Sylvía

Posted: desember 30, 2019 in Fjölskylda, Minningar
Efnisorð:

Útför tengdamömmu, Sylvíu Briem, fer fram í dag.

Ætli það segi ekki meira en margt um hversu jákvæð hún var að mér var tekið opnum örmum í fjölskyldunni þegar við Iðunn byrjuðum saman.. og Iðunn aðeins sextán ára. Og þegar við Iðunn tilkynntum að við ættum von á okkar fyrsta barni, þá var dregið fram freyðivín og skálað.

Ég veit að Sylvíu fylgdu ferskir vindar inn í fjölskylduna þegar hún fluttist heim, enda bjó hún við meiri fjölbreytni en almennt þekktist á þessum árum, til dæmis í New York, Stokkhólmi, Bonn og Genf. Opin og jákvæð, glaðlynd og fordómalaus eru svona fyrstu lýsingarorðin sem koma upp í hugann. Sylvía var einfaldlega alltaf til í góðar stundir og oftar en ekki tók hún þátt í „partýinu“ með börnunum og vinum þeirra.

Hún tók þátt í gleðigöngunni og fagnaði fjölbreytileika lífsins löngu áður en sá fjölbreytileiki varð eðlilegur hluti af fjölskyldunni. Hún mætti oftar en ekki á hljómleika okkar Fræbbbla, fékk okkur til að spila í sextugsafmælinu sínu og þrátt fyrir veikindin var hún mætt á afmælishljómleika síðasta vetur.

Við Iðunn áttum sama brúðkaupsdag og Magnús og Sylvía og við héldum veglega upp á daginn saman ef við mögulega gátum, þeas. ef við vorum ekki í sitt hvoru landinu.

Við áttum líka fleiri hefðir saman, til að mynda var fastur liður að vera saman á gamlárskvöld og við áttum mörg ógleymanleg kvöld með þeim.

Við fórum nokkrum sinnum saman í frí, til Þýskalands og Englands að heimsækja ættingja, í hefðbundið sólarlandafrí til Mallorca, í siglingu um Miðjarðarhafið og við Iðunn fórum margar ferðir til Spánar og vorum með þeim í íbúðinni í Benalmadena á Spáni.

Kannski eru samt bestu minningarnar þessar einföldu, sitja með þeim úti á svölum með ost á bakka og rauðvín í glasi í hádeginu.

Spánn, Sylvía 2008 028-1

[PS. ég held að ég geti ekki hugsað mér lengur að senda minningargreinar í hefðbundna minningargreina-fjölmiðla, ég get einfaldlega ekki tengt mig við sorpið sem birtist þar]

Lokað er á athugasemdir.