Ekki hlægja að rökleysum

Posted: desember 13, 2013 in Umræða
Efnisorð:, ,

Það er kannski illa gert að hlægja að fólki sem hefur ekki vald á lágmarks rökhugsun.

En þegar viðkomandi er áberandi lögmaður og alþingismaður sem lætur fá færi ónotuð til að kynna sig og sinn málflutning.. þá er kannski allt í lagi að bera í bakkafullan lækinn og benda enn einu sinni á vitleysuna.

Samkvæmt færslu Brynjars Níelssonar þá virðist ekki í lagi að dæma fólk fyrir verknað sem ekki hefur verið dæmt fyrir áður. Þetta þýðir að sjálfsögðu að aldrei er hægt að dæma eftir nokkrum lögum.

Þá virðist ekki skipta máli hvaða lög gilda hér á landi heldur eigi að taka tillit til hvernig dómar hafa fallið erlendis.

Þar fyrir utan mætti ætla af skrifum Brynjars að ef einhver væri nægilega séður til að fremja afbrot sem ekki hefur verið framið erlendis (nú eða komist upp) áður þá megi ekki dæma fyrir það hér á landi.

Einhverra hluta vegna virðist Brynjari finnast að einstaka stéttir, til dæmis bankamenn, eigi að fá sér meðhöndlun – án þess að nefna nokkuð því til stuðnings.

Þá fer rökleysan í hring þegar gætt er að því að upphafleg fullyrðing, þess efnis að ekki tíðkist að dæma bankamenn eftir lögum, er einfaldlega ekki rétt.

Það er auðvitað ekki hlægjandi að þessu. Greinarhöfundur er bæði menntaður lögfræðingur og vinnur við að setja lög.

PS. Ég er ekki að lýsa skoðun á hvort umræddur dómur sé réttur eða rangur, aðeins að býsnast yfir rökleysum í viðkomandi grein.

Lokað er á athugasemdir.