Góð kosningaráð

Posted: október 28, 2016 in Umræða

Nokkur af bestu ráðum sem ég á fyrir kjósendur á morgun.

Kjóstu!

Það þýðir reyndar ekki að þú eigir að fara á kjörstað og krossa við einhvern flokk af gömlum vana.

Að kjósa krefst þess að kynna sér hvaða valkostir eru í boði og velja. Ef þú nennir því ekki, sittu heima og leyfðu okkur sem nennum að hugsa að ráða.

Atkvæðið þitt skiptir máli. Það er reyndar sjaldgæft að eitt einasta atkvæði skipti máli, en það hefur komið fyrir – og um leið og fleiri en einn byrja að hugsa á þá leið að atkvæðið skipti ekki máli, þá fara þau að skipta verulega miklu máli.

Þannig að, kjóstu!

Ekki gera ráð fyrir að þú finnir eitthvert framboð þar sem þú ert sammála hverjum einasta frambjóðanda í hverju einasta máli – og líka um forgangsröðunina.

Veldu frekar framboð sem hefur skynsama stefnu í sem flestum málum og umfram allt, hlustar á rök og tekur mark á upplýsingum, hvort sem þær henta upphaflegri skoðun eða ekki.

Hafðu vara á ódýrum kosningaloforðum. Farðu varlega í að treysta framboðum sem hafa verið í stjórn og ætla allt í einu að fara að skipta um stefnu. Hafðu líka fyrirvara á vel meinandi áherslum og loforðum ef ekki fylgir trúverðug leið til að ná markmiðunum.

Láttu hvers kyns hræðsluáróður sem vind um eyru þjóta, framboð sem hefur ekki annað fram að færa en að reyna að hræða þig er ekki mikils virði.

Það er allt í lagi að hafa varann á frambjóðendum sem eru ekki trúverðugir og hafa langa sögu af vafasamri hegðun.. en ekki falla í að hengja þig á einhver smáatriði sem drullumallarar andstæðinganna hafa verið að slengja fram. Það er enginn svo fullkominn.

Á sama hátt borgar sig kannski að gefa lítið fyrir „sauðargærur“ auglýsingastofanna. Frambjóðandi sem lítið hefur sést nema sem yfirlætisfullur og hrokafullur valdamaður er allt í einu farinn að birtast á skjánum sem vingjarnlegur og heimilislegur einstaklingur… tja, það er kannski ekki endilega heiðarleg ímynd sem er verið að kynna.

Það er líka allt í lagi að kjósa framboð þó þér líki ekki við einhvern frambjóðanda. Það er einfalt að strika út eða breyta röð.

Ekki trúa klisjunni um að útstrikanir breyti engu, þær telja nákvæmlega jafn mikið og atkvæðið þitt.. geta jafnvel haft meira vægi.

Það er ömurlegt að kosningakerfið skuli gera smá framboðum erfitt fyrir. En það er staðreynd, ömurleg staðreynd, en staðreynd. Atkvæði til framboðs sem á ekki möguleika getur hæglega verið atkvæði sem er kastað í ruslið. Sennilega myndu þeir flokkar, sem eru langt frá því að ná inn þingmanni, gera best með því að styðja framboð sem vill laga þennan galla kosningalaganna og gera öllum framboðum jafnt hátt undir höfði.

Því miður, en staðreynd.

Þannig að kjóstu, en gerðu það með hausnum.. og vertu tilbúin(n) að taka því sem þú færð.

Lokað er á athugasemdir.