Útúrsnúningar ehf.

Posted: mars 28, 2014 in Uncategorized

Segið svo að ríkisstjórnin komi ekki hjólum atvinnulífsins í gang.. Ég var einmitt að fá alveg stórkostlega hugmynd að fyrirtæki eftir að lesa pistil Jóhannesar Þórs Skúlasonar, aðstoðarmanns forsætisráðherra.

Ég ætla að stofna „Útúrsnúninga ehf.“. Kannski „Orðhengilsháttur ehf.“ væri betra. Nú eða eitthvað loðnara.

En hugmyndin er frábær. Ég ætla að aðstoða fólk við að snúa sig út úr gefnum loforðum og yfirlýsingum.

Tökum dæmi.

Vinur minn (nú, eða ekki vinur) fer til gamals frænda sem er þokkalega vel settur, ber sig aumlega og segir:

„Veistu frændi, mig bráðvantar bíl.. strætó gengur bara eiginlega ekki á vinnutíma hjá mér og þetta eru langar ferðir sem kosta mig stórfé í leigubíla“

„Geturðu lánað mér 300 þúsund?“.

„Ég ætti að geta borgað þér til baka eftir nokkra mánuði“

Frændinn lánar peningana en vinurinn fer á allsherjar fyllirí (í víðasta skilningi) og eyðir peningunum í allt annað en bíl.

Frændi verður saltvondur, húðskammar vininn og heimtar peningana til baka.

Og að öllu jöfnu verður vinurinn niðurlútur, reynir að finna peninga, selur jafnvel eitthvað sem hann á og reynir að borga til baka.

Hér koma „Útúrsnúingar ehf.“ til sögu. Eftir smá ráðleggingar stendur vinurinn keikur fyrir framan frænda og segir:

„Ég sagði aldrei að ég ætlaði að nota lánið til að kaupa mér bíl.“

„Ég sagði að ég ætti að geta borgað til baka, en ég sagðist aldrei ætla að gera það“

„Þetta eru bara ‘beinar lygar’ og ‘rakalaus spuni’ hjá þér frændi.“

Þarna spörum við vininum 300.000 (jafnvel auk vaxta), hann borgar mér svona kannski 50.000 fyrir ráðgjöfina. Og allir græða. Og allir sáttir.

Nema auðvitað frændi gamli.

Lokað er á athugasemdir.