Archive for the ‘Trú’ Category

Biskup virðist telja að prestar ríkiskirkjunnar eigi að hafa eitthvað sem þau kalla „samviskufrelsi“ til að brjóta lög og hunsa mannréttindi.

Þetta samviskufrelsi virðist bara hanga á einu atriði biblíunnar, þeas. samkynhneigð.. en ég veit ekki til að prestar hafi „samviskufrelsi“ til að brjóta lög eftir bókstaf biblíunnar að öðru leyti, kannski er þetta mín vanþekking.

En það gengur augljóslega ekki að ríkiskirkjan sé ríki í ríkinu og ákveði að fara eftir sínum „sharia“ lögum þegar henni hentar.

Þess vegna legg ég til að söfnuður sem ekki lýsa því afdráttarlaust yfir að þeir fari í einu og öllu að lögum fái ekki krónu úr ríkissjóði.

Leiðtogaleysi okkar trúleysingja

Posted: júlí 31, 2015 in Trú
Efnisorð:

Síðustu daga hef ég hef aðeins orðið var frekar hjákátlegar tilraunir til að skjóta á og gera lítið úr öllum trúleysingjum með því að vitna til (ætlaðra) heimskulegra skoðana þekktra trúleysingja, þegar kemur að konum / kvenréttindum. Ég segi „ætlaðra“ vegna þess að ég hef ekki haft fyrir því að kynna mér málið, mér er svo slétt sama um það hvort viðkomandi einstaklingar hafa gamaldags, fáránlegar og/eða heimskulegar skoðanir. Það kemur mér ekki við.

En ansi margir trúaaðir virðast halda að þeir geti komið einhvers konar höggi á trúleysingja almennt með því að klifa á þessu. Til að mynda er einn (annars ágætur) prestur að dæla þessu inn á Facebook.

Það er búið að marg segja og útskýra í bak og fyrir að viðkomandi einstaklingar séu ekki leiðtogar eða fyrirmyndir eða neitt slíkt hjá okkur trúleysingjum.

En dælan heldur áfram og áfram… Kannski til að endurtaka lygina vísvitandi og nægilega of til að einhver trúi. Kannski skilja viðkomandi ekki það sem er búið að útskýra margsinnis fyrir þeim.

En svo fór ég að hugsa hvort skýringin gæti verið önnur.

Kannski er eitthvað sem verður til þess að trúaðir ná ekki þessari hugsun – að einhver geti haft skoðun án þess að þurfa einhverja einstaklinga, lífs eða liðna, ímyndaða eða raunverulega til að standa fyrir skoðanirnar.

Kannski er ákveðið samhengi milli þess að vera trúaður á sinn leiðtoga og geta ekki fyrir sitt litla líf skilið að aðrir eru ekki þannig.

Kannski skýrir það líka þessa eilífu fullyrðingar að trúlausir séu nú bara samt trúaðir líka, hvað sem þeir segja sjálfir.

Ég velti fyrir mér hvort þetta sé einhver líffræðileg takmörkun, eða eitthvað í uppeldinu..

Þetta er ekki illa meint (þó eflaust taki einhverjir þessu þannig).. ég get bara ekki skilið þessa þráhyggju hjá annars vel meinandi og að öðru leyti bráðgreindu fólki.

Mér var bent á undarlega athugasemd frá greinarhöfundi sem margir líta upp til..

Tilefni athugasemdarinnar virtist að gagnrýna þrasgirni og dómhörku.

En athugasemdin sjálf var einmitt þetta, dómharka, tilefnislaust þras – að ónefndum sleggjudómum, uppnefnum, fordómum, að ónefndu fullkomnu skilningsleysi á tilefninu.. jæja, gott og vel, kannski er ekkert fullkomið.

Fyrsta hugsun var, hvílík endemis hræsni.

Næst, ekki bara hræsni, heldur lekur yfirlætið og sjálfumgleðin af þessum skrifum.

Svo.. já, auðvitað.. hann er að grínast, þetta er einhvers konar gjörningur, hann er að benda á þrasgirni og dómhörku með því að skrifa sjálfur þannig athugasemd, sýna í verki hvernig fólk getur misst sig í vitleysunni. Kannski bara gott hjá honum. Verst að allt of margir taka þessu bókstaflega.

En, nei, sennilega ekki, höfundurinn hefur nefnilega verið ákafur talsmaður ákveðinnar ríkisstofnunar og verið á vaktinni og tilbúinn að gagnrýna alla sem voga sér að viðra aðrar skoðanir en stofnuninni þóknast. Einhver myndi segja „sígjammandi varðhundur ríkisrekinnar valdastofnunar“ en mér dettur það ekki í hug, enda kurteis að eðlisfari.

Að öskra til að hafa rétt fyrir sér

Posted: apríl 18, 2015 in Trú
Efnisorð:

Það er frekar hvimleið nálgun þeirra sem hefur ekki tök á að rökræða málefnalega að halda að með því að öskra og/eða endurtaka rangfærslur nægilega oft þá leiði það sjálfkrafa til þess að hafa rétt fyrir sér.

Svona virkaði umræðan um trúboð í skólum fyrir síðustu jól á mig – ég ákvað að doka aðeins við með að birta þessa samantek, stilla fram í tímann (ég verð væntanlega búinn að gleyma þegar þar að kemur).

Ég vil að börn fræðist um trúarbrögð, sögu og hefðir á forsendum skólans sem menntastofnunar.

ÞÚ VILT BARA BANNA ALLA FRÆÐSLU UM TRÚMÁL!!!

ÞÚ VILT BARA BANNA BÖRNUM AÐ FARA Í KIRKJU!!!

ÞÚ VILT AÐ BÖRNIN ÞEGI ALLA DAGA Í SKÓLANUM!!!

ÞÚ VILT BANNA AÐ NEFNA JESÚ Á NAFN Í SKÓLANUM!!!

ÞÚ ERT Á MÓTI JÓLUNUM!!!

Ég held að sjálfsögðu upp á jólin þó ég sé trúlaus, enda jólin miklu eldri en kristnin.

ÞÚ ERT Í STRÍÐI VIÐ JÓLIN!!!

ÞÚ ERT BARA FÝLUPÚKI UM JÓLIN!!!

Það eru allt of mörg dæmi um trúboð presta sem hafa fengið skólabörn í heimsókn – þeir kalla trúlausu börnin í hópnum jafnvel heimskingja.

ÞAÐ GERIR BÖRNUM BARA GOTT AÐ FARA Í KIRKJU!!!

HELDURÐU AÐ PRESTURINN STUNDI TRÚBOÐ Í KIRKJUNNI?!?!

ÉG FÓR EINU SINNI Í KIRKJU OG ÞAÐ GERÐI MÉR EKKERT ILLT!!!

Kirkjan er til þess að gera nýlega farin að sækjast í að fá aðgang að skólabörnum á skólatíma

ÞAÐ ER GÖMUL HEFÐ AÐ BÖRNIN FARI Í KIRKJU Í SKÓLANUM!!!

VIÐ ERUM KRISTIN ÞJÓÐ!!!

Jæja, það þýðir víst lítið að ræða þetta.

Nokkuð að frétta af fjölskyldunni?

ÞÚ VILT BANNA ALLA FRÆÐSLU UM TRÚMÁL!!!

ÞÚ ERT Í STRÍÐI VIÐ JÓLIN!!!

VIÐ ERUM KRISTIN ÞJÓÐ!!!

Nýlega sagði vinur minn við mig að líf mitt væri eins og tóm tunna vegna þess að ég tryði ekki á guð.

Þetta er auðvitað fráleitt.. þvert á móti þarf ég ekki á einhverjum óskilgreindum, tilbúnum yfirnáttúrulegum verum til að líf mitt hafi gildi. Það er bara nokkuð fínt eins og það er – gott og gilt sjálfs sín vegna.

Mér hefur hins vegar þótt það æði nöturleg tilhugsun að geta ekki lifað góðu lífi nema hengja sig í tilbúnar verur og mögulegt framhaldslíf. Þetta hlýtur að vera skelfilegt.

Kannski minnir þetta að einhverju leyti á konuna sem keypti happdrættismiða til að vinna stóra vinninginn og byrjaði strax að skipuleggja líf sitt miðað við að vera búin að fá vinninginn. Hún ætti að vita að líkurnar eru afar litlar og hún ætti að vita að hennar bíður líklega framtíð án happdrættisvinningsins. Það er frekar ömurleg tilhugsun að þurfa að lifa lífinu treystandi á happdrættisvinning þar sem líkurnar eru hverfandi. Þó er kannski sá munurinn á konunni og þeim sem byggja líf sitt á trúnni að það er jú stundum einn sem vinnur í happdrættinu.

Páskar

Posted: apríl 5, 2015 in Spjall, Trú, Umræða
Efnisorð:

Nú kann ég ekki að skýra sögu páskanna svo vel fari og það myndi eflaust kalla á gagnrýni og/eða leiðréttingar.. en þetta er auðvitað ekki sér kristin hátíð, þó auðvitað sé hún mikilvæg hátíð í augum kristinna.

Fyrir flestum kristnum sem ég þekki (með undantekningum þó) þá er kristnin – eins og flest önnur trúaarbrögð – rammi utan um ákveðin siðferðislegan grundvöll. Þeim fylgja svo ákveðnar hefðir og siðir („ritúöl?“) sem fá sína merkingu ýmist við að gera sér dagamun, hitta vini, fjölskyldu og kunningja, njóta tónlistar, hlusta á sögur og breyta út af vananum öðru hverju. Þá eru margar hátíðanna tilefni til að setjast niður rifja upp siðferði og kannski ákveða að reyna að gera betur.

Það er í sjálfu sér ekkert nema gott um þetta að segja, ég þarf svo sem ekki sérstaklega á þessu að halda, en það er mitt val. Og ég kann ómögulega við að þurfa að standa straum af kostnaði við siði annarra, en það er að breytast.

Ég á hins vegar sérstaklega erfitt með að skilja áráttu örfárra kristinna fyrir þessari þráhyggju að halda því fram að sögurnar séu bókstaflegar, að einhver hafi fæðst án þess að eiga líffræðilegan föður og að sá hinn sami hafi dáið og risið einhverjum dögum seinna upp frá dauðum. Það þarf ekki nema lágmarksmenntun til að vita að þetta stenst enga skoðun. Og það sem meira er, flestir kristinna þurfa ekkert á þessu að halda, trúin er þeim alveg jafn mikils virði án svona vitleysu, ef ekki meira.

Þannig að kannski er þjóðráð – og ég meina þetta vel – að sleppa því að gera kröfu á þá sem vilja teljast kristnir að þeir þurfi að játa trú á þessar sögur sem bókstaflegar staðreyndir. Hætta að hamra á sögunum sem raunverulegum atburðum, þetta er eiginlega hálf kjánalegt – og það vill enginn láta tengja sig við fáfræði.

Staðfesting á trúleysi

Posted: mars 22, 2015 in Trú

Mig langar að útskýra hvers vegna ég er trúlaus – staðfesta endanlega og afgreiða málið svo enginn vafi leiki lengur á og enginn þurfi lengur að þrasa við um hvort ég er trúlaus eða ekki.

Það eru margar aðferðir til að vega og meta hvað við höfum fyrir satt og hvað ekki. Ég hef það fyrir satt sem ýmist búið er að sanna eða leiða sterk rök til að standist skoðun. Upplýsingar og kenningar sem standast skoðun og/eða tilraunir og hafa ekki verið afsannaðar.

Þetta er kannski lykilatriði að kenningar séu „afsannanlegar“. Ef og þegar til þess kemur að kenning er afsönnuð þá skipti ég um skoðun og fagna nýjum upplýsingum.

Þeir sem eru trúaðir hafa eitthvað fyrir satt sem ekki er hægt að sýna fram á og ekki er hægt að leiða líkur til að því að sé rétt. Þess vegna köllum við þetta trú. Skoðanir trúaðra eru ekki „afsannanlegar“ og þess vegna kemur aldrei til að þurfa að skipta um skoðun vegna nýrra upplýsinga. Það eru engar upplýsingar til staðar til að byrja með og þess vegna falla þær aldrei á neinu prófi – og aldrei koma neinar gagn-upplýsingar.

Í þessu liggur grundvallarmunur á trúuðum og trúlausum. Við trúlausir erum tilbúnir til að skipta um skoðun þegar nýjar upplýsingar koma fram. Það eru trúaðir ekki. Ef fram kæmi endanleg sönnun þess að einhver guðleg vera hefði skapað heiminn fyrir svo og svo mörgum árum, hlustaði á bænir og svo framvegis… þá tæki ég það gott og gilt. Enda væri skoðunin byggð á staðreyndum en ekki trú.

Það eru engar upplýsingar sem fá trúaðan einstakling til að skipta um skoðun. Stundum kemur fyrir að þeir fara að hugsa sjálfir og taka sjálfstæða afstöðu, en ekki vegna nýrra gagna eða upplýsinga. Sá trúaði byggir lífsskoðun sína ekki á staðreyndum eða upplýsingum og þess vegna geta nýjar upplýsingar ekki mögulega orðið til að hann/hún skipti um skoðun.

Í þessu liggur munurinn. Ég er trúlaus. Vegna þess að ég byggi á staðreyndum en ekki ágiskunum eða vangaveltum án nokkurra forsendna.

PS. Ég nenni ekki að fá athugasemdir á þeim nótum að ég viti ekkert hvað mér finnst og læt vera að bjóða upp á athugasemdir.

Rökleysuþrasararnir…

Posted: mars 21, 2015 in Trú, Umræða
Efnisorð:

Einhver sérkennilegasta, minnst gefandi, mest þreytandi og fáránlegasta rökræða sem ég lendi (ótrúlega oft) í er þras við fólk hefur hefur einhverja undarlega þörf fyrir að halda því fram við mig að ég hafi skoðun sem ég hef ekki.. hversu oft og mikið sem ég reyni að segja viðkomandi að ég hafi ekki ætlaða skoðun. Að frátöldu virðingarleysinu, segjum hreinlega tuddaskapnum, þá er þetta alveg galin umræða.

Þetta er að einhverju leyti eins og einhver sé stöðugt að segja mér að ég sé svartur eða að það vanti á mig aðra hendina. Ekkert hef ég á móti svörtu fólki eða fólki sem hefur orðið fyrir því að missa hendi.. en ég er einfaldlega ekki svartur og ég hef sem betur fer báðar hendur.

Það skiptir engu hversu oft ég reyni að leiðrétta eða útskýra, viðkomandi setja „hausinn undir sig“ og böðlast ótrauðir áfram.

Lengi vel hélt ég að þetta væri vísvitandi áreiti til að fara í taugarnar á mér og láta mig eyða tíma í svör. Upp á síðkastið hallast ég að því að viðkomandi séu einfaldlega ekki „betur gefnir“ en þetta.

Það hjálpar ekki að rökin sem færð erum fram eru í besta falli hjákátleg. Viðkomandi gefa sér forsendur [sem eru ýmist út úr kú eða svo almennar að eiga við alla], gefa sér að ég falli undir þessar sömu forsendur og draga svo ályktun af þessu öllu saman. „Svartir menn hafa nef“ – „þú ert með nef“ -> „þú ert svartur “ er ein tegund af rökleysu. „Ef þú hefur meira en enga hendi þá hefur þú eina hendi“ -> „ef þú hefur eina hendi þá hefur þú ekki tvær hendur“ -> „þú ert einhentur“.

Til að kóróna vitleysuna er svo gjarnan vísað í hina og þessa spekinga [sem viðkomandi þekkja ekki og/eða rugla saman] og hugmyndir [sem viðkomandi skilja ekki] eða bara einhverja vefsíðu ef ekki vill betur til. Sennilega er ætlunin að gefa málflutningnum virðulegan blæ með því að sletta um sig með nöfnum og hugmyndum – svona ef ske kynni að einhver sem les haldi að einhver þekking liggi að baki.

Ég er að tala um þörf fólks til að halda því fram að ég sé trúaður. Sem ég er ekki. Nýlega var prestur þjóðkirkjunnar að reyna að troða þessu á mig. En það er bara nýjasta dæmið af allt of mörgum.

Ég ætla ekki að gera þessum einstaklingum það til geðs að halda þessu þrasi áfram. Og ekki leyfi ég athugasemdir við þessa færslu.

Ég skýri í næstu færslu hvers vegna ég er trúlaus. Þeir sem hafa heiðarlegan áhuga á að vita hvort ég er trúaður eða ekki láta sér það nægja.

Um kristna og múslima

Posted: febrúar 11, 2015 in Trú, Umræða
Efnisorð:, ,

Það virðist vera nokkuð útbreiddur misskilningur að ég sé einhver sérstakur stuðningsmaður múslima, bara vegna þess að ég vil ekki mismuna þeim sérstaklega. Ég veit að margir trúlausir verða varir við sama misskilning. Það gengur meira að segja svo illa að leiðrétta þetta að það hvarflar oft að mér að það sé vísvitandi verið að klína þessu á okkur gegn betri vitund.

En höfum alveg á hreinu að ég hef fullkomna skömm á þeim voðaverkum sem hafa verið framin í nafni af múslimum í nafni trúarinnar. Sama gildir um mannfyrirlitningu sem haldið er á lofti með vísun í trúarritin. En ég vil bara ekki dæma alla vegna ofstækismannanna. Ekki frekar en að ég dæmi alla kristna út frá þeirra verstu talsmönnum.

Vissulega þarf að fara lengra í tíma eða rúmi til að finna viðlíka illvirki í nafni kristninnar, en það er ekki aðalatriðið, aðalatriðið er að dæma ekki alla út frá nokkrum brjálæðingum.

Það má kannski orða þetta þannig að ég virði jafnan rétt allra trúfélaga til að láta okkur hin í friði.

Við erum jú rassskellingaþjóð..

Posted: desember 18, 2014 in Trú, Umræða

Heyrðu, þurfum við ekki að senda skólabörn einu sinni á ári í duglega flengingu?

Nei, er það, hvers vegna?

Það er jú söguleg hefð fyrir því að flengja börn. Hér fyrr á síðustu öld var þetta viðtekin venja og hefð.

En eru ekki flestir löngu hættir þessu?

Jú, jú, en við erum jú að fræða börnin um menningu og sögu lands og þjóðar. Þetta var jú ríkur þáttur í uppeldi barna á síðustu öld.

Nægir ekki bara að kennarar segir börnunum frá þessu?

Nei, það er engan veginn það sama og að þau upplifi hlutina sjálf.

Þetta er nú ekki gott fyrir börnin og kemur alls kyns ranghugmyndum í hausinn á þeim.

Ég var nú rassskelltur reglulega þegar ég var yngri og ekki gerði það mér neitt.

Það er nú ekki hægt fullyrða neitt út frá því. En hvað með ef foreldrar barnanna vilja þetta ekki?

Við erum nú ekki að láta einhvern minnihluta kúga okkur í meirihlutanum.

En er þetta ekki jafnvel mannréttindabrot og stangast á við mannréttindasáttmálann?

Nei, sko, ef meirihlutanum finnst eitthvað þá skipta mannréttindi engu máli.

Ég er nú ekki svo viss um það. Og þar fyrir utan held ég að það sé nú mikill minni hluti foreldra sem rassskellir börnin sín.

Hvað veist þú um það? Fólk hefur almennt ekkert haft fyrir því að skrá skoðanir sínar að þessu leiti.

Já, já, ég veit að börnin eru ekki lamin í kirkju – og ég er ekki bera þetta saman við kirkjuferðir, hlífið mér við þannig útúrsnúningum – en mögulega skýrir þetta vond rök.