Einhver sérkennilegasta, minnst gefandi, mest þreytandi og fáránlegasta rökræða sem ég lendi (ótrúlega oft) í er þras við fólk hefur hefur einhverja undarlega þörf fyrir að halda því fram við mig að ég hafi skoðun sem ég hef ekki.. hversu oft og mikið sem ég reyni að segja viðkomandi að ég hafi ekki ætlaða skoðun. Að frátöldu virðingarleysinu, segjum hreinlega tuddaskapnum, þá er þetta alveg galin umræða.
Þetta er að einhverju leyti eins og einhver sé stöðugt að segja mér að ég sé svartur eða að það vanti á mig aðra hendina. Ekkert hef ég á móti svörtu fólki eða fólki sem hefur orðið fyrir því að missa hendi.. en ég er einfaldlega ekki svartur og ég hef sem betur fer báðar hendur.
Það skiptir engu hversu oft ég reyni að leiðrétta eða útskýra, viðkomandi setja „hausinn undir sig“ og böðlast ótrauðir áfram.
Lengi vel hélt ég að þetta væri vísvitandi áreiti til að fara í taugarnar á mér og láta mig eyða tíma í svör. Upp á síðkastið hallast ég að því að viðkomandi séu einfaldlega ekki „betur gefnir“ en þetta.
Það hjálpar ekki að rökin sem færð erum fram eru í besta falli hjákátleg. Viðkomandi gefa sér forsendur [sem eru ýmist út úr kú eða svo almennar að eiga við alla], gefa sér að ég falli undir þessar sömu forsendur og draga svo ályktun af þessu öllu saman. „Svartir menn hafa nef“ – „þú ert með nef“ -> „þú ert svartur “ er ein tegund af rökleysu. „Ef þú hefur meira en enga hendi þá hefur þú eina hendi“ -> „ef þú hefur eina hendi þá hefur þú ekki tvær hendur“ -> „þú ert einhentur“.
Til að kóróna vitleysuna er svo gjarnan vísað í hina og þessa spekinga [sem viðkomandi þekkja ekki og/eða rugla saman] og hugmyndir [sem viðkomandi skilja ekki] eða bara einhverja vefsíðu ef ekki vill betur til. Sennilega er ætlunin að gefa málflutningnum virðulegan blæ með því að sletta um sig með nöfnum og hugmyndum – svona ef ske kynni að einhver sem les haldi að einhver þekking liggi að baki.
Ég er að tala um þörf fólks til að halda því fram að ég sé trúaður. Sem ég er ekki. Nýlega var prestur þjóðkirkjunnar að reyna að troða þessu á mig. En það er bara nýjasta dæmið af allt of mörgum.
Ég ætla ekki að gera þessum einstaklingum það til geðs að halda þessu þrasi áfram. Og ekki leyfi ég athugasemdir við þessa færslu.
Ég skýri í næstu færslu hvers vegna ég er trúlaus. Þeir sem hafa heiðarlegan áhuga á að vita hvort ég er trúaður eða ekki láta sér það nægja.