Áfengisneysla, bjór og aðgengi

Posted: febrúar 27, 2017 in Stjórnmál, Umræða
Efnisorð:, , ,

Fyrir daga bjórsins voru andstæðingar þess að leyfa hann þess fullvissir að það að leyfa bjór myndi einfaldlega bætast við aðra neyslu, aukið aðgengi myndi þýða meiri neyslu áfengis og við sætum uppi með enn verri drykkju með tilheyrandi vandamálum.

En skoðum tölur.

Seldir alkóhóllítrar á mann voru 3,14 árið 1980 og hafði aukist í 3,39 árið 1988. Samt var ekki búið að gera neina verulega breytingu, hvað þá að leyfa bjór.

En, vissulega jókst heildarneysla áfengis árið 1989, árið sem bjórinn var leyfður, neyslan fór í 4,13 alkóhóllítra á mann.. við fáum seint að vita hversu mikið af þessari breytingu má rekja til minnkandi heimabruggs og/eða smygls.

En, svo ber við að 1993 er neyslan orðin minni en fyrir tíma bjórsins eða 3,34 alkóhóllítrar á mann. Og aftur er rétt að hafa í huga að við vitum ekkert um brugg eða smygl fyrir tíma bjórsins. Ekki var búið að banna bjórinn aftur og ekki var búið að takmarka aðgengi að áfengi (mér vitanlega) á annan hátt.

Áfengisneysla jókst svo nokkuð þétt til 2007 þegar alkóhóllítrar á mann voru komnir í 5,95. Ekki var verið að leyfa bjórinn aftur á þessum tíma, ekki var verið að leyfa aðrar tegundir.. neyslan jókst nú bara samt, og það talsvert.

Tölurnar Hagstofunnar ná reyndar bara til 2007, það skemmtilega ártal tvö-þúsund-og-sjö. Svo minnkar neyslan aftur.. hér vantar reyndar nákvæmar tölur en í skýrslu Landlæknis er greinilegur samdráttur eftir 2007. Ekki var bjór bannaður og ekki fækkaði útsölustöðum.

Getur hugsast að það séu fleiri þættir en aðgengi sem hafa áhrif á heildarneyslu áfengis? Getur jafnvel verið að almennt efnahagsástand hafi talsverð áhrif? Verð? Fjöldi ferðamanna? Fræðsla? Breytt menning?

Er mögulegt að neysla áfengis sé einfaldlega flóknari en þeir sem hafa hæst í umræðunni vilja láta? Getur verið að aðgengi, heildarneysla, skaðsemi, unglingadrykkja haldist bara alls ekkert í hendur eftir allt saman?

Er mögulegt að þetta sé bara flökkusaga, sem haldið er við með því að að endurtaka stöðugt möntru sem á ekki við rök að styðjast..

Lokað er á athugasemdir.