Hrun – grýlan

Posted: desember 16, 2017 in Umræða
Efnisorð:

Það er varla svo að ég hlusti á fréttatíma án þess að verið sé að gefa í skyn að við stefnum að öðru hruni. Alls kyns fréttir, nú síðast um borðplötur, og umræður um miklar eignir eiga að finna líkingu við tímana fyrir hrun. Og gefa þannig í skyn að við getum átt von á öðru hruni.

Er þetta ekki svolítið eins og að reyna að spá fyrir úrslitum fótboltaleikja út frá veðrinu?

Svo langt sem ég man, þá varð hér hrun vegna innihaldslaus vaxtar bankakerfisins, útrásar þar sem peningum var dælt í íslensku bankana, meðal annars vegna loforða sem engin leið var að standa við… eflaust hjálpaði ekki tilfærsla eigna úr bönkunum. En er eitthvað líkt þessu í gangi? Og ef ekki, er einhver ástæða til að óttast sérstaklega að komið sé að næsta hruni?

Ég er amk. orðinn svo gamall að ég hef oft séð efnahagslegan uppgang án þess að honum fylgi hrun.

Auðvitað er ég enginn hagfræðingur og auðvitað getur vel verið að næsta hrun sé handan við hornið… en ég er ekki að kaupa að þessar upplýsingar bendi til þess.

Gervigreind

Posted: desember 7, 2017 in Spjall, Umræða

Síminn minn vakti mig, hálftíma fyrir pantaða „vakningu“, með því að byrja að spjalla.. benda mér á að það væri heiðskýrt og kjörið að fara í „lautarferð“ (picnic).

Ég var kannski ekki alveg á því í 5 gráðu frosti sem samvarar 12 gráðum með vindkælingu. Hefði jafnvel ekki verið spenntur þó það væri ekki vinnudagur.

Ég ætla manna síðastur að gera lítið úr þeim óþrjótandi möguleikum sem tæknin býður upp á, en að gervigreind sé að fara verða til þess að tækin taki yfir… æ, ég held að við eigum eitthvað í land með að fara að óttast það fyrir alvöru.

Gott og vel, auðvitað á maður ekki að draga of stórar ályktanir út frá einu tilfelli, en þetta á að vera nokkuð „vel til slípað“ og mjög vel prófað forrit.

Farinn á rétt tímabelti…

Posted: nóvember 26, 2017 in Umræða
Efnisorð:,

Ég nenni eiginlega ekki að bíða eftir að einhverjum starfshópum og rannsóknum og að umræðum ljúki sem sýni að klukkan okkar sé vitlaus… þetta er þekkt staðreynd.

Þannig að ég er farinn á rétt tímabelti og með rétta klukku… tíminn er sem sagt UTC -1:00 – ef einhver vill til að mynda hitta mig á hádegi, biðja um að hitta mig klukkan 13:00 GMT.

Ég sé að þetta tímabelti er stundum kallað „Nóvember“, en er ekki einfaldast að kalla þetta RÍT (réttur íslenskur tími)?

Hverjir eru með??

Eitt mesta stemmingslag frá upphafsárum punk-tímabilsins var lagið If The Kids Are United með Sham 69.

Ég man eftir að fara í fyrsta skipti til London haustið 1978 með Hálfdáni, Hákoni og Stebba. Fyrsta lagið sem við heyrðum þegar við kveiktum á útvarpinu á hótelinu okkar, YMCA við enda Oxford Street, var Sunday Morning Nightmare – Stebbi orðaði það eitthvað á þá leið að nú væri heldur betur búið að „hringja til messu“. Frábært lag, en þetta var bara B-hliðin á lítilli plötu – á hinni hliðinni var aðallagið, If The Kids Are United.

Við hlustuðum talsvert á Sham 69, reyndar aðallega litlar plötur, og við Fræbbblar spiluðum lagið Hurry Up Harry á fyrstu mánuðum ferilsins.

Þegar við tókum svo upp á því fyrir nokkrum árum að minnast upphafsára punksins – meðlimir Fræbbblanna og margra annarra hljómsveita sem voru að spila á þessum árum – þá var If The Kids Are United lokalagið (Fivebellies tóku líka Borstal Breakout).

Sham 69 spila á Gauknum næsta föstudagskvöld, 17. nóvember… við Fræbbblar verðum með, líka Leiksvið Fáránleikans og Roð…

Frábært!

Sham69B

Ég hef lengi lagt áherslu á að við fáum betri stjórnarskrá, eiginlega alveg síðan á níunda áratug síðustu aldar. Ég hef svo sem marg oft skýrt hvaða gallar eru á núverandi stjórnarskrá og ekki fengið nein svör um hvers vegna ekki má bæta úr þeim. Ég hef frekar heyrt eitthvað svona almennt um að þetta skipti nú ekki svo miklu máli og önnur verkefni eigi að hafa forgang. Píratar, sem ég styð í kosningunum, hafa setið undir svipaðri gagnrýni, að þau leggi of mikla áherslu á stjórnarskrána.

Og það er svo sem rétt, það eitt að breyta stjórnarskránni gerir ekki mikið í sjálfu sér, en það er bæði nauðsynlegur grunnur að betri stjórnsýslu og stjórnmálum – og kannski ekki síður yfirlýsing um breytt hugarfar.

Það má kannski líkja þessu við gatnakerfi. Ímyndum okkur að við hefðum í flýti þurft að taka gatnakerfi frá dönum 1944, gatnakerfi sem væri hannað fyrir þeirra flatlendi og tæki tillit til lestarkerfisins þeirra. Síðan hefði nokkrum útskotum verið bætt við en aldrei hefði mátt endurskipuleggja með tilliti til annars landslags, breyttra aðstæðna, breyttra sjónarmiða og/eða breyttra tækja. Ekki mætti hugsa fyrir göngu- eða hjólastígum frekar en breyttum sjónarmiðum í mannréttindamálum. Ekki mætti gera fjallvegi sómasamlega úr garði, frekar en að það mætti tryggja eignarhald og arð auðlindanna.

Betra gatnakerfi eitt og sér hjálpar ekki til að umferðin gangi greiðlega en það er samt nauðsynlegur grunnur.

Á meðan ríghaldið er í gamla gatnakerfið af forpokun og án nokkurra raka.. þá höldum við áfram að keyra út í skurð.

u íAð einu leyti, amk., erum við með afleitt kosningakerfi. Og því valda þröskuldarnir. Það eru auðvitað engin málefnaleg rök fyrir því að kjósendur framboðs sem nær 4,9% fylgi fái engan fulltrúa en framboð með 5,0% fái 3 fulltrúa? Sama gildir um undarleg hlutföll við styrki vegna framboðanna.

Ég vildi óska þess að ég gæti ráðlagt fólki að kjósa eftir sannfæringunni.

En raunveruleikinn er sá að það er verið að velja fulltrúa á þing… og þá er afskaplega lítils virði að hafa lýst óánægju með að skila auðu, gera ógilt eða kosið framboð sem ekki eiga möguleika. Það styrkir þá sem flestir hinna kjósa og það færir völd til þeirra sem kannski síst skyldi.

Þetta er kannski svolítið eins og að fara á veitingastað og velja mat sem er ekki á matseðlinum eða ekki er hægt að afgreiða… þú getur farið á (segjum) Hard Rock, staðið á þínu og lýst yfir að þú viljir nú bara slátur eða þorláksmessuskötu um hásumar – og þú getur staðið á því að þetta sé þitt val… en ef þú ert ekki raunsær þá ferðu svangur/svöng heim.

Um leið og ég bið góða vini og félaga – sem eru í framboði og eiga allt gott skilið – afsökunar – en það er mikilvægt að hafa áhrif á skiptingu þingsæta..

Eftir „skuldaleiðréttinguna“ sá ég staðfærðan brandara þar sem forsætisráðherra hafði tekið upp veskið og var að dreifa peningum til hóps af fólki. Einn í hópnum var yfir sig ánægður með forsætisráðherrann, „sjáið, hann er að gefa okkur peninga!“… en félagi hans við hliðina benti honum á „já, en hann er með veskið þitt…“.

Fyrir kosningarnar 2013 var kjósendum lofuð einhvers konar „skuldaleiðrétting“, gott ef hún átti ekki að koma „strax“, en „strax“ varð svo strax teygjanlegt hugtak. Seint og um síðir þegar eitthvað komst í verk, var stór hópur fólks svikinn og aðrir fengu gjöf úr ríkissjóði.

Nú vantar stærri loforð til að ganga í augun (veskið) á kjósendum.

Ein hugmyndin er að kaupa banka af kröfuhöfum, með eignum ríkissjóðs, fyrir óskilgreint verð… og gefa svo landsmönnum hluta þess.

Það er svo margt rangt við þetta að ég veit ekki hvar ég á að byrja.

Á meðan ríkissjóður skuldar er fáránlegt að fara í einhvers konar spákaupmennsku í eignarhaldi á banka, peningunum er alltaf betur varið í að greiða niður skuldir. En fólk er svo tilbúið í að láta blekkja sig að jafnvel varfærnasta fólk sem talað hefur fyrir mikilvægi þess að greiða niður skuldir er allt í einu farið að tala um að skuldir ríkissjóðs séu nú ekki svo miklar – 2016 voru vaxtagjöld ríkissjóðs 70.388 milljónir!

Gott og vel (nei, engan veginn gott og vel) en samt. Ef skuldirnar þykja ekki svo stórvægilegar, þá eru næg verkefni sem ekki hafa verið peningar til að leysa, heilbrigðiskerfið, menntakerfið, kjör aldraðra… ég þarf varla að telja upp meira. En nú er aðalmálið að nota eignir ríkissjóðs til að kaupa banka!

Ein lýsing á hugmyndinni er að nýta forkaupsrétt ríkissjóðs á bankanum… einn gallinn virðist vera að foringinn sem virðist vera að reyna að kaupa þingsæti með loforðinu virðist sjálfur hafa samið þennan forkaupsrétt af ríkissjóði.

Þar fyrir utan, hvers vegna ætti þjóðin að vilja eiga banka? Er ekki nær að láta þá sem vit hafa á bankarekstri eiga og reka banka – skattleggja hressilega og fá þannig tekjur í ríkissjóð – sem kannski nýtast almenningi betur en eitthvert hlutabréf í einum bankanna.

Er dreift eignarhald banka eftirsóknarvert? Ég hef engin rök séð sérstaklega fyrir því en ef svo er, er þá ekki um að gera að setja lög sem skýra eignarhald banka? Því það að gefa eignarhlut til almennings gæti allt eins orðið til að flestir selji sinn hlut strax og bankinn verði ekki lengur í dreifðri eign… það eru reyndar dæmi um þetta.

Og ef og ef og ef… það er eftirsóknarvert að bankarnir séu í dreifðri eign og besta aðferðin til þess að er að gefa almenningi eignarhlut… hvers vegna nægir ekki sá banki sem ríkissjóður á þegar?

Er mögulegt að þessi skyndilegi áhugi á að kaupa banka af kröfuhöfum – aðgerð sem hækkar væntanlega verð bankans – hafi eitthvað með það að gera að það eru einhverjar líkur á að viðkomandi stjórnmálamaður, sé sjálfur einn af kröfuhöfunum og fái þannig hærra verð fyrir sinn hlut?

En um að gera að stilla þessu upp til að ganga í veskið / augun á kjósendum… en í rauninni er verið að ganga í veski kjósenda.