Þetta endalausa röfl um að samkynhneigð sé synd vegna þess að það standi í biblíunni er auðvitað með ólíkindum og ætti ekki að heyrast lengur.
Á sama hátt og það að borða skelfisk, kjöt af dýrum sem slátrað var fyrir meira en þremur dögum, ganga í klæðnaði úr fleiri en einu efni, lífláta börn fyrir að bölva foreldrum, ekki megi raka höfuð, umskurð og ég veit ekki hvað… bendi á skemmtilega samantekt hér TOPP 20: HLUTIR SEM ERU BANNAÐIR Í BIBLÍUNNI.
Ég þekki ekki marga sem taka mikið mark á þessum boðskap. Engan satt að segja.
En þegar kemur að samkynhneigð þá er allt í einu nauðsynlegt að taka texta biblíunnar og fara eftir upp á staf.
Það sem vefst hins vegar fyrir mér á hvaða forsendum fordæma lesbíur? Ég veit ekki til að það standi neitt til eða frá um þeirra hegðun í bókinni. Varla er bókstafstrúarfólkið farið að túlka textann eftir eigin höfði. Það er auðvitað engin bókstafstrú…
Þannig að ég spyr ykkur „kæru“ útbreiðendur mannfyrirlitningar í nafni texta úr ævafornum ritum gyðinga… á hvaða forsendum fordæmið þið samkynhneigðar konur?
PS. kannski finnst þetta, en það væri þá fróðlegt að sjá hvar það er… ég fæ ekki betur séð en að helstu biblíu spekingum vefjist tunga um tönn.