Archive for the ‘Trú’ Category

Ímyndað samtal, tóm ímyndun?

Posted: desember 17, 2014 in Trú
Efnisorð:,

Ég hef auðvitað ekkert fyrir mér en það hvarflar að mér að samtal á þessum nótum hafi átt sér stað fyrir nokkrum árum..

– Hvað getum við eiginlega gert í þessu? Krakkarnir eru hætt að koma í kirkju, glápa bara á sjónvarpið á sunnudagsmorgnum, og ekki eru foreldrarnir að fara að mæta?

Úff, ég veit ekki, þetta er orðið rosalega erfitt. Getum við komist inn í barnatímana á sjónvarpsstöðvunum?

– Ég reyndi, en það vildi enginn hlusta á mig á dagskrárdeildinni, þeim fannst þetta ekki vera sitt hlutverk. Og héldu að áhorfið myndi minnka.

Já, hvar getum við eiginlega náð til barnanna?

– Hvað með skólana?

Ja, mér hafði nú dottið það í hug, en er það ekki full gróft?

– Getum við ekki kallað þetta starfskynningu? Eða, enn betra, vettvangsferð?

Jú, en við græðum nú lítið á því, við komum engum boðskap að þannig.

– Nei, nei, við byrjum bara þar. Svo bjóðum við hugvekju frá prestinum. Svo getum við bætt bænum við.

Já! Auðvitað. En verður fólk ekki órólegt? Nú eru börn í skólunum sem koma frá fjölskyldum sem eru trúlaus eða annarrar trúar.

– Við segjum bara að við séum að kynna þeim íslenska menningu.

Jú, það myndi ganga ef við erum bara að sýna þeim kirkjuna, en það gæti orðið erfitt þegar bænir og hugvekjur eru þáttur í þessu.

– Við byrjum auðvitað bara á heimsóknum. Þá segir enginn neitt. Svo þegar við bætum hugvekjunni og bænunum þá verður þetta orðin hefð.

En getum við beðið svo lengi?

– Hver er að tala um að bíða? Við gerum þetta í nokkur ár, svo köllum við þetta gamla og góða hefð, sem ekki má leggjast af.

Já, en það er nú ekki erfitt fyrir fólk að komast að því að þetta er nýbyrjað.

– Hver hefur áhuga á staðreyndum? Við þyrlum bara upp nógu miklu ryki, stöglumst á að þetta sé gömul hefð,
hvað heldurðu að margir nenni að tékka á þessu? Og ef einhver fer að amast við þessu þá skömmum við þá fyrir að vilja banna fólki að halda jólin, segjum að þeir vilji ekki að börnin fái fræðslu, að það megi ekki nefna Jesú á nafn lengur. Við höfum nógu marga fjölmiðla og stjórnmálamenn á okkar bandi.Köllum þá sem gera athugasemdir bara fýlupúka sem ekki vilji halda jól!

Það er nú reyndar ekki satt, flestir halda jú jól.

Hvað kemur það málinu við? Og… segjum lika að það sé bara hávær minnihluti sem vill kúga okkur í meirihlutanum.

Er það ekki varasamt? Það styttist jú í að við verðum í minnihluta.

Já, ef við gerum ekkert í málinu. Hömrum líka á að við séum kristin þjóð.

Við erum nú ekkert sérstaklega kristin.

Jú, ef við höldum áfram að segja fólki að við séum kristin þjóð, þá verðum við það á endanum.

Æi, er þetta nú heiðarlegt??

– Bíddu, ætlar þú að sitja aðgerðarlaus hjá á meðan börnin alast upp í sinnuleysi gagnvart trúnni?

En hafa foreldrarnir nokkurn áhuga á þessu? Það er ekki eins og þeir séu að mæta í kirkju?

– Þetta er bara börnunum fyrir bestu. Og okkur.

Já, ætli það ekki…

Kannski er þetta tóm ímyndun í mér, en er von að manni detti þetta í hug?

Að taka það sem fyrirlitið er sér til fyrirmyndar

Posted: desember 16, 2014 in Trú
Efnisorð:

Það kom fram nokkuð hávær hópur fyrr á árinu sem fann múslimum allt til foráttu og taldi sig vera að verja einhver kristin gildi Íslendinga, hver svo sem þau eru nú annars.

Ég er reyndar alveg sammála þessum hóp að einu leyti, við eigum að sporna við öfgum og mannfyrirlitningu í nafni trúar, hver svo sem trúin er.. og það er jú, vissulega rétt að margir múslimar hafa gengið fram með miklu hatri í nafni trúarinnar.

Ég svo ósammála þeim að því leytinu til að mér dettur ekki í hug að yfirfæra hegðun nokkurra yfir á allan hópinn, þess vegna mega hófsamir múslimar (eins og aðrir) hafa sína trú í friði, bara á meðan þeir láta mig í friði.

Nú ber svo við að nokkurn veginn nákvæmlega sami hópur er að missa sig yfir því að gerðar séu athugasemdir við það að kirkjan fór nýlega að sækja í skólabörn á skólatíma. Nei, þetta er ekki gömul hefð, þetta er til þess að gera nýbyrjað.

Það er nefnilega skondið og um leið grátlegt að hugsa til þess að þessi ásókn kirkju og trúarhópa er (segjum nánast) hvergi samþykkt nema í þeim löndum þar sem öfgatrúarmenn hafa völdin. Og í nokkrum (mörgum?) sveitarfélögum á Íslandi. Og einhverjir stjórnmálaflokkar á Íslandi hafa kveðið sér hljóðs og telja þetta í góðu lagi.

Leti kristna minnihlutans?

Posted: desember 11, 2014 in Trú
Efnisorð:,

Það er að verða árlegur viðburður að talsmenn kristni rísi upp og barmi sér yfir að mega ekki vaða með trúboð inn í menntastofnanir landsins.

Talað er um að börnum sé bannað hitt og þetta og að verið sé að hafa eitt og annað af þeim.

Mér er fullkomlega fyrirmunað að skilja þennan málflutning.

Ef fólk hefur svona mikinn áhuga á að börnin upplifi einhverja sérstaka kristna jólastemmingu, er þá ekki einfaldasta mál í heimi fyrir fjölskylduna að sjá um þetta? Þetta má gera á heimilinu. Foreldrarnir geta sem best farið með þau í kirkju ef þeim sýnist svo. Jafnvel getur kirkjan hæglega boðið upp á sérstakar stundir fyrir fjölskyldur og/eða börn á aðventunni. Það þarf ekkert að troða þessu inn í menntastofnanir ef einhver raunverulegur áhugi er fyrir hendi.

Þetta virkar einfaldlega á mig eins og tóm leti. Fólk nenni einfaldlega ekki að sinna þessu sjálft, en finnist þægilegt að velta yfir á aðra til að geta nú þóst vera kristið.

Sagði ég „minnihlutans“? Já, kannski eru nú ekki öruggar heimildir fyrir því, amk. ekki í augnablikinu. En til þess að gera mjög fáir hafa skráð sig sjálfviljugir í þjóðkirkjuna, könnun frá 2004 bendir til að minni hluti Íslendinga sé kristinn og trúleysi hefur aukist mjög í nágrannaríkjunum á síðasta áratug og ekkert sem bendir til annars en að svipuð þróun sé hér á landi. En, gott og vel – við vitum ekki fyrir víst hvort um meirihluta eða minnihluta er að ræða eins og er. En rök margra kristinna er að hávær minnihluti sé að kúga meirihlutann. Meirihluti / minnihluti eru auðvitað afspyrnu vond rök þegar kemur að mannréttindum. Ef kristnir eru ekki þegar í minni hluta þá styttiast að minnsta kosti hratt og örugglega í það. Hver verða rökin þá?.

Ég er ekki frá því að ákveðin straumhvörf séu að verða í umræðum um trúmál og trúleysi hér á landi.

Til skamms tíma höfum við trúlaus verið máluð sem sérvitringar og jafnvel „kverúlantar“ sem sitja nöldrandi út í horni og enginn þarf að taka alvarlega. Með dyggri aðstoð hlutdrægra fjölmiðla hefur verið máluð brengluð mynd af þeim sem ekki vilja hafa ríkisrekið trúfélag.

En trúleysingjar í Siðmennt og Vantrú hafa – með kannski ólíkri nálgun – opnað umræðuna, málefnalega, og bent á eitt og annað sem stenst ekki í samfélagi sem vill virða trúfrelsi/frelsi til lífsskoðana og sýna þeim mismunandi skoðunum umburðarlyndi.

Umræðan hefur stöður orðið sýnilegri og smátt og smátt hefur orðið meira og meira áberandi að það eru hvorki meðlimir Siðmenntar né Vantrúar sem eru sérvitringarnir eða „kverúlantarnir“..

Það er fjarri mér að alhæfa.. það er mikið af góðu fólki sem vill vel, bæði innan kirkjunnar og annarra trúfélaga – fólk sem hægt er að eiga málefnalegar samræður við.

Það sem hefur breyst er – mögulega í einhvers konar örvæntingu – að sífellt fleiri talsmenn kirkjunnar opinbera forneskjulegan þankagang með umræðuhefð sem varla verður kölluð annað en skítkast, útúrsnúningar og jafnvel klár ósannindi – í bland við kröfur sem jaðra við óstjórnlega heimtufrekju.

Ég sé merki þess að það hilli undir lokin á baráttu Siðmenntar og Vantrúar… það liggur við að við getum slakað á og leyft öfgamönnum í forsvari kirkjunnar að koma henni hjálparlaust úr ríkisforsjá. Þeim fjölgar stöðugt sem sjá að svona starfsemi á ekki heima í ríkisrekstri.

Ég er nú samt ekki verr innrættur en svo að ég vona virkilega að kirkjan hafi rænu á að skipta um talsmenn áður en þeir ná að valda henni meiri skaða.

Ég er að minnsta kosti sannfærður um að það er vel leysanlegt að koma starfsemi hvers kyns lífsskoðunarfélaga fyrir þannig að hver fái að hafa sína skoðun í friði og láta vera að krefjast þess að aðrir borgi brúsann. En bestu bandamenn okkar sem vilja breytingar eru öfgamennirnir í forsvari ríkiskirkjunnar.

Svelgist kirkjunni á matnum?

Posted: september 10, 2014 in Stjórnmál, Trú
Efnisorð:, ,

Ég verð að játa að ég skil ekki almennilega áherslurnar í nýju fjárlagafrumvarpi þegar kemur að útgjöldum til kirkjunnar. Eða réttara sagt, ég á ekki til orð.

Ég get til að mynda ekki með nokkru móti skilið hvers vegna flokkur – sem í orði vill draga saman umsvif ríkissjóðs – eykur í verki framlög af almannafé til reksturs persónulegra mála eins og trúfélaga.

Það er ekki svo að það hafi staðið steinn yfir steini í útreikningum eða málflutningi kirkjunnar þar sem þeir töldu sig þurfa á „leiðréttingu“ að halda. Það hefur marg sinnis verið sýnt fram á að þeir útreikningar standast ekki.

Á sama tíma er skattur á matvæli hækkaður. Þessi hækkun kemur mest niður á barnafjölskyldum og þeim sem minnst hafa aflögu. Þetta er jú sú neysla sem hvað erfiðast er að skera niður.

Skyldi kirkjunni svelgjast á þessu?

Það má segja að breyting á dagskrá Rúv, þar sem ákveðið var að fella niður úrelta dagskrárliði sem hafa litla hlustun, sé ekki stórmál. Auðvitað á Rúv ekki að þjóna einu trúfélagi sérstaklega, en það er önnur saga.

Ég efast um að sú ákvörðun að fella niður dagskrárliði sem fáir hlusta á myndi yfirleitt kalla á nokkur viðbrögð.

En þarnar er atriði tengt kirkjunni.

Það er ótrúlegt að fylgjast með viðbrögðunum.. heiftinni, rangfærslunum og samlíkingunum.

Einn prestur líkti þessu við ofsóknir á hendur kristnum mönnum í Austurlöndum, annar við banni við ástarjátningar svo ég nefni nú tvö dæmi um ruglið.

Vantrú og Siðmennt er kennt um og talað um volduga einstaklinga á þeirra vegum!

Stofnuð var Facebook grúppa sem hleypir bara inn athugasemdum frá þeim sem eru sammála!

En kannski er þetta merki um örvæntingu.

Og kannski er þessi örvænting merki um breytta tíma.

Það er kannski ekki rétt að alhæfa um þekkingarleit forfeðra okkar. Og ekki ætla ég að gera lítið úr því að í flestum heimshornum hafi þekkingar verið leitað eftir bestu samvisku.. að minnsta kosti virðist að öðru hverju hafi þetta verið reynt.

En nú einverjum árþúsundum seinna vitum við eitt og annað sem forfeðurnir vissu ekki. Aðferðir vísindanna hafa í raun skilað ótrúlegum framförum. Í dag þekkjum við til að mynda rafmagn, pensilín, vitum að jörðin er ekki flöt og ekki fer á milli mála að þyngdaraflið er raunverulegt.

Þannig höfum við í ljósi betri þekkingar skipt út hugmyndum forfeðranna, ekki af vanvirðingu við þeirra tilraunir til að afla þekkingar, heldur af því að við vitum einfaldlega betur og höfum meiri upplýsingar en þeir gátu mögulega sótt.

En svo er stór hópur sem þrátt fyrir allt heldur í hugmyndir forfeðranna þegar kemur að því hvernig heimurinn varð til, hefur enn fyrir satt að meyfæðingar séu mögulegar og telur satt og rétt að einn eða fleiri einstaklingar hafi risið upp frá dauðum eftir nokkra daga í gröfinni. Allt þetta á að hafa verið í einhverju undarlegu „plotti“ yfirnáttúrulegrar veru sem engar upplýsingar finnast um að sé yfirleitt til. Og allt þetta byggir á „fabúleringum“ forfeðra með nánast enga þekkingu á heiminum og sögusögnum sem gengu á milli manna í fleiri mannsaldra án þess að nokkuð væri fært til bókar.

Er ekki kominn tími til að pakka þessum hugmyndum niður og setja þar sem þær eiga heima?

Ég hef aðeins tekið þátt í umræðunni um hvort það hafi verið réttlætanlegt af Akureyrarbæ að segja Snorra kannski-í-Betel upp – aðallega í framhaldi af spurningum Evu Hauksdóttur.

Ég er enn á því að það eigi að skoða hvert tilfelli fyrir sig og að ekki sé hægt að bjóða börnum upp á að þurfa að sitja tíma í kennslu hjá einstakingi sem boðar áróður gegn fólk eftir kynhneigð.

En…

Kannski er önnur nálgun betri en að segja svona fólki upp.

Væri ekki betra ráð þegar svona mál koma upp að taka frá eina viku gegn fordómum, hatursáróðri og kjaftæði? Í þessu tilfelli mætti taka heilan dag í að skýra fyrir nemendum að kynhneigð sé ekki tilefni fordóma.

Með þessu stæði viðkomandi kennari uppi sem tvöfaldur í roðinu, illa upplýstur kjáni sem enginn þarf að taka alvarlega.

Í stað þess að vera píslarvottur og fá sem slíkur athygli og samúð.

Afsakaðu séra, en..

Posted: febrúar 10, 2014 in Trú

Sér Örn Báður skrifar á Vísi (og sennilega í Fréttablaðið) í dag og segir:

Hér á landi er langstærstur hluti barna skírður ár hvert til kristinnar trúar og þau börn ættu að fá fræðslu um sína trú – feimnislaust og af fullri einurð og án afsakana kennara – og þá með biblíusögum, sálmasöng, bænum og öllu sem tilheyrir. Börn annarrar trúar ættu að sjálfsögðu að hafa sama rétt.

Afsakaðu, en hver er að banna foreldrum að fræða börn börn og fara með þau í kirkju og/eða sunnudagaskóla?

Hvers vegna að troða þessu inn í skólann og þar með upp á börn sem eru trúlaus (sem þér virðist nú ekki detta í hug sem möguleiki) eða börn sem eru annarrar trúar?

Hvað kemur þetta skólastarfi við? Fræðsla er eitt, og sjálfsögð, hvorki sálmasöngur né bænir hafa fræðslugildi.

Við getum kannski verið sammála um að kynna biblíusögurnar – helst allar, ekki bara handvaldar – það er fljótlegasta leiðin að trúleysi. En bara sem þjóðsögur og helgisögur, ekki sem einhvern sannleik. Þú virðist nú haga seglum eftir vindi þegar kemur að því að hafa skoðun á hvort sögur biblíunnar eru helgisögur eða sögulegar frásagnir – en við getum væntanlega verið sammála um að það á ekki að líta á þetta sem sögulegar heimildir í fræsðlustofnunum.

Kjánahrollur í boði kirkjunnar

Posted: janúar 11, 2014 in Trú, Umræða
Efnisorð:

Það var skondinn kjánahrollurinn sem ég fékk áðan þegar ég sá heilsíðuauglýsingu frá ríkiskirkjunni til barna. Þar er reynt að narra börnin í heimsókn í kirkju með einhverri fígúru sem á sennilega að hafa eitthvert aðdráttarafl, þó ekki komi fram í auglýsingunni hvað það er sem ætti að hvetja börnin til að mæta.

Kannski er kirkjunni vorkunn eftir miklar úrsagnir og mikið tekjutap. En þessi örvænting er óneitanlega svolítið skondin. Að fylgjast með trúarstofnun reyna að draga börnin inn á fölskum forsendum minnir starfsaðferðir næturklúbba í vafasömum hverfum í útlandinu.

En kannski, á hinn bóginn, er þetta ekkert sérstaklega fyndið.

Ég þarf að taka þátt í að borga auglýsinguna. Og markmið auglýsingarinnar er að fjölga, eða draga úr fækkun, í hinni ríkisreknu kirkju. Takist það, þarf ég að borga meira.