Posts Tagged ‘kirkjujarðir’

Kirkjujarðir, upplýsingar

Posted: febrúar 28, 2017 in Stjórnmál, Umræða
Efnisorð:

Ég sendi fjármálaráðherra opna fyrirspurn um verðmæti, tekjur og gjöld þeirra jarða sem ríkið á að hafa tekið yfir við kirkjujarðasamninginn svonefnda.

Ég hef engin svör fengið, enda skilst mér að það liggi nú engan veginn á lausu hvaða jarðir þetta eru.

Hitt er að eftir að ég skrifaði grein fyrir nokkru í Fréttablaðið fékk ég símtal frá einstaklingi sem þekkti til (amk.) og var með ansi fróðlegar upplýsingar um jarðirnar.

Ég var á hlaupum, náði ekki að klára símtalið almennilega en setti símanúmer og nafn í tengiliðalistann minn – fljótlega var skipt um þjón, það komu einhverjar villur í flutningi, ég þurfti að sækja afrit og í stuttu máli, þá finn ég ekki þessar upplýsingar.

Þannig að ef viðkomandi les þetta þá má hann endilega hafa samband!

Samningatækni – níutíu og sjö

Posted: janúar 18, 2013 in Umræða
Efnisorð:,

Svo virðist sem samningar ríkisins árið 1997 hafi gengið einhvern veginn svona fyrir sig:

„Þið viljið sem sagt að við tökum við jörðum sem þið eigið og greiðum ykkur laun um ókomna framtíð í staðinn?“ – Já

„Eru þetta allar jarðir sem þið eigið?“ – Nei, við ætlum að halda eftir þeim sem gefa einhverjar alvöru tekjur

„Vitið þið hvaða tekjur má hafa af þessum jörðum sem við eigum að taka við?“ – Nei

„Vitið þið hversu verðmætar þessar jarðir eru?“ – Nei

„Vitið þið hvaða jarðir þetta eru?“ – Nei

„Vitið þið hversu mörg þið verðið í framtíðinni?“ – Nei

„Vitið þið hvaða laun þið hafið í framtíðinni?“ – Nei

„Þið viljið sem sagt að við greiðum óskilgreindum fjölda ykkur óskilgreind laun til eilífðar gegn því að fá jarðir sem enginn veit hverjar eru eða hversu mikils virði eru?“ – Já

„Gott og vel, hvar skrifa ég undir?“

Brandarinn um kirkjujarðirnar

Posted: janúar 17, 2013 in Trú, Umræða
Efnisorð:,

Það hefur stöðugt hljómað frá kirkjunni síðustu mánuði – og reyndar ár – að laun starfsmanna kirkjunnar séu „afgjald“ vegna þeirra jarða sem kirkjan hafi afhent ríkinu 1907. Um þetta hafi verið gerður samningur 1997.

Það hefur lengi vafist fyrir okkur sem stöndum utan þjóðkirkju að skilja hvernig arður af jörðum átti að standa straum af kostnaði við laun (og annan rekstur) presta um ókomna framtíð. Því það gat jú enginn vitað hvernig annar hluti þessarar jöfnu myndi standa, þeas. fjöldi og launakjör presta.

Hitt er að við höfum oft spurt hvaða jarðir þetta séu, hversu mikils virði þær séu og hvaða tekjur ríkið hafi af þeim. Það hefur verið lítið um svör. Tveir prestar reiknuðu verðmæti þeirra upp í 17.000 milljarða, eða um þrjátíu falt verðmæti allra fasteigna á landinu. Þeir gátu ekki tilgreint hvaða jarðir þetta eru. Þeir gátu heldur ekki sagt hvaða tekjur ríkið hefur af þeim (augljóslega).

Nú datt Svavari nokkrum Kjarval í hug að spyrja ríkið hvaða jarðir væru í þessum samningi. Svarið kom og var eiginlega stórkostlegt og má finna hér hér.

Þarna kemur í ljós að þegar ríkið gerði samninginn 1997 vissi enginn hvaða jarðir þetta voru. Það bætir svo ekki úr skák að kirkjan virðist hafa haldið öllum jörðum sem voru bitastæðar og sem hægt var að hafa einhverjar tekjur af.

Ég veit eiginlega gekki hvort er fyndnara, hlægilegra eða grátbroslegra.

Talsmenn kirkjunnar sem stöðugt vísa til að ríkið hafi svo miklar tekjur af jörðum sem þeir vita ekki hverjar eru.

Eða samningamenn ríkisins 1997 að gera samning um jarðir upp á fleiri þúsundir milljarða án þess að hafa hugmyndum hvaða jarðir þetta voru.