Posts Tagged ‘Bjór’

Fyrir daga bjórsins voru andstæðingar þess að leyfa hann þess fullvissir að það að leyfa bjór myndi einfaldlega bætast við aðra neyslu, aukið aðgengi myndi þýða meiri neyslu áfengis og við sætum uppi með enn verri drykkju með tilheyrandi vandamálum.

En skoðum tölur.

Seldir alkóhóllítrar á mann voru 3,14 árið 1980 og hafði aukist í 3,39 árið 1988. Samt var ekki búið að gera neina verulega breytingu, hvað þá að leyfa bjór.

En, vissulega jókst heildarneysla áfengis árið 1989, árið sem bjórinn var leyfður, neyslan fór í 4,13 alkóhóllítra á mann.. við fáum seint að vita hversu mikið af þessari breytingu má rekja til minnkandi heimabruggs og/eða smygls.

En, svo ber við að 1993 er neyslan orðin minni en fyrir tíma bjórsins eða 3,34 alkóhóllítrar á mann. Og aftur er rétt að hafa í huga að við vitum ekkert um brugg eða smygl fyrir tíma bjórsins. Ekki var búið að banna bjórinn aftur og ekki var búið að takmarka aðgengi að áfengi (mér vitanlega) á annan hátt.

Áfengisneysla jókst svo nokkuð þétt til 2007 þegar alkóhóllítrar á mann voru komnir í 5,95. Ekki var verið að leyfa bjórinn aftur á þessum tíma, ekki var verið að leyfa aðrar tegundir.. neyslan jókst nú bara samt, og það talsvert.

Tölurnar Hagstofunnar ná reyndar bara til 2007, það skemmtilega ártal tvö-þúsund-og-sjö. Svo minnkar neyslan aftur.. hér vantar reyndar nákvæmar tölur en í skýrslu Landlæknis er greinilegur samdráttur eftir 2007. Ekki var bjór bannaður og ekki fækkaði útsölustöðum.

Getur hugsast að það séu fleiri þættir en aðgengi sem hafa áhrif á heildarneyslu áfengis? Getur jafnvel verið að almennt efnahagsástand hafi talsverð áhrif? Verð? Fjöldi ferðamanna? Fræðsla? Breytt menning?

Er mögulegt að neysla áfengis sé einfaldlega flóknari en þeir sem hafa hæst í umræðunni vilja láta? Getur verið að aðgengi, heildarneysla, skaðsemi, unglingadrykkja haldist bara alls ekkert í hendur eftir allt saman?

Er mögulegt að þetta sé bara flökkusaga, sem haldið er við með því að að endurtaka stöðugt möntru sem á ekki við rök að styðjast..

Bjórhátíðin á Kex

Posted: febrúar 26, 2017 in Umræða
Efnisorð:, ,

Við duttum inn á bjórhátíðina á Kex um helgina, við misstum af fimmtudeginum en náðum „góðum degi“ bæði á föstudag og laugardag.

Úrvalið af undarlegum og stórskemmtilegum bjórum var hreint út sagt frábært, ef eitthvað var þá hefði mátt vera eitthvað meira af „venjulegum“ bjórum, en þeir eru svo sem í boði allt árið.

Auðvitað voru ekki allir bjórarnir góðir, fyrr mætti nú vera, sumir meira að segja nánast ódrekkandi.. en mikið rosalega finnst mér samt gaman að smakka og ég dáist að hugmyndafluginu.

Ég gleymi örugglega einhverjum og biðst afsökunar, bókhaldið var bara ekki alltaf í lagi.. en svo ég nefni nokkur dæmi af handahófi og ekki í neinni sérstakri röð þá man ég helst eftir Notorious frá Barnyard, tveir frá Ölvisholti (Barley?), cognac keimur af bjór frá Borg, nokkrir kaffi, vanillu, súkkulaði skotnir „porterar“, jafnvel með ís,BB (held ég, myndin heppnaðist ekki) frá Vestmannaeyjum… og já, er að gleyma nokkuð mörgum.

En takk fyrir frábæra hátíð, Kexbjorhatid-februar-fostudagur-3.. ekki hefði mig órað fyrir að upplifa svona stemmingu í Reykjavík þegar ég var að syngja um Bjór fyrir tæpum 35 árum. Og án þess að ég vilji vanþakka áhuga erlendra framleiðanda – sem koma hingað án þess að eiga í rauninni nokkra möguleika á að selja mikið hérna – þá fannst okkur nokkuð rauður þráður að íslensku bjórarnir voru jafnan betri. Frábær þróun á ekki lengri tíma.

Og, jú, ekki spilltu hamborgararnir á efri hæðinni stemmingunni.

 

Ég á auðvitað að hafa vit á að þegja um þetta áfengisfrumvarp.. en síðan hvenær hef ég haft vit á að þegja?

Í öllu falli þá er ég alveg búinn að fá upp í kok á þessu lýðheilsutali þegar kemur að minni háttar breytingum á sölu áfengis.

Það er ekki þverfótað fyrir tilvísunum í hvað lýðheilsufræðingum finnst og jafnvel þó bent sé á að gögnin sem þeir leggja til grundvallar standist ekki skoðun, þá er einfaldlega haldið áfram að endurtaka fullyrðingarnar aftur og aftur.

Ef fólk hefur virkilega trú á að lýðheilsurök komi þessu frumvarpi eitthvað við, þá ætti þetta sama fólk að eyða jafn mikilli, eða reyndar meiri, orku í að krefjast þess að allt áfengi væri bannað. Sama fólk ætti þá með sömu rökum að krefjast þess að tóbak, sykur, sælgæti, unnar kjötvörur yrði eingöngu selt í ríkisreknum verslunum. Nei, hvernig læt ég, auðvitað á að banna þetta alfarið, það eru mjög sterk lýðheilsurök fyrir því.

En fólki vefst allt í einu tunga um tönn og fingur um lyklaborð þegar á að teygja rökin lengra og yfir á eitthvað sem þeim hentar ekki sjálfum. Lýðheilsurökin virðast nefnilega bara telja „þegar það hentar mér“..

Og ég hef ekkert sérstaklega mikla samúð með svona málflutningi.

Okurverð á litlum bjór

Posted: ágúst 3, 2014 in Spjall, Umræða
Efnisorð:,

Ég get ekki almennilega skilið verðlagninguna á bjór á börunum hér á landi. Jú, áfengi er almennt óhóflega dýrt hér á landi. Og ég skal viðurkenna að ég hef ekki reynt að reka bar.

Það má vissulega finna bari í stórborgum sem erum með verðið á bjór slagar upp í verðið hér. En almennt er bjór hér tvöfalt (og jafnvel ríflega það) dýrari á bar en erlendis. Áfengisskatturinn skýrir þetta auðvitað að hluta.. en bara að hluta.

En það sem viriklega gengur fram af mér er verðlagningin á litlum bjórum. Bæði er að oft finnst mér fínt að fá bara lítinn bjór og láta þar við sitja. Hitt er að mér finnst í öðrum tilfellum gaman að smakka mismunandi bjóra.

Erlendis er verðið á litlum bjór nokkurn veginn helmingur af verðinu á stórum, jú kannski eitthvað örlítið hærra.

Í gær fór ég á nokkuð skemmtilegan bar þar sem úrvalið var mikið, sérstaklega af krana. Það spillti óneitanlega fyrir að stór bjór kostar þar 1.500 krónur. En gott og vel, mér fannst úrvalið spennandi og ákvað kannski allt í lagi að styrkja staði sem nenna að hafa fyrir því að bjóða upp á fjölbreytt og skemmtilegt úrval. Úrvalið var reyndar það mikið að ég var í vandræðum með að velja og ákvað fá mér tvo litla. Hvað kostaði lítill? Jú, 1.250…

Ég reyndi að skammast út í barþjóninn – þó ég efist nú um að ákveði þetta.Hann svaraði að skýringin væri sú að áfengisskatturinn hér heima væri svo hár. Ég benti honum á að áfengisskatturinn af litlum bjór væri nákvæmlega jafn hár á hvern millilítra í litlum og stórum bjór.

En ég efast nú einhvern veginn samt um að búið verði að lækka verðið á litlum bjór þegar ég kem næst. Ef ég kem aftur.