Ég setti nýlega inn færslu þar sem ég spurði Pírata um hvernig þeir vildu nálgast höfundarréttarmál. Það spruttu talsverðar umræður af þessu… fóru að hluta til út um víðan völl en ég held að ég sé einhverju nær.. kannski meira sammála þeim en ég átti von á fyrirfram – og veit að minnsta kosti meira um hvar ég er þeim ósammála. Aðallega sakna ég þó að fá ekki skýrari tillögur.. margar eru vel meintar en til þess að gera óljósar. Jú, og málið er vissulega flókið og umræðan er af hinu góða.
En mig dreymdi í framhaldi langrar umræðu.. Baldur bakari að spjalla við talsmann Pírata, Pétur. Ég veit að þetta á ekki nákvæmlega við um höfundarrétt, en…
Baldur: Ertu sem sagt að segja að það sé í góðu lagi að fólk steli brauði af mér? Tekur maður númer hér?
Pírati: Já, já, þú verður að gera þér grein fyrir að það er ekki hægt að koma í veg fyrir þetta. Þú þarft bara að fylgja straumnum leyfa fólki að taka þetta án þess að borga fyrir. Þannig græða allir.
Baldur: Ég gef stundum brauð og sýnishorn til að kynna bakaríið, en það þýðir ekki að allir megi taka brauð frá mér í leyfisleysi. Ég hlýt að mega ráða hvenær ég gef brauðið sem ég baka.
Pétur: Já, en það er bara vonlaust að fylgjast með þessu.
Baldur: Ertu að segja að þetta sé í lagi bara af því að það er erfitt að koma í veg fyrir þetta?
Pétur: Mér finnst allt í lagi að fólk taki brauð frá þér ef það er ekki í fjárhagsskyni?
Baldur: Er það ekki í fjárhagsskyni að taka brauð og sleppa því að borga??
Pétur: Sjáðu til, ef einhver stelur brauði frá þér þá eru hann að efna til viðskipta með brauðið þitt og…
Baldur: Ég er ekki viss um að ég kalli það viðskipti ef ég fæ ekkert fyrir. Ég er eiginlega viss um að ég kalla það ekki viðskipti.
Pétur: og þú verður svo vinsæll og brauðið þitt svo eftirsótt að þú græðir á endanum.
Baldur: Bíddu, myndi ég ekki græða meira ef fólk sem vill borða brauðið mitt myndi einfaldlega borga fyrir það? Er allt þetta fólk á undan mér?
Pétur: Nei, nei, oftast er þetta fólk sem myndi hvort sem er ekki kaupa brauð af þér. Þú myndir örugglega henda þessu hvort sem er.
Baldur: Ef fólk vill ekki borga fyrir þetta, hvers vegna er það að taka?
Pétur: Og svo eru nú mörg dæmi um stórfyrirtæki sem ráða til sín bakara á lúsarlaunum og stórgræða.
Baldur: Hvernig réttlætir það að stela af mér? Ég er enn að ekki að skilja hvernig ég á að lifa af þessu.
Pétur: Jú, jú, sjáðu til öll tölfræði segir að eftir að fólk fór að ná sér í ókeypis brauð þá hafi sala á brauði aukist.
Baldur: Já, en ekki hjá mér… bara ódýru brauðin í stórmörkuðunum og þeir sem baka lítil og einföld brauð úr lélegu hráefni. Neysla á brauði hefur aukist með breyttum neysluháttum. Veit nokkur hvað þetta er löng bið?
Pétur: Nei, nei, þú misskilur, það er búið að sýna fram á að þeir sem stela brauði þeir koma líka við hjá þér.
Baldur: Ég veit að þeir líta við, þeir kaupa bara ekki neitt… þeir skoða bara hvað ég er að baka.
Pétur: Það má alveg gera ráð fyrir að þeir kaupi.
Baldur: Hvernig færðu það út? Svo eru menn sem stela frá mér í stórum stíl og gefa öðrum.
Pétur: Já, já, þetta er allt gert fyrir þig svo þú verðir vinsæll.
Baldur: Mig langar ekkert sérstaklega til að verða vinsæll, ég vil bara geta lifað af því að baka góð brauð.
Pétur: Já, en heimurinn er bara ekki svona í dag.. nú fá allir frítt brauð sem vilja. Þú verður frægur og getur til dæmis farið að kenna fólki að baka brauð og grætt milljónir þannig.
Baldur: Mig langar ekkert að kenna. Ég er hræðilegur kennari og það er það leiðinlegasta sem ég geri. Ég vil baka brauð.
Pétur: Já, en sjáðu bara bakarann í Perufirði, hann er orðinn moldríkur af að kenna fólki að baka.
Baldur: Já, þetta hentar sumum, aðallega þeim sem kunna að auglýsa sig. Frændi minn var með bakarí í litlu þorpi og þegar enginn vildi kaupa brauðið fór hann að kenna. Það gekk ágætlega í byrjun. En svo vildi fólk fara að fá kennsluna ókeypis líka. Hann er á atvinnuleysisbótum í dag.
Pétur: Hvaða vitleysa, líttu bara á tölurnar, það selst miklu meira af brauði en áður.
Baldur: Já, en ekki mínu. Bara fjöldaframleiddu brauði úr lélegu hráefni.
Pétur: Þú verður bara að nýta þér breytt umhverfi.
Baldur: Ætli það sé ekki einfaldara að skrá sig atvinnulausan. Ég kom einmitt hingað til þess. Já ég er númer níutíu og átta.
Pétur: Þetta er nú óþarfa svartsýni.. þú verður að skilja að einkaréttur og jafnvel eignaréttur eru bara úrelt fyrirbæri. Hey, bíddu, skilaðu tölvunni MINNI!
Þú ert að grínast Valgarður, er það ekki? Þú ert gáfaðari en svo að þú sjáir ekki í hverju grundvallarmunurinn á þjófnaði og höfundarréttarbroti liggur, sem gerir þessa samlíkingu algerlega úti hróa hött. Þetta er svo frámunalega mikill strámaður að ég hef hingað til ekki séð neina nema trúmenn setja fram svona vitlausa framsetningu á sjónarmiðum andmælenda sinna.
Þú misstir mikla virðingu hjá mér núna.
Ég tek strax fram að það er ákveðinn munur,
Hins vegar er mikið af rökum sem komu fram í fyrri umræðu þar sem fólk er að réttlæta fyrir sjálfum sér og öðrum að taka hluti í leyfisleysi – sem eiga nákvæmlega jafnt við.
Ég er ekki bara að tala um þjófnaði á höfundarrétti heldur líka á útgefnu efni flytjenda.
Þetta er algengur samanburður en er í grundvallaratriðum villandi með tilliti til stafrænnar afritunar.
Nákvæmara dæmi væri ef Baldur bakari skildi uppskriftina af þessu gómsæta brauði eftir á afgreiðsluborðinu.
Pétur gengur inn í bakaríið, sér uppskriftina og tekur upp símann sinn til þess að taka mynd af uppskriftinni.
Baldur: Nei, þetta má ekki.
Pétur: Af hverju ekki, uppskriftin er bara hérna. Ég ‘gæti’ kannski lagt hana á minnið í staðinn?
Baldur: Nei, þetta er mín uppskrift. Ég hef hana bara þarna til þess að láta fólk vita hversu hollt brauðið mitt er. Ég leyfi meira að segja fólki að smakka.
Pétur: Ég ætlaði nú bara að senda vini mínum uppskriftina, hann er búinn að vera að leita að góðu brauði undanfarið. Hann er orðinn dálítið þreyttur á búðarbrauðinu og öllum sykrinum í því.
Baldur: Þá getur hann bara komið í bakaríið mitt og keypt brauðið.
Pétur: Auðvitað, það er ekki eins og hann sé bakari. Hélt bara að það væri besta leiðin til þess að sannfæra hann um að koma væri sýna honum hversu flott uppskriftin þín er.
Baldur: En hann gæti bara fengið einhvern annan til að baka brauðið fyrir sig ef hann fær uppskriftina.
Pétur: Til þess að gera það jafn vel og á hagkvæmari hátt en þú gerir þá þyrfti það að vera annar bakari. Myndir þú taka uppskrift frá öðrum bakara án þess að gera hana að þinni útfærslu?
Baldur: Nei, auðvitað ekki.
Pétur: Hvert er þá vandamálið eiginlega?
Baldur: Það gætu verið einhverjir óheiðarlegir sem …
Pétur: … borða þá gott brauð án þess að borga fyrir það, út af uppskriftinni þinni? Hversu margir mæta í eina ísbúð en ekki aðra af því að það er eitthvað ‘sérstakt’ við ísinn þar? Uppskriftin af Kóka Kóla er meira að segja þekkt (https://en.wikipedia.org/wiki/Coca-Cola_formula#Purported_secret_recipes) … ekki virðist það vera vandamál fyrir þá, hvernig gæti það mögulega verið vandamál fyrir þig ef uppskriftinni er dreift út um allt líka?
—————-
Uppskriftardæmið er nær því hvernig stafræn afritun virkar. Þó ekki nákvæmlega eins … en nær.
Það sem ég hef áhuga á að komast að er hvers vegna fólk notar alltaf þessi gölluðu dæmi (þitt dæmi Valgarður) til þess að lýsa stafrænni afritun. Ég skil ekki af hverju og vil fræðast um hvers vegna þú skilur ekki muninn. Það er ekki hægt að útskýra þennan misskilning með siðferðislegu og lagalegu skilgreiningunni sem við enduðum á í síðustu bloggfærslu.
Ég er ekki alveg viss hvar á að byrja, því þætti mér vænt um ef þú bættir við útskýringu á því af hverju þú hélst að þetta dæmi væri sambærilegt.
Þegar ég er að biðja fólk um að skilja að það er ekki rétt að dreifa og taka efni frá fólk í leyfisleysi þá er ég líka að hugsa um flytjendur.. .þeir eru kannski sambærilegri við bakarann. Og eru margir að gefast upp. Þannig er óþarfi að færa þetta yfir á uppskriftina.
Hvað áttu við með flytjendur? Sú umræða er meira en hundrað ára gömul (frá því að grammafónninn var fundinn upp) og það er orðið nokkuð augljóst að það var góð uppfinning fyrir tónlistarmenn … eins og allar aðrar uppfinningar sem gerðu dreifingu tónlistar betri síðan þá (betri geymslumiðlar, útvarp og sjónvarp)
Hvað á ég við?? Ég á við að hljómsveitir sem gefa ýmist út eigið efni eða annarra eru hlunnfarnar þegar efni þeirra er dreift í leyfisleysi. Það fer alveg jafn illa með viðkomandi hversu gömul sem umræðan er…Ég hef aldrei sagt að það sé vont fyrir listamenn að fá dreifingu.. ég hef sagt að það sé rangt af fólki að dreifa og sækja þetta án þess að greiða þeim fyrir sína vinnu.
Valgarður, þú minnir mig svolítið á kaþólskan andstæðing fóstureyðinga frá 7. áratugnum.
Þú ert búinn að gera þér grein fyrir að löggjöf með banni við fóstureyðingum virkar ekki. Fóstureyðingar munu eiga sér stað hvað sem löggjafanum líður og er bann við þeim líklegra til að valda meiri skaða heldur en hitt.
En móralisminn og bókstafurinn er samt ennþá að flækjast fyrir þér. Og til að friða samviskuna gagnvart úr sér gegnum hindurvitnum rembist þú í talsfólki femínista og öðru fólki sem vill lögleiða fóstureyðingar og vilt fá að heyra þau segja að þeim þyki lauslæti ógeðslegt, siðferðislega rangt og kellingar eigi andskotans ekkert með það að gera að vera að ríða útum allar trissur.
Kæri Valgarður.
Slepptu takinu. Það er grátlegt að sjá gamlan pönkara ríghalda í úrsérgegnar hugmyndir um veröldina sem eiga sér enga stoð í raunveruleikanum.
p.s. Að endingu skal það tekið fram að ég er á engan hátt tengdur pírötum.
Mórallinn er klárlega að flækjast fyrir mér – ekki bókstafurinn – það er ekki í lagi að stela bara vegna þess að það er erfitt að koma í veg fyrir það… mér finnst þessi réttlæting á því að taka hluti ófrjálsri fráleit – og samlíkingin við fóstureyðingar út í hött. Þú grætur kannski þessar skoðanir mínar, ég er að gráta yfir þeim sem eru að gefast upp á núverandi umhverfi, sinnuleysi neytenda og um leið að gefast upp á að gefa út efni.
„ég hef sagt að það sé rangt af fólki að dreifa og sækja þetta án þess að greiða þeim fyrir sína vinnu.“
Þetta er bara endurtekning á síðustu umræðu um málið … við erum alveg sammála um þetta. Í núverandi umhverfi þá verður listamaðurinn hins vegar að gera fólki kleift að borga. Þú getur litið á þetta sem tónleika þar sem listamaðurinn þarf ekki að flytja efnið sitt og fólk borgar þegar það ‘fer/vill’ … hversu mikið sem það hefur til þess að borga …
Þetta er nokkurs konar götulist, eins og var nefnt í einu af svörunum við síðastu bloggfærslu um þetta hjá þér.
Uppsetningin á þessu er því nokkurn vegin svona:
– Það er ekki hægt að koma í veg fyrir frjálsa dreifingu.
– Samfélagið hjálpast að við að beita sanngirni frekar en hótunum og dómstólum gegn frjálsri dreifingu.
– Öðrum en höfundi er óheimilt að hagnast (það er auðvelt að rekja peningaslóð – og já, líka afleidda peningaslóð).
– Neytendur geta launað listamanni á einfaldan og fljótlegan hátt þegar þeir vilja, eins mikið og þeim þykir sanngjarnt.
Ég held nefnilega að ástæðan fyrir því að þetta villandi, ranga dæmi sé alltaf notað er einfaldlega vegna þess að fólk skilur ekki muninn á raunverulegu afriti og stafrænu afriti og hvað sá munur þýðir fyrir höfundarétt eins og hann er nú í lögum. ATH. ég er að vísa í AFLEIÐINGARNAR af þessum mun – ekki að fólk skilji ekki muninn almennt.
Ég er að reyna að skilja hvers vegna fólk sem er á móti frjálsri stafrænni dreifingu tekur alltaf dæmi svipuð og þetta brauðdæmi hjá þér. Það útskýrir kannski ‘ósanngirnihlutann’ en það einmitt getur ekki útskýrt þær afleiðingar sem bakari með töfrakraft myndi hafa á brauðframleiðslu.
Tökum tvo bakara sem dæmi. Einn er venjulegur bakari með ofn, annar er með töfrakraft og getur margfaldað brauðin sín endalaust. Það er dálítið ósanngjarnt fyrir venjulega bakarann sem þarf að útvega sér hveiti og hvað það nú má vera sem er í uppskriftinni hans á meðan töfrabakarinn þarf bara að baka eitt brauð. Hann Pétur (úr ofangreindu dæmi) þekkir báða bakarana … en finnst verulega ósanngjarnt að þurfa að borga sama verð fyrir brauðið hjá venjulega bakaranum og töfrabakaranum. Hann er alveg til í að borga eitthvað fyrir töfrabrauðið, því það þurfti nú að baka það til að byrja með …
Ég veit að þetta er endurtekning, en þar komu þessu rök flest fram, á meðan þið segið að það sé í lagi að einn gefi öðrum afrit af td. geisladisk og flytjandi / höfundur fái ekki greitt fyrir – kallið það jafnvel viðskipti – þá er ég ósammála.
Ég skil alveg þokkalega vel muninn á stafrænu afriti, ég er einfaldlega að heimfæra réttlætinguna yfir á hefðbundið afrit. Hvað er rétt og hvað er rangt breytist ekki með tækninni.
Ég er alveg sáttur við að fólk borgi fyrir töfrabaksturinn, það er þegar fólki finnst í lagi að taka frítt sem ég er ekki sáttur.
Valgarður, með fullri virðingu virðistu bara ekki geta tekið inn það sem er margbúið að útskýra fyrir þér og þú hlýtur að skilja. Það er ekki hægt að stöðva stórfelld höfundaréttarbrot á netinu nema með gerræði. Það er ÞÍN ábyrgð, já, ÞÍN, sem tónlistarmanns, að finna út úr því hvernig þú lifir af áhugamáli þínu í takt við mannréttindi. Auðvitað er nákvæmlega sama sagan með mig, sem hugbúnaðargerðarmanns, en ekki sérðu mig skrifa langa vælupistla yfir martröðum mínum af netinu.
Hvernig á þýðandi að græða pening þegar fólk getur bara notað Google Translate ókeypis? Ætti ekki Google þá að borga þýðendum, eða ættum við ekki bara að loka Google Translate? Svarið er; þýðendur verða bara að gjöra svo vel að finna út úr því sjálfir.
Hvernig eiga fréttamenn að græða þegar hægt er að lesa fréttirnar hvaðan sem er úr heiminum? Ætti ekki BBC World Service að borga íslenskum fréttamönnum? Eða kannski ætti bara að loka BBC World Service frá Íslandi? Svarið er aftur; fréttamenn verða bara að gjöra svo vel að finna út úr því sjálfir.
Það er ekkert til of mikils ætlast.
Þú veist alveg hvað þetta er vonlaust. Það er þín eigin ábyrgð að finna út úr því hvernig þú sníðir starf þitt að mannréttindum. Það er ekki okkar mannréttindasinna að réttlæta fyrir þér að mannréttindi vegi þyngra en fjárhagslegir hagsmunir þínir að vinna við eigið áhugamál. Samt reynum við það aftur og aftur, alveg ókeypis! – Það mætti halda að fólk geri suma hluti hreinlega án þess að fá borgað fyrir þá! Ja, sei sei.
Fyrirgefðu tóninn í mér, en málið er bara að þú veist þetta. Það er búið að margútskýra þetta fyrir þér og þú ert klár gaur, ég veit að þú skilur þetta. Þú þarft að finna þitt eigið viðskiptamódel sem virkar með nútímanum.
En veistu hvað, Valgarður minn, það eru nefnilega góðar fréttir; tónlistarmenn græða ennþá peninga. Justin Bieber er í alvörunni milljónamæringur þrátt fyrir að allir hafi fullan aðgang að allri tónlistinni hans. Það þarf bara að spila með tækniframþróuninni í staðinn fyrir að berjast gegn henni. Það þarf að halda fleiri tónleika og hætta að væla yfir minnkandi sölu á t.d. „DVD diskum“, eins og Baltasar Kormákur kvartaði undan nýverið. – Það er fullkomlega eðlilegt að sala á diskum minnki þegar nýr miðill tekur við. Kasettur hættu að seljast við tilkomu geisladiskanna og geisladiskarnir hættu að seljast við tilkomu netsins. Það heitir framþróun, háttvirtur Valgarður. – Spilaðu með henni eða dettu úr leik. Þannig virkar þetta.
Jæja, smá góðar fréttir til að hressa þig við, Valgarður.
Click to access kth_annex.pdf
http://www.techdirt.com/articles/20090617/1138185267.shtml
http://www.techdirt.com/articles/20091114/1835036932.shtml
Vonandi lýsir þetta upp daginn hjá þér.
Nei, ekki mikið, það eru einmitt alhæfingar frá þetta veikum upplýsingum sem trufla mig.
Takk, en ég er líka margbúinn að svara að ég er ekki að fara fram á að höfundarréttarbrot verði stöðvuð með því sem þú kallar gerræði.
Það myndi hjálpa umræðunni að fá svör við því sem ég er að halda fram… ekki sífelldar endurtekningar við einhverju sem ég er margbúinn að samþykkja.
Ég er líka margbúinn að útskýra hvað ég er að fara fram á.
Og ég margoft búinn að útskýra að þrátt fyrir stök dæmi um stórgróða þá eru allt of mörg dæmin um fólk sem er að gefast upp.
Ég er að höfða til þess að fólk viðurkenni rétt höfunda og listamanna til að fá greitt fyrir sína vinnu.. ekki með eftirlits aðgerðum – heldur með breyttu hugarfari. Á meðan því er haldið að fólki að það sé allt í lagi að taka efni án þess að greiða fyrir, ef sá sem dreifir er ekki að hagnast, þá er ég ósáttur.
PS. Nei, ég er ekki að hafa áhyggjur af minni tónlist, sem ég er nú svo heppinn að geta haft sem áhugamál og leyft mér að borga með mér, heldur yngra fólki sem er orðið langþreytt á kröfunni um að þeirra vinna sé frjáls.
Bakarinn í dæminu á mun meira skylt við útgáfufyrirtæki en tónlistarmenn. Það er jú innkaup og vinnan við að baka sem er kostnaðurinn sem bakarinn vill fá greitt fyrir. Það er enginn að stela uppskriftinni.
Það vill þannig til að það eru einmitt útgáfufyrirtækin sem eru að deyja – ekki tónlistarmennirnir. Og það er ekkert að því, per se. Þannig er bara þróunin. Annars tek ég hjartanlega undir orð Björns skipsfélaga míns hér rétt að ofan.
Nei, það eru kannski stórmarkaðirnir sem eiga frekar skylt við útgáfufyrirtækin. Það er önnur umræða, en að leggja öll útgáfufyrirtæki að jöfnu og gera lítið úr hlutverki þeirra er fráleitt. En, önnur umræða. Því miður eru margir að gefast upp..
Það er enn fráleitara að bera saman stuld á bakstri bakara við afritun á stafrænu efni, þú afsakar. Í öðru dæminu er þorri kostnaðar kaup á hráefni, og tími við vinnu. Í hinu dæminu er enginn hráefniskostnaður eða vinnslutími við afritun.
Það verður einfaldlega að hætta að bera svona hluti saman. Það kemur umræðunni ekkert áfram. Ég fagna þó því að þú skulir halda þessari umræðu áfram, og finnst bara frábært að fólk fái hér ágætis grundvöll til að rökfræða fram og til baka.
Ég er ekki sammála því að það sé fráleitt að bera þetta saman… það kostar vinnu og útlagðan kostnað við að framleiða hvort tveggja í upphafi. Til að þeir sem standa í þessari framleiðslu geti haldið því áfram þurfa þeir að fá greitt. Annars gefast þeir upp og fara að gera eitthvað annað, eða fara á bætur. Ég veit að sumir geta nýtt sér breytt umhverfi. Aðrir ekki. Ég óttast – og það ekki að ástæðulausu – einsleitni og að það sem kallað hefur verið jaðarefni verði undir. Kannski er vonlaust að koma í veg fyrir það. En ég er að minnsta kosti að reyna að sannfæra fólk um að borga fyrir efni sem það er að nota. Ekki með þvingunum, heldur vegna þess að það sé sjálfsagt. Og fyrsta skrefið er að hætta að tala um að það sé í lagi að dreifa í leyfisleysi.
Sammála Kristni. Móralisti fastur í fortíðinni.
Ég þekki töluvert af fólki sem hefur þessar skoðanir svona á yfirborðinu, og í skrifum, en ,,stelur“ samt mússík og myndum á netinu, skilur einhvernveginn á milli ídeal-veruleikans og alvöru veruleikans. Tvöfaldur mórall, annar útávið hinn í reynd. Ég er samt EKKI að segja að þú gerir það Valgarður, en hvað segir það manni?
= Að það verður að finna nýjar lausnir.
Og.. hverja er verið að vernda? Ýmsar rannsóknir benda til þess að það séu helst milliliðir:
http://torrentfreak.com/megaupload-shutdown-hurt-smaller-films-helped-blockbusters-130823/
Það þarf að finna nýjar lausnir, en ég skammast mín ekkert fyrir að verja móralinn í þessu. Ég veit ekki til að fólk sem vill verja höfundarrét og þá sem gefa út efni séu að stela… Ef þú vilt fara út í smáatriði þá hef ég jú sótt aftur efni sem ég hef keypt, en hefur glatast, og í örfáum (og ég meina örfáum) tilfellum lög sem ég gat hreinlega hvergi keypt.
En aðallega er þetta þó mjög einfölduð mynd, og gleymist að skoða aðrar hliðar, ss. hverskonar múra og læsingar þyrfti til að alvöru eftirlit með gagnaöflun virki.
Er eðlilegt að bannað sé að birta mynd af Hallgrímskirkju á Wikipediu?
Og ef ekki, hvar ættu þá mörkin nákvæmlega að vera? Hver ætti að setja þau?
Og kannski helst: Hvernig á eftirlitið að vera?
ég er alls ekki að fara fram á meira eftirlit eða takmarkanir, eins og ég hef nú tekið þó nokkuð oft fram.
Valgarður mikið er ég sammála þér. Ég meina sjáðu hvað gerðist fyrir Jésú, hann „stal“ brauði, fjölfaldaði það og gaf öðrum, og svo var hann krossfestur fyrir það.
Ég sé ljósið Valgarður og takk fyrir að opna augun mín.
Ég er kannski eitthvað ryðgaður í biblíufræðunum en ég man nú ekki til að hann hafi stolið neinum samkvæmt sögunum.
Nú bíddu, hann „afritaði“ brauðið, varst þú ekki að segja í greininni að það væri það sama og að stela?
Afritunin, hvort hún kostar mikið eða lítið, er algjört aukaatriði. Það sem skiptir máli er að fólki finnst í lagi að taka vinnu annarra ófrjálsri hendi. Í fyrri grein var ég að beina athyglinni að höfundarrétti, í þessari að framleiðslu, td. flytjendum tónlistar. Það hvort það er auðvelt að stela eða ekki er aldrei réttlæting.
En, þetta er klárlega tilgangslaus umræða.
Ég hef engin svör fengið um hvers vegna það er í lagi að taka efni ófrjálsri hendi, hvort þegar verið er að hlunnfara höfunda eða flytjendur.
Sennilega vegna þess að auðvitað gera allir (flestir) sér grein fyrir því að þetta er ekki í lagi, en finna sér réttlætingu í aumum afsökunum og aukaatriðum.
Það er ekki réttlætanlega að stela vegna þess að það sé erfitt að koma í veg fyrir það, það er ekki réttlætanlegt að stela vegna þess að aðrir gera það, það er ekki réttlætanlegt að stela af öllum vegna þess að einhverjir græða og það er ekki réttlætanlegt að stela vegna þess að það er auðvelt.
En ég nenni þessari umræðu ekki lengur… það er vonlaust að fá umræðu um grundvallar atriðin.
Til að setja þessa sögu í samlíkingu við höfundarrétt væri hún á þessa leið
Baldur bakari: hmm afhverju hefur dregist svona saman í sölunni á brauði hjá mér?
Pírati: Fólk er að baka það sjálft heima hjá sér
Baldur bakari: en ég bjó til uppskriftina að brauðinu og á eina ofninn á landinu
Pírati: Með tilkomu nýrra tækni hafa allir efni á að kaupa sér ofn og nálgast uppskriftina að brauði á internetinu.
Baldur bakari: Þannig að fólk er að stela af mér brauði?
Pírati: Nei en fólk er að afrita það.
Samlíking í þessari færslu á ekki við um höfundarrétt, eins og ég hef bent á, heldur flytjendur… er kannski allt í lagi að hlunnfara þá?
Þetta er ekki dæmi um hvað manni finnst, án efa finnst mörgum allt í lagi að afrita og dreifa efni, eins og mörgum sem finnst það ekki í lagi, En það bara skiptir engu máli. Þetta er dæmi um raunveruleikann sem við búum í. Ekki er hægt að stöðva fólk í að afrita og dreifa nema með algeru gerræði og dauða internetsinns, En jafnvel þá er ekki hægt að stöðva allra hörðustu nördanna sem munu halda áfram að finna leiðir framhjá öllu sem tónlistariðnaðurinn hendir í áttina af þeim. DRM er einn dýrasti brandari sögunnar.
Flytjendur ættu að finna sér nýtt viðskiptamódel til að græða fúlgur fjár en að gefa út plast hringi sem fara uppí skáp hjá fólki og er aldrei notað.
Flytjendur verða einnig að gera sér grein fyrir því að viðskiptamódelið hefur breyst það mikið að fólk er ekki lengur tilbúið til að gera sér sérstaka ferð frá sínu heimili eða vinnu til að borga 3000kr fyrir plasthring sem inniheldur kannski 1-3 lög sem viðskiptavinum langar til að hlusta á.
Meirihluti fólks er tilbúið til að borga sanngjarnt verð fyrir hvaða hugverk sem er.
Spurning ef ég lána einhverjum plasthringina mína er ég þá að hlunnfara flytjendur með sölu á téðum plasthring þar sem mögulega hefði vinur minn keypt hann?
Tja fyrir mér er þetta nákvæmlega spurning um hvað okkur finnst, hvað er rétt og hvað er rangt. Ef ég get sannfært einhverja um að þetta sé ekki í lagi þá telur það..
Formið er aukaatriði svo framarlega sem fólk er tilbúið að borga fyrir efnið þá er ég sáttur. Mig grunar hins vegar að mikill meirihluti fólks sé að alast upp í að þetta sé nú bara allt í lagi.
Já, þú ert líkast til að hlunnfara flytjendur ef þú lánar plasthringinn, ef viðkomandi vill eignast efnið þá á hann að borga fyrir, ef ekki þá hefur hann ekkert með þetta að gera.
„alhæfingar frá þetta veikum upplýsingum sem trufla mig.“
Þetta er líka framhald frá fyrri umræðu – þú ert með þessu að gefa í skyn að fréttamennirnir þarna séu ekki að vinna vinnuna sína. Fréttamenn eru jú þekktir til þess að vera einstaklega lélegir (almennt séð) í að kynna rannsóknarniðurstöður. En fyrst þú ert svona viss um að þetta eru veikar upplýsingar (líka úr heimildum síðustu greinar) þá máttu endilega útskýra þetta fyrir okkur.
Vísindalega séð þá eru þetta veikar upplýsingar já. Það sem þú þarft hins vegar að útskýra er af hverju einu upplýsingarnar sem við höfum benda allar til þess sem við erum að reyna að útskýra? Af hverju eru ekki til veik gögn (sterkari en hin ‘veiku’ gögnin) í hina áttina?
Rannsókn ESB sem ég benti þér á er til dæmis mjög vönduð rannsókn sem vinnur niðurstöður sínar úr mjög miklum upplýsingum. Niðurstöðurnar eru túlkaðar eins hófsamlega og hægt er miðað við að gögnin eru ekki fullkomin – en þau eru nægilega góð til þess að draga ályktun. Þú einfaldlega horfir á öll þau gögn þar sem hægt er að segja að sala hafi farið fram og flokkar notendaauðkenni í „notar frjálsa dreifingarmiðla“ og „notar ekki frjálsa dreifingarmiðla“ … og hópurinn sem notar frjálsa dreifingarmiðla kaupir meira. Þetta er ekkert sem þarf að giska á eða ‘trúa’, þetta eru bara hrá gögn sem sýna mismun á milli hópa. Mjög einfalt og mjög tölfræðilega sterk niðurstaða (mismunur á meðaltali hópa).
Þessi grein fjallar hins vegar um notkun á rangri samlíkingu. Ég skil að þú viljir benda á siðferðislegt misvægi – en neytandinn sér líka mun á þessum tveimur vörum. Það er ekki nema eðlilegt að neytandinn leggi mismunandi siðferðisleg gildi á þessar tvær vörur. Ég móðgast stórlega þegar einhver ætlar að selja mér ebók á sama verði og kilju, það er sem betur fer að lagast en það er enn mjög lítill verðmunur. Slík móðgun getur auðveldlega leitt til ‘ég næ þá bara í þetta sjálfur’ viðhorfs þegar neytandinn hefði glaður keypt vöruna á kannski helmingi lægra verði (sem er mun meira en ekki neitt).
Maður verður nefnilega að átta sig á því að þjófnaður fer alveg í báðar áttir. Er verðið fyrir bókina sanngjarnt miðað við framleiðslukostnað og vinnu? Já – allir ganga sáttir frá sölu. Nei – og ef neytandinn veit af því þá getur honum alveg liðið eins og hann hafi verið rændur. Hefur þú einhvern tíma keypt vöru sem fór á útsölu daginn eftir? Rán um hábjartan dag sko.
Það eina sem er verið að biðja um — bæði ég og þú, er sanngirni. Nú er svo komið að ef sanngirni neytenda er ofboðið þá hafa þeir annan valmöguleika. „Þú ætlar að ræna mig, þá ræni ég þig“. Slíkt viðhorf er auðvitað hundleiðinlegt og hryllilega ósanngjarnt fyrir alla aðila. Þetta vandamál hefur verið leyst af þó nokkrum aðilum nú þegar. Steam er með viðskiptamódel þar sem leikir og forrit lækka tiltölulega hratt í verði og enda á um $2.50 — og gengur mjög vel. Bækur og tónlist gera það ekki – og það er nákvæmlega engin ástæða fyrir því að það sé ekki hægt að nota svipað viðskiptamódel þar. Bíómyndir og sjónvarpsþættir eru komnir í opnari straum, annað hvort fjármagnaðir af auglýsingatekjum (hulu), mánaðarlegri (mjög lítilli) greiðslu sem gefur fullan aðgang (netflix) eða jafnvel hvort tveggja (hulu+).
Nú er ég að reyna að útskýra af hverju það er munur á töfrabrauðinu og venjulega brauðinu og hvers vegna það er ekki hægt að nota venjulega brauðið sem dæmi um aðstæðurnar sem töfrabrauðið skapar. Þú hefur hins vegar ekki útskýrt af hverju dæmið um venjulega brauðið hafi áhrif á töfrabrauðið – og ég skil ekki af hverju það er sífellt tönnlast á því dæmi (þú ert ekki sá fyrsti sem notar svipað dæmi eins og þú veist). Ég fæ í alvöru dálítinn kjánahroll í hvert sinn sem ég sé svona dæmi til þess að útskýra núverandi aðstæðum á höfundavörðu efni á netinu. Dæmið einfaldlega stenst ekki við nánari skoðun.
Ég skal játa að ég ég er orðinn frekar þreyttur á þessum athugasemdum, jafnvel illa pirraður, því það hvarflar í alvöru að mér að þú sért að svara vísvitandi út úr kú… það getur ekki mögulega verið að þú sért ekki enn farinn að skilja að sölutölur og rannsóknir skipta ekki nokkru máli í því sem ég er að segja.
Ég er að ræða um hvað er rétt og hvað er rangt og fæ annars vegar skæðadrífu af „það-er-ekki-hægt-að-koma-í-veg-fyrir-þetta“ og hins vegar „það-græða-allir-á-óleyfilegri-dreifingu“. Hvernig get ég mögulega komið ykkur í skilning um að ég er ekki að tala um þetta? Ég er að tala um hvar rétturinn liggur og hver ræður yfir því hvernig farið er með útgefið efni. Ég veit að það varla hægt að koma í veg fyrir þetta. Ég samþykki ekki þær ályktanir sem dregnar eru af þessum rannsóknum, en það skiptir ekki máli, þó svo að allir stórgræddu þá eruð þið ekki í nokkrum rétti til að hvetja fólk til að sækja og dreifa efni í leyfisleysi eða segja að það sé í góðu lagi.
Ég er búinn að marg, marg ítreka … (a) já, ég veit að það er erfitt að koma í veg fyrir þetta og (b) ég er ekki sammála því að sala aukist en þó svo væri þá skiptir það mig engu máli.
Viðbrögðin sem ég fæ er að hér er dælt inn athugasemdum „þú verður nú að gera þér grein fyrir því að það er ekki hægt að koma í veg fyrir þetta“ annars vegar og hins vegar „já, en salan eykst svo mikið“.
Ef þér finnst verðið of hátt þá sleppirðu því að kaupa og sækja. Það gefur þér ekki leyfi til að stela. Ekki frekar en brauði.
Dæmisagan um bakarann á ekki við um höfundarréttarvarið efni, heldur er ég hér (augljóslega) að fjalla um flytjendur. Þarf ég að útskýra það tuttugu sinnum?
Dæmið stenst fullkomlega að því leyti til – sem ég er að tala um – að fólki finnst sjálfsagt að taka vinnu annarra ófrjálsri hendi. Það er rangt hvort sem þú færð kjánahroll eða ekki.
Satt að segja finnst mér frekar klént að sjá allar þessar réttlætingar fyrir að stela efni. Einu svörin sem ég fæ er að það er farið að tala um eitthvað allt annað og ég sé lítið annað en vandræðalegar og aumkunarverðar réttlætingu á ósiðlegri hegðun. Það hefur enginn getað sagt mér hvers vegna það er í lagi að taka efni, hvort sem það er hlutur höfundar eða flytjanda, án þess að greiða viðkomandi fyrir sína vinnu.
Ég er í „það er ekki focking séns í helvíti að koma í veg fyrir þetta drífunni“ Svo allt tal um hvað sé rétt og rangt skiptir engu máli nema fyrir þá fáu whiteknight sem eru ennþá að nýta sér þessa dreifingarleið á tónlist og eiga mögulega vhs tæki sem þeir nota aldrei til að taka uppúr sjónvarpinu eða hlusta á kasettur í kasettutækinu sínu sem þeir nota aldrei til að taka uppúr útvarpinu.
Ég er ekki svo mikið í “það-græða-allir-á-óleyfilegri-dreifingu” því það eru ekki allir að græða, útgáfufyrirtækin eru að tapa peningum hægri vinstri og hafa þurft að loka heilu verslununum og draga saman starfsfólk til muna. Á meðan listamenn virðast vera að græða meiri pening fyrir vikið. Ég nenni hinsvegar ekki mikið að ræða það því það ætti að gefa svo auga leið að allir stefna að framförum en ekki afturförum, þeir sem framleiddu kasettur og vhs spólur urðu einfaldlega að finna eitthvað annað til að framleiða þegar sú tækni varð úrelt.
„Dæmið stenst fullkomlega að því leyti til – sem ég er að tala um – að fólki finnst sjálfsagt að taka vinnu annarra ófrjálsri hendi. Það er rangt hvort sem þú færð kjánahroll eða ekki.“
Og hvað?
Þó svo að dæmið standist í raunveruleikanum er raunveruleikinn samt sá að
það er ekki focking séns í helvíti að koma í veg fyrir þetta,
„Satt að segja finnst mér frekar klént að sjá allar þessar réttlætingar fyrir að stela efni“
Það skiptir bara engu máli hvað manni finnst í þessum efnum ef maður er að horfa á raunveruleikann. Staðreyndir málsinns sitja eftir allveg sama hvað manni finnst um það og allveg sama hversu mörg blogg koma frá þér sem reyna að koma einhverjum sektartilfinningum inn hjá fólki varðandi vinnu sem flytjendur leggja á sig skipta bara engu máli varðandi raunveruleikann sem við búum í.
„Ég samþykki ekki þær ályktanir sem dregnar eru af þessum rannsóknum, en það skiptir ekki máli, þó svo að allir stórgræddu þá eruð þið ekki í nokkrum rétti til að hvetja fólk til að sækja og dreifa efni í leyfisleysi eða segja að það sé í góðu lagi.“
Þú verður þá að koma með einhver rök fyrir því afhverju þú samþykkir ekki rannsóknirnar annars er vitagagnslaust að ræða þetta eitthvað. Píratar eru í fullum rétti til að gera hvað sem þeim sýnist sem stjórnmálaflokki á heimsvísu, en það er hvergi á stefnuskránni að hvetja fólk til að sækja og dreifa efni í leyfisleysi við erum einfaldlega að benda á að meirihlutinn af heiminum er að gera það og óskum eftir lögum í samræmi við framþróun.
Útlistaðar eru nokkar breytingar á lögum sem píratar myndu vilja sjá gerðar á copyright á heimsvísu en þetta veist þú því það er búið að margtyggja þetta.
Það er ekki hægt að koma í veg fyrir þetta með góðu móti. Ég er ekki að tala um það. Þessi sífelldu svör á þessum nótum eru tímasóun, er virkilega engin leið að halda þræði í þessu spjalli??
Það skiptir svo sannarlega máli hvað okkur finnst, það er best leiðin til að fólk skilji að það þarf að borga fyrir þessa vinnu eins og aðra – og ef fólk vill fá að njóta afraksturs svona vinnu í framtíðinni.
Nei, ég þarf ekki að koma með neinar skýringar á því hvers vegna ályktanirnar sem dregnar eru af rannsóknunum eru marklausar, það skiptir engu máli fyrir þessu umræðu hvort það er rétt eða rangt, hvers vegna að eyða tíma í að rökræða eitthvað ef svarið skiptir ekki máli?
Ég var búinn að nefna að ég myndi setja inn sérstaka færslu um þessar rannsóknir og gallana við þær.. en hef ákveðið að sleppa því. Á meðan það er ekki nokkur leið að halda þræði í þessari umræðu hér og ég fæ stöðug svör við öðrum atriðum en ég nefni og stöðugt áréttað eitthvað sem ég er annað hvort löngu búinn að samþykkja eða búinn að skýra að skiptir ekki máli…. þá legg ég ekki í tímann sem líklega færi í þá umræðu.
Þetta er einfaldlega fullkomlega tilgangslaus umræða, ég fæ endalaus svör út úr kú um allt annað en ég er að ræða.
Þetta skiptir mig í sjálfu sér engu máli, finn til með ungum listamönnum – en ég ætla ekki að eyða meiri tíma í þetta – þeir verða að taka boltann.
Breytingar sem Píratar hafa kynnt á höfundarrétti eru margar ágætar svo langt sem þær ná, en þær ná bara ekki nema hálft hænufet, leysa þetta ekki og eru sumar hverjar hálf fáránlegar, eins og 20 ára reglan.