Að melta kosningaúrslitin

Posted: október 30, 2016 in Umræða

Það er kannski full snemmt að melta kosningaúrslitin.

Nokkur atriði koma samt strax upp í hugann.

Ríkisstjórnarflokkarnir voru aldrei að fara að tapa eins miklu og leit út fyrir í sumum könnunum – og Píratar voru aldrei að fara að fá um, hvað þá yfir, 25%.

Ég hef fylgst með kosningum í næstum fimmtíu ár, ég hef oft séð kannanir gefa miklar breytingar til kynna en þegar nær dregur dettur fylgið nær fyrri kosningum. Besti flokkurinn er reyndar að einhverju leyti undantekning.

En það kemur margt til, margir eru óánægðir og vilja ekki svara – enda yfirleitt margir óákveðnir. Aðrir nota kannanir til að sýna óánægju en eru í rauninni alltaf að fara kjósa gamla góða flokkinn.

Kosningamaskínur gömlu flokkanna ná líka til nægilegra marga á endanum sem eru að velta fyrir sér að breyta til.

Þannig er í besta falli skondið að sjá rassskelltan Framsóknarflokkinn stæra sig af því að hafa ekki fengið eins hrikalega útreið og kannanir sýndu þegar fylgið var minnst. Jú, eflaust hefur eitthvað hjálpað að skipta um formann, en flokkurinn á of sterkar rætur til að fara mikið meira niður í einni atrennu.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur eflaust fengið eitthvert fylgi frá Framsóknarflokknum, þeir sem gleyptu hræðsluáróðurinn, þeir sem telja gott efnahagsástand fyrri ríkisstjórn að þakka en gátu ekki hugsað sér að kjósa flokkinn eftir klúður fyrri formanns.

Það voru heldur aldrei nægilega margir að fara að vera tilbúnir í breytt viðhorf Pírata. En Píratar hefðu sennilega verið nær 20% ef ekki hefði komið tvennt til. Óskiljanlegt klúður í atkvæðagreiðslu um búvörusamninginn sló þau út af borðinu hjá mörgum. Og hitt er, að það fer ekki vel fyrir flokk sem boðar beint og virkt lýðræði að hafa sterkan leiðtoga, sama hversu öflugur sá leiðtogi er. Og reyndar sérstaklega ekki ef sá leiðtogi er með stórkarlalegar, klaufalegar yfirlýsingar sem ganga þvert á vilja flokksmanna – sama hversu ómerkilegt málið er, þetta fældi marga frá.

Viðreisn var alltaf góður kostur fyrir þá sem ættu kannski heima í Sjálfstæðisflokki en hefur blöskrað framkoma forystumanna flokksins – og eflaust hafa einhverjir fyrrum stuðningsmenn Samfylkingar fundið þetta sem góðan valkost. Í rauninni hefði ekki komið á óvart þó þau hefðu náð enn betri kosningu – og ef þau klúðra ekki stjórnarmyndun þá ættu þau að geta bætt við sig fylgi í framtíðinni.

Ég skil ekki hvers vegna Vinstri græn auka fylgi sitt (væntanlega) á kostnað Samfylkingarinnar. Jú, viðkunnanlegur leiðtogi, en það sem í rauninni skilur flokkana að þegar á reynir er ákveðin forpokun og forsjárhyggja VG, nokkuð sem er skrýtið að heyra á tuttugustu og fyrstu öldinni. Ég skil heldur ekki hvers vegna Björt framtíð er yfirleitt með sérstakt framboð.. jú, fínn formaður en það er örugglega meiri ágreiningur innan td. Framsóknar- eða Sjálfstæðisflokks, en á milli Bjartrar framtíðar, Samfylkingar og jafnvel Vinstri grænna.

En aðallega er ég verulega fúll út í þá sem skiluðu sér ekki á kjörstað og hefðu getað komið Viktori inn á þing, það vantaði svo grátlega lítið upp á..

Lokað er á athugasemdir.