Fyrir rosalega mörgum árum hóf ég nám í Menntaskólann í Kópavogi… nánar tiltekið haustið 1975. Okkar árgangur var fjórði árgangur skólans og þar af leiðandi var þetta fyrsta árið sem skólinn fullskipaður, þeas. með alla árganga. Ég útskrifaðist 1979, ég missti reyndar af útskriftinni sjálfri en kom til landsins seinna um daginn og tók þátt í fögnuðinum.
En óneitanlega breyttist margt hjá mér í MK… skólinn var lítill og nánast heimilislegur – (næstum því) allir þekktu (næstum því) alla og ég kynntist fullt af fólki – margir eru enn mínir bestu vinir. Fyrir menntaskóla átti ég til þess að gera ekki marga vini og tók lítinn sem engan þátt í félagslífi eða öðru utan skóla.. ef út í það er farið. Æfði reyndar fótbolta með yngri flokkum Breiðabliks.
En í MK breyttist þetta sem sagt og MK á þess vegna „sérstakan stað í mínu hjarta“ – ef ég má nota útvatnaðan frasa.
Ég hafði alltaf átt auðvelt með stærðfræði og góð kennsla bræðranna Gísla Ólafs og Vikars ýtti undir áhugann. Kynning Vikars á forritun mótaði svo endanlega áhugann sem leiddi mig inn í ævistarfið – að minnsta kosti hingað til.
Þá má ekki gleyma því að Fræbbblarnir urðu til í MK. Okkur var í upphafi mikið niðri fyrir og yfirvöld ekki alls kostar sátt við okkur. En ég hitti Ingólf skólameistara á útskriftar afmælum síðar – það fór vel á með okkur þá og ég er ekki frá því að hann hafi nú verið nokkuð stoltur af því að þetta hafi allt byrjað í MK.
Næsta laugardag, 21. september, er haldið upp á fjörutíu ára afmæli skólans á SPOT. Við Fræbbblar spilum nokkur lög og við Steini verðum aftur báðir á sviðinu, eins og í fyrsta skipti sem Fræbbblarnir spiluðu. Arnór og Ríkharður aðstoðuðu okkur við að koma hljómsveitinni á legg og gengu báðir fljótlega til liðs við hljómsveitina – og eru meðlimir í dag. Arnór spilar á laugardag en Ríkharður er í útlandinu, að spila á tónlistarhátíð í Basel – væntanlega bara Fræbbblaefni.
En sem sagt. Ég hlakka til og það væri gaman að sjá sem flesta.