Bara pólitískt eftirlit, Frosti?

Posted: júlí 23, 2013 in Stjórnmál, Tónlist, Umræða
Efnisorð:,

Er það ekki ákveðin „rörsýn“ hjá Frosta Sigurjónssyni að ætla að takmarka eftirlit með skoðunum á RÚV við pólitík. Kannski fer svona fyrir góðu fólki þegar það „lendir í því“ að fara að skipta sér af pólitík. Allt í einu virðist allt snúast um pólitík og hún verður upphaf og endir alls.

Ég hef mínar efasemdir um að enginn megi viðra skoðanir á málum sem snerta stjórnmál nema allir flokkar fái sínar mínútur. Fólk sem einhvern tímann hefur lýst yfir stuðningi við flokk „gjaldfærist“ þá væntanlega á tímann sem viðkomandi hefur. Það kostar sennilega einhverjar flækjur í útreikningum ef viðkomandi hefur verið kenndur við fleiri en einn flokk. Þar fyrir utan þarf væntanlega að gæta þess að allir flokkar fái jafnan tíma. Allir flokkar á þingi? Allir flokkar sem buðu fram? Allir starfandi flokkar?

Hitt er stærra atriði að pólitík er ekki eini mælikvarðinn á allar skoðanir.

Hvers vegna að takmarka þetta við svona þrönga sýn, þeas. pólitík… það er fullt af fólki sem hefur skoðanir sem tengist ekki stjórnmálaflokki og skoðanir á hlutum sem hafa ekkert með stjórnmál að gera. Þarf ekki að gæta sama hlutleysis á öllum stöðum?

Það væri reyndar til bóta ef öllum lífsskoðunum væri gert jafn hátt undir höfði í stað þess að ríkiskirkjan væri í lykilaðstöðu.

En þarf svo ekki eftirlit yfir skoðanir á veðri, hvar er gott að búa, matsölustöðum, frammistöðu leikmanna og liða í íþróttum – og auðvitað tónlist.

Mér finnst til dæmis sjálfsögð krafa ef einhver lýsir því yfir í útvarpi að lag einhverrar hljómsveitar sé gott þá komi annar og lýsi því yfir hvað nýjasta lagið mitt sé gott.

Nú eða ekki.

En mér er slétt sama hvort einhver stjórnmálaflokkur fær sanngjarna eða ósanngjarna gagnrýni eða ekki. Hitt er miklu meira virði.

Athugasemdir
  1. Elín Sigurðardóttir skrifar:

    Ríkiskirkja og ríkisútvarp eru tvær hliðar á sama peningi. Sama gildir um sóknargjöld og nefskatt.

    • Það er margt sameiginlegt, en RÚV er þó ekki byggt í kringum eitthvað sem enginn hefur sýnt fram á að sé til. Hitt er annað mál og önnur umræða – að ég sé engin rök fyrir núverandi fyrirkomulagi.