Hvers vegna ég get ekki kosið… Bjarta framtíð

Posted: mars 28, 2013 in Stjórnmál, Umræða
Efnisorð:,

Björt framtíð leit þokkaleg út til að byrja með og þarna er fullt af alveg ágætis fólki – en það gildir auðvitað um fleiri.

Ruglingsleg afstaða í stjórnarskrármálinu framan af var ekki til að auka álit mitt á flokknum.

Þátttakan í að drepa stjórnarskrármálið vegur mjög þungt, er nánast úrslitaatriði.

Stuðningur við ríkiskirkjuna er svo annað þungt lóð á vogarskálarnar.

Og… svona almennt séð finnst mér stefnan frekar þunn og óljós, almennt spjall sem ber svo sem vott um góðan vilja, en lítið um hvernig á að láta þennan góða vilja verða að veruleika. Það er kannski ekki sanngjarnt að hengja sig í stöku ummæli en einn frambjóðandi sagði (að mér skilst) að í menntamálum væri stefnan einföld, þau vilji meira gott og minna vesen. Sem hefði auðvitað getað verið skemmtilegur inngangur, en er frekar verðlaus þegar ekkert meira kemur. Og síðasti dropinn er svo þessi að kynningaraðferð, þeas. að flagga fræga og fína fólkinu, ekki alveg að virka fyrir mig.

Kannski er ég ekki að meta þetta rétt, en eftir stendur stjórnarskrármálið og ríkiskirkjan, nægja til að afþakka atkvæði mitt.

Athugasemdir
 1. Sigurður Hr. Sigurðsson skrifar:

  Róbert Marshall, þingmannsefni „Bjartrar“ framtíðar, hafði þetta um málið að segja í gærkvöldi:
  „Stjórnarskrár á ekki að skrifa í átökum. Stjórnarskrár á ekki að samþykkja í hatrömmum skotgröfum hægri og vinstri. Stjórnarskrár eiga ekki að vera vinstri manna eða hægri manna. Stjórnarskrár eiga að vera allrar þjóðarinnar og með þeirri leið sem hér er verið að fara er verið að tryggja að hægt sé að halda áfram með það mál sem þessi mikli tími hefur farið í á þessu kjörtímabili og jafnframt skrifa inn í ferlið að það skuli unnið í sátt. Það er mikilvægt fyrir þá þingmenn sem hér sitja að hafa það hugfast að það er verið að setja þann leiðarvísi inn í framtíðina, og það er líka mjög mikilvægt fyrir þann meirihluta og þá þingmenn sem munu sitja á næsta þingi að hafa það hugfast líka. Þetta mál á að vinna með þeim hætti að sem flestir séu sammála.“

  Skyldi Róbert Marshall ekki vita hversu margir lögðu sitt af mörkum í ferlinu? Hefur hann gleymt því að 25 sérkjörnir fulltrúar í stjórnlagaráði samþykktu tillögurnar samhljóða? Snýr hann blinda auganu að niðurstöðum þjóðaratkvæðagreiðslunnar? Telur hann að stjórnarskrá eigi að vera lægsti samnefnari allra einstaklinga, sérhagsmunaaðila og stjórnmálaflokka? Er hann svo upptekinn af hlutverki sínu í „Bjartri“ framtíð að hann horfir framhjá því að þetta er hörð og grimm barátta um auðlindir og völd? Skyldi hann fara með sömu möntruna á næsta kjörtímabili þegar búið er að útvatna sumar tillögur stjórnlagaráðs og sleppa öðrum?

  • já, þetta er auðvitað fáránleg afgreiðsla hjá Robert, það er eins og margir þingmenn líti á stjórnarskrána sem einkamál þingmanna… eins og þú segir, löngu búið að ná víðtækri samstöðu

 2. Hilmar skrifar:

  Já Sigurður, það er full ástæða til þess að halda þessum orðum Róberts til haga.
  Ég varð gáttaður að hlusta á þetta kjafæði hans. Það var þá „bjarta framtíðin “

  Annars smá hérna fyrir þig Valgarður, svona til að lyfta andanum:

  http://www.mbl.is/frettir/innlent/2013/03/28/upprisan_er_lifandi_veruleiki/