Posts Tagged ‘bólusetningar’

Það er eins og umburðarlyndi gagnvart bæði hegðun og skoðunum falli í tvo ólíka flokka.

Nýlega kom kona í sjónvarpsfréttum og sagðist ekki hafa látið bólusetja barnið sitt vegna (órökstudds) ótta við einhverfu. Konan var (eðlilega) gagnrýnd harðlega, ekki bara fyrir órökstudda skoðun heldur fyrir stórhættulega hegðun.

Í langflestum tilfellum var sú gagnrýni málefnaleg og hófstillt – gekk út á að benda á hversu hættulegt þetta getur verið og hversu lítill fótur er fyrir afstöðu konunnar.. það má eflaust finna dæmi um að einhver hafi notað harkaleg lýsingarorð en það voru undantekningar og skipta litlu.

Samt tók þingmaður Pírata til máls á þingi og gagnrýndi umræðuna.. líkti umræðunni við viðbrögðin við ellefta-september. Hvernig viðkomandi þingmaður gat mögulega tengt ofsafengin viðbrögð ríkisstjórna út um allan heim við örfáar athugasemdir á Facebook og bloggfærslum er mér enn hulin ráðgáta.. en þetta er svona dæmigerð „guilt-by-association“ rökleysa. Nefna eitthvað ógeðfellt í sama orðinu og reyna að búa til einhvers konar tengsl.

Gefum okkur að konan hefði hagað sér jafn hættulega.. en sú hegðun hefði ekki verið byggð á einhvers kuklara speki. Segjum að konan hefði leyft ungum börnum sínum að leika sér með hlaðna skammbyssu (reykja sígarettur, keyra bíl, leika sér að eldi…) og réttlætt hegðun sína í sjónvarpsviðtali – hegðun sem stofnar börnum hennar og börnum annarra í hættu.

Gefum okkur að konan hefði fengið nákvæmlega sömu gagnrýni.

Ég velti fyrir mér hvort einhver þingmaður hefði tekið til máls og gagnrýnt umræðuna með tilvísun í ellefta-september?

Nei, ég þarf ekkkert að velta því fyrir mér.. ég er viss um að það hefði ekki gerst.

Fyrir nokkuð mörgum árum kom óvandaður læknir fram á Bretlandseyjum, sagðist hafa gert rannsóknir sem sýndu fram á tengsl ákveðinnnar tegundar bóluefnis við einhverfu. Hann mælti með að fólk notaði önnur bóluefni. Hann var reyndar á svimandi háum ráðgjafalaunum hjá fyrirtækjunum sem hann mælti með að fólk verslaði við. Og síðar kom í ljós að rannsóknin hans stóðst engar kröfur, var í rauninni fölsuð. Hann missti lækningaleyfið í kjölfarið.

Upp reis hreyfing fólks sem hafnaði bólusetningum. Ekki bara þessu efni sem hann mælti gegn, heldur öllum bólusetningum. Fólk heyrði bara hálfa setningu og rauk upp til handa og fóta. Vefurinn fylltist af greinum gegn bólusetningum og alls kyns bábiljur urðu nánast að „allir vita“ sannleik hjá nokkuð stórum hópi fólks. Afleiðingin varð faraldur sjúkdóma sem nánast var búið að útrýma.. við heyrðum fyrr á árinu fréttir af faraldri á Bretlandi.

Hvað kemur þetta okkar „ástsæla“ við?

Jú, það hefur stundum verið bent á að ekki sé alltaf heppilegt að greiða atkvæði um skatta í almennum atkvæðagreiðslum. Nánar um það síðar hvenær þetta á við og hvenær ekki, aðalatriðið er að þetta er hvorki lögmál, né algilt… það eru nokkrir þættir sem spila þarna inn í, sumir umdeilanlegir.

Rökin fyrir að vísa auðlindagjaldi ekki til þjóðaratkvæðagreiðslu voru einmitt studd því að ekki ætti að greiða atkvæði um skatta. Alveg eins og sértækt tilfelli um eitt ákveðið bóluefni varð að hreyfingu gegn öllum bóluefnum af hreinni fáfræði og óvitaskap… þá virðast rökin um skatta notuð hér á sömu forsendum. Eitt atriði er tekið atriði sem á ekki alltaf við, alhæft út frá því og vond ákvörðun tekin í fáfræði. Fólk heyrir bara hluta af setningunni.

Eða kannski vita menn betur, en treysta því að þetta slái ryki í augu nægilega margra.

PS. Þar fyrir utan var ekki verið að fara fram á þjóðaratkvæði um skattgreiðslur sem skattgreiðendur heldur voru eigendur auðlindarinnar að biðja um atkvæðagreiðslu um hvaða reglur ættu að gilda um nýtingu hennar.