Bragð er að þá bíblíutúlkarar finna

Posted: ágúst 14, 2012 in Umræða
Efnisorð:,

Ég sé að í grein í Fréttablaðinu skrifa tveir (að ég held) prestar grein þar sem bent er á að ekki þýði að taka biblíuna bókstaflega og úr samhengi við menninguna eins og hún var þegar textinn var ritaður.

Þetta er auðvitað hárrétt.

Auðvitað dettur engum í alvörunni í hug að einhver föðurleg vera hafi skapað heiminn á sjö dögum, spjallað sérstaklega við nokkra útvalda eða stýrt heilu plágunum, hvað þá syndaflóði.

Og auðvitað tekur (vonandi) enginn bókstaflega að einhver hafi fæðst meyfæðingu og síðan risið upp frá dauðum.

Það er verst að þegar búið er að sía út það sem engan veginn á við á okkar tímum – þá stendur nú ansi lítið eftir. Nema kannski ættartölurnar. Og það sem eftir stendur að öðru leyti – og er einhvers virði – má finna í flestum öðrum lífsskoðunum.

Hitt er svo annað mál, að sá hatursáróður sem (væntanlega) er tilefni þessara skrifa er ekki að neinu leyti tekinn úr samhengi.

Og svo er auðvitað þriðja atriðið. Skilji ég rétt þá er biblían orð guðs, skrifuð undir hans leiðsögn (innblæstri). Ef það sem þar stendur er svo háð menningarsamfélaginu á hverjum tíma (hjá gyðingum að mestu leyti) þá er þetta frekar undarleg yfirnáttúruleg vera, þeas. sem sveiflast í skoðunum eftir samfélagi mannanna hverju sinni.

Getur verið að það sé kominn tími til að horfast í augu við hvað þessi bók er í rauninni?

Og leggja um leið af allt hatrið sem byggir á tilvitnunum í hana?

Lokað er á athugasemdir.