Posts Tagged ‘Forsendubrestur’

Hvernig bregðast þeir við sem fengu styrk úr sameiginlegum sjóðum nú þegar hlutirnir eru heldur betur að snúast við?

Svokölluð skuldaleiðrétting ríkisstjórnarinnar er afskapleg misráðin aðgerð.. ég ætla ekki að tíunda hvers vegna. Vissulega var erfitt hjá mörgum þegar verðbólga rauk upp og lánskjaravísitala hækkaði langt umfram laun.. hjá þeim sem höfðu tekið lán fyrir fasteignakaupum, hjá þeim sem höfðu tekið lán fyrir öðru, hjá þeim sem voru með námslán og svo mætti lengi telja. Sumir þeirra fengu stuðning af almennafé í nýlegum aðgerðum ríkisstjórnarinnar. Langt frá því allir. Og allt of margir fengu stuðning sem þurftu nákvæmlega ekkert á honum að halda, lánin þeirra komin í takt við laun og eignirnar jafnvel verðmeiri en áður.

Gott og vel. Nei, reyndar ekki. En búið og gert.

Verðbólga rauk upp, sem hefði mátt gera ráð fyrir, launin voru talsvert á eftir um tíma.

Nú er verðbólga með því minnsta sem mælst hefur í langan tíma. Laun hækka umfram verðbólgu. Það eru jafnvel dæmi um lækkun vísitölu.

En er ekki augljóst að þeir sem þáðu almannafé til að styðja við bakið á þeim þegar lánin hækkuðu umfram laun.. þeir hljóta með sömu rökum að vera tilbúnir að greiða meira til samfélagsins þegar launin hækka um fram lánin.

Svona ef þeir vilja vera sjálfum sér samkvæmir.

Þessi spurning hefur nú dúkkað upp annars staðar, en oftar en ekki sem hluti af stærra samhengi. Og hvort sem er, svörin virðast ekki á lausu.

Þannig að mig langar til að spyrja þá sem tala fyrir svokölluðu skuldaleiðréttingarfrumvarpi stjórnarinnar.

Hvaða forsendur hafa brostið hjá þeim sem fá leiðréttingu á skuldum samkvæmt frumvarpinu? Þá á ég auðvitað við forsendur sem eingöngu hafa brostið hjá þeim sem frumvarpið nær til. Og ég á líka auðvitað eingöngu við þá sem ekki hafa fengið aðrar leiðréttingar, svo sem hækkað verð á húsnæði.

Svarið mætti gjarnan vera rökstutt og því mættu fylgja tilvísanir í gögn, bæði til stuðnings því að forsendubrestur hafi orðið hjá þessum hópi og sérstaklega til stuðnings því að aðrir hafi ekki orðið fyrir sama bresti.

Þá væri vel þegið að svarið væri laust við að uppnefna mig og/eða gera mér upp annarlegar hvatir. Mér þykir þetta nefnilega nokkuð forvitnilegt.