Að sitja undir dylgjum.. nú, eða ekki

Posted: desember 19, 2013 in Umræða
Efnisorð:

Ég veit að ég á að vita betur en að vera að svara svona… en ég á bara svo erfitt með að sitja undir dylgjum.

Hér birtist grein þar sem sagt er að ég snúi öllu á haus og geri öðrum manni upp skoðanir í færslu. Ekkert dæmi er tilgreint um hverju ég á að hafa snúið á haus. Ekkert dæmi er tekið um hvar eða hvernig ég geri öðrum manni upp skoðanir. Og ekki auðvelt að sjá hvaða færslu er átt við þannig að mögulegir lesendur gætu kynnt sér skrif mín sjálfir, hvað þá að tilvísun fylgi.

Enda virðist Egill Helgason, einhverra hluta vegna, vera aðal skotspónn greinarinnar.

Ég hef átt, í sjálfu sér, ágætt spjall (Facebook) við greinarhöfund.

Ég hef marg sinnis sagt honum að engin herferð hafi verið í gangi gegn honum og að ég hefði ekki undir nokkrum kringumstæðum tekið þátt í neinu slíku. Þarna hafi einungis verið um að ræða eðlileg og heiðarleg viðbrögð fólks sem var bent á undarlega umfjöllun um félagsskap sem það tilheyrir. Einfalt hefði verið að leysa málið ef athugasemdum hefði verið sýndur smá skilningur. Hann trúir mér ekki. Ég get svo sem lítið meira gert í því.

Þessi deila virðist hafa magnast upp í einhvers konar „stríðsástand“ félagsskap kennara og greinarhöfundar, ég kann ekki betra orð. Hann tók innra spjall félagsins af læstum vef í leyfisleysi. Það út af fyrir sig finnst mér nokkuð gróft. Ég sendi Persónuvernd fyrirspurn vegna þessa og þó svarið hafi verið með öllum fyrirvörum þá sýnist mér augljóst að þarna hafi greinarhöfundur gengið of langt. En það tekur því ekki að elta það, viðkomandi myndi örugglega líta á það sem hluta af „skipulagðri herferð“. Verra er að greinarhöfundur tekur ummæli úr þessu spjalli og snýr merkingu þeirra fullkomlega á hvolft. Það er margsinnis búið að benda honum á þetta. En honum virðist einfaldlega finnast það allt í lagi. Nema hann skilji raunverulega ekki samhengi textans sem hann tekur og snýr á hvolf.

Þetta virðist vera að snúast í áráttu eða þráhyggju gagnvart Agli Helgasyni fyrir (til þess að gera) sárasaklausar athugasemdir á Facebook, sem eru orðnar að „yfirlýsingum“. Það hvernig hans aðkoma er blásin út er kannski besta dæmið um hvernig allir sem voga sér að anda óvarlega í „vitlausa“ átt verða stöðugt tilefni greinaskrifa.

Fyrir mér væri í rauninni miklu nær lagi að líta á umfjöllun í kennslunni og yfirdrifin viðbrögðin við athugasemdum sem „skipulega herferð“. Ég gæti eflaust brotið mér leið að tölvupósti kennara, gripið einhverjar setningar úr samhengi og fært þannig „sönnur“ á að þetta hafi allt verið skipulögð herferð. En ég geri ekki svoleiðis.

Mér finnast endalaus greinarskrif, þrátt fyrir að málinu sé löngu lokið, benda líka til eindregins vilja til að halda deilunni lifandi áfram. Til hvers, veit ég ekki..

Kannski er þetta „skipulögð herferð“ gagnvart Agli? Hvað veit ég?

Í áðurnefndu spjalli kom berlega í ljós að greinarhöfundur getur ekki mögulega viðurkennt að hafa haft rangt fyrir sér. Hann veit betur en orðabókin (td. Webster’s) hvað „gyðingar“ eru og hvað „kynþáttafordómar“ eru, svo ég taki nú dæmi af handahófi.

Þess vegna er auðvitað engin von til að hann sjái mögulega gallana við umrætt kennsluefni.

Þess vegna er auðvitað tilgangslaust að ræða málið efnislega.

En ég er ekki viss um að ég vilji þegja þegar svona er borið upp á mig.

Lokað er á athugasemdir.