Samsæriskenningar – iðnaður og fíkn

Posted: janúar 13, 2019 in Umræða

Eftir að hafa verið „umlukinn“ samsæriskenningum síðasta áratuginn eða svo fór ég að velta fyrir mér hvort þetta ætti sér aðrar skýringar en ástríða fyrir að leita sannleikans.

Upphafið tengdist auðvitað ellefta-september. Myndin (eða safnið) „Confronting The Evidence“ var undarlegur grautur af kenningum, blekkingum, órökstuddum fullyrðingum, hreinum og klárum fölsunum, getgátum, skorti á menntun og bókstaflega fráleitum hugmyndum. Ég sat meira að segja nokkrum sinnum undir þessu (ekki mitt val) og oftast heyrði ég reyndar bara hljóðið – sem varð kannski til að blekkingarnar og fúskið voru enn augljósari – og var eiginlega kjaftstopp að verða vitni að því að skynsamasta fólk virtist kokgleypa þennan þvætting gagnrýnislaust. Þetta var bara byrjunin og hver kenningin varðandi ellefta-september tók við af annarri, eins og hafin væri einhver keppni þar sem sigurvegarinn yrði sá sem kæmi með langsóttustu/vitlausustu kenningarnar. Margir trúðu þeim öllum eins og nýju neti og skipti þá engu máli þó þær væru mótsagnakenndar og stönguðust illilega hver á við aðra.

Nú er rétt að taka skýrt fram að ég hafna engu varðandi ellefta-september, fæstar kenninganna um hvað gerðist standast einfaldlega skoðun –  ég hafna því einfaldlega að viðkomandi kenningar sýni fram á eitthvað.

Svo tók við hver samsæriskenningin af annarri. CIA yfirtók heila fólks og fór að fylgjast með, gott ef ekki stýra því hvað fólk gerði.. Hlýnun jarðar var ekki raunveruleg og er bara eitt stórt samsæri. Eitthvað (sem ég man ekki hvernig var) sneri að rákum sem sjást á himni þegar flugvélar fljúga yfir. Olympíuleikarnir voru nefndir til sögunnar, ég náði aldrei hvernig, enda hættur að hlusta.

Jörðin er flöt! Þyngdaraflið er samsæri! Það þurrkar upp sólina að nota sólarorku! Súkkulaði er (æ, ég nennti ekki að lesa).

Svo kom smá hlé, en ekki langt. Pizzagate dúkkaði upp og var tekið opnum örmum. Það var bókstaflega enginn sía eftir til að kveikja á hversu fáránlegar samsetningarnar voru, hversu lítil stoð var að því sem sett var fram til að hrapa að þeim ályktunum sem voru dregnar.. og hversu augljóslega verið var að beinlínis falsa upplýsingar. Þetta var svo „stjarnfræðilega“ vitlaust að ellefta-september kenningarnar voru nánast orðnar „gáfulegar“ í samanburðinum.

Jafnvel staðfestar sannanir fyrir því að ákveðin kenning væri fullkominn tilbúningur úr lausu lofti nægir ekki til. Haldið er áfram að klifa á bullinu og alltaf eru einhverjir ófærir um að vinna úr upplýsingum, efast og leita sér upplýsinga.

Þetta virðist vera orðin stór og arðbær atvinnugrein, að búa til samsæri. Fólk fær „fylgjendur“ og fer að græða á fyrirlestrum og jafnvel bóksölu.

Og þessi atvinnugrein nærist á einhverju sem er varla annað en fíkn auðtrúa einstaklinga í hvers kyns samsæri. Mögulega er þetta af sama grunni og áhuginn á óvæntum úrslitum og óvæntum enda, kannski spilar þetta á svipaðar taugar og spilafíkn, eða einfaldlega fíknina í eitthvað óvænt – eins og vefmiðlar spila til að mynda stöðugt á… „þú verður alveg rosalega hissa ef þú lest þessa frétt eða horfir á þetta videó“.

Það er nefnilega nóg af fólki sem getur ekki unnið úr upplýsingum, oftast ómenntað og hefur aldrei lært að vega og meta gögn, upplýsingar og/eða heimildir, skilur einfaldlega ekki hugtökin.

Vefsíður þar sem einhver fullyrðir eitthvað út í bláinn, fullkomlega órökstuddar fullyrðingar um að setningar merki eitthvað allt annað en þær merkja, YouTube myndbrot þar sem alvöruþrunginn (eða æstur) þulur fullyrðir eitthvað undir dramatískri tónlist, segir jafnvel að eitthvað sjáist á mynd sem hvergi sést, „Photoshoppaðar“ myndir, YouTube myndir með óstaðfestan uppruna, tilbúnar fréttir… allt þetta eru góðar og gildar heimildir – það er að segja ef þær styðja einhverja spennandi niðurstöðu.

Marg staðfestar upplýsingar og vottaðar staðreyndir sem sýna fram á hið gagnstæða eru svo ýmist „falskar“ en aðallega (auðvitað) hluti af samsærinu. Lítil atriði verða aðalatriði, eiga sér kannski fimm-sex mögulegar og eðlilegar skýringar, en það er (auðvitað) ákveðið að engin þeirri gangi upp (allt í einu haga allir sér fullkomlega skynsamleg og gera engin mistök)… og eftir stendur eina skýringin sem styður samsærið. Svo er auðvitað fyllt í eyðurnar með getgátum og fantasíum þar sem ekkert stöðvar hugmyndaflugið… síst af öllu þekking.

Lokað er á athugasemdir.