Posts Tagged ‘Biblían’

En lesbíur í biblíunni?

Posted: ágúst 12, 2013 in Trú, Umræða
Efnisorð:, ,

Þetta endalausa röfl um að samkynhneigð sé synd vegna þess að það standi í biblíunni er auðvitað með ólíkindum og ætti ekki að heyrast lengur.

Á sama hátt og það að borða skelfisk, kjöt af dýrum sem slátrað var fyrir meira en þremur dögum, ganga í klæðnaði úr fleiri en einu efni, lífláta börn fyrir að bölva foreldrum, ekki megi raka höfuð, umskurð og ég veit ekki hvað… bendi á skemmtilega samantekt hér TOPP 20: HLUTIR SEM ERU BANNAÐIR Í BIBLÍUNNI.

Ég þekki ekki marga sem taka mikið mark á þessum boðskap. Engan satt að segja.

En þegar kemur að samkynhneigð þá er allt í einu nauðsynlegt að taka texta biblíunnar og fara eftir upp á staf.

Það sem vefst hins vegar fyrir mér á hvaða forsendum fordæma lesbíur? Ég veit ekki til að það standi neitt til eða frá um þeirra hegðun í bókinni. Varla er bókstafstrúarfólkið farið að túlka textann eftir eigin höfði. Það er auðvitað engin bókstafstrú…

Þannig að ég spyr ykkur „kæru“ útbreiðendur mannfyrirlitningar í nafni texta úr ævafornum ritum gyðinga… á hvaða forsendum fordæmið þið samkynhneigðar konur?

PS. kannski finnst þetta, en það væri þá fróðlegt að sjá hvar það er… ég fæ ekki betur séð en að helstu biblíu spekingum vefjist tunga um tönn.

Líkingamál trúarinnar

Posted: júlí 22, 2013 in Trú, Umræða
Efnisorð:,

Þeim sem skilgreina sig „bókstafstrúar“ þegar kemur að trúarbrögðum virðist fara fækkandi. Enda erfitt að skilgreina hvað felst í þessu og auðvitað erfitt að trúa bókstaflega á rit sem er jafn mótsagnakennt og til dæmis biblían.

Mjög fáir trúa því orðið bókstaflega að Jesú hafi verið eingetinn, hann hafi risið upp frá dauðum og heimurinn hafi verið skapaður af geðstirðum föður gyðinga. Og engan hef ég hitt sem gerir ekki málamiðlanir um innihald trúarrita þegar hentar.

Kirkjan hefur auðvitað verið á „skipulögðu undanhaldi“ með innihald biblíunnar gegnum aldirnar. En það gengur auðvitað ekki að leggja stofnunina niður. Aðferðin við að halda andlitinu er að boða að textinn sé líkingamál og eitthvað sem þurfi að túlka. Í stað þess að sætta sig við að grundvöllurinn er bara vangaveltur forfeðra með litla þekkingu fyrir þúsunum ára. Enda væri auðvitað hlægilegt að halda því fram í ljósi almennrar þekkingar í dag að inniihald biblíunnar sé allt satt og rétt um á staf.

Kirkjan og „guðfræðingar“ nútímans hamast sem sagt við að breyta skilningi á textanum og stöðugt meira og meira af innihaldi biblíunnar verður líkingamál sem ekki á að taka bókstaflega.

Það er svo aftur spurning hvenær allt innihald biblíunnar verður afgreitt sem líkingamál, enginn guð, enginn Jesú, engin meyfæðing, engin upprisa, engin sköpun.

Ég sé að í grein í Fréttablaðinu skrifa tveir (að ég held) prestar grein þar sem bent er á að ekki þýði að taka biblíuna bókstaflega og úr samhengi við menninguna eins og hún var þegar textinn var ritaður.

Þetta er auðvitað hárrétt.

Auðvitað dettur engum í alvörunni í hug að einhver föðurleg vera hafi skapað heiminn á sjö dögum, spjallað sérstaklega við nokkra útvalda eða stýrt heilu plágunum, hvað þá syndaflóði.

Og auðvitað tekur (vonandi) enginn bókstaflega að einhver hafi fæðst meyfæðingu og síðan risið upp frá dauðum.

Það er verst að þegar búið er að sía út það sem engan veginn á við á okkar tímum – þá stendur nú ansi lítið eftir. Nema kannski ættartölurnar. Og það sem eftir stendur að öðru leyti – og er einhvers virði – má finna í flestum öðrum lífsskoðunum.

Hitt er svo annað mál, að sá hatursáróður sem (væntanlega) er tilefni þessara skrifa er ekki að neinu leyti tekinn úr samhengi.

Og svo er auðvitað þriðja atriðið. Skilji ég rétt þá er biblían orð guðs, skrifuð undir hans leiðsögn (innblæstri). Ef það sem þar stendur er svo háð menningarsamfélaginu á hverjum tíma (hjá gyðingum að mestu leyti) þá er þetta frekar undarleg yfirnáttúruleg vera, þeas. sem sveiflast í skoðunum eftir samfélagi mannanna hverju sinni.

Getur verið að það sé kominn tími til að horfast í augu við hvað þessi bók er í rauninni?

Og leggja um leið af allt hatrið sem byggir á tilvitnunum í hana?