Siðferði eða lög

Posted: febrúar 25, 2017 in Umræða

Ég átti spjall í gær við mann sem hélt því fram, hafi ég skilið rétt, að ekkert væri siðferðislega rangt nema það væri ólöglegt – lögin enduspegluðu siðferðið.

[svo því sé haldið til haga þá hafði viðkomandi samband og segir mig ekki hafa skilið hann rétt, hann hafi ekki haldið þessu fram, en þetta er svo sem ekki í fyrsta skipti sem ég heyri þetta og auðvitað aukaatriði í þessari færslu, hér er ég eingöngu að fjalla um þessar hugmynd, hvaðan sem hún kemur]

Það er í sjálfu sér margt við þessa fullyrðingu að athuga. Vonandi þarf ég ekki að fjölyrða um það. Ég vona að minnsta kosti að ég nái að haga mér þannig að ég geri það sem mér finnst siðferðilega rétt án tillits til hvort einhver nákvæmur lagabókstafur nái til þess eða ekki.

Hitt er að með þessari afstöðu erum við komin í ákveðna sjálfheldu.

Ef ekkert er siðferðilega rangt nema það sé ólöglegt.. þá náum við aldrei að setja neitt nýtt í lög! Því ef mér finnst að það eigi að setja í lög að banna ákveðna hegðun vegna þess að hún sé siðferðilega röng – þá segir sig sjálft að hún er ekki siðferðilega röng vegna þess að hún er ekki bönnuð með lögum. Og ef hún er ekki siðferðilega röng þá er auðvitað ekki rétt að setja nein lög um hana.

Lokað er á athugasemdir.