Ég var spurður nýlega hvað mér þætti athugavert við orð innanríkisráðherra á kirkjuþingi.
Aðallega kannski það að verið er að snúa umræðunni á hvolf og gagnrýna hluti úr frá kolröngum forsendum.
Ráðherra talaði um að það eigi ekki að vera forgangsmál á ögurstundum í lífi þjóðarinnar að forða börnum frá boðskap um kristni og kærleika á meðan þau væru á vafasömum síðum á netinu – og að einstaka jólasálmar geti ekki skaðað æsku þessa lands.
Ráðherra talaði um hvað foreldrar leyfa börnum heima og fór í beinu framhaldi að tala um bann við boðskap kristni… og gefur þannig í skyn að verið sé að skipta sér af uppeldi á heimilinu.
En auðvitað var tilefnið breyttar reglur um samskipti skóla og trúfélaga.
Þar er auðvitað hvergi talað um að ekki megi kynna kærleika fyrir börnum í skólum.
Þá er skýrt tekið fram að ekki eigi að hrófla við hefðbundnu jólastarfi.
En aðalatriðið er að hvergi er verið að „forða börnum“ frá boðskap kristni, aðeins ætlast til að þeir foreldrar sem það vilja, sjái sjálfir um að sinna þessu. Í stað þess að ætlast til að menntastofnanir stundi trúboð og séu að kynna trú á einhverjar yfirnáttúrlegar verur sem enginn hefur getað sýnt fram á að séu til. Það getur aldrei verið hlutverk menntastofnunar.
Fræðsla um trúarbrögð er svo auðvitað áfram í skólum.
Svo er allt í lagi að hafa í huga að þetta var nú ekkert forgangsmál, og allt í lagi að sinna verkefnum sem ekki eru í forgangi. Fyrir utan nú það að mannréttindi skipta alltaf máli.
Svo er eins og mig minni að einhverjir flokksbræðra ráðherra vilji meina að hafi ekkert hrun orðið, nema svona í gæsalöppum, þannig að hvaða ögurstund er ráðherra að tala um?