Í gamla daga var talað um að fara Krýsuvíkurleiðina þegar farin var óþarflega löng leið að settu marki.
Skuldaleiðréttingarleiðin sem kynnt var á laugardaginn er vissulega skárri en við var að óttast eftir galgopaleg kosningaloforðin.
Ég hef heldur ekki áttað mig á hvers vegna þeir sem skulda húsnæðislán eiga frekar kröfu á leiðréttingu á kjörum en þeir sem búa við verri kjör vegna forsendubrests af öðrum ástæðum.
Þá finnst mér undarlegt, ef það er í lagi að setja skatt á þrotabúin – sem einhver hefði kannski látið kanna áður en farið var að berja sér á brjóst – hvers vegna tækifærið er ekki notað til að skattleggja enn frekar. Og nota peningana í almennar aðgerðir sem nýtast öllum, þess vegna beint í heilbrigðiskerfið, svo eitthvað sé nefnt.
Plástrakerfið sem kynnt var um helgina með tilheyrandi flækjum, undantekningum og takmarkaðri gagnsemi minnir á gamla sögu, „af hverju takið þið bílinn ekki bara úr handbremsu“..
Það væri nefnilega miklu meira gagn að því fyrir alla, ekki bara þá sem skulda verðtryggð húsnæðislán, að ná niður verðbólgu, jafnvel verðhjöðnun. Þá þarf engar sértækar aðgerðir eða plástra.
PS. nei, ég er ekki málpípa þrotabúanna.
PPS. nei, ég er ekki einu sinni talsmaður stjórnarandstöðunnar (nema kannski að því marki að ég þarf alltaf að vera á móti)
PPPS. nei ég er ekki að ljúga.