Dýr hindurvitni í menntamálum

Posted: desember 5, 2013 in Umræða
Efnisorð:, ,

Ég sé það sí endurtekið þessa dagana í umfjöllun um menntamál að Pisa könnunin mæli best gamaldags menntakerfi. Þannig er reynt að draga úr trúverðugleika og mikilvægi hennar. Þessu fylgir undarlegt tal um að hún sé ekki í takt við strauma og stefnur í menntamálum í dag.

Afsakið orðbragðið, en hvurs lags dómsdags kjaftæði er þetta??

Ef straumar og stefnur í menntamálum í dag skila ólæsum nemendum út í þjóðfélagið þá eru þeir straumar og stefnur einfaldlega óboðlegir og hreinlega þarf að setja af stað neyðaráætlun til að henda þeim út.

Sem betur fer sluppu synir mínir við þessar töfrastefnu, en ég man eftir umræðum í skólastarfi þegar verið var að hefja innleiðingu, á nýrri menntastefnu, „uppgötvun“ var það kallað ef ég man rétt. Mikið var talað um að þetta væri svo „sniðugt“ og búið væri að margsanna gildi stefnunnar. Þegar spurt var um hvar mætti finna rannsóknir eða staðfestingar á gildi stefnunar varð allt í einu fátt um svör. „Það hlýtur bara að vera að það séu einhverjar rannsóknir sem styðja þetta, þetta er svo sniðugt“ voru á endanum einu svörin sem fengust.

Þetta kallast hindurvitni í minni orðabók.

Pisa virðist benda til að þessi stefna sé gagnslaus.

Lokað er á athugasemdir.