Aldurinn og áfengið

Posted: febrúar 10, 2017 in Stjórnmál, Umræða
Efnisorð:

Nei, kannski ekki aldurinn í sjálfu sér, heldur frekar tímabilið sem „við vorum ung“.. fyrirsögnin hljómaði bara betur svona.

Ég velti fyrir mér einum rauðum þræði í umræðunni um sölu áfengis í verslunum. Þetta virðist nefnilega ekki skiptast eftir stjórnmálaflokkum og/eða -skoðunum, heldur fyrst og fremst eftir aldri.

Jú, jú, það heyrast alveg rökleysur þar sem verið er að stimpla fólk með frösum og klisjum og reyna að tengja við stjórnmálaflokka og stefnur, en það virðist fyrst og fremst koma frá þeim eru að skilgreina skoðanir annarra.

Getur verið að skýringin liggi frekar í því að hér áður fyrr, td. þegar ég var ungur, var áfengi fyrst og fremst vímuefni og með neyslu þess var verið að sækja eftir ákveðnum áhrifum, frekar en að þetta þættu endilega eitthvað sérstaklega spennandi drykkir. Tvöfaldur vodki í kók með matnum var alveg þekkt pöntun á veitingastöðum. Sólarlandaferðir snerust fyrst og fremst (hjá mörgum) um að komast í ódýrt áfengi. Það að fá sér einn drykk og láta þar staðar numið var ekki algengt. Ég ætla ekki að alhæfa út frá eigin reynslu, en ég man mjög vel eftir ákveðinni skemmtistaðamenningu sem var engan veginn bundin við minn vinahóp. Enda lá í menningunni að áfengi væri einhvers konar helgigripur sem þyrfti að meðhöndla sérstaklega. Bjór var til að mynda ekki leyfður fyrr en 1989, á meðan sterk vín voru í lagi.. sem sýnir nú kannski best „skynsemina“ þegar kom að áfengi.

Að sama skapi virðist ungt fólk í dag umgangast áfengi á allt annan hátt en fyrri kynslóðir. Það að leyfa bjórinn hjálpaði eflaust mikið til, ungt fólk fær sér 1-2 bjóra með mat, sjónvarpsglápi, tölvuleikjum, spilum, yfir spjalli.. án þess að tilgangurinn sé sá einn að komast í vímu. Líkast til hefur líka hjálpað til að það er mun ódýrara og einfaldara að ferðast, jafnvel búa erlendis, og kynnast þannig annarri menningu.

Fyrir þeim er það (heyrist mér) ótrúlega afdalamennska að það þurfi sérstakar ríkisreknar einokunarverslanir til að selja áfengi.

Gott og vel, auðvitað má finna fullt af undantekningum. Það þekktist alveg fólk sem kunni að meta áfengi hér áður fyrr án þess sækjast eftir því að komast í vímu. Og auðvitað er fullt af undantekningum um ungt fólk sem misnotar áfengi. En almennt séð, þá sýnist mér ákveðin viðhorfsbreyting vera sláandi milli kynslóða. Við eigum enn eitthvað í land, þetta er þróun og þetta snýst um viðhorf og þetta snýst um menningu. Ég held að fyrsta skrefið sé að hætta að umgangast áfengi eins og einhvers konar „helgigripi“. Og ég efast um að þessi móðursýkiskenndi [hvaðan kemur annars þessi þýðing „móðursýki“? muna að skoða seinna] tónn í umræðunni síðustu daga hjálpi til.

Svo langt sem ég sé, þá er opnunartími og fjöldi útsölustaða engin hindrun fyrir þá sem eru í vandræðum með áfengisneyslu og ætla sér að ná í áfengi, þetta eru fyrst og fremst óþarfa óþægindi fyrir aðra. Ég á líka mjög bágt með að trúa því að það skipti sköpum fyrir einhvern hvort áfengi er inni í matvöruverslun eða blasir við í næstu búð þegar komið er út. Verð virðist hafa áhrif á heildarneyslu, en ég hef ekki séð það stöðva þá sem eru í vandræðum með neysluna, það sitja einfaldlega aðrir hlutir á hakanum.

Eftir stendur að ég hef fulla trú á að við gerum best með því að bæta menningu og neysluvenjur með upplýsingum, fræðslu og aðstoð – til lengri tíma hef ég trú á að það fækki vandamálum vegna misnotkunar – ekki bara vegna neyslu áfengis. Á sama hátt hef ég ekki trú á að ríkisrekin stýring og það að setja óþarfa takmarkanir á alla (þó það sé) í vel meintri trú á að hjálpa fáum skili okkur í rauninni nokkru.

Lokað er á athugasemdir.