Það er óneitanlega verulega skondið að fylgjast með umræðunni í kjölfar skoðanakönnunar sem Siðmennt lét gera um trúarskoðanir og fleira.
Það hefur aðeins verið gagnrýnt að ekki hafi verið boðið upp á guð-stýrði-miklahvelli sem valkost.
Það er í meira lagi skondið að sjá fólk reyna að grauta þessum hugmyndum saman. Kenning biblíunnar um hvernig og uþb. hvenær guð á að hafa skapað heiminn er nokkuð skýr. Og hún hefur klárlega verið afsönnuð.
Tilgáta vísindanna um miklahvell er sennilega besta (ja, skársta) nálgun sem við höfum. Mögulega koma aðrar og betri kenningar síðar, en það verður á forsendum vísindanna.
Það er með ólíkindum að fullorðið og – að því virðist, að öðru leyti – nokkuð greint fólk skuli ekki einfaldlega getað kyngt þessu og samþykkt að texti biblíunnar sé hreint og klárt bull.
Þess í stað er farið að fjasa um að biblían sé nú bara líkingamál og hangið á því eins og hundur á roði að það megi nú bara alveg gefa sér að það sé eitthvað að marka þennan texta. Texta sem ekkert sérstaklega vel upplýstir einstaklingar skrifuðu fyrir nokkur þúsund árum í einhverri tilraun til að geta sér til um upphaf alheimsins.
Og úr verður einhvers konar grautarhyggja sem gengur gegn einfaldri skynsemi, þekktum staðreyndum og augljósum rökum. Og til að bíta höfuðið af skömminni þá er þetta sama fólk að setja sig á háan hest í umræðunni, þykist vera eitthvað „andlega“ merkilegra en við hin..