Í gamla daga voru – að mér er sagt – börn hrædd með sögum af grýlum og alls kyns tröllum og kynjaverum sem kæmu að taka, berja, refsa, éta, flengja, læsa inni þau börn sem ekki voru þæg. Þetta var auðvitað miklu einfaldara en að tala um fyrir börnunum og virkaði bara nokkuð vel í myrkum torfbæjum og þegar börnin höfðu ekki aðgang að upplýsingum.
Sama gerðu ýmsir þjóðflokkar. Þeir bjuggu til sögur um ógnvænlega geðvonda ósýnilega veru sem refsaði öllum þeim sem ekki höguðu sér eins og leiðtögum viðkomandi þjóðflokks líkaði. Einföldum ráðum, sem flest áttu sér rökréttar skýringar, var pakkað inn í boð frá verunni. Önnur voru einfaldlega dyntir viðkomandi leiðtoga. Þetta var miklu auðveldara en að útskýra fyrir fólki hvað var rétt og hvað var rangt og hvers vegna. Enda fólk ekki sérstaklega vel upplýst.
Hvers vegna það að upphefja seinni hlutann fær verndaða stöðu í þjóðfélögum nútímans er nokkuð sem ég fæ seint skilið.