Posts Tagged ‘Rökræður’

Rökleysuþrasararnir…

Posted: mars 21, 2015 in Trú, Umræða
Efnisorð:

Einhver sérkennilegasta, minnst gefandi, mest þreytandi og fáránlegasta rökræða sem ég lendi (ótrúlega oft) í er þras við fólk hefur hefur einhverja undarlega þörf fyrir að halda því fram við mig að ég hafi skoðun sem ég hef ekki.. hversu oft og mikið sem ég reyni að segja viðkomandi að ég hafi ekki ætlaða skoðun. Að frátöldu virðingarleysinu, segjum hreinlega tuddaskapnum, þá er þetta alveg galin umræða.

Þetta er að einhverju leyti eins og einhver sé stöðugt að segja mér að ég sé svartur eða að það vanti á mig aðra hendina. Ekkert hef ég á móti svörtu fólki eða fólki sem hefur orðið fyrir því að missa hendi.. en ég er einfaldlega ekki svartur og ég hef sem betur fer báðar hendur.

Það skiptir engu hversu oft ég reyni að leiðrétta eða útskýra, viðkomandi setja „hausinn undir sig“ og böðlast ótrauðir áfram.

Lengi vel hélt ég að þetta væri vísvitandi áreiti til að fara í taugarnar á mér og láta mig eyða tíma í svör. Upp á síðkastið hallast ég að því að viðkomandi séu einfaldlega ekki „betur gefnir“ en þetta.

Það hjálpar ekki að rökin sem færð erum fram eru í besta falli hjákátleg. Viðkomandi gefa sér forsendur [sem eru ýmist út úr kú eða svo almennar að eiga við alla], gefa sér að ég falli undir þessar sömu forsendur og draga svo ályktun af þessu öllu saman. „Svartir menn hafa nef“ – „þú ert með nef“ -> „þú ert svartur “ er ein tegund af rökleysu. „Ef þú hefur meira en enga hendi þá hefur þú eina hendi“ -> „ef þú hefur eina hendi þá hefur þú ekki tvær hendur“ -> „þú ert einhentur“.

Til að kóróna vitleysuna er svo gjarnan vísað í hina og þessa spekinga [sem viðkomandi þekkja ekki og/eða rugla saman] og hugmyndir [sem viðkomandi skilja ekki] eða bara einhverja vefsíðu ef ekki vill betur til. Sennilega er ætlunin að gefa málflutningnum virðulegan blæ með því að sletta um sig með nöfnum og hugmyndum – svona ef ske kynni að einhver sem les haldi að einhver þekking liggi að baki.

Ég er að tala um þörf fólks til að halda því fram að ég sé trúaður. Sem ég er ekki. Nýlega var prestur þjóðkirkjunnar að reyna að troða þessu á mig. En það er bara nýjasta dæmið af allt of mörgum.

Ég ætla ekki að gera þessum einstaklingum það til geðs að halda þessu þrasi áfram. Og ekki leyfi ég athugasemdir við þessa færslu.

Ég skýri í næstu færslu hvers vegna ég er trúlaus. Þeir sem hafa heiðarlegan áhuga á að vita hvort ég er trúaður eða ekki láta sér það nægja.

Rökræður

Posted: ágúst 30, 2012 in Umræða
Efnisorð:

Ég tek gjarnan þátt í rökræðum. Mér finnst reyndar gaman að rökræða um forvitnileg málefni. Stundum er ég reyndar hálf partinn neyddur til að rökræða um mál sem ég hef annað hvort engan áhuga á. Nú eða þá að það er búið að þvæla langt út fyrir öll skynsemis mörk.

En, að öllu jöfnu getur þetta verið skemmtilegt. Stundum hef ég óneitanlega mjög sterkar skoðanir, stundum ekki og stundum er ég einfaldlega forvitinn og velti upp spurningum sem mér finnast athygli verðar.

Ég tel mig taka rökum ágætlega, amk. þegar þau eru sett fram á málefnalegan hátt og snúast um staðreyndir. Ég hef í öllu falli oft skipt um skoðun þegar ég sé sannfærandi rök og upplýsingar.

Það sem ég get ekki með nokkru móti þolað er fólk sem heldur sig vera að rökræða en beitir stanslaust einhvers konar yfirgangs- eða tuddatækni, vísvitandi blekkingum, upphrópunum, rangfærslum, uppnefnum, skætingi, röfli um óskylda hluti, þekktum rökvillum, framígripum, vísa í fræga fólkið, vísa fjölda þeirra sem hefur einhverja skoðun, beita tilvitnunum sem ekki eru til og þar fram eftir götunum.

Og svo það sé á hreinu þá tel ég öskur og framígrip ekki merki þess að viðkomandi hafi frekar rétt fyrir sér heldur geri ég ráð fyrir að hann sé að breiða yfir þekkingarleysi.

Ég gef ekkert fyrir þegar ég er kallaður öllum illum nöfnum eða gert lítið úr skoðunum mínum, það staðfestir einfaldlega að engin rök eru fyrir hendi.

Ekki finnst mér trúverðugt þegar viðmælandi byrjar að dreifa athyglinni með því að röfla um óskylda hluti eða reyna að tengja eitthvert atriði sem er málinu fullkomlega óviðkomandi. Ýmist er það til marks um óskipulagða hugsun, sem aftur bendir til að viðkomandi vinni ekki vel úr upplýsingum, eða þá að sá hinn sami sé kominn út í horn í rökræðunni og finni það eitt til ráða að breyta um umræðuefni.

Þeir sem reyna svo að sannfæra mig með því að vísa í texta sem segir allt annað en viðkomandi heldur fram, birta myndir sem búið er að eiga við og breyta („fótósjoppa“), sýna upptökur og halda því fram að eitthvað sjáist eða heyrist sem ekki er til staðar ef vel er gáð… eru svo augljóslega með vondan málstað að frekari umræða er óþörf – og málið er útrætt.

Mest villandi er kannski þegar vísað er í óljósan eða óskýran hóp sérfræðinga sem á að hafa einhverja skoðun. Þetta getur verið gott og gilt ef lítill ágreiningur er innan viðkomandi greinar eða samfélags en það getur verið erfitt að átta sig á þessu þegar vísað er í fámennan hóp, rannsóknir sem ekki hafa verið staðfestar og/eða ritrýndar og horft fram hjá yfirgnæfandi fjölda sérfræðinga sem eru á annarri skoðun.

Það að einhver vísi í að fræga fólkið hafi einhverja skoðun er auðvitað bara fyndið, Hollywood leikarar eru ekkert sérstaklega þekktir fyrir góða dómgreind eða færni við að vinna úr upplýsingum.

Og það sem verra er… stundum verður hálfvitagangur stuðningsmanna ákveðins máls þess valdandi að fólk afgreiðir allt sem honum tengist sem kjaftæði án frekari skoðunar.