Líkingamál trúarinnar

Posted: júlí 22, 2013 in Trú, Umræða
Efnisorð:,

Þeim sem skilgreina sig „bókstafstrúar“ þegar kemur að trúarbrögðum virðist fara fækkandi. Enda erfitt að skilgreina hvað felst í þessu og auðvitað erfitt að trúa bókstaflega á rit sem er jafn mótsagnakennt og til dæmis biblían.

Mjög fáir trúa því orðið bókstaflega að Jesú hafi verið eingetinn, hann hafi risið upp frá dauðum og heimurinn hafi verið skapaður af geðstirðum föður gyðinga. Og engan hef ég hitt sem gerir ekki málamiðlanir um innihald trúarrita þegar hentar.

Kirkjan hefur auðvitað verið á „skipulögðu undanhaldi“ með innihald biblíunnar gegnum aldirnar. En það gengur auðvitað ekki að leggja stofnunina niður. Aðferðin við að halda andlitinu er að boða að textinn sé líkingamál og eitthvað sem þurfi að túlka. Í stað þess að sætta sig við að grundvöllurinn er bara vangaveltur forfeðra með litla þekkingu fyrir þúsunum ára. Enda væri auðvitað hlægilegt að halda því fram í ljósi almennrar þekkingar í dag að inniihald biblíunnar sé allt satt og rétt um á staf.

Kirkjan og „guðfræðingar“ nútímans hamast sem sagt við að breyta skilningi á textanum og stöðugt meira og meira af innihaldi biblíunnar verður líkingamál sem ekki á að taka bókstaflega.

Það er svo aftur spurning hvenær allt innihald biblíunnar verður afgreitt sem líkingamál, enginn guð, enginn Jesú, engin meyfæðing, engin upprisa, engin sköpun.

Athugasemdir
  1. Haukur Kristinsson skrifar:

    Ekki nokkur íslenskur klerkur er bókstafstrúar í dag. Enginn trúir á kraftaverk og álíka búll. Enginn.
    Klerkar geta hinsvegar ekki sagt; ég er bara hættur, nenni þessu ekki lengur, þetta er tóm vitleysa.
    Því er gripið til þess ráðs að tala um hin „kristnu gildi“. Án þeirra væri: Hart er með höldum,: hórdómur mikill,: skeggjöld, skálmöld,: skildir klofnar,: vindöld, vargöld: áður veröld steypist.

    Svo er þessi „light“ útgáfa trúarinnar; „Believe in Believeing“.Hún er mjög útbreidd.

  2. Skúli Pálsson skrifar:

    Ég held að sagan sé flóknari. Á miðöldum voru guðfræðingar sem vildu túlka alla Biblíuna sem líkingamál, Þeir tilheyrðu þeim þrennum trúarbrögðum sem þá voru iðkuð í Evrópu. Nefna mætti Meister Eckhart í kristni, Averroes í íslam og Maimonides í gyðingdómi. MIg grunar að bókstafstrúin sem við könnumst við sé síðari tíma uppfinning.

    https://en.wikipedia.org/wiki/Meister_Eckhart
    https://en.wikipedia.org/wiki/Averroes
    https://en.wikipedia.org/wiki/Moshe_ben_Maimon

    • já, auðvitað er ég að einfalda þetta til að koma einum punkti á framfæri (ég þykist reyndar vita að bókstafstrúin sé langt frá því að vera nýleg uppfinning)

      En punkturinn er að ef þetta verður allt líkingamál þá er ekki mikið eftir. Og hver virðist hafa sína túlkun á líkingunum.