Posts Tagged ‘IceSave’

Það dúkkar enn upp sú bábilja að þáverandi forseti hafi „bjargað þjóðinni“ í IceSave deilunni. Ekki svo að skilja að ég hafi ekki fengið nóg af umræðunni á sínum tíma, en það er kannski aldrei of seint að læra af reynslunni.

Fyrir það fyrsta, eins og Indriði H. Þorláksson í grein hér hefur sýnt fram á þá var sennilega dýrari leið að hafna samningi þegar allt kom til alls… það má vissulega velta fyrir sér nokkrum atriðum hjá Indriða, hugsanlegum vöxtum og gengisþróun, sem auðvitað var ekki þekkt fyrir fram – en ekkert af þeim vangaveltum breytir svo miklu að við höfum séð fram á „gjaldþrot“, „óviðráðanlega greiðslubyrði“ og hvað þetta var kallað fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu. Þetta er ekki spurning um skoðun, þetta er bara spurning um að vera læs á tölur. Aftur, jú, það var ekki vitað nákvæmlega hvernig uppgjörið myndi ganga, en það snerist ekki um þá stærðargráðu sem haldið var fram í umræðunni á sínum tíma.

Hitt sjónarmiðið – og það sem mig langar að velta fyrir mér hér – var að við ættum ekki að bera ábyrgð á skuldum óreiðumanna – nokkuð sem mig minnir að þáverandi Seðlabankastjóri hafi orðað fyrstur. Kannski kom sú skilgreining úr hörðustu átt því sami Seðlabankastjóri fullyrti, í óspurðum fréttum, snemma árs 2008 að jafnvel þó bankarnir færu á hausinn þá gæti íslenska ríkið auðveldlega staðið undir skuldbindingum þeirra.

En að bera ekki ábyrgð á skuldum annarra.

Ég er einfaldlega ekki sammála þeirri nálgun í þessu tilfelli. Bankarnir störfuðu undir eftirliti íslenskra stofnana og bæði þær stofnanir og íslensk stjórnvöld afþökkuðu boð um að koma þessum skuldum í skjól erlendis.

Getum við sagt, „tja, mér kemur þetta ekkert við, þetta eru ekki mínar skuldir“? Eftir að hafa ítrekað kosið viðkomandi til valda?

Það er kannski fín nálgun að gera ráð fyrir að við berum einmitt ábyrgð á þeim ríkisstjórnum sem við kjósum til valda, getuleysinu og vanhæfni þeirra sem skipaðir eru í lykilstöður af viðkomandi stjórnvöldum. Og hugsum aðeins áður en við kjósum.

Það stefnir í að sigurinn í IceSave málinu verði okkur heldur betur dýrkeyptur þegar öll kurl koma grafar.

Vissulega var ég ánægður með að málið vannst… þrátt fyrir að ég mælti með að samþykkja hann á sínum tíma. Mér fannst áhættan einfaldlega ekki verjandi og málsstaður okkar engan veginn eins skotheldur og aðrir vildu meina. Samningurinn var fyrir mér ásættanlega niðurstaða samningaviðræðna þegar aðilar deila.

Málið vannst á tækniatriði sem hafði ekkert að gera með afstöðu þeirra sem börðust fyrir því að fella samninginn. Enginn hafði – amk. mér vitanlega – nefnt þessi rök í kosningabaráttunni. Og hafi einhver nefnt þetta var það að minnsta kosti ekki að ná til kjósenda.

En eftir stóð að málið vannst og sá flokkur sem barðist harðast gegn samningnum sópar að sér fylgi. Kjósendur virðast halda að þó málið hafi unnist hafi það eitthvað haft með afstöðu og rök flokksmanna að gera.

Og afleiðingin verður mögulega sú að ódýrar yfirlýsingar flokksmana í kosningabaráttunni laða kjósendur að flokknum. Kjósendur hugsa líklega eitthvað á þá leið að fyrst flokkurinn hafi haft rétt fyrir sér í IceSave – sem hann hafði ekki – þá hljóti honum að vera treystandi í efnahagsmálum.

Einhverjir kjósendur hafa tekið sönsum eftir því sem flokknum vefst oftar tunga um tönn við að skýra hvað hann  meinar í rauninni með kosningaloforðunum. Og markviss gagnrýni á hugmyndir flokksmanna hafa

En eftir stendur að allt of margir virðast ætla að kjósa flokkinn.

Þetta gæti á endanum kostað okkur meira en það sem við „spöruðum“ með IceSave. Pyrrhosar-sigur var þetta einhverju sinni kallað.

IceSave lok

Posted: janúar 28, 2013 in Umræða
Efnisorð:

Mikið rosalega er ég feginn að þetta IceSave mál er loksins (vonandi) endanlega úr sögunni.

Það er ekki annað hægt en að fagna niðurstöðunni… ég talaði fyrir því að samþykkja þriðja samninginn, ekki af einhverri illkvittni eða vegna þess að ég vildi endilega borga eitthvað sem mér bæri ekki að borga.

Ég mat stöðuna einfaldlega þannig að það væri skárri kostur að loka málinu á þeim tíma með þeim samningi en að taka þessa áhættu, þó fleiri atriði spiluðu reyndar inn í þá afstöðu. Sem betur fer skilaði áhættan sér, en óneitanlega ber þetta keim af að leggja háar upphæðir undir í fjárhættuspili, kannski á ekkert sérstaklega mikla möguleika. Mér fannst það ekki góður kostur, en gott og vel, þetta gekk upp.

Við virðumst reyndar hafa sloppið á tæknilegu atriði vegna tímasetninga aðgerða við að fá á okkur dóm vegna mismunar eftir þjóðerni. Og mér finnst sú ákvörðun ekkert endilega til fyrirmyndar.. en truflar kannski ekki mikið fyrst það stefnir í að það náist að greiða tryggingar.

Hitt má líka kannski hafa í huga að sú leið að leita samninga liðkaði væntanlega á sínum tíma fyrir fyrirgreiðslu, sem var okkur nauðsynleg – án þess að ég þykist vita hvernig það hefði farið.

Ég ætla að láta þetta nægja. Að minnsta kosti að sinni. En það er allt í lagi að ræða geðvonskulaust hvað var vel gert og hvað hefði mátt gera betur. Svona þegar um hægist.

Ef IceSave dómur…

Posted: janúar 27, 2013 in Umræða
Efnisorð:,

Ég hef alltaf verið fylgjandi þjóðaratkvæðagreiðslum sem góðri leið til að skera úr um deilumál. Aðallega þó um stefnumótandi ákvarðanir en ég hef haft fyrirvara og efasemdir um einföld tæknileg atriði – sérstaklega þar sem fólk tekur afstöðu með skammtímahagsmuni að leiðarljósi.

Gott dæmi um atriði sem á varla heima í þjóðaratkvæðagreiðslu var atkvæðagreiðslan um síðasta IceSave samning. Ég kynntist allt of mörgum dæmum – án þess að geta fullyrt að þar hafi verið þverskurður af allri þjóðinni – þar sem fólk greiddi atkvæði án þess að hafa í raun hugmynd um hvaða valkostir væru í boði eða hvaða afleiðingar hvor kostur gæti haft, hvað þá að verið væri að meta þá kalt.

Auðvitað voru margir sem kynntu sér málið vel og komust að annarri niðurstöðu en ég. En það voru margir sem greiddu atkvæði án þess að hafa hugmynd um hvað valkostirnir þýddu.

Spilað var á þjóðerrnisrembing og ljótu-kallarnir-í-útlöndum og allan þá órökréttu tilfinningastrengi sem voru í boði. Og samningnum var hafnað. Vissulega var hann ekki ákjósanlegur, en ég taldi þetta bestu niðurstöðu til að ljúka málinu.

Á morgun fellur dómur í málinu. Ætli þeir sem sögðu nei hafi hugleitt hvað niðurstaðan getur þýtt? Eru þeir tilbúnir til að bera ábyrgð á sínu atkvæði?

Nei, ég segi nú bara svona. Mér dettur auðvitað ekki í hug að fólk standi við stóru orðin frá því fyrir kosningarnar….