Að tækla manninn fyrir leik

Posted: nóvember 26, 2013 in Stjórnmál, Umræða

Það hefur löngum þótt vond umræðuhefð að gera lítið úr andstæðingnum og reyna að gera hann tortryggilegan í stað þess að svara rökum og málflutningi. Þetta hefur lengi verið viðloðandi pólítíska umræðu og bendir auðvitað til málefnafátæktar og að ekki séu nein gild svör fyrir hendi.

Það getur verið erfitt að átta sig á þessu – undirförli, lymska, kænskubrögð eða hvað á að kalla þetta. Þetta er gjarnan kallað að fara í manninn í en ekki boltann til að nota líkingar úr fótbolta.

Stutta útgáfan er til dæmis:

Siggi: Verðbólgan hefur verið 10% síðasta árið en launavísitalan hefur aðeins hækkað um 5%.

Þessu er svo svarað með

„Hann Siggi fer nú svo oft rangt með tölur“ eða „Hann Siggi er nú alltaf ljúgandi“.

Nú má vera að Siggi hafi rétt eða rangt fyrir sér. Ef hann hefur rangt fyrir sér er auðvitað hægt að vísa til gagna sem staðfesta aðrar tölur. Það breytir engu um fullyrðingu Sigga hvort hann fari oft rangt með tölur eða ekki, sama gildir um hvort hann lýgur oft eða aldrei. Fullyrðingin er annað hvort rétt eða röng og hefur ekkert með fyrri hegðun Sigga að gera.

Forsætisráðherra kom með nýja – og frekar óforskammaða – útgáfu af þessum bellibrögðum um daginn. Áður en nokkur umræða var farin af stað sagði hann þá sem eru honum ósammála vera bölvaða lygalaupa (nei, ekki orðrétt) og þeir myndu líklega ljúga í komandi umræðu. Áður en nokkur hafði sagt orð.

Ef við höldum okkur við fótboltalíkinguna þá er þetta jafngildi þess að hlaupa til andstæðings í upphitun fyrir leik og tækla groddalega.

Og í fótbolta væri þetta beint rautt spjald og viðkomandi sendur beint í sturtu. Hann ætti svo væntanlega ekki sæti í liðinu á næstunni.

Það vantar eiginlega eitthvað sambærilegt í stjórnskipunina, það þarf að vera hægt að reka svona menn strax í stað þess að þurfa að bíða eftir næstu kosningum.

Athugasemdir
  1. bardi vald skrifar:

    það sem veldur mér áhyggjum er að þetta bendir til þess að sú lausn sem þau hafa soðið saman vegna skuldamála heimilanna hlýtur að vera handónýt. annars myndi maður varla verja vondan málstað fyrirfram.