Ég sé (allt of) marga tala um að skila auðu í komandi kosningum eða jafnvel að mæta ekki á kjörstað.

Allt vegna þess að þeir finna ekki flokk sem er þeim nákvæmlega að skapi.. sem er auðvitað rétt, það er til dæmis ekki nokkur flokkur sem fellur nákvæmlega að öllum skoðunum mínum á sveitarstjórnarmálum.

En að sleppa því að kjósa einhvern þeirra tiltölulega hófsömu, „ráðsettu“ og „gömlu“ og þeirra sem eiga til dæmis fulltrúa í borgarstjórn… þetta eykur hlutfall þeirra sem eiga ekkert erindi í stjórn, og gefur þeim möguleika á að komast að. Kannski er hættan ekki mikil núna, en þetta er þróun sem þarf að varast.

Núverandi forseti Bandaríkjanna var kjörinn með atkvæðum 26,7% þeirra sem áttu rétt á að kjósa.

Til dæmis í Frakklandi [Bretland var ekki gott dæmi hjá mér í fyrri útgáfu færslunnar] hafa öfgaflokkar náð þingstyrk langt umfram fylgi kjósenda, sú þróun virðist reyndar vera að snúast við, en nokkuð dýrkeyptur lærdómur.

Og já, ég gef mér að harðir stuðningsmenn öfgaskoðana mæti frekar á kjörstað en þeir sem eiga erfitt með að gera upp hug sinn milli til dæmis gömlu flokkanna.

Þannig að fyrir alla muni, kjósið eitthvað annað en öfgaflokka, það er þess virði að greiða atkvæði gegn þeim.

Borgarstjórnarkosningarnar…

Posted: maí 12, 2018 in Umræða

Það er ekkert leyndarmál að ég styð Pírata í kosningunum til borgarstjórnar.

Þar skiptir auðvitað miklu að dóttirin, Alexandar Briem, er í þriðja sæti og á þokkalega góða möguleika á að komast inn. Þá spillir ekki að Dóra Björt er í fyrsta sæti, en Dóru Björt kynntumst við vel þegar hún var kærasta Viktors, sonar okkar. Og, ég hef fulla trú á öðrum sem eru ofarlega á lista og eiga möguleika á að ná kjöri.

Ég reyndar vil líka sjá Skúla Helgason ná kjöri fyrir Samfylkinguna… og geri ráð fyrir að þurfa ekki að hafa áhyggjur af því að hann nái kjöri.

En hvað með önnur framboð?

Sjálfstæðisflokkurinn kemur ekki til greina að þessu sinni, þó ég kunni ágætlega við Eyþór. En ég vildi óska að hann einbeitti sér að einhverju öðru en stjórnmálum. Það er talsvert atriði að vera læs á ársreikninga (og þeir sem eru það, mega ekki vísvitandi snúa út úr eða afbaka tölur), það er ekki í lagi að fara með fleipur af vanþekkingu, það er ekki gott að gefa rangar upplýsingar um menntun, það vekur upp spurningar að hafa á stefnu að gera eitthvað sem þegar er afgreitt, það er ekki traustvekjandi að geta ekki annað en tafsað sig fram úr einföldum, ítrekuðum spurningum og það er ekki gott að leggja áherslu á málefni sem ekki eru á verksviði borgarinnar… En aðallega er fullkomlega galið að vera að tengja sig við einhvern guð og að viðkomandi guð hafi valið sig..

Sósíalistaflokkurinn virðist einhver misskilningur eða tímaskekkja, forystumenn flokksins virðast ekki vita hvað hugtakið þýðir, „skapari“ flokksins (þrátt fyrir að vera oft skemmtilegur og koma með góða punkta) er nú ekki beinlínis trúverðugur í þessari sölumennsku. En ætli útslagið geri nú ekki hvað þau eru að boða arfavitlaus stefnumál, þetta minnir um margt á miðflokkinn, flokkurinn virðist verða til í kringum – annars ágætlega skemmtilegan einstakling – með þráhyggju fyrir að koma sjálfum sér á framfæri, vera ekki í neinum tengslum við þá sem þeir ætla að tala fyrir og ganga á ódýrum loforðum og innantómum slagorðum.

Alþýðuhreyfingin er ólíkt trúverðugri sem framboð þeirra sem minna mega sín. En ég er einfaldlega ósammála þeim í aðferðum til að bæta kjör almennings.. og ég óttast að þetta framboð geri lítið annað en að styrkja þá sem þau ætla nú væntanlega síst að styrkja.

Um Vinstri-græn gilda í rauninni svipuð rök, ég er einfaldlega ósammála þeim í mikilvægum atriðum og þó ég væri þeim sammála, þá væri trúverðugleikinn enginn eftir þátttöku flokksins í núverandi ríkisstjórnarsamstarfi.

Ekki veit ég hvaða erindi Miðflokkurinn telur sig eiga í sveitarstjórnir, flokkurinn virðist hafa verið stofnaður í kringum veruleikafirringu eins manns og burtséð frá því, þá er ég þeim einfaldlega ósammála í þeim málum sem þau hafa lagt áherslu á, reyndar ekki hlaupið að því að átta sig á stefnu flokksins í borginni, heimasíðan ákaflega fátækleg og af henni að dæma hafa þau lítið annað fram að færa en gatnamál og einhverja spítalaumræðu.

Það gildir eiginlega svipað um Framsóknarflokkinn, þau hafa reyndar losað sig við daðrið við kynþáttafordóma, eflaust ágætis fólk, en þau hafa ekki gert upp við fortíðina. Það litla sem birtist um stefnu flokksins er annars vegar tengt menntun og samgöngum, gera kennarastarfið eftirsóknarvert og raunhæfar lausnir í samgöngumálum er það sem þau hafa fram að færa. Gott og vel, ekkert hef ég á móti því, en á meðan ekki kemur fram hvernig þau ætla að ná þessum markmiðum þá er þetta einfaldlega fullkomlega verðlaust.

Höfuðborgarlistinn er mögulega grínframboð, en ég er samt ekki viss, en alls kyns stefnumál um atriði sem borgin hefur ekkert um að segja eru í besta falli stór undarleg og hugmyndir og yfirlýsingar sem virðast byggjast á mikilli vanþekkingu… nema auðvitað, að þetta sé grín… en ef svo er, þá er það heldur ekki að takast, – jú, eitthvað hefur verið lagfært síðan kynningin byrjaði, en kannski enn ruglingslegra.

Flokkur fólksins byggir á frekar undarlegum málflutningi, óskilgreindur hrærigrautur, vanþekking og virðast spila á einhverja tilfinningasemi frekar en að hafa eitthvað raunhæft fram að færa. Þarna virðist reyndar ágætis fólk að hluta, en einnig fólk sem látið hefur frá sér vanhugsaðan þvætting og ekki tekið í mál að leiðrétta.

Kallalistinn leit út fyrir að verða skemmtilegt framboð, en þeir hættu við.

Svo er víst eitthvað sem heitir „Karlalistinn“, ég hélt lengi vel að þetta væri sama og Kallalistinn, en ef ég skil rétt þá snýst þetta um baráttu feðra til að umgangast börn sín… sem er svo sem gott mál, en ég er ekki alveg að átta mig á framboðum með nánast eitt sérstakt málefni… málefni sem má vinna innan annarra framboða og á öðrum vettvangi – og á heima á landsvísu en ekki sveitarstjórnarstigi, þeas. þetta þarf að leysa þar.

Þá er eitthvert kvennaframboð sem virðist ekki hafa mikið fram að færa sem ekki væri hægt að vinna fylgi innan annarra framboða, enda frekar óljóst hvernig þau ætla að vinna málum fylgi sem þau ætla að beita sér fyrir – og taka kannski helst atkvæði frá þeim sem helst gætu unnið að þeim málstað… og vinna þannig í rauninni væntanlega gegn því sem þau tala fyrir.

Svo er eitthvað framboð sem kallast Borgin okkar, frekar fá stefnumál, stefnumál sem ætti að vera hægt að vinna að innan annarra framboða og stefnumál sem ég er ekki sammála – og aðalatriðið virðist hreinasta smáatriði.

Ég þarf vonandi ekki að skýra hvers vegna ég hef skömm á framboðum sem gera út á kynþáttafordóma.

Eru fleiri framboð????

Ég er aðeins að reyna að átta mig á þessu væntanlega offramboði af framboðum fyrir borgarstjórnarkosningarnar í Reykjavík.

Einhver þeirra eru nokkuð augljós grín framboð, önnur eru sennilega hálfri ef ekki heilli öld of seint á ferð, einhver virðast hafa þann tilgang einan að vekja athygli á sérmálum og svo eru þessi sem engin leið er að átta sig á hvort eru grín eða ekki.

Þessi sem ég átta mig ekki á hvort eru grín eða ekki eru með stefnumál um atriði sem borgin hefur engin umráð yfir og ekkert um að segja, þannig er ekki klárt hvort þau eru að reyna að vera fyndin eða eru að rjúka í framboð án þess að hafa grun um hvað þau er að tala um.

Þannig að… sko… ég hef ekkert á móti grínframboðum, en eitt er alveg nóg – og það þarf helst að vera svolítið fyndið.

Ég hef heldur ekkert á móti framboði sem byggir á ástríðu fyrir stefnu í stjórnmálum, en kannski þurfa sum þeirra að gera upp við sig hverju framboðið skilar. Sérstakt framboð sem leggur áherslu á fá mál en á samleið að miklu leyti með öðrum og er ekki líklegt til að ná nægilegu fylgi til að koma að fulltrúa… þannig framboð vinnur kannski í rauninni gegn megninu af þeim hugsjónum / hugmyndum sem þau ætla sér að vinna fylgi.

Þannig að, án þess að ég vilji gera (mjög) lítið úr réttindum allra til að bjóða sig fram… þá eru nokkur atriði:

  1. ef þetta er grín framboð, er þetta eitthvað fyndið?
  2. ef þetta er alvöru framboð, hafið þið einhverja þekkingu á því sem þið eruð að tala um?
  3. ef þetta er „sylluframboð“, getur verið að þið gerið meira gagn annars staðar og vinnið hugsjónum ykkar frekar fylgi þannig?

Bless Arsenal?

Posted: apríl 20, 2018 in Umræða

Eiginlega alveg frá því að ég byrjaði að fylgjast með enska boltanum þá hefur Derby County verið mitt lið, man ekki nákvæmlega, en stórsigur á (að mig minnir) Tottenham frekar en Liverpool var sýndur á RÚV og kveikti á einhverjum perum hjá mér.

Ég hreifst af Brian Clough sem knattspyrnustjóra og ástríðu hans fyrir góðum fótbolta.. og Derby var mitt lið. Það spillti ekki að þeir urðu óvænt Englandsmeistarar 1972. Og liðið endurtók leikinn 1975 þegar Dave Mackay var tekinn við sem knattspyrnustjóri.

Í öllu falli, þá hefur Derby verið mitt lið.. jafnvel þegar ég mætti í verslun í London að kaupa Arsenal dót fyrir vin okkar og spurði í leiðinni hvort þeir væru ekki með eitthvað tengt Derby.. og fékk svarið „We only do football, mate“.. þá eru þeir mitt lið í enska boltanum. Ég sá reyndar í fyrsta skipti leik með þeim fyrir þremur árum, á útivelli á móti Leeds United. Leikurinn var sá síðasti á tímabilinu og skipti engu máli, bæði lið með endanlegt sæti. En það var vel við hæfi, Leeds voru erki óvinirnir á fyrri hluta áttunda áratugarins, þeirri sögu voru gerð fín skil í mjög vel heppnaðri kvikmynd, „The Damned United“.

Sem sagt, á meðan Derby hefur verið að dóla sér í neðri deildum eða verið að setja met í slökum árangri í efstu deild, þá þurfti ég auðvitað lið til að halda með í efstu deild. Um tíma var Nottingham Forest „varaliðið“ mitt (enda Brian Clough stjóri liðsins), Manchester City í stuttan tíma, en svo tók Arsenal við.

Arsenal undir stjórn Arsene Wenger smellpassaði, hugmyndafræðin og ástríðan fyrir skemmtilegum fótbolta var eitthvað sem ég kunni að meta. Hvort Arsenal vann einhverja titla (eða ekki) var hálfgert aukaatriði fyrir mig, félagið sem slíkt skipti mig nákvæmlega ekki nokkru máli – það var kannski helst að ef liðið næði árangri með því að spila góðan fótbolta þá væri það hvetjandi fyrir önnur lið.

Þannig að um leið og Arsene Wenger er farinn þá er mér slétt sama um hvernig Arsenal gengur… nema kannski/mögulega/hugsanlega þeir finni einhvern annan með sambærilegar hugmyndir.

Ég hef aldrei skilið fólk sem kallar sig stuðningsmenn félagsins en stendur í því að níða niður knattspyrnustjórann, stjóra sem hefur gert félagið að stórveldi og skilað ótrúlegum árangri á yfir tutttugu ára ferli. Og ég held að ég gæti seint verið hluti af stuðningsmönnum félags þar sem stór hluti stuðningsmanna kemur fram við Wenger eins og þeir hafa gert síðustu ár.

Fyrst var kvartað yfir að liðið ynni enga titla, þrátt fyrir að hafa náð meistaradeildarsæti reglulega í tuttugu ár… svo vinnur félagið þrjá stóra titla á fjórum árum og en missir eitt árið af meistaradeildinni, þá skipta titlarnir engu máli, heldur bara að vera í meistaradeildinni.

Wenger er skammaður fyrir að kaupa enga leikmenn, svo kaupir hann nokkra fyrsta flokks leikmenn… aftur er hann skammaður, fyrir að kaupa ekki rétt, fyrir að kaupa ekki enn meira. Endalaus kaup meðaljóna á yfirverði eru ekki endilega alltaf lausnin að árangri, eins og dæmin sanna.

Getur verið að viðhorf stuðningsmanna sé vandamálið? Getur verið að leikmenn vilji fara annað þegar hluti stuðningsmannanna er í stöðugu stríði gegn félaginu? Getur verið að þetta umhverfi verði til að það vanti eitthvað upp á viljann til að leggja sig fram?

Ætli sama lið og kvartar og kveinar núna verði ekki farið að heimta Wenger aftur eftir hálft ár.

En þá er bara að vonast til að Derby County hafi það loksins af að komast aftur upp í úrvalsdeildina. Ef ekki, þá eru Manchester City auðvitað að spila frábæran fótbolta og hugmyndafræði Guadiola eitthvað sem ég kann að meta… en bakgrunnurinn (eigendurnir) trufla mig. Tottenham eiga til að spila flottan fótbolta, en ég hef ekki mikla trú á að það endist. Liverpool spilar stórgóðan bolta á góðum degi, en ég held að ég geti aldrei haldið með því félagi. Svo eru sögusagnir um að Wenger taki við Everton… það gæti auðveldlega verið fínasti kostur.

Þegar ljóst var að karlalandslið Íslands í fótbolta átti möguleika á að komast á HM í sumar var ég í fyrstu ekkert á því að fara. Svo þegar þetta varð raunverulegra varð áhuginn smám saman meiri og eftir að liðið tryggði sér þátttöku var ég orðinn mjög spenntur. Ekki minnkaði spennan við að eiga möguleika á að sjá þá spila við Argentínu á HM. Þannig að við sóttum um miða.

En svo fóru að renna á okkur einhverjar grímur, að hluta til þær sömu og áður en þetta varð raunhæft.

Og á endanum drógum við umsóknina okkar til baka.

Fyrir það fyrsta þá fórum við á alla leikina í riðlakeppninni á EM í Frakklandi. Virkilega gaman að upplifa þetta, stemmingin einstök og ekki spillti árangurinn fyrir.

En við erum búin að horfa á liðið spila á stórmóti, vissulega ekki HM, en samt…

En aðal ástæðan fyrir að við hættum við er nú eiginlega að mér líkar ekkert sérstaklega vel við það sem er að gerast í Rússlandi. Gott og vel, það má eflaust benda mér á tvöfeldni og ekki er ég alveg með á hreinu hvar ég dreg mörkin.

Ég veit ekki hvar ég á að byrja eða hvernig ég á að útskýra almennilega. Það eru ekki bara stjórnvöld, hegðun þeirra gagnvart öllum sem voga sér að gagnrýna, árásir á blaðamenn, nýlegar breytingar á lögum sem leyfa heimilisofbeldi, fordómar gagnvart fólki vegna kynhneigðar… og ekki bara frá stjórnvöldum – heldur virðist vera nokkuð mikil sátt um þetta í samfélaginu.

En ætli dropinn sem fyllir mælinn sé ekki stuðningur við Assad og fjöldamorð Sýrlandsstjórnar á eigin borgurum, notkun efnavopna gegn almennum borgurum. Ég veit ekki hver eitraði fyrir Skripal og það myndi telja frekar lítið í þessu samhengi þó það sannaðist endanlega að Rússar hefðu staðið á bak við það.

Kannski skipti ég um skoðun þegar nær dregur, kannski vegur stuðningurinn við frábært íslenskt landslið þyngra þegar á reynir, mögulega afsaka ég það með að þetta sé FIFA en ekki Rússland sem stendur fyrir mótinu, það er ekki útilokað að eitthvað breytist í Rússlandi (hversu yfirborðskennt sem það verður og væntanlega til þess eins að bjarga andlitinu fyrir HM). Og kannski langar mig einfaldlega þegar þar að kemur.

Ég styð dótturina, Alexöndru Briem, (að sjálfsögðu) í prófkjöri Pírata fyrir borgarstjórnarkosningarnar í vor. Ekki bara vegna þess að hún er dóttir mín, heldur einfaldlega vegna þess að hún á fullt erindi í borgarstjórn.

Þetta er ekki flókið, hún er málefnaleg, sem þýðir að hún kynnir sér málefni áður en hún tekur afstöðu og hlustar á rök með og á móti.

Hún er dugleg, hefur unnið gríðarlega gott starf fyrir Pírata, störfin þar eru gott dæmi um að hún kemur hlutum í verk og klárar þau verkefni sem þar að vinna.

Heiðarleg og vill leggja sitt af mörkum til að skapa betra samfélag.

Sem sagt, allt sem við þurfum á að halda hjá þeim sem við viljum að vinni fyrir okkur.

Nú er það reyndar þannig að það er mikið úrval af góðu fólki í framboði í prófkjörinu og ég hvet alla til að kynna sér frambjóðendur og taka þátt.

Haukur og íslensk stjórnvöld

Posted: mars 18, 2018 in Umræða

Ég hef séð nokkuð miður skemmtilegar athugasemdir á samfélagsmiðlum um það hvort íslensk stjórnvöld eigi að vinna að því að fá svör við því hvað kom fyrir Hauk Hilmarsson.

Ég hef nánast fullkomna skömm á þeim ummælum þar sem hvatt er til að stjórnvöld og stofnanir sleppi því að vinna í málinu… ég næ ekki almennilega að koma orðum að því hvað ég ber litla virðingu fyrir fólki sem sýnir algjöran skort á samúð í svona aðstæðum.

Burtséð frá því hvað okkur finnst um ákvarðanir Hauks – sem virðist hafa ákveðið að berjast fyrir sjálfstæði þjóðar sem er ofsótt svo að jaðrar við þjóðarmorð, í umhverfi þar sem ekki fæst betur séð en að hafi verið mjög áhugaverðar tilraunir við mjög erfiðar aðstæður að skapa samfélag sem byggir á þeim grunnhugmyndum sem flestum okkar þykja góðar og gildar – og burtséð frá því að ég efast um að þeir sem gagnrýna ákvörðun hans hefðu gagnrýnt ákvörðun Íslendings að berjast með bandamönnum í seinni heimsstyrjöldinni.

Sem sagt, gefum okkur, umræðunnar vegna, að ákvarðanir hans hafi verið „heimskulegar“, jafnvel „glórulausar“, og skoðum aðeins betur.

Gildir þá það sama um einstakling sem veður illa undirbúinn á fjöll? Einstakling sem fer vel undirbúin í fjallgöngu þar sem vitað er að grjóthrun getur verið lífshættulegt? Einstakling sem fer í borgarhluta erlendrar stórborgar þar sem vitað er að glæpatíðni er há og ferðamenn eru skotmörk? Einstakling sem fer sér að voða á ferðalagi eftir neyslu vímuefna? Einstakling sem keyrir ekur eins og vitleysingur og slasar sig? Einstakling sem fer út á vatn (eða sjó) án þess að gá til veðurs og týnist? Einstakling sem fer í gönguferð án nauðsynlegs búnaðar?

Væru svörin alltaf, „nei, íslenska ríkið á ekki að eyða skattpeningunum mínum í að aðstoða fólk sem tekur heimskulegar ákvarðanir“? Eða er þetta eingöngu sjónarmið í þessu ákveðna tilfelli vegna þess að viðkomandi eiga erfitt með að skilja ákvörðunina?

Jafnvel þó við gæfum okkur að ekki sé ástæða til að aðstoða einstakling í þessari stöðu (sem ég er aftur fullkomlega ósammála, en skoðum aðeins nánar) þá snýst þetta ekki síst um aðstoð við aðstandendur, fjölskyldu, vini og kunningja. Hvað sem fólki finnst um ákvarðanir viðkomandi einstaklings, þá hefur þetta fólk ekkert til saka unnið, ekki tekið neinar „heimskulega“ ákvörðun og á ekki annað skilið en að við aðstoðum eftir bestu getu.

Að einhverju leyti minnir umræðan á þá sem halda því fram að ekki eigi að hjálpa eiturlyfjafíklum vegna þess að þeir beri sjálf ábyrgð á sínum ákvörðunum og eigi ekkert annað skilið en að taka afleiðingunum. Þeir sem helst halda þessu á lofti finnst samt sjálfsagt að samfélagið hjálpi þeim sem hafa farið sér að voða og tapað heilsu á reykingum, áfengisneyslu, óhollu mataræði, hreyfingarleysi, óundirbúnu fjallarápi, glæfraakstri… svo ég nefni einhver dæmi.

Kannski eru þetta að einhverju hluta til varnarviðbrögð, mögulega er fólk að styrkja sig í að telja sér trú um að svona nokkuð komi nú ekki fyrir sig.

Áður en þið slengið fram heimskulegum athugasemdum og vanhugsuðu skítkasti á samfélagsmiðlum… hugsið, þið gætuð þekkt eða verið skyld næsta einstaklingi sem þarf aðstoð.

Og gott og vel, líkurnar á að hann sé enn á lífi, jafnvel í haldi Tyrkja, eru kannski hverfandi, en á meðan þær eru einhverjar og á meðan ekki fást skýr svör… þá er það auðvitað skylda íslenskra stjórnvalda að krefjast svara.