Ábyrgð á atkvæðum í kosningum

Posted: janúar 8, 2019 in Stjórnmál, Umræða
Efnisorð:,

Það dúkkar enn upp sú bábilja að þáverandi forseti hafi „bjargað þjóðinni“ í IceSave deilunni. Ekki svo að skilja að ég hafi ekki fengið nóg af umræðunni á sínum tíma, en það er kannski aldrei of seint að læra af reynslunni.

Fyrir það fyrsta, eins og Indriði H. Þorláksson í grein hér hefur sýnt fram á þá var sennilega dýrari leið að hafna samningi þegar allt kom til alls… það má vissulega velta fyrir sér nokkrum atriðum hjá Indriða, hugsanlegum vöxtum og gengisþróun, sem auðvitað var ekki þekkt fyrir fram – en ekkert af þeim vangaveltum breytir svo miklu að við höfum séð fram á „gjaldþrot“, „óviðráðanlega greiðslubyrði“ og hvað þetta var kallað fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu. Þetta er ekki spurning um skoðun, þetta er bara spurning um að vera læs á tölur. Aftur, jú, það var ekki vitað nákvæmlega hvernig uppgjörið myndi ganga, en það snerist ekki um þá stærðargráðu sem haldið var fram í umræðunni á sínum tíma.

Hitt sjónarmiðið – og það sem mig langar að velta fyrir mér hér – var að við ættum ekki að bera ábyrgð á skuldum óreiðumanna – nokkuð sem mig minnir að þáverandi Seðlabankastjóri hafi orðað fyrstur. Kannski kom sú skilgreining úr hörðustu átt því sami Seðlabankastjóri fullyrti, í óspurðum fréttum, snemma árs 2008 að jafnvel þó bankarnir færu á hausinn þá gæti íslenska ríkið auðveldlega staðið undir skuldbindingum þeirra.

En að bera ekki ábyrgð á skuldum annarra.

Ég er einfaldlega ekki sammála þeirri nálgun í þessu tilfelli. Bankarnir störfuðu undir eftirliti íslenskra stofnana og bæði þær stofnanir og íslensk stjórnvöld afþökkuðu boð um að koma þessum skuldum í skjól erlendis.

Getum við sagt, „tja, mér kemur þetta ekkert við, þetta eru ekki mínar skuldir“? Eftir að hafa ítrekað kosið viðkomandi til valda?

Það er kannski fín nálgun að gera ráð fyrir að við berum einmitt ábyrgð á þeim ríkisstjórnum sem við kjósum til valda, getuleysinu og vanhæfni þeirra sem skipaðir eru í lykilstöður af viðkomandi stjórnvöldum. Og hugsum aðeins áður en við kjósum.

Lokað er á athugasemdir.