Mikið rosalega er ég feginn að þetta IceSave mál er loksins (vonandi) endanlega úr sögunni.
Það er ekki annað hægt en að fagna niðurstöðunni… ég talaði fyrir því að samþykkja þriðja samninginn, ekki af einhverri illkvittni eða vegna þess að ég vildi endilega borga eitthvað sem mér bæri ekki að borga.
Ég mat stöðuna einfaldlega þannig að það væri skárri kostur að loka málinu á þeim tíma með þeim samningi en að taka þessa áhættu, þó fleiri atriði spiluðu reyndar inn í þá afstöðu. Sem betur fer skilaði áhættan sér, en óneitanlega ber þetta keim af að leggja háar upphæðir undir í fjárhættuspili, kannski á ekkert sérstaklega mikla möguleika. Mér fannst það ekki góður kostur, en gott og vel, þetta gekk upp.
Við virðumst reyndar hafa sloppið á tæknilegu atriði vegna tímasetninga aðgerða við að fá á okkur dóm vegna mismunar eftir þjóðerni. Og mér finnst sú ákvörðun ekkert endilega til fyrirmyndar.. en truflar kannski ekki mikið fyrst það stefnir í að það náist að greiða tryggingar.
Hitt má líka kannski hafa í huga að sú leið að leita samninga liðkaði væntanlega á sínum tíma fyrir fyrirgreiðslu, sem var okkur nauðsynleg – án þess að ég þykist vita hvernig það hefði farið.
Ég ætla að láta þetta nægja. Að minnsta kosti að sinni. En það er allt í lagi að ræða geðvonskulaust hvað var vel gert og hvað hefði mátt gera betur. Svona þegar um hægist.