Posts Tagged ‘Páskar’

Ég náði því aldrei þegar ég var ungur hvað páskaegg höfðu með krossfestingu og upprisu að gera, en var svo sem ekkert mjög gamall þegar ég gerði mér grein fyrir að líkast til ætti þessi siður sér aðrar rætur.

Ég er gjarnan spurður fyrir jólin hvort við trúlausir höldum jól, jafnvel sama fólk spyr mig ár eftir ár og verður alltaf jafn undrandi. Svarið er auðvitað „já“, enda jólin komin til löngu fyrir tíma kristninnar og tengjast ekki trúarbrögðum frekar en hver vill.

Sama kemur gjarnan upp um páska, hvað ég, trúlaus maðurinn, sé að gera með að halda upp á þetta. Páskarnir eiga reyndar eitthvað meiri rætur í trúarbrögðin en jólin, en eru fjarri því að vera takmarkaðir við kristni, án þess að það taki því að rekja þá sögu hér.

Engu að síður, þetta er eins og jólin, almennir frídagar.. sem við notum til að draga andann, hitta fjölskyldu og vini og kannski staldra aðeins við. Hverrar trúar – eða ekki trúar sem við erum.

Og étum yfir okkar af páskaeggjum – án þess velta fyrir okkur hvaðan sá siður kemur.

Páskar

Posted: apríl 5, 2015 in Spjall, Trú, Umræða
Efnisorð:

Nú kann ég ekki að skýra sögu páskanna svo vel fari og það myndi eflaust kalla á gagnrýni og/eða leiðréttingar.. en þetta er auðvitað ekki sér kristin hátíð, þó auðvitað sé hún mikilvæg hátíð í augum kristinna.

Fyrir flestum kristnum sem ég þekki (með undantekningum þó) þá er kristnin – eins og flest önnur trúaarbrögð – rammi utan um ákveðin siðferðislegan grundvöll. Þeim fylgja svo ákveðnar hefðir og siðir („ritúöl?“) sem fá sína merkingu ýmist við að gera sér dagamun, hitta vini, fjölskyldu og kunningja, njóta tónlistar, hlusta á sögur og breyta út af vananum öðru hverju. Þá eru margar hátíðanna tilefni til að setjast niður rifja upp siðferði og kannski ákveða að reyna að gera betur.

Það er í sjálfu sér ekkert nema gott um þetta að segja, ég þarf svo sem ekki sérstaklega á þessu að halda, en það er mitt val. Og ég kann ómögulega við að þurfa að standa straum af kostnaði við siði annarra, en það er að breytast.

Ég á hins vegar sérstaklega erfitt með að skilja áráttu örfárra kristinna fyrir þessari þráhyggju að halda því fram að sögurnar séu bókstaflegar, að einhver hafi fæðst án þess að eiga líffræðilegan föður og að sá hinn sami hafi dáið og risið einhverjum dögum seinna upp frá dauðum. Það þarf ekki nema lágmarksmenntun til að vita að þetta stenst enga skoðun. Og það sem meira er, flestir kristinna þurfa ekkert á þessu að halda, trúin er þeim alveg jafn mikils virði án svona vitleysu, ef ekki meira.

Þannig að kannski er þjóðráð – og ég meina þetta vel – að sleppa því að gera kröfu á þá sem vilja teljast kristnir að þeir þurfi að játa trú á þessar sögur sem bókstaflegar staðreyndir. Hætta að hamra á sögunum sem raunverulegum atburðum, þetta er eiginlega hálf kjánalegt – og það vill enginn láta tengja sig við fáfræði.

Það er kannski ekki rétt að alhæfa um þekkingarleit forfeðra okkar. Og ekki ætla ég að gera lítið úr því að í flestum heimshornum hafi þekkingar verið leitað eftir bestu samvisku.. að minnsta kosti virðist að öðru hverju hafi þetta verið reynt.

En nú einverjum árþúsundum seinna vitum við eitt og annað sem forfeðurnir vissu ekki. Aðferðir vísindanna hafa í raun skilað ótrúlegum framförum. Í dag þekkjum við til að mynda rafmagn, pensilín, vitum að jörðin er ekki flöt og ekki fer á milli mála að þyngdaraflið er raunverulegt.

Þannig höfum við í ljósi betri þekkingar skipt út hugmyndum forfeðranna, ekki af vanvirðingu við þeirra tilraunir til að afla þekkingar, heldur af því að við vitum einfaldlega betur og höfum meiri upplýsingar en þeir gátu mögulega sótt.

En svo er stór hópur sem þrátt fyrir allt heldur í hugmyndir forfeðranna þegar kemur að því hvernig heimurinn varð til, hefur enn fyrir satt að meyfæðingar séu mögulegar og telur satt og rétt að einn eða fleiri einstaklingar hafi risið upp frá dauðum eftir nokkra daga í gröfinni. Allt þetta á að hafa verið í einhverju undarlegu „plotti“ yfirnáttúrulegrar veru sem engar upplýsingar finnast um að sé yfirleitt til. Og allt þetta byggir á „fabúleringum“ forfeðra með nánast enga þekkingu á heiminum og sögusögnum sem gengu á milli manna í fleiri mannsaldra án þess að nokkuð væri fært til bókar.

Er ekki kominn tími til að pakka þessum hugmyndum niður og setja þar sem þær eiga heima?