Myglan, Kári og smá tilraun

Posted: september 5, 2017 in Umræða
Efnisorð:,

Kári Stefánsson segir í grein í Fréttablaðinu að það sé algjörlega ósannað að mygla í húsum hafi áhrif á heilsu fólks, líkir þessu við draugatrú og talar stórkarlalega um vaxandi „iðnað“ – án þess að nefna nokkuð máli sínu til stuðnings að því leitinu.

Nú má vel vera að tenging myglu við heilsufar sé ekki læknisfræðilega sönnuð. Kannski eru upplýsingar WHO lítils virði og þeim „hollast“ að fara í endurmenntun?

Sbr. „This document provides a comprehensive review of the scientific evidence on health problems associated with building moisture and biological agents.“  WHO Guidelines

Ég er auðvitað ekki læknir og hef engar læknisfræðilegar sannanir fyrir áhrifum myglu í húsum á heilsu. Ég hef séð marga veikjast illa við að vera í húsum með myglu en halda góðri heilsu annars staðar, en ég geri mér grein fyrir að ekki eru allir jafn viðkvæmir.

Fylgnin er samt nokkuð mikil og ekki hefur verið bent á aðrar skýringar. Þannig leyfi ég mér að gera ráð fyrir að talsverðar líkur séu á því að mygla í húsum hafi áhrif á heilsu fólks. Ekki sannað. En talsverðar líkur.

Mér dettur samt í hug hvort einföld tilraun gæti skýrt málið að einhverju leyti, annað hvort sýnt mér fram á að tölfræðin standist ekki skoðun eða þá sýnt Kára fram á að þarna eru sannanlega tengsl.

Ég veit til að margir einstaklingar þola illa að fara í húsnæði þar sem mygla er til staðar og finna fljótt fyrir miklum einkennum.

Væri ekki góð hugmynd að framkvæma smá tilraun þar sem farið er með nokkra þeirra í eitt húsnæði á viku, í einhverjar vikur Auðvitað má ekki fara með viðkomandi í þekkt hús (nema leyna húsinu) og auðvitað má sá sem fylgir viðkomandi ekki vita hvort greinst hefur mygla í hvaða húsi.

Það þarf að skilgreina fyrirfram hversu marga einstaklinga þarf að prófa, hversu mörg hús þarf að heimsækja og hversu mikil fylgni þarf að vera á milli einkenna til að þetta teljist staðfest eða fullkomlega ósannað.

En er þetta ekki nokkuð einfalt?

Það sem meira er, Kári segir að þetta sé óþekkt annars staðar í heiminum, ef rétt er og ef staðfest fylgni kemur í ljós – er þá ekki komið verulega áhugavert verkefni fyrir erfðafræðina?

Eina vandamálið við þessa tilraun er að þeir sem hafa slæma reynslu af myglu gætu verið tregir til að taka þátt – en kannski er það til þess vinnandi, ef það myndi staðfesta málið á annan hvorn veginn.

Ég hef oftar en einu sinni og oftar en tvisvar verið spurður að því hvers vegna ég taki ekki eitthvert fólk mér til fyrirmyndar og leggi þannig grunninn að því að ná góðum árangri.

Nú væri ég að skrökva ef ég þættist hafa eitthvað á móti því að hafa það aðeins betra fjárhagslega. En ég hef enga sérstaka þörf fyrir að verða stjarnfræðilega ríkur.

Ég er samt reglulega spurður hvers vegna ég taki ekki ríka fólkið, fræga fólkið, viðskiptajöfrana og/eða frumkvöðlana (einhverra hluta vegna alltaf karlar) mér til fyrirmyndar… í því skyni að ná árangri.

Fari að hlaupa reglulega, stunda jóga, hugleiða og hella mér út alls kyns lífsspeki og / eða sjálfshjálparnámskeið.

Mér vefst gjarnan tunga um tönn við að útskýra hvers vegna ég hef ekki nokkurn áhuga á þessu. Að hluta til vegna þess að ég get það ekki nema kannski að gera lítið úr áhuga viðkomandi viðmælanda. En kannski aðallega vegna þess að ég efast um að ég myndi mæta nokkrum skilningi.

Þannig að, kannski ég reyni hér, í góðu tómi.

Í fyrsta lagi, þá hef ég bara ekki nokkurn minnsta áhuga á að vera eins og einhver annar.

Í öðru lagi, þá virðast þeir sem gjarnan eru nefndir til sögunnar, (Steve Jobs?) sem góðar fyrirmyndir, ekki hafa verið neitt sérstaklega geðfelldir einstaklingar, jafnvel nánast drepið sig úr hreinni heimsku.

Í þriðja lagi þá virðast flestir þeir, sem nefndir eru til sögunnar, hafa náð árangri áður en þeir fóru að hella sér út í að fylgja hvers kyns „lífsstílsstílspeki“, mögulega margir hverjir orðið fórnarlömb loddara sem finna sér fórnarlömb í nýríkum (kannski ekki bara nýríkum) einstaklingum.

Í fjórða lagi, þá eru einmitt milljónir manna einmitt að eltast við að herma eftir því hvernig viðkomandi einstaklingar virðast vera á yfirborðinu, án þess að ná nokkrum árangri.

En aðallega, þá hef ég enga sérstaka þörf fyrir að hugleiða, mér finnst fullkomlega tilgangslaust að tæma hugann, ég hef enga eirð í mér að ganga eða hlaupa bara til að ganga eða hlaupa.

Það er allt í góðu mín vegna ef aðrir finna sig í þessu – þetta er bara ekki fyrir mig.

Hnignun þekkingar

Posted: ágúst 13, 2017 in Spjall, Stjórnmál, Umræða
Efnisorð:, ,

Samsæriskenningar eru auðvitað eldgamlar og stöku sinnum hefur meira að segja verið fótur fyrir þeim. En þessi öld hefur að einhverju leyti litast af uppgangi samsæriskenninganna. Ellefti-september bauð auðvitað upp á alls kyns umræður og vangaveltur. Í kjölfarið var eins og margir ánetjuðust samsæriskenningunum… alls staðar voru samsæri, jafnvel þeir sem upphaflega voru fórnarlömb samsæranna voru nú hluti af þeim, þeir sem ruddu brautina (ef svo má að orði komast) voru hluti af einhverju samsæri. Það voru samsæri komin í hvert horn. Hlýnun jarðar var samsæri, að jörðin væri hnöttótt var samsæri, þoturákir á himni voru samsæri, CIA yfirtók heila fólks, Clinton (og ef ekki allur demókrataflokkur Bandaríkjanna) var kominn í barnavændi á pizzustað :), gott ef sami flokkur var ekki farinn að standa að því að láta myrða fólk, erfðabreytt matvæli voru (auðvitað) eitt stórt samsæri, bólusetningar að sjálfsögðu ekkert annað en samsæri – og ef annað var ekki boði þá voru einhverjir tónlistarmenn annað hvort þátttakendur í samsæri eða fórnarlömb [eins og hverjum sé ekki sama].

Þörfin fyrir næsta „fix“ af samsæri var nánast orðin óbærileg og allt var samþykkt möglunarlaust.

Ég er ekki frá því að þetta sé grunnurinn að ákveðinni heimskun kjósenda og þar af leiðandi upphafið að ákveðinni hnignun sem við erum rétt að fá forsmekkinn af.

Brexit og Trump eru fínasta dæmi um þetta. Ekki svo að skilja að þessar kosningar hafi beinlínis flotið á samsærum. En þeir sem unnu keyrðu á rangfærslum og lygum og fönguðu atkvæða þeirra fáfróðu og auðtrúa.

Þannig virðist dómgreind almennings hefur farið aftur, fólk samþykkir fullyrðingar ef þær eru settar fram í dramatískum YouTube myndböndum, „Photoshoppaðar“ myndir eru góðar og gildar, jafnvel hreinar og klárar lygar, hvers kyns dylgjur eru teknar sem staðreyndir, tíst eru staðreyndir, einföld mistök sannanir um yfirgripsmikil samráð, langsóttar tengingar eru endanlegar sannanir, óljósar getgátur góðar og gildar og fullyrðingar á bloggsíðum nefndar til sögunnar sem rök.

Efasemdir, leit að mótrökum, athugun á sannleiksgildi, einföld rökhugsun er látið liggja á milli hluta.

Þessi grunnur fáfræði og trúgirni eru nefnilega það sem hefur kostað okkur að fáfræðin hefur sigrað.

Og ég er smeykur um að þetta eigi eftir að versna.

Kyngreining úr íslensku

Posted: ágúst 12, 2017 in Umræða

Eflaust telst ég til gamaldags málverndunarsinna, er stöðugt að amast við slettum og leiðrétta málfar og benda á stafsetningarvillur [vonandi er þessi færsla í lagi!].

Og ekki geri ég lítið úr því að vilja halda fjölbreytileika og blæbrigðum í íslensku máli.

En mér dettur samt í hug hvort ekki sé ráð að fella niður kyngreiningu. Skiptir hún nokkru máli yfirleitt? Hvort einhver sé hann eða hún er í rauninni algjört aukaatriði.

Fótbolti og peningar

Posted: ágúst 4, 2017 in Fótbolti, Umræða

Það þarf svolítið mikið til að mér blöskri peningarnir í fótboltanum. En þrennt í þessari viku er að ganga fram af mér.

Ég hef gaman af fótbolta, þó ég sé reyndar ekki þessi dæmigerði heiti aðdáandi. Breiðablik er mitt lið hér heima, Derby á Englandi, með Arsenal til vara í efstu deild, Barcelona á Spáni… en hef nú ekki valið mér lið annars staðar. Aðallega hef ég gaman af að horfa á góðan fótbolta, hvort sem er að fylgjast með þessum liðum, fylgjast með stórmótum, leiki í Þýskalandi, bestu kvennaliðin – einfaldlega ef ég dett inn á skemmtilegan leik.

Ég fylgist með fréttum, kaupi Stöð2 Sport, fer öðru hverju á leiki erlendis og spila sjálfur einu sinni í viku yfir veturinn.

Tilboð upp á sextán þúsund fyrir miða á æfingaleik enskra liða hér á Laugardalsvelli er eitt, mögulegir peningar fyrir eitt íslenskt lið sem myndu brengla fótboltann hér heima og svo óskiljanleg upphæð fyrir einn leikmann.

Forsetalingurinn

Posted: júlí 25, 2017 in Stjórnmál, Umræða
Efnisorð:,

Ég held að ég viti hvernig einfaldast er að koma Trump frá..

Ef við skoðum aðeins ferilinn, þá eyddi hann óhemju orku í að búa til ímynd af sér sem öflugum og hörðum viðskiptamanni með því að gera einhverja „raunveruleika“ sjónvarpsþætti um sjálfan sig. Þetta virðist nú hafa verið ansi brengluð mynd af kjaftagleiðri en getulausri rolu sem spilaði rassinn úr buxunum með arfinn frá pabba.

Fyrstu mánuðir forsetatíðar hans einkennast af allt of lítilli athygli á tilskipanir, rasískar, heimskulegar, hættulegar heilsu, ívilnanir til þeirri ofurríku, skipun fábjána í lykilstöður, takmörkun á vísindarannsóknum, viðskipti við þá sem stunda gróf mannréttindabrot…

Að sama skapi virðist athyglin beinast að innihaldslausum kjaftagangi, stórkarlalegum yfirlýsingum, svívirðingum, yfirkeyrðum athugasemdum, sjálfsvorkunn, myndbrotum þar sem hann gerir sig að fífli, hver vill halda í höndina á honum (og hver ekki) og hvernig honum er heilsað.

Ég held nefnilega að mögulega hafi hann engan sérstakan áhuga á völdum og ég held að hann hafi ekki nokkurn minnsta áhuga á að Ameríka verði aftur „stórkostleg“ – veit reyndar ekki hvort hann tekur El Salvador, Síle og Kanada í þær pælingar.

Ég held að hann sé athyglissjúkur, forsetatíðin sé yfirkeyrður raunveruleikaþáttur og um leið og fólk missir áhugann þá hypjar hann sig burtu..

(ætli það sé ekki nauðsynlegt að gera enska útgáfu af þessari færslu?)

Flóttafólk, í samhengi

Posted: júlí 25, 2017 in Umræða
Efnisorð:

Ég skrifaði fyrir nokkrum dögum færslu um að það væri fínasta nálgun, þegar flóttafólk er annars vegar, að miða við hvernig við myndum kjósa að tekið yrði á móti okkur í svipuðum aðstæðum.

Kveikjan að þeirri færslu voru reyndar örfáir einstaklingar sem virðast hafa fengið einstaklega ómannúðlega meðferð hjá íslenskum stjórnvöldum. Einstaklingar sem eru búnir að koma sér fyrir og eru hluti af samfélaginu, einstaklingar sem eru jafnvel í lifshættu vegna skoðana / kynhneigðar ef við sendum þá úr landi.

Margar athugasemdirnar sem voru gerðar við færsluna snerust um fjöldatölur, skattpeninga og verklag við að taka á móti fólki. Sumar góðar og gildar, en höfðu í rauninni lítið með færsluna mína að gera. Ég ákvað að sleppa því að skýra betur að ég hefði nú verið með örfá þekkt tilfelli í huga, enda á hugsunin svo sem við í flestum tilfellum.

Ég fór svo að hugsa þetta í samhengi við þann sið fyrr á tímum hér á landi (og væntanlega víðar) að bjóða ferðalöngum gistingu. Oftast held ég að þetta hafi verið án endurgjalds – eða að minnsta kosti ekki verið gerð krafa um greiðslu.

Þetta var (að ég held) einhvers konar þegjandi samkomulag fólks í harðbýlu landi þar sem fólk varð einfaldlega úti ef ekki fékkst húsaskjól. Án þess að hafa sagnfræði eða tölfræði til taks þá þykist ég vita að þetta hafi verið nánast undantekningarlaus siður, enda flest þeirra sem veittu húsaskjóli oft sjálf í þeirri aðstöðu að þurfa að ferða og þiggja gistingu. Ekki var hægt að panta gistingu á vefnum, ekki einu sinni hægt að hringja og kanna mögulega gistingu.

Ég veit ekki til að bændur hafi til að mynda reiknað sér fyrirfram hvað þeir gætu tekið á móti mörgum.

Og ég hef ekki frétt af neinum sem lokaði húsum sínum alfarið vegna þess að annars yrði allt fullt af ferðalöngum.

Svona rétt til að setja hlutina í samhengi.