Posts Tagged ‘Veggjöld’

Þá virðast veggjöldin vera á leiðinni.

Fyrir það fyrsta þá er þetta grundvallarmisskilningur, misskilningur sem byggir á því að gott samgöngukerfi sé eingöngu fyrir þá sem keyra um á bíl.

Auðvitað kemur gott samgöngukerfi öllum til góða.

Og það þarf ekki að benda á kostnaðinn sem lélegt kerfi hefur í för með sér fyrir okkur öll.

Ekki bætir úr skák að fyrirhuguð gjöld leggjast ekki í nokkru samræma á þá sem nota vegakerfið, ef við gefum okkur að þeir sem nota vegakerfið mest eigi að greiða fyrir uppbyggingu þess – sem eins og áður segir, gengur ekki upp.

Þá er eiginlega fráleitt að fara í skattheimtu sem kostar talsvert í framkvæmd og étur þannig hluta af gjöldunum, þetta er einfaldlega glórulaus sóun á peningum.

Að lokum treysti ég ekki þessum skattpíningarkóngum fyrir horn, reynslan hefur margsinnis sýnt að sérstök gjöld, ætluð til afmarkaðra verkefna, renna fljótlega í hvaða önnur verkefni sem sem þykir vinsælt að hafa í forgangi hverju sinni.

Veggjöld, vond hugmynd

Posted: desember 19, 2018 in Stjórnmál, Umræða
Efnisorð:

Ég skal játa að mér fannst hugmyndin um veggjöld ekki alslæm þegar ég heyrði af henni fyrst. Enda gerði ég ráð fyrir að skattar á eldsneyti yrðu lækkaðir á móti, tryggt yrði að tekjur af þeim rynnu beint í vegakerfið og kostnaður við framkvæmd innheimtunnar yrði ekki úr öllu hófi.

Nú virðist ljóst að ekki standi til að lækka skatta á móti, engin leið er að tryggja að tekjurnar fari í vegakerfið og ekkert er vitað um kostnað við innheimtu.

Þetta er að sjálfsögðu nægilegt til að ég er algjörlega mótfallinn hugmyndinni. Enda er það eðli málsins samkvæmt að margar tegundir að innheimtu kalla á meiri rekstur við innheimtuna.

En svo fór ég að hugsa betur.

Hugmyndin er í rauninni alltaf vond.

Það er alltaf aukinn kostnaður við innheimtuna, jafnvel þó hann verði innan skynsamlegra marka, þá er þetta alltaf sóun.

En aðallega þá er ég ekki sáttur við þessa hugmynd.

Samgöngur eru ekki lúxus þeirra sem nota samgöngukerfið. Góða samgöngur nýtast öllum til lengdar og kostnaðurinn við slæmt samgöngukerfi bitnar á öllum.

Jafnvel þó einhverjum finnist réttlæti í því að mikil notkun vegakerfisins kalli á enn hærri gjöld en felast í himinháum gjöldum á eldsneyti, þá get ég ekki séð að hugmyndin gangi upp, amk. ekki eins og verið er að ræða framkvæmd.

Eða hver eru rökin fyrir því að sá ökumaður sem keyrir oft inn og út af höfuðborgarsvæðinu eigi að borga meira fyrir vegakerfið en sá sem keyrir tvöfalt meira innan höfuðborgarsvæðisins?

Og hver eru rökin fyrir því að sá sem keyrir inn og út af höfuðborgarsvæðinu tvisvar á dag eigi að borga meira fyrir vegakerfið en sá kemur utan af landi tvisvar í viku.

Og hver eru rökin fyrir að þessir ökumenn eigi til dæmis öðrum fremur að standa undir jarðgöngum í öðrum landshlutum?

Það eru auðvitað til leiðir til að leggja gjöld hlutfallslega rétt á þá sem nota vegakerfið meira en aðrir. En mér dettur eiginlega ekki í hug að skýra þær, mér finnst þetta engan veginn sanngjarnt. Og mig grunar að skattheimtuhrammur ríkisstjórnarinnar bæti þeim einfaldlega við aðrar hugmyndir.