Er kominn tími á Uber/Lyft/Bolt??

Posted: ágúst 23, 2022 in Umræða

Ég hef ekki verið neitt sérstaklega jákvæður á hugmyndir um að opna fyrir aðrar leigubílaþjónustur, kannski helst vegna þess að þjónustan hér heima hefur gjarnan verið mjög fín og umfjöllun um þessi fyrirtæki erlendis hafa nú ekki bent til að þetta sé eftirsóknarvert.

Á hinn bóginn hef ég stundum notað þessar þjónustur erlendis og ekki haft undan miklu að kvarta.

En síðustu misseri hefur verið erfitt, jafnvel nánast ómögulegt að fá leigubíl, meira að segja utan háannatíma.

Síðasta Menningarnótt var gott (eða vont) dæmi.

Við fórum í leigubílaröð í Aðalstræti, þar komu fáir bílar, fyrsta (tæpa) klukkutímann kom einn sem tók farþega úr röðinni, aðrir stoppuðu fyrr í götunni og tóku upp farþega sem voru á leiðinni í röðina.

Vinkona okkar hringdi og náði sambandi [er ekki alveg klár á við hvaða stöð] en henni var sagt að leigubílar mættu ekki keyra Aðalstrætið vegna þess að götur væru lokaðar og við þyrftum að fara upp að Landakoti. Þetta var auðvitað ekki rétt, því leigubílar, sem og aðrir voru að keyra þarna reglulega.

Gott og vel, við fórum upp að Landakoti, en þar var engan bíl að fá.

Við ákváðum að reyna strætó aftur, en enginn vagn kom.

Þá virtist lausum leigubílum vera að fjölga sem keyrðu fram hjá, við færðum okkur og mættum tveimur, en nú var allt í einu ekki stoppað fyrir farþegum úti á götu.

Við röltum aftur í leigubílaröðina í Aðalstræti og eftir einn og hálfan tíma fengum við bíl.

Daginn eftir heyrðum við það hefði verið gert ráð fyrir leigubílaröðum á öðrum stöðum, sem hefði nú verið vel þegið að fá að vita þegar vinkona okkar náði sambandi.

Það hjálpar ekki að svokallað ‘app’ hjá einni stöðinni er nánast fullkomlega gagnslaust.

Ég heyrði talsmann leigubílstjóra í viðtali á einhverri útvarpsstöðinni fyrir nokkrum vikum, hann viðurkenndi að ástandið væri ekki nógu gott, fann tillögum um úrbætur allt til foráttu en það var ekki nokkur leið að skilja hvað hann vildi að yrði gert í staðinn.

Ég veit að mörg þessara erlendu fyrirtækja hafa ekki gott orð á sér, en það ætti svo sem ekki að vera flókið að hafa skýrar reglur um réttindi og skyldur fyrirtækjanna sem tryggja rétt starfsmanna og farþega.

Vonandi ‘hysja’ núverandi aðilar upp um sig og koma þessu í lag. Nothæft ‘app’ þar sem hægt er að panta bíl, fá staðfestingu á pöntun, sjá hvar viðkomandi bíll er staddur með áætluðum komutíma, bílar í boði í takt við álag, leigubílaraðir skýrar [fyrir þá sem ekki vilja nota ‘app’] og bílstjórar sem fylgja röðinni. Og eitthvert gagn að upplýsingum þegar hringt er á stöð.

Vonandi bætir bráðnauðsynleg Borgarlína ástandið, en leigubílar þurfa væntanlega að vera valkostur áfram.

Það berast jákvæðar fréttir orðið reglulega úr stjórnmálunum vestanhafs, Bannon (vonandi) á leiðinni í fangelsi, skítseiðið Alex Jones að greiða háar skaðabætur [allt of lágar, en það var smá huggun að sjá gerpið svitna og tafsa þegar upp komst um lygarnar], Trump sætir rannsókn FBI (sem hann taldi eitt og sér nægja á sínum tíma þegar aðrir áttu í hlut) og mögulega gripinn glóðvolgur með trúnaðarskjöl heima hjá sér (sem hann fordæmdi nú fólk ranglega fyrir). Og neitar að svara spurningum fyrir rétti – og ekki hafði hann fögur orð um fólk sem greip til “fimmta” ákvæðisins.. Og svo er möguleg tilraun til kosningavika í Georgíu.

Ég ímynda mér að þetta sé upphafið að algjöru hruni á veldi þessara drullusokka sem hafa valdið ómældu tjóni á lífi hundruða þúsunda (ef ekki milljóna) eftir að hafa tuddast til valda með hallærislegri leiksýningu sem nægilega margir auðtrúa einfeldningar kokgleyptu – allt til þess eins að moka undir rassgatið á sjálfum sér – og koma vinum og stuðningsmönnum í lykilstöður í stofnana- og embættiskerfinu.

Ég er orðinn nægilega gamall og hef fylgst nægilega vel með fréttum gegnum tíðina til að geta mér til um að það sé stutt í hrunið. Um leið og það byrjar að kvarnast úr liðinu þá telur að vera með þeim fyrstu að koma sér út.. Það þarf ekki marga úr forystusveit flokksins til að aðrir taki á sprett með þeim. Þetta er þannig pakk að það hugsar eingöngu um eigin rassgat.

Líkingin um að rotturnar yfirgefi sökkvandi skip á vel við að hluta (þeas. rotturnar) en það er kannski full mikið í lagt að tala um skip, minnir kannski meira á framhlið á skipsmynd þar sem ekkert er á bakvið – svona sviðsetning í ódýrri B mynd.

Ég nenni svo sem ekki að ræða þetta sérstaklega, þetta kemur í ljós (nú eða ekki).

Gleði(ganga] í skugga bakslags

Posted: ágúst 6, 2022 in Umræða

Rétt þegar þróunin virtist á réttri leið, fordómar og fáfræði gagnvart fólk sem fellur ekki að stöðluðum hugmyndum var á stöðugu undanhaldi – þá kemur bakslag.

Mér er algjörlega hulið hvers vegna þetta gerist.

Hvernig fáfræðin og mannfyrirlitningin sem virðist hafa kraumað undir í hugarfylgsnum einhverra einfeldninga sem geta ekki mögulega skilið að þeirra eigin heimsmynd er einfaldlega bara þeirra eigin heimsmynd… heldur er einhver óskiljanleg þörf fyrir að troða henni upp á alla aðra. Með valdi ef annað dugar ekki.

Hvað með “ég skil ekki, en þetta breytir engu fyrir mig og mér kemur þetta ekkert við”?

Það er eins og hugmyndafræði fólks sem temur sér fáfræði og afskipti af högum annarra hafi fengið byr undir vængi í einhverri hallærislegri liðsskipan, fólk sem getur ekki haft sjálfstæða skoðun virðist hafa þörf fyrir að tilheyra einhverju liði og vera með liðinu “sínu” í einu og öllu.

Það er auðvitað ákveðin einföldun að kenna fyrrverandi forseta vestanhafs einum um en stuðningsmenn hans hafa klárlega verið áberandi og kynnt undir hatur og fáfræði.

Það eru auðvitað engin einföld svör en ég hallast að því að skársta leiðin sé að vera sýnileg og halda áfram að upplýsa og fræða.

Án þess að hafa kannski hugsað alveg til enda..

En smá vangaveltur þegar kemur að því að hugsa hvernig á að kosta vegakerfið.

Er einfaldasta nálgun að skattleggja hjólbarða?

Þetta er greitt óháð tegund eldsneytis, hvar er ekið og mælir þokkaleg vel notkun – stærð dekkja mætti skipta máli.

Svo má reyndar færa rök fyrir því að vegakerfið sé í raun þjónusta við alla, án tillits til hvernig og hversu mikið hver nýtir sér samgöngur – en það er væntanlega önnur umræða.

Seðlabankinn hækkaði stýrivexti hressilega, að sögn til að reyna að hægja á verðbólgu.

Ég hef aldrei almennilega skilið þessa aðferðafræði – enda ekki hagfræðingur – en mér skilst að þetta sé nú engan vegin óumdeild aðferð. Hugmyndin er að það sé dýrara að taka lán og það dragi þannig úr lántökum. En jafnvel þó þetta virki erlendis, með stöðugum gjaldmiðlum (sem virðist vera allur gangur á), þá er Íslendingurinn sem hætti við að taka lán vegna þess að stýrivextir hækkuðu einhvers staðar með jólasveininum og páskahéranum.

Ef eitthvað er hægt að treysta á lögmál um framboð og eftirspurn þá er jú ein leiðin sú að draga úr eftirspurn eftir lánum. En væri ekki alveg eins líklegt til árangurs að snarlækka stýrivexti og draga þannig úr framboði á lánum? Kannski væru peningar sem annars væru lánaðir í kaup á „þarflausu glingri“ notaðir í fjárfestingar og atvinnuuppbyggingu. Líkast til myndi húsnæðisverð lækka, sem og afborganir af lánum lækka? Og jafnvel verðbólgan?

Ég geri mér grein fyrir að þetta er væntanlega „vankunnáttuhagfræði“ hjá mér og ég á ekkert sérstaklega von á að fá Nóbelsverðlaunin í hagfræði. en samt, er eitthvað tregur þegar kemur að því að sjá hvers vegna þetta gæti ekki mögulega virkað.. [sem er kannski ekkert nýtt].

Um rökræður

Posted: apríl 25, 2022 in Umræða

Ég setti inn fullyrðingu á Facebook og Twitter fyrir nokkru, augljóslega í gríni, en auðvitað með alvarlegum undirtón.

Færslan var á þá leið að mig hefði dreymt að þeir sem hafna vísindum og bera á borð fullyrðingar JútJúb/Spotify gjammara, bloggara og fleiri sem hafa engar vísindalegar forsendur, þeir þyrftu að nota síma og tölvur framleiddar af fólki með sama bakgrunn.

Hófst nokkurt þras á Twitter, sem er auðvitað óboðlegt verkfæri fyrir rökræður.

En ég get ekki látið hjá líða að reyna að skilja þetta betur og kannski koma með smá hugleiðingar.

En mér sýnist nokkuð augljóst hvers vegna fólk er ginnkeypt fyrir hvers kyns undarlegum kenningum, sérstaklega samsæriskenningum.

Ef óskhyggja og afneitun ræður úrvinnslu upplýsinga, þá er auðvitað hægt að komast að hvaða niðurstöðu sem er. En það er kannski ekki farsælt að byggja heimsmyndina á svona vinnu.

Allt of oft virðist fólk detta í einhvern keppnis- og/eða áróðursgír í umræðum, kappræðum fyrir kosningar eða umræðum á Alþingi – en markmiðin verða gjarnan að koma höggi á málflutning andstæðingsins frekar en að reyna að komast að einhverri niðurstöðu.

Tökum nokkur dæmi

  • Án þess að ég nefni nokkur er strax gefið að ég sé að vísa til ákveðins aðila sem hafði verið áberandi með þætti á streymisveitu tengda Covid. Hvergi nefni ég hann til sögunnar og fyrir mér er ég augljóslega með almenna tilvísun sem á við um umræður um hamfarahlýnun, almennar bólusetningar og fleira, auðvitað má telja þessa þætti á streymisveitunni með, en fráleitt gefa sér að færslan mín snúist eingöngu um þetta.
  • Fullyrðing að ég hafi eytt 0 sekúndum í að kynna mér málflutning þáttastjórnanda er auðvitað gjörsamlega út í bláinn. Bæði hafði ég eytt nokkrum (allt of miklum) tíma í að skoða þetta og þó svo hefði ekki verið, þá hafði enginn nákvæmlega neina hugmynd um það og þar af leiðandi engar forsendur fyrir að fullyrða svona. En þetta er svona taktík til að gera lítið úr þeim sem verið er að ræða við í bland við einhverja óskhyggju, en auðvitað óboðlegt í umræðum og skilar engu.
  • Svo er ósk þekkts tónlistarmanns kölluð „ritskoðun“ sem stenst auðvitað enga skoðun
    • það er „ritskoðun“ að vilja ekki sjá „skoðanir“ byggðar á að sannanlegum rangfærslum.
    • það er ekki „ritskoðun“ að vilja ekki vera tengdur einhverju sem manni mislíkar, eins og einhver lýsti í öðrum umræðum, ef ég er í samkvæmi þar sem einhver lýgur stöðugt og gestgjafi hampar viðkomandi, þá er mér frjálst að fara – eins og viðkomandi má gjamma þá má ég ákveða hvað ég læt bjóða mér.
    • að öllu jöfnu er mjög mikilvægt að gera greinarmun á skoðunum annars vegar og staðreyndum / rangfærslum hins vegar.
  • En þetta er auðvitað ákveðin taktík, taka eitthvað sem allir (flestir) eru sammála um að sé rangt og spyrða svo umræðuefnið við það atriði, þó tengingin sé auðvitað engin.
  • Svo er fullyrt að það hafi verið bannað að segja að bólusetningar kæmu ekki í veg fyrir Covid smit. Aftur er þessi fullyrðing gjörsamlega út í bláinn. Ekki veit ég hver hefði átt að „banna“ þetta (enda kemur ekkert fram um það) og til að kóróna vitleysuna þá er vel þekkt að það fylgdi auðvitað strax með upplýsingum um bólusetningar að þær væru alls ekki 100% vörn. Þegar kom í ljós að bóluefnin veittu minni vörn gegn smitum þegar ný afbrigði komu fram (en minnkuðu verulega líkur á alvarlegum veikindum) þá voru þær upplýsingar strax kynntar. Þannig virka vísindin, nýjar upplýsingar og nýjar aðstæður verða til að upplýsingar eru uppfærðar.
  • Síðasta dæmið er að gefa sér að ég dæmi málflutning þáttastjórnanda fyrst og fremst út frá ákveðnu atriði. Það atriði er vissulega umdeilt, en það voru allt önnur atriði sem urðu til að ég afskrifaði innihaldið í þessum þáttum, ákveðnar rökleysur í framsetningu voru nokkuð æpandi, rökleysur sem kannski er auðveldara að sjá í lesnum texta en við hlustun – en ég las innihald þáttarins eftir að stuðningsmaður hafði farið fram á að ég skoðaði. Aftur er verið að gera mér upp ástæður og skoðanir án þess að hafa fyrir því nokkrar forsendur, ég hafði hvergi nefnt þetta atriði til sögunnar.
  • Og svo að atriðinu sjálfu, það er vísað í eina ákveðna rannsókn máli þáttastjórnanda til stuðnings, en kynnir hvorki athugasemdir við rannsóknina né aðrar rannsóknir sem sýnt hafa allt aðra niðurstöðu og kynnir ekki til sögunnar gögn sem stangast á við niðurstöðuna. Þannig er valin ein rannsókn, að því er virðist út frá óskhyggju og ekkert tillit tekið til annarra rannsókna, athugasemda, gagna eða gagnrýni. Óskhyggja og afneitun virðist ráða för, ekki leitin að því hvað stenst skoðun og hvað ekki.
  • Og varðandi viðkomandi atriði, svo því sé haldið til haga. Mér þykir verulega ólíklegt að það standist skoðun, en get ekki útilokað. Það er ekkert að því að nefna það til sögunnar og sjálfsagt að ræða sem möguleika – en það er bæði rangt og hættulegt að fullyrða eins og þáttastjórnandi gerir.

Með þessari nálgun má auðvitað sannfæra sig um hvað sem er, jörðin sé flöt og þar fram eftir götum.

Og það er auðvitað ekki vænlegt að byggja sína heimsmynd á því að vinna svona úr umræðum upplýsingum og fyrirliggjandi gögnum.

Að þora í flug

Posted: desember 30, 2021 in Umræða

Við vorum nokkrir á leiðinni til útlanda og vorum að klára að panta flug.

Einn í hópnum var ekki sannfærður um öryggið í fluginu. Hann hafði fundið JútJúb skot þar sem maður kynnti sig sem flugmann sagði stórhættulegt að ferðast með hefðbundnum flugfélögum. Hann gaf þá ástæðu að það væri repjuolía í stað bensíns í öllum flugvélum. JútJúb skotið endað svo á því að einhverjir sem virtust vera lögreglumenn réðust inn til hans og handtóku… þessi innrás og handtaka leit nú út fyrir að vera sviðsett, en ekki kannski hægt að fullyrða.

Við örstutta athugun kom í ljós að það var nú ekki beinlínis fótur fyrir fullyrðingum um repjuolíu. Þá strax kom í ljós viðkomandi var hreint ekki með flugmannspróf og jafnvel ekki hægt að staðfesta að hann væri yfirleitt til.

Sá sem hafði kynnt þetta til sögunnar taldi innrás lögreglu endanlega og óyggjandi sönnun þess að maðurinn hefði rétt fyrir sér. Hann gerði ekkert með augljósar sannanir um að kenningin um repjuolíuna gæti ekki staðist. Hann vísaði í greinar og tíst sem áttu að staðfesta tilvist mannsins… þær „upplýsingar“ voru einfaldlega einhverjir að vísa í hver í annan og í JútJúb skeiðið.

Þegar hann var beðinn um einhverja staðfestingu þá brást hann illa við og taldi það hlutverk okkar hinn að afsanna að maðurinn væri til.

Þá var dælt á okkur alls kyns undarlegum fullyrðingum um ofbeldi sem maðurinn átti að hafa orðið fyrir, aftur til sönnunar þess að hann hefði nú rétt fyrir sér. Við bentum á að þessar fullyrðingar stæðust nú ekki einfalda skoðun og væru í hrikalegu innbyrðis ósamræmi. Þá voru þessar sömu fullyrðingar augljóslega komnar frá CIA. Við nenntum ekki að spyrja hvers vegna CIA væri að standa á bak við þetta, eða réttara sagt, við höfðum ekki geð í okkur til að heyra svarið.

Í öllu falli við fórum út, komum heim heilu og höldnu. Hann sat eftir heima.

Gott og vel, það má taka tillit til þeirra sem hafa áhyggjur af mögulegum aukaverkunum vegna bólusetninga vegna Covid-19. En þetta er mjög fámennur hópur sem getur haft raunverulegar áhyggjur og sá fjöldi telur lítið.

Stóra vandamálið er alvarleg fáfræði og getuleysi til að vinna úr einföldustu upplýsingum.

Þarna er ansi fjölmennur hópur sem er ekki einungis að leggja eigin heilsu og jafnvel líf í hættu, sem væri kannski ásættanlegt, heldur fjölda fólks í kringum sig.

Ekki vegna góðra og gilda athugasemda.

Heldur beinlínis og bókstaflega vegna fullkomins getuleysis til að vinna úr einföldum upplýsingum og einhverrar undarlegrar óskhyggju / trúarofstækis.

Nú nýlega kom innlegg í umræður um gildi bólusetninga á Facebook… andstæðingur bólusetning tefldi fram máli sínu til stuðnings myndbandi frá einhverjum náunga. Ekki hafði viðkomandi fyrir því að kanna hvort viðkomandi talsmaður hefði einhverja sögu eða eitthvað staðfesti að hann væri sá sem hann sagðist vera. Og þegar nánar var skoðað virtist viðkomandi ekki einu sinni yfirhöfuð vera til! Og lykilinnihaldið í videó-langhundi var fullyrðing sem stóðst ekki einfalda skoðun.

Síðan komu alls kyns „fabúleringar“ máli hans til stuðnings, löggan átti að hafa truflað útsendinguna, sennilega sviðsett, hvort sem er, breytti engu um innihald fullyrðinganna.

Einhver vinkona/kærasta/eiginkona var tekin sem dæmi um að viðkomandi hefði látist í kjölfar „árásar“ lögreglunnar. Það voru reyndar svo margar ruglingslegar sögur sem hafðar voru eftir viðkomandi konu að andstæðingarnir töldu vænlegast að gefa í skyn að hennar innlegg væri komið frá CIA til að rugla málið. „Verst“ að þeir/þau gleymdu að þeir höfðu rétt áður vísað í þetta sjálf(ir) máli sínu til stuðnings.

Eftir stendur að besta sem andstæðingar bólusetninga gátu bent á var fyrirlestur frá einhverjum gaur sem sennilega er ekki til (amk. ekki sá sem hann segist vera) að halda fram einhverju sem stenst ekki 10 sekúndna skoðun.

Þegar bent var á þetta stjórnlausa og glórulausa rugl var síðasta vörnin,“þið þurfið að sanna að þetta sé ekki rétt“.

Fyrir það fyrsta, þá var búið sanna afdráttarlaust að þetta væri sannanlega rangfærslur sem stæðust ekki einfalda skoðun, komst ekki fram hjá fyrstu athugun.

Þar fyrir utan. það er hlutverk þess sem ber einhverjar fullyrðingar á borða að færa rök fyrir þeim og staðfesta, ekki annarra að afsanna. Það að geta ekki fundið neitt máli sínu til stuðnings og heimta að aðrir afsanni, er hin endanlega uppgjöf í rökræðum.

Þetta er auðvitað svolítið fyndið.

En þetta er líka óendanlega sorglegt.

Fullt af fólki er að leggja eigin heilsu og líf í hættu vegna, til dæmis, einhvers gaurs sem er ekki til að fullyrða eitthvað sem stenst ekki einfalda skoðun.

Og ekki bara eigið líf og heilsu, heldur allra í kringum þau.

Ég er ekki hlynntu skyldu bólusetningu, langt frá því.

En svona glórulaus þvættingur fær mann óneitanlega til að hugsa.

Ég var búinn að fallast á að fylgja þessu máli ekki frekar eftir, í kjölfar símtals frá starfsmanni embættisins, en sendi minn skilning á innihaldi þess símtals til að hafa þetta nú skriflegt. Ég taldi málinu þar með lokið. En svo brá við nú einhverjum mánuðum síðar að ég fæ hið undarlegasta bréf frá embættinu.

Eftir lestur bréfsins kemur ekki annað til greina hjá mér en að skipta um skoðun og fara fram á að erindi mitt verði skoðað efnislega í fullri alvöru.

Látum einhvern grautarlegan texta um lagalegt umhverfi embættisins liggja á milli hluta, aðallega einhvers konar lagatæknilegar réttlætingar á afskiptaleysi, þetta kemur erindi mínu efnislega ekkert við og ég hef ekki nokkurn minnsta áhuga á þessu.

Ég veit ekki hvaða tilverurétt þetta embætti á ef ekki að bregðast við erindum þar sem sterk rök eru leidd að mannréttindabrotum, rök sem hvergi hafa verið hrakin í samskiptum mínum við ráðuneyti eða embættið.

Þá er nefnt til sögunnar að kostnaður við að taka erindið fyrir yrði of mikill. Ég veit eiginlega ekki hvernig ég á að svara svona. Fyrir það fyrsta þá velti ég fyrir mér hvort það færi ekki jafnvel minni tími í að skoða erindið og afgreiða málið en það hefur hugsanlega farið í að skrifa þennan langhund. Hvort sem er, þessi áætlaði kostnaður getur varla talið mikið rekstri embættisins og getur varla skipti máli í samhengi við rangláta skattheimtu.

Það er kannski ekki furða þó íslensk stjórnvöld séu ítrekað „rassskellt“ af Mannréttindadómstól Evrópu ef svarbréfið er til marks um viðhorf til rökstuddra ábendinga um mannréttindabrot.

Ég óska þess að samskipti séu framvegis skrifleg óska jafnframt að fá að birta bæði svör embættisins og innihald símtalsins skriflega.

Við bókuðum okkur með góðum hóp fyrir nokkru á villibráðarhlaðborð hjá Silla kokk, sem átti að vera í gær.

En í ljósi þess að faraldurinn var kominn á flug var þetta slegið af en okkur boðið að sækja matinn. Það hentaði reyndar ekki öllum en við þáðum að sækja matinn og nokkrir gesta komu til okkar Iðunnar – ekki margir, öll bólusett, allir í sýnatöku og allir fóru varlega.

Fyrir það fyrsta, þvílíkur matur! Ég greip fyrsta forréttinn og hugsaði með mér, alltaf jafn heppinn, byrja á besta réttinum. En þeir sem á eftir komu voru einfaldlega hver öðrum betri. Fyrsta flokks hráefni, hugmyndarík matreiðsla og framsetningin til fyrirmyndar. Ég er enn, daginn eftir, að „kjamsa“ á sumum réttunum í huganum. Eini gallinn kannski við vorum ekki alltaf klár á hvað var hvað.. en skipti svo sem ekki öllu – matur getur, alveg eins og landslag [hvað svo sem skáldið sagði á sínum tíma] verið mikils virði þó nafnið sé ekki á hreinu.

En ekki síst vil ég þakka Silla og hans fólki fyrir að bregðast við af ábyrgð og finna lausn. Við stýrum ekki alltaf aðstæðum en við stýrum því hvernig við bregðumst við.