Hvers vegna ég get ekki kosið… Sjálfstæðisflokkinn

Posted: mars 29, 2013 in Stjórnmál, Umræða
Efnisorð:,

Það er ekki eins sjálfgefið að ég kjósi ekki Sjálfstæðisflokkinn og margir myndu ætla. Að vissu leyti get ég tekið undir margar þeirra grunn hugmynda sem flokkurinn lagði upp með í upphafi.

Og ég styð hugmyndir hans um skattalækkanir.

En…

Fyrir það fyrsta þá stóð flokkurinn gegn samþykkt nýrrar stjórnarskrár. Og virtist í rauninni ráða ferðinni, telja það sitt hlutverk að hafa vit fyrir þjóðinni.

Þá hefur flokkurinn lýst afdráttarlausum stuðningi við ríkiskirkjuna, sem að mínu viti gengur þvert á grunn hugsjónir flokksins. Ekki bæta tilraunir til að troða trúarbrögðum inn í stefnu flokksins úr skák, þó það hafi í sjálfu sér ekki tekist.

Þá hefur flokkurinn stutt núverandi kvótakerfi sem að mínu viti gengur einnig þvert á grunn hugmyndir sem lagðar voru til grundvallar flokknum.

Ég hef heldur ekki séð neitt frá flokknum um hvað hefði betur mátt gera fyrir hrun, ekkert um hvernig sala bankanna var í hreinni mótsögn við frjálsa samkeppni og ekkert um hvaða lærdóm má draga af hruninu. Helst er verið að setja hrunið í gæsalappir og láta eins og það hafi aldrei orðið.

Ég kenni ekki flokknum eða einstökum forystumönnum einum um hrunið, það kom margt til og aðstæður voru án fordæmis. En það er einfaldlega ekki boðlegt að geta ekki horfst í augu við að það hefði margt mátt fara betur og ég ætlast til ákveðins heiðarleika og jafnvel auðmýktar, til dæmis að geta sagt hvað yrði gert öðru vísi í dag.

Ég er ekki eindreginn Evrópusinni, mér fannst ótímabært að hefja viðræður, en mér finnst fráleitt að hætta í miðju kafi. Það virðist einhvers konar „forpokun“ gegn Evrópu hafa verið samþykkt á síðasta landsfundi, sem ekki hefur gengið að breiða yfir.

Og mér finnst satt best að segja undarlegt að sjá hvernig flokkurinn hefur snúið frá stefnu Bjarna Benediktssonar (eldri), sem ég hafði alltaf talsvert mikið álit á, og sem hann lýsti eftirminnilega í ræðu 1969.

Lokað er á athugasemdir.