Nei, endilega ekki sækja um vinnu í banka

Posted: desember 14, 2013 in Umræða

Einn „bloggarinn“ var að fárast í vikunni yfir dómunum í svokölluðu Al Thani máli og klikkti út með að hann myndi sko ekki sækja um vinnu í banka eftir þetta. Þrátt fyrir að geta vænst þess að fá góð laun. Og mátti jafnvel lesa á milli línanna að bankakerfið hefði þarna séð á eftir góðum bita.

En.

Er þetta ekki bara gott mál?

Nú þekki ég ekki lagatæknilegar hliðar málsins, en svo langt sem mitt nef nær þá voru þetta „æfingar“ til þess eins að fá fólk til að hafa trú á viðkomandi banka án þess að innistæða væri fyrir, þeas. ég sé ekki betur en að þetta hafi verið vísvitandi blekkingar.

Hvers vegna ætti einhver að hætta við að sækja um vel launaða vinnu í banka eftir svona dóm? Það mætti jú ætla að viðkomandi hafi hugsað sér að stunda svipaða iðju. Og ef svona dómur verður til að viðkomandi hættir við að senda inn atvinnuumsókn, þá minnka jú, líkurnar á að í bankakerfið veljist til starfa fólk sem ætlar sér að stunda það sem virðast vera frekar vafasöm viðskipti.

Er það þá ekki bara hið besta mál? Er það ekki jafnvel merki þess að réttarkerfið hér á landi hafi aldrei þessu vant virkað?

Lokað er á athugasemdir.