Posts Tagged ‘Frosti Sigurjónsson’

Er það ekki ákveðin „rörsýn“ hjá Frosta Sigurjónssyni að ætla að takmarka eftirlit með skoðunum á RÚV við pólitík. Kannski fer svona fyrir góðu fólki þegar það „lendir í því“ að fara að skipta sér af pólitík. Allt í einu virðist allt snúast um pólitík og hún verður upphaf og endir alls.

Ég hef mínar efasemdir um að enginn megi viðra skoðanir á málum sem snerta stjórnmál nema allir flokkar fái sínar mínútur. Fólk sem einhvern tímann hefur lýst yfir stuðningi við flokk „gjaldfærist“ þá væntanlega á tímann sem viðkomandi hefur. Það kostar sennilega einhverjar flækjur í útreikningum ef viðkomandi hefur verið kenndur við fleiri en einn flokk. Þar fyrir utan þarf væntanlega að gæta þess að allir flokkar fái jafnan tíma. Allir flokkar á þingi? Allir flokkar sem buðu fram? Allir starfandi flokkar?

Hitt er stærra atriði að pólitík er ekki eini mælikvarðinn á allar skoðanir.

Hvers vegna að takmarka þetta við svona þrönga sýn, þeas. pólitík… það er fullt af fólki sem hefur skoðanir sem tengist ekki stjórnmálaflokki og skoðanir á hlutum sem hafa ekkert með stjórnmál að gera. Þarf ekki að gæta sama hlutleysis á öllum stöðum?

Það væri reyndar til bóta ef öllum lífsskoðunum væri gert jafn hátt undir höfði í stað þess að ríkiskirkjan væri í lykilaðstöðu.

En þarf svo ekki eftirlit yfir skoðanir á veðri, hvar er gott að búa, matsölustöðum, frammistöðu leikmanna og liða í íþróttum – og auðvitað tónlist.

Mér finnst til dæmis sjálfsögð krafa ef einhver lýsir því yfir í útvarpi að lag einhverrar hljómsveitar sé gott þá komi annar og lýsi því yfir hvað nýjasta lagið mitt sé gott.

Nú eða ekki.

En mér er slétt sama hvort einhver stjórnmálaflokkur fær sanngjarna eða ósanngjarna gagnrýni eða ekki. Hitt er miklu meira virði.

Ég hef aðeins verið að hugsa hvaða framboð ég kem til með að kjósa í þingkosningunum í vor.

Ég ætla að henda stuttum hugleiðingum um hvern flokk hér á næstunni. Það er tiltölulega auðvelt að afgreiða marga. Best að byrja á Framsóknarflokknum, hann er víst stærstur samkvæmt síðustu skoðanakönnun.

Nú fyrir það fyrsta þá hefur flokkurinn staðið í vegi fyrir því að ný stjórnarskrá verði samþykkt á Alþingi, þrátt fyrir gefin kosningaloforð um annað.

Þá hefur flokkurinn lýst yfir afdráttarlausum stuðningi við ríkiskirkjuna.

Ekki má gleyma aðkomu flokksins að hruninu, sölu banka og sofandahætti í aðdraganda þess. Vissulega hefur flestum þingmönnum verið skipt út, en ég á enn eftir að sjá eitthvað sem líkist afsökunarbeiðni, hvað var gert rangt og hvernig flokkurinn myndi haga sér öðru vísi í dag.

Ekki bætir úr skák að stefna flokksins er bæði ruglingsleg og barnaleg – ef ekki beinlínis hættuleg þegar kemur að því að ætla að afskrifa kröfur erlendra kröfuhafa einhliða.

Þá er talið um afnám verðtryggingar annað hvort hrein og klár vanþekking eða ómerkilegt lýðskrum.

Svo hef ég eitthvað lengra minni en margir aðrir, ég man td. enn eftir ferðalagi forsvarsmanna flokksins til Noregs að „redda láni“ fyrir Íslendinga.

Það er að vísu einn frambjóðandi sem ég hef talsvert álit á, Frosti Sigurjónsson. Frosti er málefnalegur, rökfastur og heiðarlegur í sinni baráttu. Þar strandar þó á því að ég er honum oftar en ekki ósammála. Hann er reyndar, að því er virðist, í nokkuð sérstakri stöðu því hann virðist lítinn hljómgrunn fá innan flokksins. Frosti er þar fyrir utan ekki í mínu kjördæmi. Willum er þarna líka í öðru sæti í Suðvestur kjördæmi, þekki hann ekki að öðru en góðu en veit ekki í sjálfu sér hvað hann stendur fyrir, og átti svo sem ekki von á að hann ætti möguleika..

Á hinn bóginn er Framsóknarflokkurinn að bjóða fram Vigdísi Hauksdóttur. Ég nenni ekki að týna til þvæluna sem hún hefur sent frá sér, en að mínu vit á hún ekkert erindi á þing.