Derby County eða Arsenal

Posted: september 29, 2013 in Fótbolti

Ég fór að halda með Derby County í enska boltanum um 1970. Þrátt fyrir slakt gengi og ansi mörg mögur ár þá hefur þetta alltaf verið „mitt lið“. Hér áður fyrr fylgdist ég mjög vel með, keypti bæði ensk dagblöð og fótboltatímarit, Goal, Shoot og fleiri. En ég fylgist svo sem ekki svo mikið með þeim í dag og held satt að segja að ég geti ekki nefnt einn einasta leikmann, eða réttara sagt, ég get ekki nefnt einn einasta leikmann. Og aldrei hef ég séð liðið spila.

Ég byrjaði að halda með þeim vegna þess að þeir spiluðu góðan fótbolta, nokkuð sem var ekki algengt á Englandi á áttunda áratugnum.

Ég hef heillast af liði Arsenal síðustu árin, hef nokkrum sinnum farið á leik með þeim og kann vel við þá „heimspeki“ sem Arsene Wenger hefur fylgt, reyna aðeins að takmarka vitleysuna í leikmannakaupum en byggja upp lið sem spilar góðan fótbolta. Það er eiginlega eina ástæða þess að ég nenni að horfa á fótbolta, þeas. lið sem spila skemmtilega. Barcelona er fyrirmyndin í dag og Breiðablik er mitt lið hér heima, enda vel spilandi lið.

Í dag bárust þær fréttir að Derby sé að ráða Tony Pulis sem knattspyrnustjóra. Ég held að ég geri að minnsta kosti hlé á stuðningi mínum við félagið á meðan hann er við stjórnvölinn. Og fylgist með Arsenal. Gallinn við að halda með Arsenal er að þeir eiga sennilega ömurlegustu stuðningsmenn í víðri fótboltaveröld [innskot: nei ég meina þetta ekki bókstaflega, aðeins að leita að ástæðu til að skipta ekki um lið]. Endalausar kröfur um afsögn Wengers eru beinlínis fáránlegar… og ég er smeykur um að mögulega fái þeir sínu framgengt ef heppnin verður ekki með liðinu í ár… já „heppnin“ því það þarf töluvert að detta með liði til að það geti unnið titil í dag – gott lið er forsenda, en dugar ekki alltaf til.

En ég get þá alltaf snúið aftur til Derby County, jafnvel þó gert sé stólpagrín að mér. Fyrir nokkrum árum leit ég við í íþróttavörubúð í London að kaupa afmælisgjöf fyrir einn félaga sem er mikill Arsenal aðdáandi. Ég spurði í leiðinni um hvort hann ætti ekkert fyrir Derby aðdáendur.. það stóð ekki á svarinu, „Sorry, mate, we only do football“.

PS. Reyndar virðast þetta hafa verið óþarfa áhyggjur – Tony Pulis sé ekki að taka við, heldur Steve McClaren.

Lokað er á athugasemdir.