Guð1: „Ég er að spá í að skapa smá alheim, svona eitthvert svakalegt víravirki, stjörnur, sólir, tungl, eina ‘jörð’ með ‘lífi’, margar tegundir, eina í minni mynd og svo aðrar sem hún getur étið“
Guð2: „Til hvers? Hefurðu það ekki fínt?“
Guð1: „Mér finnst tilveran bara eitthvað svo innantóm, það er enginn sem dáist að mér og tilbiður mig“
Guð2: „Hvaða máli skiptir það, ertu ekki guðleg vera? Er þetta ekki óþarfa hégómi?“
Guð1: „Hefurðu aldrei hugsað hvað það væri frábært að hafa fullt af litlum verum í þinni mynd sem tilbiðja þig?“
Guð2: „Nei, get nú ekki sagt það, mér finnst tilhugsunin hálf kjánaleg“
Guð1: „Og svo hef ég einn útvalinn hóp sem verður minn hópur“
Guð2: „Á þá bara þessi hópur að tilbiðja þig?“
Guð1: „Nei, nei, auðvitað eiga allir að tilbiðja mig. Líka þeir sem aldrei hafa heyrt um mig“
Guð2: „Svafstu illa í nótt?“
Guð1: „Þú veist að við þurfum ekki að sofa og það er enginn munur á degi og nóttu… En ég er að spá í að drífa í þessu, held að þetta verði frábært“
Guð2: „En hvers virði er að skapa lífverur sem tilbiðja þig ef þær hafa ekkert val?“
Guð1: „Nokkuð til í því, kannski ég gefi þeim kost á að velja að tilbiðja mig eða ekki, þá væri stórkostlegt að upplifa tilbeiðsluna“
Guð2: „Já, kannski, en ef verurnar kjósa að tilbiðja ekki?“
Guð1: „Þú meinar það… já, þá sendi ég sendi hverjar hamfarir og plágur á eftir annarri, drep og refsa grimmilega“.
Guð2: „OK, það gæti verið fjör. En ef það dugar ekki?“
Guð1: „Þá fer ég til þeirra, læt fæða mig sem einn þeirra, læt þá drepa mig til að geta fyrirgefið þeim og rís svo upp frá dauðum“
Guð2: „Þú veist að það er ekki hægt að drepa okkur. Og ef það er ekki hægt að drepa okkur hvernig getum við þá risið upp? Og hvers vegna að standa í öllu svona veseni, er ekki einfaldara að fyrirgefa þeim bara rétt si sona?“
Guð1: „Jú, en mér leiðist“