Vegatollar??

Posted: febrúar 13, 2017 in Stjórnmál, Umræða
Efnisorð:

Ég verð að játa að ég næ ekki þessari umræðu um vegatolla.

Burtséð frá því hvort skattar sem lagðir eru á bifreiða- eigendur og notendur standa undir rekstri vegakerfisins.

Og burtséð frá því hvort bílar eru of stór hluti samgöngukerfisins eða ekki.

Þá fæ ég ekki betur séð en að þessi aðferð við að sækja tekjur sé alveg einstaklega óhagkvæm. Það koma auðvitað einhverjar leiðir til greina og ég veit ekki nákvæmlega hvernig hugmyndin er að framkvæma þetta – en líkast til þarf að setja upp hlið, ráða fólk í vinnu, koma upp kerfi, gefa út kort og/eða setja upp eftirlitskerfi – og er þá fátt eitt nefnt.

Þannig virðist þessu fylgja talsverður óþarfa kostnaður – vera einfaldlega hrein og klár sóun á mannafla, efni, peningum..

Þeir greiða væntanlega mest sem aka mest, sem gildir líka um bensíngjaldið. Ég hef amk. ekki séð neina greiningu á því að þetta gjald leggist á ökumenn í öðrum hlutföllum, hvað þá réttlætingu fyrir því að leggja gjöld á ökumenn þannig að ákveðinn hluti þeirra greiði hærri gjöld en aðrir.

Sums staðar eru vegatollar notaðir til að stýra umferð, en þá eingöngu þar sem fólk hefur einhverja valkosti. Ég hef ekki heyrt neitt um að þessi gjöld eigi að nota í þeim tilgangi, hvað þá hvernig sú stýring er hugsuð og hvert hugmyndin er að beina fólki.

Þannig að ef hugmyndin er einfaldlega að leggja meiri álögur á bifreiðaeigendur / ökumenn þá er auðvitað mun einfaldara að hækka gjöld á eldsneyti.

En þá rifjast einmitt upp.. erum við ekki einmitt nú þegar að borga himinhá gjöld af eldsneyti til að standa undir vegakerfinu?

Er þetta ekki bókstaflega arfavitlaus hugmynd? [svo ég spyrji nú, enn einu sinni, eins og bjáni]

† setti viðbætur við upphaflega færslu 15.2.2017 13:47

Lokað er á athugasemdir.