Útúrsnúningar ofstækismanna

Posted: september 29, 2013 in Trú, Umræða

Það er auðvitað með ólíkindum að ríkisrekin stofnun skuli taka þátt í að kynna boðbera fordóma og mannfyrirlitningar á einhverri fjáröflunarsamkomu sértrúarsafnaða hér í borg. Á meðan þetta er gert fyrir peningana okkar þá er heldur betur ástæða til að láta heyra í sér.

Mín vegna má stjarna samkomunnar hafa sínar forneskjulegu og órökstuddu skoðanir. En ég má líka hafa aðrar skoðanir og er í fullum rétti að láta þær heyrast.

Viðbrögðin við því að skoðanir aðalræðumanns samkomunnar séu gagnrýndar eru auðvitað út í hött. Ef einhver vogar sér að viðra aðrar skoðanir og/eða gagnrýna forneskjulegar skoðanir „stjörnunnar“ þá er því líkt við það að vilja banna honum að hafa skoðun.

Ég sé (auðvitað ekki) fyrir mér umræður um stjórnmál (eða hvaða aðrar umræður sem er):

Frambjóðandi 1: Mér finnst að við eigum að lækka skatta vegna þess að…

Frambjóðandi 2: Mér finnst ekki verjandi að lækka skatta vegna þess að…

Frambjóðandi 1: Heyrðu mig nú, þetta er óþolandi, þú ert að banna mér að hafa skoðun.

Einmitt nákvæmlega svona eru viðbrögð þeirra sem hafa verið að fárast yfir því að skoðanir aðalstjörnu samkomunnar séu gagnrýndar og aðrar skoðanir kynntar. Þetta er auðvitað útúrsnúningur. Og þetta er ofstæki. Að geta ekki þolað að skoðanir séu gagnrýndar. Og bíta höfuðið af skömminni með því að gera þeim sem kynna aðra skoðun upp að vilja takmarka tjáningarfrelsi.

Nei, við leyfum þeim að hafa sínar skoðanir.

En við leyfum þeim líka að heyra okkar skoðanir.

Lokað er á athugasemdir.