Posts Tagged ‘Hræsni’

Mér var bent á undarlega athugasemd frá greinarhöfundi sem margir líta upp til..

Tilefni athugasemdarinnar virtist að gagnrýna þrasgirni og dómhörku.

En athugasemdin sjálf var einmitt þetta, dómharka, tilefnislaust þras – að ónefndum sleggjudómum, uppnefnum, fordómum, að ónefndu fullkomnu skilningsleysi á tilefninu.. jæja, gott og vel, kannski er ekkert fullkomið.

Fyrsta hugsun var, hvílík endemis hræsni.

Næst, ekki bara hræsni, heldur lekur yfirlætið og sjálfumgleðin af þessum skrifum.

Svo.. já, auðvitað.. hann er að grínast, þetta er einhvers konar gjörningur, hann er að benda á þrasgirni og dómhörku með því að skrifa sjálfur þannig athugasemd, sýna í verki hvernig fólk getur misst sig í vitleysunni. Kannski bara gott hjá honum. Verst að allt of margir taka þessu bókstaflega.

En, nei, sennilega ekki, höfundurinn hefur nefnilega verið ákafur talsmaður ákveðinnar ríkisstofnunar og verið á vaktinni og tilbúinn að gagnrýna alla sem voga sér að viðra aðrar skoðanir en stofnuninni þóknast. Einhver myndi segja „sígjammandi varðhundur ríkisrekinnar valdastofnunar“ en mér dettur það ekki í hug, enda kurteis að eðlisfari.