Posts Tagged ‘Vínbúðir’

Eftirspurn, framboð og áfengi

Posted: febrúar 28, 2017 in Stjórnmál, Umræða
Efnisorð:,

Ég hef aðeins  dottið í að ræða hvort framboð í formi útsölustaða auki áfengisneyslu. Eins og mér sé ekki sama.. hef aðallega verið að láta óvarlegar túlkanir á gögnum fara í skapið á mér. Ég átti ágætt spjall á Facebook þar sem mikilvægt atriði kom fram.

Það er víst eitthvað til sem kallast framboð og eftirspurn.

Það er ekki óvarlegt að gera ráð fyrir að eftirspurn eftir hvers kyns neysluvörum, þar með talið áfengi, aukist þegar efnahagur batnar. Þá er ekki fráleitt að ímynda sér að aukinn straumur ferðamanna, bæði jafnt og þétt og síðan sprengja síðustu ára hafi talsverð áhrif á eftirspurn eftir áfengi. Ferðamenn eru jú í fríi og það er ekki langsótt að gera ráð fyrir að fólk drekki meira í fríi en að öðru jöfnu. Og ferðamenn eru neytendur en telja ekki með í íbúafjölda og skekkja þannig neyslutölur á einstakling.

Og eins og fram kom í áðurnefndu spjalli þá hefur útsölustöðum áfengis fjölgað meira í takt við þessa tvo þætti í formi fleiri veitingastaða en fjölgun vínbúða og breytingar á vöruúrvali.

Það eru sem sagt allar líkur á að það sé aukin eftirspurn sem kallar á fleiri útsölustaði, ekki fleiri útsölustaðir sem búa til eftirspurn.

Ég skal játa að ég hef ekki skoðað tölurnar í smáatriðum… ég er um það bil að verða búinn að fá nóg af þessari umræðu og nenni eiginlega ekki að eyða meiri tíma í þetta í bili. En við fyrstu sýn virðist þetta nokkuð gefið og ég er nokkuð viss um að þetta er að minnsta kosti mun líklegri skýring en það eitt að gera breytingar á tegund útsölustaða.

Mér sýnist deginum ljósara að betri efnahagur og fleiri neytendur auka eftirspurn sem eykur fjölda útsölustaða.. það er eftirspurnin sem skýrir meiri neyslu, ekki fjöldi útsölustaða… aðgerðir löggjafans breyta sennilega litlu sem engu um þetta.

Og umdeilt frumvarp breytir bara nákvæmlega ekki neinu um þetta!

Vínbúðirnar hafa um nokkuð langt skeið birt til þess að gera langar auglýsingar með (að þeim finnst væntanlega) skondnum tilraunum unglinga til að fá að kaupa áfengi án skilríkja. Það eru nokkrar útgáfur í gangi og ég er nokkuð viss um að þær hafa kostað sitt í framleiðslu. Þá er heldur ekki ókeypis að birta sjónvarpsauglýsingar þetta oft.

Ég efast um að þetta sé raunverulega stórt vandamál, þeas. að krakkar komi með fáránlegar afsakanir.. og svarið er (gef ég mér) auðvitað „nei“ og málið er leyst.

Ég ætla að leyfa mér að fullyrða að þessi auglýsingaherferð stendur ekki undir sér – það er að segja, hún skilar örugglega ekki þeim tekjum eða sparar þann kostnað í rekstri vínbúðanna að hægt sé að réttlæta þetta. Jafnvel þó skilríkjalausir einstaklingar séu margir, þá ætti að vera mun ódýrara og einfaldara að koma afdráttarlausum skilaboðum til væntanlegra kaupenda.

Hvers vegna skiptir þetta máli?

Jú, vegna þess að þetta er dæmi um niðurgreiddan rekstur ríkisins á verslun sem ríkisvaldið þarf ekkert að standa í að sinna. Á endanum koma þessir peningar úr ríkissjóði (eða það fer minna í hann) og við borgum brúsann.

PS. jú, ef bæði framleiðsla og birtingar hafa fengist gefins þá er sjálfsagt að éta þessar fullyrðingar ofan í mig.. eða ef hægt er að sýna fram á betri rekstur í kjölfarið..