvað ekki. Ég er hins vegar ekki samþykkur miklu eftirlitskerfi eða þungum refsiramma, sé það einfaldlega ekki virka.

        Ykkar málflutningur kemur því hins vegar inn hjá fólki að það sé allt í lagi að taka efni í óþökk höfundar.

        Kannski liggur ykkar (þinn) mesti misskilningur í því að halda að það að afrita disk og gefa vini jafngildi ekki tapaðri sölu. Það er deginum ljósara að þetta er töpuð sala, ef viðkomandi vinur vill eignast efnið heiðarlega þá á hann auðvitað að greiða fyrir. Þú verður að fyrirgefa, en mér finnst þetta fullkomlega galin fullyrðing. Þú ert ekki að gera fólk að viðskiptavinum, það eru engin viðskipti falin í því að taka efni ófrjálsri hendi. Og jafnvel þó þið viljið sannfæra listamenn um þetta, þá eru þetta rök til að fá listamenn til að bjóða efni sitt á þessum nótum – ekki til að hvetja fólk til að taka efni ófrjálsri hendi.

        Ég sakna enn betri skilgreiningar á „ekki í fjárhagsskyni“. Hvað með síður sem deila efni í óþökk höfunda?

        Ályktanirnar sem dregnar eru af rannsókninni sem þú nefnir standast enga skoðun… hefur verið rætt hér. En þetta skiptir ekki máli hér, þó rétt væri, þá væru þetta rök fyrir að sannfæra listamenn um aðrar leiðir. Ekki til að telja fólki trú um að óheimil afritun sé í lagi.

        Ég spyr ítrekað sömu spurninganna vegna þess að ég fæ engin svör. Þú ert kannski undrandi á því.

        Engin gögn, dæmisögur eða upplýsingar hafa sýnt mér að þetta henti öllum. Það eru klárlega dæmi um fullt af listamönnum sem þetta hentar.

        Lykilatriði – og nokkuð sem mér finnst ykkur fyrirmunað að skilja – er að þetta á að vera valkostur hvers listamanns.

        Og nei, þú færð mig ekki til að samþykkja að það sé í lagi að taka efni og dreifa í heimildarleysi.

 23. Sveinbjörn Þormar skrifar:

  Umræðan hér snýst um réttindi höfunda og útgefenda, þjófnað á hugverkum þeirra, en það má ekki gleymast að regluverkið sem er nú í gangi er ekki smíðað til að verja litla manninn, þennan eina rithöfund eða lagasmið. Regluverkið hefur verið yfirtekið af stórfyrirtækjum sem hafa annarskonar hugsjón en þjóðarhag og menningarhag, þeirra hugsjón snýst eingöngu að því að verja sinn hag og hagnað. Eitt nærtækasta dæmið er til dæmis Mikki mús hjá Disney, hugverkið Mikki Mús hefði orðið að almannaeign 1978 (að mig minnir) en vegna sífelldra inngripa Disney í löggjöfina hefur höfundarréttartímabilið (copyright duration) framlengst ítrekað og gildir til 2023 – yfir 100 ár frá tilurðu Mikka.
  Þessi breyting í bandaríkjunum hefur smitað út frá sér og víða hefur löggjöf verið breytt í þessa átt.

  Og er þetta ekki alveg í góðu lagi? – höfundurinn fær að njóta góðs af verslun með sína hugsmíð (og erfingjar hans eða corporation næstu 70 ár að auki).
  Vandamálið er að þetta helst í hendur með annað atriði sem er einkaleyfi á hugmyndum og gildistími þeirra, sífelld endurnýjun og framlenging. Þetta vinnur í grunninn gegn þjóðarhag, það hefur sýnt sig ítrekað að þar sem hugmyndum, tæknilausnum og samkeppni er haldið niðri þá græðir einn aðili – þjóðfélagið í heild tapar.

  Löggjöfin kemur í veg fyrir að hugmyndum sé deilt fyrr en að löngum tíma liðnum, góðar hugmyndir og lausnir geta úrelst á meðan þær sitja undir vernd og gleymast.
  Af hverju skiptir það máli – hvernig mynduðust þjóðfélög okkar fyrr á öldum – söngvar og sögur og vísur og hugmyndir gengu manna á milli – ekki á pappír og ekki á digital downlódi. Tungumál manna myndaðist með því að hljóð og merkingar voru kópíeraðar manna á milli, sögur og ævintýri gengu milli manna – ókeypis. Í dag geturðu ekki fengið söguna af mjallhvíti ókeypis því Disney á hana – en þessi þjóðsaga gekk manna á millum frá miðöldum og síðar á prenti í boði Grimms bræðra. Í dag má ekki gera nýja útgáfu af þessari sögu á filmu nema að passa upp á að hún sé ólík útgáfu Disney. Þeir hafa tekið margar sögur úr public domain og læst þær inní höfundarvarðar útgáfur og berjast hatrammlega gegn öllum þeim sem voga sér að brjóta á þeirra „rétti“.

  Frumsamdar sögur og hugverk eru að njóta verndar löggjafar sem er smíðuð fyrir stórfyrirtækin sem eru bara í bisness til að græða (eðlilega).
  Almenningur og Píratar að auki eru á móti svona löggjöf – en eru ekki á móti rétti manns til að græða á sinni vinnu. En á einhverjum tímapunkti ætti hagur þjóðfélagsins að vera yfirsterkari. Persónulega finnst mér að „léttmeti“ eins og skáldsögur og tónlist megi vera lengi varin en það sem kemur þjóðfélaginu til góða eins og tæknilausnir, ný lyf og þessháttar eigi að komast sem fyrst í almannaeign, í þágu allra.

  • Ég geri mér grein fyrir að það eru margir óæskilegir fylgikvillar með núverandi löggjöf, en mér finnst samt of mikið gert úr einstaka „vondum“ dæmum.

   Og eftir stendur að ég hef ekki séð raunhæfar tillögur að betri löggjöf.

   Og jafnvel þó okkur finnist núverandi löggjöf gölluð þá á ég erfitt með að sjá þar réttlætingu í því að dreifa og sækja efni í heimildarleysi og án þess að greiða fyrir. Þrátt fyrir Disney dæmi og fleiri sambærileg, þá eru mjög margir sem eiga talsvert undir að fá greitt eðlilega fyrir sína vinnu.

   Þróun lyfja er önnur umræða og verður eiginlega að bíða..

 24. Salvor skrifar:

  Ég skrifaði hérna langt blogg um grein Guðmundar Andra http://blog.piratar.is/salvor/2013/08/12/kallar-sig-bofaflokk-nema-oll-gengur-su-stigamennska-ut-a-ad-hafa-kaupid-af-fataekum-listamonnum/
  Í þessu bloggi er ég fyrst og fremst að ræða þörf fyrir andóf og viðspyrnu við þeirri þróun sem við sjáum eiga sér stað þegar stjórnvöld breytast í tæknivædd lögregluríki og hafa höfundarréttarhagsmuni stórfyrirtækja að leiðarljósi, ekki heill almennings.

  Ég hef ekki frekar en aðrir á reiðum höndum svör um hvernig listamenn eða skaparar ýmis konar eigi að fá umbun – en ég veit að það verður ekki hægt í framtíðinni að fá einhvern til að borga fyrir sumt af því sem er selt í dag. Hér á ég t.d. við bækur og tónlist. Fólk getur rifist um þetta og listamenn halda sumir að það sé skrifað einhvers staðar í skýin að þeir séu elíta sem skapi list sem er í tómarúmi og þeirra einkaeign og enginn megi enduróma þá og syngja sömu stef og þeir nema með þeirra sérstaka leyfi.

  við erum að fara inn í tíma þar sem framleiðandi og dreifandi hefur ekki eins mikið að segja um stafrænar einingar og áður, það er ekkert lokað box sem bara má spila á einn ákveðinn hátt, viðtakendur geta endurraðað og endurrómar og tætt í sundur og tryllt það sem var heilagt samfellt sköpunarverk eins manns. Það er ekki hægt að setja nein lög sem koma í veg fyrir það, ekki nema banna sumu fólki að tjá sig.

  • Já, sá þetta líka… (hefði átt að vísa í það líka í upphaflegri færslu).

   Ég er (eins og ég hef sagt áður) ekki fylgjandi lagasetningu sem felur í sér yfirgripsmikið eftirlitskerfi.

   Fyrir mér snýst þetta um hugarfarið – og í framhaldi af því að hafa nothæfar leiðir fyrir þá sem vilja greiða.

   En ég er mjög ósáttur við þetta tal um að dreifing og niðurhal á efni sé í lagi – jafnvel þó sá sem hefur milligöngu um það sé ekki að hagnast með beinum hætti.

   • „En ég er mjög ósáttur við þetta tal um að dreifing og niðurhal á efni sé í lagi – jafnvel þó sá sem hefur milligöngu um það sé ekki að hagnast með beinum hætti.“ — af hverju samt. Ég man ekki til þess að þú hafir útskýrt það sjónarmið í þessari umræðu?

    Ég geri ráð fyrir því að það sé út af ákveðinni ‘stjórn’ sem höfundur á að hafa á dreifingu síns efnis. Sjálfsvald sett hvenær og hvernig … og þar fram eftir götunum. Vandamálið er bara að það er ekkert sem heitir ‘valin dreifing’ í dag. Hversu mikið sem fólk reynir þá er ekki hægt að koma í veg fyrir afritun og dreifingu. Það getur vel verið að einhverjum finnist það rangt, og það gæti vel verið að það sé og verði rétt sjónarmið. Lausnin er ekki (eins og þú nefnir) að setja lög gegn dreifingunni … heldur að vinna með aðstæðunum. Í staðinn fyrir neikvæða baráttu, kenna og sýna hvað sé rétt að gera. Í staðinn fyrir að sjá sköllóttann gæja með tattú, sýna brosandi notanda sem launar (höfundi) fyrir dreifinguna. Jákvætt vinnur neikvætt alla daga.

    • Ég þykist nú heldur betur hafa útskýrt það. Ef höfundur gefur út efni sem hann ætlast til að þeir sem neyta greiði fyrir – og höfundar efnis eru í fullum rétti að fara fram á það – þá er rangt að taka þann rétt af honum og dreifa efninu í leyfisleysi.

     Ég spyr enn [að ég held í áttunda skipti] hvernig skilgreinið þið dreifingu þannig að viðkomandi dreifiaðili hagnist ekki fjárhagslega?

     Og í ég-veit-ekki-hvaða-skipti – ég er ekki að tala um að koma í veg fyrir dreifingu. Jú, lausnin er að hluta til betri lög [man nú ekki hvar ég talaði fyrir því fyrr en rétt áðan]. Ég er að tala um hugarfar neytenda [nenni heldur ekki að telja hversu oft ég hef reynt að útskýra það]

     Það er neikvætt að taka efni ófrjálsri hendi.

     Það er jákvætt að greiða höfundum fyrir sína vinnu.

     Á meðan þið segið fólki að það sé allt í lagi að dreifa efni í leyfisleysi þá skaðið þið listamenn. Ekki alla. En suma. Þetta á að vera valkostur listamannsins. Notið tímann til að sannfæra þá ef þið teljið ykkur hafa góðan málstað. Ekki hvetja fólk til að dreifa í leyfisleysi. Ekki segja fólki að það sé allt í lagi.

 25. Svafar Helgason skrifar:

  Okay ég skal reyna að svara þessari spurningu út frá skoðun minni sem pírati. Af svörum þínum að dæma þá virðist mér þú skilja full vel af hverju við viljum standa vörð um upplýsingafrelsið og að við viljum berjast gegn nokkuru sem ógnar því. Hvort að það sé rétt eða rangt að deila efni þeirra sem búa það til í óþökk þeirra þá verð ég að segja að að er þeirra að átta sig á í hvaða heimi þeir búa og aðlaga viðskipta háttum sínum að honum. Mér er mein illa við viðlíkingar af því að þær eru nánast alltaf slæmar en stundum verður maður að notast við þær. Hér er ein: Ef að tónlistamaður spilar út á gðtu getur hann farið fram á að allir sem ganga framhjá honum borgi honum? Nei af því að hann getur ekki neytt aðra til að taka þá ákvörðun um kaupin. Hann getur ekki sagt til hvort að eitthver vildi fá þessa tónlist sína í upphafi og hvort að það hefði nokkur áhuga á að festa kaup á henni áður en hún var komin inn í eyru viðkomandi. Þar sem þessi samlíking skilur við efni á netinu er að vissulega er fólk að sækjast efninu af eigin frumkvæði þar en raunin er sú að ef þú ert að búa til efni sem þú villt að fólknverður að borga fyrir þá er raunveruleikinn bara með þá kröfu að það sé ekki efni sem að er á stafrænu formi. Þannig er það bara hvort sem að það er rétt eða rangt. Eiga þá listamenn að treysta á ‘ölmussu’ þeirra sem taka efnið þeirra? Svarið er einfaldlega já nema að þeir finni aðrar sniðugari leiðir til að hagnast að vinnu sinni. Ef að þeir eru ósáttir við það verða þeir bara að gera eitthvað annað. Þýðir það að allir hætta að búa til stafænt efni. Nei augljóslega ekki og raunin sýnir fram á að þróunin er þver öfug. En fólk verður að hætta að væla yfir því að það sé verið að brjóta á sér. Við myndum öll segja við götulistamanninn sem hvartaði yfir öllu fólkinu sem gengi framhjá honum án þess að greiða „Fyndu þér bara eitthvað annað að gera sem böggar þig ekki eins mikið“ eða af hverju spilarðu þá ekki ínn á stað sem rukkar fólk við dyrnar (eins og netflix, spotify eða fleira). Ef þeir þá hvarta að þeir staðir morgi þeim ekki nógu vel er svarið einfaldlega „Tough shit“. Það er ekki Pírata að fynna lausnir á þessu heldur þeirra sem eru að reyna að selja vöruna sína, ef þeir vilja ekki að fólk sé að dreyfa efninu þeirra verða þeir að hætta að gera efni sem er dreyfanlegt. Aftur á móti eru þeir sem líta á dreyfinguna sem tækifæri frekar en böl og nota hana þannig að græða á þeirri stefnu. Aldrey á Íslandi, hefur tónlistamenning og ágóði af henni, verið meiri og stærri en eftir tilkomu netsins og fer að virðist bara vaxandi. Það er skrítið vægast sagt að sjá iðnað sem hefur bara stækkað og styrkst eftir tilkomu stafrænnar dreyfingar fara að kvarta yfir því að það sé veirið að hafa af þeim fjármagn vegna þeirra dreyfingu.

  • Svafar Helgason skrifar:

   Byðs afsökunar á öllum innsláttarvillunum. Vona að þetta sé skiljanlegt í það minnsta.

  • Takk, jú, ég held að ég hafi nú náði þessu – hef ítrekað svörin eins vel og ég get.

   Það hentar klárlega mörgum að nýta sér breytt umhverfi. Og ég verð að segja að þessi líking með tónlistarmanninn úti á götu er nokkuð slæm, fólk sem sækir efni á síður sem dreifa í heimildarleysi sýnir frumkvæði sem vegfarendur sýna ekki.

   Ég óttast hins vegar að það fari of margir, sérstaklega á „jaðrinum“ (sem er auðvitað vont hugtak) að gera eitthvað annað, eftir standi þeir sem hentar að nýta umhverfið.

   Ég sagði ekki að það væri Pírata að finna lausn á þessu – ég er hins vegar ósáttur við að segja fólki að dreifing í leyfisleysi sé réttlætanleg og legg mikla áherslu á að þetta sé í valdi höfundar.

   Þetta snýst að miklu leyti um hugarfar neytenda. Það lagast ekki á meðan því er stöðugt haldið að fólki að það sé í lagi að sækja efni í leyfisleysi.

   • Svafar Helgason skrifar:

    Sko, hvað fynnst þér þá um það þegar einn aðili lánar öðrum bók eða kvikmynd. Tæknilega séð er sá aðili mögulega að ræna af höfundi sölu og ef við ætlum að fara heimspekilega út í það þá er alveg hægt að færa rök fyrir því að það sé í grunninn siðferðislega rangt. Aftur á móti þá hefðu aðgerðirnar sem hefði þurft til að stöðva slíkt vegið veruluga að persónufrelsi að svo miklu leita að það kom bara hreinlega aldrei til greina að reyna að stöðva slíkt athæfii. Annað er að þetta skilar sér í því að fólk kynnist nýjum höfundum og endar svo kannski á því að kaupa verk þeirra seinna meir sem að þau hefðu aldrey gert ef það hefði ekki fengið reynslu af verkum þeirra. Þess vegna er einginn höfundur að fara að kvarta yfir slíku. Það er bara innrætt í þjófelagið að það er í lagi að lána bækur hvort sem að það sé heimspekilega rétt eða rangt. Ef eitthver færi að tala fyrir því að það ætti að vera réttur höfunda að segja til hvort eitthver lána verkið sem hann bjó til, tæki einginn mark á þeim manni. Þetta er bara nákvæmlega það sama með afstöðuna sem þú tekur nema að við erum með lagalega reynslu um að það sé bannað að afrita höfundaréttarvarið efni. Það gekk eins leingi og það gekk en er komið á það stig núna að það að ætla að fara að banna það er bara alveg jafn slæmt og ef við ætluðum að setja löggjöf sem hindraði því að fólk lænaði bækurnar sæinar. Við gætum sett örflögur sem fyldust vel með bóknum eða leyfðum fólk bara að lefa bækurnar sínar á ákveðnum stöðum en það væri svo auðvellt fyrir stjórnvöld að misnota slíkar aðferðir að einginn tæki þetta í mál. Ég skil að sumir sjá þessa hluti sem sama í eðli sínu en ég held að kynslóðarbil skifti miklu máli þegar að það kemur að því. Hvað myndir þþu segja við mann sem talaði fyrir því að fólk ætti að skammast sín fyrir að lána eignir sínar af því að hanns kynslóð er bara ekki vön slíku atferli?

    • Þarna eru tvö lykilatriði sem gera grundvallarmun.

     Lykilatriðið er hvort höfundar bókar leyfa að lána.. ég hef séð tvenns konar skilmála í bókum, amk. erlendum, oftast er í lagi að lána þær að eftir ákveðnum skilyrðum.

     Stóri munurinn liggur þó í því að það eru ekki báðir að „njóta“ efnisins á sama tíma.. hvað þá þúsundir.

     Þess vegna er bannað að afrita bækur og dreifa. Finnst þér sem sagt í lagi að ljósrita bók og gefa vini ef þú gerir það án endurgjalds?

     Það er sem sagt ekki lánið, heldur afritunin sem er vandamálið, og þar sem ég dreg mörkin. Fólk lánaði hljómplötur í gamla daga, ég hafði ekki athugasemdir við það, enda bara einn að hlusta í einu… en rangt að taka upp (á kassettur) þannig að báðir hafi afrit.

 26. Svar við athugasemd Valgarðs hér ofar (vandaði ‘reply’ takkann þar’)

  „Ég kannast ekki við að hafa viljað gera fólk að glæpamönnum…“
  Þeirri athugasemd var beint að lögunum, ekki þér.

  „Ykkar málflutningur kemur því hins vegar inn hjá fólki að það sé allt í lagi að taka efni í óþökk höfundar.“
  Nei, ég úskýrði þetta í fyrsta svarinu mínu. Ég ítreka – frjáls dreifing og aðstaða þar sem neytandi getur auðveldlega launað höfundi (valkvæmt). Núverandi lagaumhverfi býður ekki upp á slíkt kerfi.

  „Kannski liggur ykkar (þinn) mesti misskilningur í því að halda að það að afrita disk og gefa vini jafngildi ekki tapaðri sölu. Það er deginum ljósara að þetta er töpuð sala, ef viðkomandi vinur vill eignast efnið heiðarlega þá á hann auðvitað að greiða fyrir“
  Nei aftur, tölurnar segja annað. Eins og ég sagði þá segir ‘innri tilfinningin’ annað en raunveruleikinn. Það er erfitt að trúa tölunum stundum en þær ljúga ekki.

  „Þú ert ekki að gera fólk að viðskiptavinum, það eru engin viðskipti falin í því að taka efni ófrjálsri hendi“
  Hérna ertu að gera ráð fyrir því að athöfnin sé ‘ófrjáls’ … en hún þarf ekki að vera það. Þetta er einfalt skilgreiningaratriði þar sem maður þarf einfaldlega að trúa tölunum. Dreifing leiðir að sér sölu. Það hefur alltaf verið satt. Frjáls dreifing leiðir af sér enn meiri sölu út af þeirri einföldu ástæðu að hún nær til fleiri.

  „Og jafnvel þó þið viljið sannfæra listamenn um þetta, þá eru þetta rök til að fá listamenn til að bjóða efni sitt á þessum nótum – ekki til að hvetja fólk til að taka efni ófrjálsri hendi.“
  Ég er ekki að reyn að hvetja fólk til þess að taka efni ‘ófrjálsri’ hendi, ég er að hvetja listamenn til þess að taka þátt í nýju umhverfi. Umhverfi þar sem frjáls dreifing er ekki ólöglegt og er álitin vera hjálpleg listamanninum. Það þarf ekki meira en svo til þess að átta sig á því … frjáls dreifing leiðir til meiri sölu, ekki minni.

  „Ég sakna enn betri skilgreiningar á “ekki í fjárhagsskyni”. Hvað með síður sem deila efni í óþökk höfunda?“
  Ég var búinn að útskýra þetta áður, hvað af þeirri skilgreiningu var ábótavant? Það er náttúrulega bara dónalegt að vera ekki með tilvísanir.

  „Ályktanirnar sem dregnar eru af rannsókninni sem þú nefnir standast enga skoðun… hefur verið rætt hér.“
  Af hverju ekki? Mér finnst þetta vera nákvæmlega sú rannsókn sem maður ætti að horfa í til þess að meta áhrif frjálsrar dreifingar á sölu … Hérna er yfirlitsfrétt um ESB rannsóknina og aðra frá breskum yfirvöldum (http://www.dailytech.com/EU+Govt+Research+Piracy+Doesnt+Affect+Music+Buying/article30166.htm)

  „En þetta skiptir ekki máli hér, þó rétt væri, þá væru þetta rök fyrir að sannfæra listamenn um aðrar leiðir. Ekki til að telja fólki trú um að óheimil afritun sé í lagi.“
  Hvað þarf þá til? Ég bara spyr … hvaða rannsókn myndir þú treysta? Hvernig þyrftu niðurstöðurnar að vera til þess að þú skiptir um skoðun? Þetta eru bestu rannsóknirnar sem eru í dag.

  „Ég spyr ítrekað sömu spurninganna vegna þess að ég fæ engin svör. Þú ert kannski undrandi á því.“
  Svörin eru í textanum, ég skil ekki af hverju þú sérð þau ekki. Já, ég er mjög undrandi. Ferlið hefur verið nokkurn vegin svona
  Valgarður: Spurning?
  Ég: Rök, gögn og svar.
  Valgarður: Sama spurning …

  Í alvöru, svona lítur samtalið út í mínum augum. Ég gef þér tilvísanir í bestu rannsóknirnar á þessu sviði sem sýna, andstætt því sem fólk býst við … en fólk sem tekið þátt í þessu umhverfi grunaði … að frjáls dreifing hefur jákvæð áhrif á sölu.

  „Engin gögn, dæmisögur eða upplýsingar hafa sýnt mér að þetta henti öllum. Það eru klárlega dæmi um fullt af listamönnum sem þetta hentar.“
  Nei, ekkert kerfi hentar öllum. Það er frekar augljóst og kemur ekkert á óvart. Það sem er jákvætt er að almennt séð hentar þetta listamönnum betur en fyrra kerfi (meiri sala)

  „Lykilatriði – og nokkuð sem mér finnst ykkur fyrirmunað að skilja – er að þetta á að vera valkostur hvers listamanns.“
  Ég skil þann kost mjög vel og því miður er hann mjög takmarkaður í þessu kerfi. Valið er að taka þátt eða ekki. Aðrir kostir eru til en eru mjög takmarkaðir.

  „Og nei, þú færð mig ekki til að samþykkja að það sé í lagi að taka efni og dreifa í heimildarleysi.“
  Það er af því að ég hef engan áhuga á að leyfa fólki að taka neitt í heimidaleysi. Ég er að segja að líta á frjálsa dreifingu sem ‘án heimildar’ sé að nálgast vandamálið frá röngu sjónarhorni. Þú getur aldrei leyst þetta vandamál í núverandi umhverfi ef þú heldur þeirri skoðun.

  Gætir þú vinsamlegast, í því ljósi, íhugað hvernig lausnin lítur út ef svo undarlega bæri við að frjáls dreifing komi ‘heimild’ nákvæmlega ekkert við. Umhverfið hreinlega býður ekki upp á takmarkaða dreifingu og kosturinn að leyfa eða ekki er ekki til staðar nema sem „taka þátt“ eða ekki. Um leið og þú tekur þátt þá gerist frjáls dreifing hvort sem þú vilt það eða ekki. Kosturinn við það er (almennt séð) aukin sala.

  Þú baðst um svör, ég er að reyna að útskýra fyrir þér hvaðan sjónarmið Pírata koma. Ég vona allavega að ég hafi náð að gera það mjög vel þrátt fyrir að þú sért ekki sammála. Ég hef líka útskýrt, hvað þarf til þess að skilja aðstæðurnar og af hverju það þarf að lögleiða frjálsa dreifingu (if you can’t beat them, join them — í rauninni).

  Þú segir að ákvörðunarréttur eiganda trompi allt … persónulega er ég því alveg sammála, og örugglega allir Píratar líka. Hinn stóri sannleikur í þessu máli er hins vegar að það er ekki hægt.

  _það_er_ekki_hægt_ … það hafa hundruðir þúsunda manns (jafnvel milljónir) reynt að búa til svoleiðis kerfi. Ef eitthvað er hægt að taka frá þessari umræðu þá er það þessi staðreynd. Það er ekki hægt að tryggja ákvörðunarrétt eiganda á internetinu. Lausnin á höfunda- og dreifirétti verður því að taka mið af því. Út frá gögnum þá sjáum við að frjáls dreifing hefur jákvæð (amk ekki neikvæð) áhrif á sölu og sættum okkur þess vegna við að fórna stjórninni fyrir þetta dreifða kerfi þar sem neytandinn hefur stjórnina. Þú ert ekki sammála að neytandinn megi hafa stjórn, höfundur á að hafa stjórnina samkvæmt þér … þar erum við fastir í þessari umræðu og virðist svo vera að þar sitjum við. Tíminn einn getur leitt í ljós hvað gerist í framhaldinu.

  • Mér finnst þessi umræða óneitanlega komin á einhvers konar vindmyllustig, það sem þú upplifir sem „spurning“, „rök gögn og svar“ .. „sama spurning“ – upplifi ég sem að þú skiljir alls ekki það sem ég er að segja og staglist á að svara allt öðrum rökum og allt öðrum spurningum en ég er að spyrja.

   Ég spyr hvers vegna þið viljið leyfa frjálsa dreifingu á efni án samþykkis höfundar og fæ þau svör að þið teljið að höfundar tapi ekki á því. Það er ekki ykkar að ákveða.

   “Ykkar málflutningur kemur því hins vegar inn hjá fólki að það sé allt í lagi að taka efni í óþökk höfundar.”
   Nei, ég úskýrði þetta í fyrsta svarinu mínu. Ég ítreka – frjáls dreifing og aðstaða þar sem neytandi getur auðveldlega launað höfundi (valkvæmt). Núverandi lagaumhverfi býður ekki upp á slíkt kerfi.

   Nei, þú útskýrðir þetta ekki. Þvert á móti sagðir þú að það væri í lagi að dreifa efni ef það uppfyllti einhver óljós skilyrði. Ykkur finnst í lagi að drefa efnis án samþykkis höfundar. Valkvæmt kerfi kemur þessu ekki við. Reyndar er rangt að núverandi lagaumhverfi bjóði ekki upp á þetta. Listamönnum er í lófa lagi að bjóða fólki að sækja efni og greiða fyrir það eftir vali. Þetta hefur meira að segja margoft verið gert.

   “Kannski liggur ykkar (þinn) mesti misskilningur í því að halda að það að afrita disk og gefa vini jafngildi ekki tapaðri sölu. Það er deginum ljósara að þetta er töpuð sala, ef viðkomandi vinur vill eignast efnið heiðarlega þá á hann auðvitað að greiða fyrir”
   Nei aftur, tölurnar segja annað. Eins og ég sagði þá segir ‘innri tilfinningin’ annað en raunveruleikinn. Það er erfitt að trúa tölunum stundum en þær ljúga ekki.

   Nei, það eru engar tölur sem segja þetta, þetta er gróf mistúlkun á upplýsingum.

   En það sem ég hef verið að hamra á.. það er samt ekki ykkar að ákveða hvað höfundar vilja gera. Þið megið ekki ákveða að taka eitthvað í leyfisleysi eða segja fólki að það sé í lagi. Þetta er það eina sem skiptir máli.

   “Þú ert ekki að gera fólk að viðskiptavinum, það eru engin viðskipti falin í því að taka efni ófrjálsri hendi”
   Hérna ertu að gera ráð fyrir því að athöfnin sé ‘ófrjáls’ … en hún þarf ekki að vera það. Þetta er einfalt skilgreiningaratriði þar sem maður þarf einfaldlega að trúa tölunum. Dreifing leiðir að sér sölu. Það hefur alltaf verið satt. Frjáls dreifing leiðir af sér enn meiri sölu út af þeirri einföldu ástæðu að hún nær til fleiri.

   ÉG veit að hún þarf ekki að vera ófrjáls – hefur það virkilega farið fram hjá þér í yfir 80 athugasemdum að ég er eingöngu að tala um þau tilfelli sem þetta er ófrjálst. Það eru engar tölur sem sýna að dreifing leiði af sér sölu… þetta er hundalógík út frá takmörkuðum upplýsingum. Og þó svo væri – einu sinni enn – það er ekki ykkar að ákveða að fólk megi taka efni.

   “Og jafnvel þó þið viljið sannfæra listamenn um þetta, þá eru þetta rök til að fá listamenn til að bjóða efni sitt á þessum nótum – ekki til að hvetja fólk til að taka efni ófrjálsri hendi.”
   Ég er ekki að reyn að hvetja fólk til þess að taka efni ‘ófrjálsri’ hendi, ég er að hvetja listamenn til þess að taka þátt í nýju umhverfi. Umhverfi þar sem frjáls dreifing er ekki ólöglegt og er álitin vera hjálpleg listamanninum. Það þarf ekki meira en svo til þess að átta sig á því … frjáls dreifing leiðir til meiri sölu, ekki minni.

   Ef þú segir að það sé í lagi að dreifa efni í leyfisleysi – jú, þá er það nákvæmlega það sem þú ert að gera.

   Ég hef engar athugasemdir við að þú hvetjir listamenn til að nýta nýtt umhverfi – og er búinn að taka ansi oft fram.

   Frjáls dreifing í óþökk listamanns er ólögleg. Og á að vera það. Þið megið endilega reyna að sannfæra fólk um annað. Ég er ósáttur við að þið ætlið að taka þennan rétt einhliða.

   Það er ekkert sem staðfestir að frjáls dreifing leiði til meiri sölu. Og þó svo væri þá er það ekki ykkar að ákveða að allir verða að fara þessa leið.

   “Ég sakna enn betri skilgreiningar á “ekki í fjárhagsskyni”. Hvað með síður sem deila efni í óþökk höfunda?”
   Ég var búinn að útskýra þetta áður, hvað af þeirri skilgreiningu var ábótavant? Það er náttúrulega bara dónalegt að vera ekki með tilvísanir.

   Nei, þú sagðir að ef einn gæfi öðrum afrit af diski án greiðslu þá væri það í lagi. Þú sagðir að ef hann tæki greiðslu fyrir væri það ekki í lagi. Þú hefur aldrei svarað hvort deilisíður, sem td. lifa af auglýsingum séu í lagi. Og nógu oft er ég búinn að spyrja.

   “Ályktanirnar sem dregnar eru af rannsókninni sem þú nefnir standast enga skoðun… hefur verið rætt hér.”
   Af hverju ekki? Mér finnst þetta vera nákvæmlega sú rannsókn sem maður ætti að horfa í til þess að meta áhrif frjálsrar dreifingar á sölu … Hérna er yfirlitsfrétt um ESB rannsóknina og aðra frá breskum yfirvöldum (http://www.dailytech.com/EU+Govt+Research+Piracy+Doesnt+Affect+Music+Buying/article30166.htm)

   Hef rætt þetta áður og útskýrt, aðferðafræðin er svo stórgölluð að þetta segir nákvæmlega ekki neitt. En ég nenni ekki að eltast við það hér, einfaldlega vegna þess að þetta skiptir ekki nokkrku máli. Einu sinni enn: jafnvel þó svo væri, þá er það ekki ykkar að ákveða að frjáls dreifing sé í lagi án samþykkis höfundar. Er virkilega engin leið að þið skiljið að þetta eru ekki gild rök til að taka fram fyrir hendurnar á höfundum.

   “Lykilatriði – og nokkuð sem mér finnst ykkur fyrirmunað að skilja – er að þetta á að vera valkostur hvers listamanns.”
   Ég skil þann kost mjög vel og því miður er hann mjög takmarkaður í þessu kerfi. Valið er að taka þátt eða ekki. Aðrir kostir eru til en eru mjög takmarkaðir.

   Nei, það er ekki rétt, aðrir kostir eru bæði til og í boði. Það er reyndar verkefni út af fyrir sig að gera þær leiðir betri. Aðalatriðið er að fólk hætti að tala um að frjáls dreifing og taka efnis án greiðslu sé í lagi.. Um leið og þið hættið að koma þessum ranghugmyndum inn hjá fólki þá aukast likurnar á að fólk greiði fyrir efni. Ekki vegna laga eða hindrana, heldur vegna þess að fólk skilur að það er ekki eðlilegt að taka efni og nota án greiðslu.

   “Og nei, þú færð mig ekki til að samþykkja að það sé í lagi að taka efni og dreifa í heimildarleysi.”
   Það er af því að ég hef engan áhuga á að leyfa fólki að taka neitt í heimidaleysi. Ég er að segja að líta á frjálsa dreifingu sem ‘án heimildar’ sé að nálgast vandamálið frá röngu sjónarhorni. Þú getur aldrei leyst þetta vandamál í núverandi umhverfi ef þú heldur þeirri skoðun.

   Nú ertu kominn í mótsögn. Þú hefur áður sagt að það að einn afrit og láti annan fá efni án greiðslu séu í lagi. Í mörgum tilfellum – og þeim sem ég er að ræða hér – er það einmitt í heimildarleysi.

   Það er rétt að ég leysi þetta seint, en ég geti bætt stöðuna talsvert með upplýsingum og því að sannfæra fólk um að gera þetta ekki.

   Frjáls dreifing í heimildarleysi – sem er það sem ég er að tala um – kemur heimild alveg rosalega mikið við. Það er meira að segja kjarni málsins.

   Ákvörðun höfundar er jú, lykilatriði. Ég er ekki að tala um að koma í veg fyrir þetta heldur er ég að tala fyrir breyttu hugarfari. Það skilar kannski ekki miklu, en mér finnst sjálfsagt að reyna. Ég veit að það er ekki hægt, amk. ekki með góðu móti, að koma í veg fyrir óleyfilega dreifingu, enda ekki það sem ég er að segja.

   Mér er hins vegar fyrirmunað að skilja hvers vegna þið teljið það rök fyrir að hún sé réttlætanleg.

   Það er eitthvað yfirlætislegt við þessa afstöðu, við vitum betur en höfundar hvað þeim er fyrir bestu. Gott og vel, sannfærði þá með (endilega betri) upplýsingum og rökum. En ekki taka þetta af þeim einhliða… það er aðferð yfirgangssamra stjórnvalda.

 27. Já, afsakaðu hringleikahúsið þarna. Ég var bara að reyna að útskýra hvernig þetta lítur út frá mér. Mér finnst ég alltaf vera að svara sömu spurningunum … og fyrst fyrsta svarið komst ekki til skila reyni ég aðrar og ítarlegri útskýringar.

  Ég held að þetta kristallist í raun í niðurstöðu eitthvað á þessa leið. Þú vilt ekki gefa upp algeran ákvörðunarrétt höfundar (sem ég skil mjög vel en reyni að útskýra að er ekki mögulegt í núverandi umhverfi) á meðan ég hef sætt mig við að finna lausn þar sem ákvörðunarréttur höfundar er ekki eins alger.

  Ég held að bæði sjónarmiðin hafi komist til skila. Mér finnst miður að þú hafir ekki útskýrt fyrir mér hver gallinn er á rannsóknunum … en það er dálítil vinna fólgin í því að fara yfir þær. Þær eru í alvöru ekki hundalógík eða á gölluðum forsendum, þetta eru þó nokkuð góðar rannsóknir og ályktanir út frá þeim gögnum sem þeir hafa. Þannig virkar vísindalega aðferðin, þú útilokar og ályktar út frá gögnum.

  En takk samt fyrir að opna aftur fyrir athugasemdir í stutta stund. Ég held að við komumst ekki mikið lengra með þetta og ég er nokkuð sáttur við niðurstöðuna í raun og veru. Ég skil allavega mun betur núna hvaðan og hvernig gagnrýnin kemur og get því betur tekið tillit til þess sem skiptir máli í hvaða lausn sem verður ofan á að lokum.

  Takk.

  • Já, takk fyrir málefnalega umræðu..

   Eins og áður segir, tek umræðuna um rannsóknina síðar.

   Fyrir mér er sem sagt lykilatriði að höfundur eigi réttinn, það er í lagi að sannfæra hann um að opna fyrir – en það er ekki í lagi að mínu viti að taka efni og dreifa ef hann vill ekki.

   Ein spurning kannski að lokum, ef ég má ítreka, hver er ykkar afstaða til vefsíðna sem dreifa efni í óþökk höfunda? Ég veit að það er erfitt að koma í vef fyrir og ef ég skil rétt þá eru þeir að þínu mati að gera höfundum greiða… en spurningin snýr að því hvort þið teljið þetta réttlætanlegt?

 28. Einar Þór Einarsson skrifar:

  Nei, mér finnast þessar „ólöglegu niðurhalssíður“ almennt ekki réttlætanlegar sem slíkar, EN við erum sennilega ósammála í grundvallaratriðum um eftirfarandi:

  Ég tel ekki réttlætanlegt að þeir sem dreifi efni sem hefur verið gert opinbert þurfi yfirleitt leyfi höfundur punktur. Eftir að efni fer í almenna dreifingu finnst mér höfundarrétthafi eingöngu eiga tilkall til umbunar og „attribution“. Þetta viðskiptamódel sem býr til einokun á dreifingu er eitthvað sem á að hverfa að mínu mati. Það var réttlætanlegt þegar dreifing var dýr, start kostnaður hár og hillupláss takmarkað; í þannig veruleika meikar sens að minnka áhættu þeirra sem tóku með því að gefa þeim einokun á dreifingu. Þetta er bara ekki veruleikinn lengur og þessi tilbúna einokun er einfaldlega að auka kostnað vörunnar án þess að auka virði hennar.

  • OK, takk, já þarna erum við ósammála. Eða ekki…

   Það sem ég vil er að höfundar fái sína umbun. Kostnaðurinn við dreifingu er auðvitað minni og efnið ætti að vera ódýrara í framhaldi af því. En það tengist ekki á nokkurn hátt rétti höfundar til að fá greitt fyrir sína vinnu. Á meðan efni er dreift frítt og fólk sækir og notar án þess að greiða höfundi fyrir þá minnka tekjur höfunda. Það er því miður raunveruleikinn og of mörg dæmi um höfunda (og flytjendur) sem ná til dæmis talsverðum vinsældum en fá lítið fyrir sinn snúð. Ég veit að þetta gengur hjá mörgum, en það eru hinir sem ég hef áhyggjur af.

 29. „hver er ykkar afstaða til vefsíðna sem dreifa efni í óþökk höfunda?“

  Nákvæmlega sú sama. Dónalegt ef þú hefur ekki tilvísun (og tilvísunin væri í tilvikum á aðferð til þess að launa fyrir)

  „Það er því miður raunveruleikinn og of mörg dæmi um höfunda (og flytjendur) sem ná til dæmis talsverðum vinsældum en fá lítið fyrir sinn snúð. Ég veit að þetta gengur hjá mörgum, en það eru hinir sem ég hef áhyggjur af.“

  Í núverandi kerfi má líka alveg hafa áhyggjur af þeim sem komast ekki að hjá útgefendum. Þeir sem sætta sig ekki við hvernig farið er með efni þeirra þar. Sem betur fer hafa þessir aðilar nú annan möguleika.

  Það er alveg satt, þetta er win some, lose some dæmi. Það er alveg rétt að hafa áhyggjur af þeim sem tapa en það besta sem við getum gert er að reyna að kenna þeim á hvernig er best að haga sér í þessum aðstæðum. Nýtt hlutverk fyrir dreifingarfyrirtækin kannski sem annars ættu að leggjast af í núverandi mynd á næstu árum/tugum.

  • Það var aldrei ætlunin að gera lítið úr þeim möguleikum sem vefurinn hefur opnað – þetta er frábært fyrir þá sem vilja og fyrir þá sem það hentar – og hef meira að segja sjálfur nýtt þetta (eða reynt). En ég dreg mörkin við að þetta sé val höfundar og að dreifing í hans óþökk sé ekki í lagi.

 30. Píratar eru sammála því (dreifing í óþökk ekki í lagi) — en á sama tíma vitum við að það er ekki hægt að koma í veg fyrir hana. Misskilningurinn hérna held ég er hvað er gert í því lagalega. Siðferðislega verður þetta alltaf rangt en LAGALEGA er dreifing í óþökk eitthvað sem við höfum nýjar lausnir við.

  Allt í lagi, ég held að við höfum komist til botns í þessu máli.

  Siðferðislega er aldrei í lagi að dreifa í óþökk höfundar og er eitthvað sem við þurfum stöðugt að kenna og minna á. Um þetta erum við fullkomlega sammála.

  Lagalega hins vegar, er það sem ég og held ég flestir aðrir eru búnir að vera að vísa í. Alltaf þegar ég hef talað um ‘já í lagi í óþökk höfundar’ þá hef ég átt við lagalega. Vegna þess einfaldlega að það er ekki hægt að stjórna því.

  Í held ég allri umræðunni hérna að ofan þá gerðum við ekki greinarmun á því hvort við værum að tala um lagalega eða siðferðislega ‘rétt eða rangt’ og þess vegna misskiljum við hvorn annan.

  • OK, takk fyrir þetta, já, sennilega var einhver mikill missklningur í gangi, förum að segja þetta gott…

   Ég held reyndar að lög sem skýra stöðu höfunda hafi sín áhrif, þó refsiramminn sé enginn og þó ekkert sé gert til að fylgja því eftir – sbr. bílbeltalögin á sínum tíma, þau gerðu ákveðið gagn jafnvel áður en þetta fór að verða refsivert.