Archive for the ‘Trú’ Category

Egill Helgason birti ágætis pistil þar sem hann bendir á samantekt um trúleysi og augljóst samhengi við almenna velmegun á meðan þau ríki þar sem ofsatrú og hvers kyns bábiljur ráða ríkjum eru langt á eftir. Auðvitað má finna einhverjar undantekningar, en þær eiga sér sínar skýringar og breyta ekki heildarmyndinni.

Þetta er auðvitað ekkert dularfullt og minnir á söguna um að sala á ís sé mest þegar flestir drukkna í ám. Vitaskuld var ekki beint samhengi á milli, heldur var þarna þriðji þátturinn, mikill hiti, sem varð til þess að fólk reyndi bæði að kæla sig í ám og keypti ís.

Sama gildir um trúleysi og almenna „velmegun“, hvort sem við skilgreinum það eingöngu efnahagslega eða skoðum atriði eins og glæpatíðni og mat þjóða á lífshamingju.

Hvort tveggja er einfaldlega afleiðing betri og meiri menntunar. Trúleysi er talsvert meira hjá langskólagegnum en öðrum og trúleysi er talsvert meira hjá þeim þjóðum þar sem menntun er hvað mest – þar er líka mest almenn „velmegun“.

Það er einfaldlega ekkert dularfullt við þetta. Fólk sem hefur góða menntun er að öllu jöfnu ólíklegra til að trúa á galdra eða töframeðul eða sætta sig við grimmdarverk í nafni trúar. Sama gildir um „skaðlausari“ birtingarmynd trúar – það er að segja þá sem eru trúaðir en eru sáttir við sitt og láta aðra í friði – þeim fer fækkandi eftir því sem menntun eykst.

Að beygla umræðuna

Posted: desember 1, 2013 in Trú, Umræða

Ég var spurður nýlega hvað mér þætti athugavert við orð innanríkisráðherra á kirkjuþingi.

Aðallega kannski það að verið er að snúa umræðunni á hvolf og gagnrýna hluti úr frá kolröngum forsendum.

Ráðherra talaði um að það eigi ekki að vera forgangsmál á ögurstundum í lífi þjóðarinnar að forða börnum frá boðskap um kristni og kærleika á meðan þau væru á vafasömum síðum á netinu – og að einstaka jólasálmar geti ekki skaðað æsku þessa lands.

Ráðherra talaði um hvað foreldrar leyfa börnum heima og fór í beinu framhaldi að tala um bann við boðskap kristni… og gefur þannig í skyn að verið sé að skipta sér af uppeldi á heimilinu.

En auðvitað var tilefnið breyttar reglur um samskipti skóla og trúfélaga.

Þar er auðvitað hvergi talað um að ekki megi kynna kærleika fyrir börnum í skólum.

Þá er skýrt tekið fram að ekki eigi að hrófla við hefðbundnu jólastarfi.

En aðalatriðið er að hvergi er verið að „forða börnum“ frá boðskap kristni, aðeins ætlast til að þeir foreldrar sem það vilja, sjái sjálfir um að sinna þessu. Í stað þess að ætlast til að menntastofnanir stundi trúboð og séu að kynna trú á einhverjar yfirnáttúrlegar verur sem enginn hefur getað sýnt fram á að séu til. Það getur aldrei verið hlutverk menntastofnunar.

Fræðsla um trúarbrögð er svo auðvitað áfram í skólum.

Svo er allt í lagi að hafa í huga að þetta var nú ekkert forgangsmál, og allt í lagi að sinna verkefnum sem ekki eru í forgangi. Fyrir utan nú það að mannréttindi skipta alltaf máli.

Svo er eins og mig minni að einhverjir flokksbræðra ráðherra vilji meina að hafi ekkert hrun orðið, nema svona í gæsalöppum, þannig að hvaða ögurstund er ráðherra að tala um?

Það er upphafinn einhver svakalegur áróðurssöngur síðustu daga sem felst í því að reyna að narra fólk með öllum tiltækum ráðum til að skrá sig í þjóðkirkjuna. Hér má nefna undarlegan leiðara Fréttablaðsins og ekki vel upplýsta ræðu innanríkisráðherra á kirkjuþingi.

Svo það sé á hreinu þá er ég ákaflega mótfallinn því fyrirkomulagi að hafa þjóðkirkju, enda orðið nánast óþekkt fyrirbæri.

Hins vegar er líka allt í lagi að fólk sé í trúfélagi ef það kýs svo, svo framarlega sem það lætur okkur hin í friði.

En það hefur verið mikil fækkun í þjóðkirkjunni og hún sér enn einu sinni fram á gríðarlegan tekjumissi.

Það er eflaust hægt að tína til rök fyrir þá sem vilja hafa þjóðkirkju, þó ég sé þeim ósammála. En það er allt í lagi að rökræða hlutina. Og það er allt í lagi að bera fram rök fyrir því að fólk sem er trúað eigi að vera í þjóðkirkjunni. Aftur er ég ósammála, en það er allt í góðu að ræða rök með og á móti.

Það er hins vegar ekki í lagi að færa fram rökleysur, staðlausa stafi, fullyrðingar út í bláinn og beinlínis rangfærslur. Það gerir bara fólk með vondan málstað.

Annars ágætur kunningi, Davíð Þór Jónsson, hefur nú í tvígang komið fram með hverja vitleysuna á fætur annarri til að reyna véla eða narra fólk til að ganga í þjóðkirkjuna. Og ólíkt því sem ég hef áður séð frá honum, þá svarar hann mótrökum lítið eða þá með skætingi.

Hann hélt því fram í athugasemd á Facebook að
– útgerðargreifar fengju þær krónur sem þjóðkirkjan missir af, án þess að geta í nokkru skýrt hvernig skattfé fer eyrnamerkt til þeirra
– krónur, sem annars færu til söfnuða, væru settar í að styrkja menningarhatur, án þess að geta nokkru svarað um hvert þetta menningarhatur er
– að greiðslur til biskuppstofu væru óháðar fjölda meðlima þjóðkirkjunnar
– að einhverjar kannanir sýndu eða gæfu til kynna að fólk hefði sagt sig úr þjóðkirkjunna á röngum forsendum, án þess að geta að nokkru nefnt hvaða kannanir þetta eru
– ekki væru aðrir valkostir en þjóðkirkjan annars vegar eða útgerðargreifar og menningarhatur hins vegar, og skautar þannig yfir valkosti eins og Siðmennt og önnur lífsskoðunarfélög
– að við vitum ekki í hvað skattpeningarnir fara, sem er augljóst – svarið að miklu leyti heilbrigðis, velferðar og menntamál

Og í morgun beit hann höfuðið af skömminni í einhverju viðtali þar sem hann gaf í skyn að fólk gæti ekki leitað sér hjálpar við áföllum nema hjá prestum. Hvernig í dauðanum dettur honum í hug að tala niður til heillar stéttar vel menntaðs fagfólks? [breytti aðeins um orðalag til að forðast misskilning]

Já, ég er van-trúaður á kukl

Posted: nóvember 14, 2013 in Skeptic, Trú, Umræða

Svanur Sigurbjörnsson gagnrýndi nýlega kukl („óhefðbundnar lækningar“) og tilraunir til að koma því inn í heilbrigðiskerfið. Viðbrögðin hafa verið ansi yfirdrifin og ómálefnaleg – rökvillurnar margar og fyllt upp í holurnar með því að að ráðast á Svan.

Þetta er í rauninni frekar einfalt mál.

Ef við sleppum því að nota hugtakið „trú“ í einhverju víðu og óskilgreindu samhengi og notum það fyrir að hafa eitthvað fyrir satt sem ekki er hægt að sýna fram á.

Þá gildir auðvitað það sama um yfirnáttúrulegar verur og hvers kyns kukl. Það er ekki hægt að sýna fram á tilvist yfirnáttúrulegra vera og það er ekki hægt að sýna fram á að kukl virki.

Það hafa verið gerðar óteljandi tilraunir til að sýna fram á að kukl og hvers kyns yfirnáttura sé til staðar og virki. Það er stórfé í boði fyrir hvern þann sem getur þetta.

Árangurinn er eitt stórt núll. Þetta hefur aldrei tekist. Aldrei. Ekki einu sinni.

Enda, ef þetta hefði tekist… þá væri þetta jú ekki lengur kukl.

Rökvillurnar hafa verið margar. Rauði þráðurinn er að benda á einstaka mistök hefðbundinna lækninga. Sú gagnrýni á eflaust rétt á sér í einhverjum tilfellum og öðrum ekki. Það er eins með lækningar eins og aðrar greinar, menn geta gert mistök, fólk er mishæft þrátt fyrir að ljúka prófi, eflaust eru einhverjir sem nýta sér ófullnægjandi eftirlit til að svindla og þar fram eftir götunum. Ekkert af þessu er áfellisdómur yfir aðferðum vísinda eða hefðbundinna lækninga. Þetta eru einfaldlega ábendingar um hvað má betur fara. Með aðferðum vísindanna. Ekkert sem nefnt er styður það að kukl sé einhvers virði.

Þessi óþarfa hávaði er ætlaður til að slá ryki í augun á fólki.

Kuklið (í víðu samhengi) veltir ótrúlegum upphæðum og því er mikið í húfi að gera málflutning Svans tortryggilegan.

En það er ágætt að hafa í huga að ekkert sem sagt hefur verið styður það að við eyðum skattfé í hluti sem ekki er hægt að sýna fram á að virki.

Framlög til trúarbragða

Posted: október 6, 2013 in Trú, Umræða

Ég heyrði rétt áðan að til stæði að „lagfæra“ greiðslur til trúfélaga vegna þess að þeir liðir hefðu orðið fyrir meiri skerðingu en aðrir liðir á framlögum úr ríkissjóði.

En er þetta rétt?

Einfaldasta leiðin til að skoða þetta er að bera saman greiðslur sem hlutfall af heildar útgjöldum ríkissjóðs. Skoðum aðeins nánar, heildarútgjöld vegna trúmála (rauntölur) voru

 • 0,79% árið 2008
 • 0,81% árið 2011
 • 0,85% árið 2012

Fyrir 2013 er áætlun upp á 0,88%.

Á sama tíma hefur meðlimum ríkisreknu kirkjunnar fækkað verulega. Þannig að ef „lagfæra“ á greiðslur til þessara liða þá liggur beint við að lækka þær.

Það má eflaust reikna þetta á marga vegu.. það má deila um hvort kirkjugarðsgjald eigi heima þarna.

„Út í loftið“ samningurinn um einhverjar kirkjujarðir sem enginn veit á hverju byggir skilar kirkjunni dágóðum summum beint úr ríkissjóði.

Svokölluð sóknargjöld eru greidd beint úr ríkissjóðin en ekki innheimt af meðlimum trúfélaga.

En svo ansi hressilegar upphæðir þarna fyrir utan. „Kirkjumálasjóður“, „kristnisjóður“ og „jöfnunarsjóður sókna“. Sex hundruð milljónir! 600.261.044 krónur af almannafé árið 2012.

PS. eins og alltaf set ég svona tölur fram með fyrirvara um að rétt sé reiknað

Útúrsnúningar ofstækismanna

Posted: september 29, 2013 in Trú, Umræða

Það er auðvitað með ólíkindum að ríkisrekin stofnun skuli taka þátt í að kynna boðbera fordóma og mannfyrirlitningar á einhverri fjáröflunarsamkomu sértrúarsafnaða hér í borg. Á meðan þetta er gert fyrir peningana okkar þá er heldur betur ástæða til að láta heyra í sér.

Mín vegna má stjarna samkomunnar hafa sínar forneskjulegu og órökstuddu skoðanir. En ég má líka hafa aðrar skoðanir og er í fullum rétti að láta þær heyrast.

Viðbrögðin við því að skoðanir aðalræðumanns samkomunnar séu gagnrýndar eru auðvitað út í hött. Ef einhver vogar sér að viðra aðrar skoðanir og/eða gagnrýna forneskjulegar skoðanir „stjörnunnar“ þá er því líkt við það að vilja banna honum að hafa skoðun.

Ég sé (auðvitað ekki) fyrir mér umræður um stjórnmál (eða hvaða aðrar umræður sem er):

Frambjóðandi 1: Mér finnst að við eigum að lækka skatta vegna þess að…

Frambjóðandi 2: Mér finnst ekki verjandi að lækka skatta vegna þess að…

Frambjóðandi 1: Heyrðu mig nú, þetta er óþolandi, þú ert að banna mér að hafa skoðun.

Einmitt nákvæmlega svona eru viðbrögð þeirra sem hafa verið að fárast yfir því að skoðanir aðalstjörnu samkomunnar séu gagnrýndar og aðrar skoðanir kynntar. Þetta er auðvitað útúrsnúningur. Og þetta er ofstæki. Að geta ekki þolað að skoðanir séu gagnrýndar. Og bíta höfuðið af skömminni með því að gera þeim sem kynna aðra skoðun upp að vilja takmarka tjáningarfrelsi.

Nei, við leyfum þeim að hafa sínar skoðanir.

En við leyfum þeim líka að heyra okkar skoðanir.

Að fórna fyrir syndir

Posted: september 12, 2013 in Trú

Skemmtileg tilvísun á Vantrú á teikningu Karl Berger.

Ég hef einmitt velt þessu tala um að fórna syni sínum fyrir syndir mannanna. Þetta er sennilega illskiljanlegasta kenningin í kristninni, ef ekki trúarbrögðunum í heild.. og þarf þá nokkuð til.

 • ef guðinn vildi fyrirgefa mönnum syndir þeirra, hefið ekki verið einfaldast að gera það án frekari málalenginga?
 • hvernig hjálpaði það guðinum að gefa mönnum son?
 • hvað þá að láta hann deyja píslardauða?
 • hvernig hjálpaði það guðinum að láta kvelja son sinn?

Svona smá vangaveltur, ef við gefum okkur að „guðinn“ ráði yfir lágmarks rökhugsun, sem við eigum kannski ekkert að vera að gera…

  • hefði ekki verið nær að láta soninn lifa sem lengst og fræða fólk?
  • hefði ekki verið auðveldara fyrir guðinn að fyrirgefa ef fólk hefði tekið syninum opnum örmum?
  • var þetta „hönnuð atburðarás“, þeas. var guðinn búinn að ákveða að sonurinn yrði píndur og tekinn af „lífi“?
   • ef guðinn ákvað þessa atburðarás, getur hann þá ekki ákveðið alla hegðun allra?
   • ef guðinn ákvað ekki þessa atburðarás, þá er hann varla almáttugur, en aðallega…
   • ef guðinn ákvað ekki þessa atburðarás, hvers vegna var hann svona sáttur við að mennirnir skyldu drepa son hans?
  • ef guðinn ber ábyrgð hegðun allra, gildir það ekki líka um „syndir“ allra?
  • ef guðinn ákvað þetta ekki, hefði hann þá ekki fyrirgefið syndir mann ef fólk hefði tekið syninum opnum örmum?
  • ef sonurinn dó fyrir syndir mannanna, hvers vegna eru þá þessar „syndir“ svona algengar tvö þúsund árum seinna?

Nei, ég spyr bara svona. Vitandi að það eru engin svör.

Grýla og trúin

Posted: september 8, 2013 in Trú

Í gamla daga voru – að mér er sagt – börn hrædd með sögum af grýlum og alls kyns tröllum og kynjaverum sem kæmu að taka, berja, refsa, éta, flengja, læsa inni þau börn sem ekki voru þæg. Þetta var auðvitað miklu einfaldara en að tala um fyrir börnunum og virkaði bara nokkuð vel í myrkum torfbæjum og þegar börnin höfðu ekki aðgang að upplýsingum.

Sama gerðu ýmsir þjóðflokkar. Þeir bjuggu til sögur um ógnvænlega geðvonda ósýnilega veru sem refsaði öllum þeim sem ekki höguðu sér eins og leiðtögum viðkomandi þjóðflokks líkaði. Einföldum ráðum, sem flest áttu sér rökréttar skýringar, var pakkað inn í boð frá verunni. Önnur voru einfaldlega dyntir viðkomandi leiðtoga. Þetta var miklu auðveldara en að útskýra fyrir fólki hvað var rétt og hvað var rangt og hvers vegna. Enda fólk ekki sérstaklega vel upplýst.

Hvers vegna það að upphefja seinni hlutann fær verndaða stöðu í þjóðfélögum nútímans er nokkuð sem ég fæ seint skilið.

Ég skrifaði bloggfærslu á Eyjunni fyrir nokkrum árum þar sem ég spurði hvort það væri í lagi að gefið væri sterklega í skyn í kennslu í HÍ að ég væri haldinn kynþáttafordómum.

Ég átti fyrir nokkrum dögum spjall á Facebook við viðkomandi kennara og þar kom fram að hann var ósáttur við að ég væri að saka hann um að gefa í skyn að ég væri haldinn kynþáttafordómum. Þetta snerist um gyðinga og hann skýrði að hann hefði átt við þá sem væri gyðingstrúar, ekki gyðinga sem kynþátti, ættkvísl, ættbálk, þjóð eða annað sem einkennir fólk vegna uppruna. Hann hefur staðfest að þetta hafi skýrt komið fram í kennslu.

Við erum svo sem ekki alveg sammála um hvort framsetningin hafi gefið tilefni til að ég dró þessar ályktanir, en það er aukaatriði.

Aðalatriðið er að ég tek skýringar kennarans góðar og gildar og tel ekki að gefið hafi verið í skyn að ég sé haldinn kynþáttafordómum í þessari kennslu.

A hinn bóginn er ég er svo auðvitað ekkert sáttur við að gefið hafi verið í skyn að ég standi á nokkurn hátt fyrir að fordæma minnihlutahópa á borð við þá sem eru gyðingatrúar. Þá eru önnur atriði úr þessu kennsluefni sem virka enn undarlega á mig og ég hef enn ekki fengið góðar og gildar skýringar á þeim.

En það er jákvætt að koma að minnsta kosti einu atriði út af borðinu. Og það er jákvætt að ræða málið. Kannski eru skýringar á einhverjum fleiri atriðum þannig að þau hafa verið kynnt á fullnægjandi hátt. Kannski eru athugasemdir réttmætar og kennarinn samþykkir að kennsluefnið hafi ekki verið nægilega gott.

En lesbíur í biblíunni?

Posted: ágúst 12, 2013 in Trú, Umræða
Efnisorð:, ,

Þetta endalausa röfl um að samkynhneigð sé synd vegna þess að það standi í biblíunni er auðvitað með ólíkindum og ætti ekki að heyrast lengur.

Á sama hátt og það að borða skelfisk, kjöt af dýrum sem slátrað var fyrir meira en þremur dögum, ganga í klæðnaði úr fleiri en einu efni, lífláta börn fyrir að bölva foreldrum, ekki megi raka höfuð, umskurð og ég veit ekki hvað… bendi á skemmtilega samantekt hér TOPP 20: HLUTIR SEM ERU BANNAÐIR Í BIBLÍUNNI.

Ég þekki ekki marga sem taka mikið mark á þessum boðskap. Engan satt að segja.

En þegar kemur að samkynhneigð þá er allt í einu nauðsynlegt að taka texta biblíunnar og fara eftir upp á staf.

Það sem vefst hins vegar fyrir mér á hvaða forsendum fordæma lesbíur? Ég veit ekki til að það standi neitt til eða frá um þeirra hegðun í bókinni. Varla er bókstafstrúarfólkið farið að túlka textann eftir eigin höfði. Það er auðvitað engin bókstafstrú…

Þannig að ég spyr ykkur „kæru“ útbreiðendur mannfyrirlitningar í nafni texta úr ævafornum ritum gyðinga… á hvaða forsendum fordæmið þið samkynhneigðar konur?

PS. kannski finnst þetta, en það væri þá fróðlegt að sjá hvar það er… ég fæ ekki betur séð en að helstu biblíu spekingum vefjist tunga um tönn.