Hvers vegna ég get ekki kosið… Vinstri græna

Posted: mars 27, 2013 in Stjórnmál, Umræða
Efnisorð:, ,

Þetta er reyndar frekar einfalt. Ég er hvorki „vinstri“ maður né „grænn“ – að minnsta kosti ekki í þeim skilningi sem þessi flokkur virðist leggja í hugtökin.

Nú er erfitt að henda reiður á hvað hugtakið „vinstri“ þýðir en, sem sagt, ef ég lít til þeirrar merkingar sem flokkurinn virðist leggja í það þá er ég þeim fullkomlega ósammála. Ég vil sem minnst ríkisafskipti og sem minnsta aðkomu ríkisins að atvinnulífinu.

Þá eru hugmyndir um ritskoðanir, netlögreglu og internet eftirlit fullkomlega fráleitar. Á sama hátt og takmarkanir eða bann á klámi, fjárhættuspilum, sykurneyslu og yfirlett hvers kyns forsjárhyggja. Þetta er grundvallaratriði, ég vil ekki sjá þetta.

Þá virðast margir forystumanna ekki taka upplýsingum eða rökum, nokkuð sem ég set sem grundvallarskilyrði fyrir að styðja fólk til setu á Alþingi. Það hefur til að mynda ítrekað verið bent á hvers vegna ritskoðun á „klámi“ (fyrir utan allt annað) er (nánast) óframkvæmanleg. Ég segi „nánast“ í sviga því auðvitað er allt hægt, en með þvílíkum fórnarkostnaði að það næði ekki nokkurri átt.

Þegar ég segist ekki vera „grænn“ þá á ég við að ég styð ekki hugmyndir um endalaust bönn og að aldrei megi hrófla við einu eða neinu – nema þegar kemur að kjördæmapoti. Ég er ekki á móti stóriðju, þó ég vilji hafa fjölbreyttari flóru, og ég er ekki á móti virkjunum þó ég vilji standa öðru vísi og betur að málum.

Stuðningur flokksins við ríkiskirkjuna er svo auðvitað óskiljanlegur með öllu.

Þátttaka flokksins í að svæfa stjórnarskrármálið vegur auðvitað þungt, en þarf ekki til.

En svo allrar sanngirni sé gætt, þá mega flestir forsvarsmenn hreyfingarinnar eiga að þeir tala skýrt og eru sjálfum sér (oftast) samkvæmir.

Þá má Steingrímur J eiga það að hann fékk gríðarlega erfitt verkefni í hendurnar og leysti af mikilli samviskusemi út frá þeim aðferðum sem hann hafði trú á. Ég vil sem sagt að það komi fram að mér finnst gagnrýnin að mörgu leyti ómakleg. En það nægir mér ekki til að kjósa flokkinn. Og ég er flokksmönnum ósammála í grundvallaratriðum.

Athugasemdir
  1. Kári Emil Helgason skrifar:

    Síðan hvenær styður VG ríkiskirkjuna? Ég veit að UVG styðja afdráttarlaust aðskilnað ríkis og kirkju og ég var sannfærður um að síðasta landsfundarsamþykkt móðurflokksins gerði það líka, þó ég finni það að vísu ekki á heimasíðunni. En hvað hefur þú heyrt?

  2. Ég er kannski helst að vísa til ítrekaðra ummæla og greinaskrifa Ögmundar Jónasonar, td. http://eyjan.pressan.is/frettir/2012/07/15/ogmundur-2/ og http://ogmundur.is/annad/nr/6368/ og http://www.ogmundur.is/frjalsir-pennar/nr/3098/ – og að tillögur um að lýsa yfir að stefna að aðskilnaði hafa verið felldar á landsfundi, amk. ef marka má frásagnir.

    En ef rétt er að Vinstri grænir vilji aðskilnað ríkis og kirkju væri það plús fyrir þá, en ég vil sjá samþykkt þess efnis. Yfirlýsingar ungliðahreyfingarinnar telja jafn lítið fyrir vinstri græna og aðra flokka, td. Sjálfstæðisflokk, þegar kemur að því að ákveða hvert mitt atkvæði fer.