Ég sá frétt um að dauðadæmdum fanga hafi loksins verið sleppt eftir nokkra áratugi í fangelsi. Það er ekki í frekari frásögur færandi.
En ein athugasemdin við fréttina vakti athygli mína, en þar bar einhver það saman við beint lýðræði að hafa kviðdóm og taldi þetta sanna, eða amk. dæmi um, hversu vont beint lýðræði geti verið.
Fyrir það fyrsta þá er ansi margt ólíkt með beinu lýðræði og kviðdómi, kviðdómendur eru valdir af handahófi, beint lýðræði gerir ráð fyrir að allir áhugasamir geti tekið þátt.
En aðallega þá er það enginn trygging fyrir betri niðurstöðu þó færri sjái um að dæma, þó þeir séu löglærðir, næg eru dæmin um alvarleg afglöð dómarar – hvort sem er í Bandaríkjunum (þaðan sem fréttin er) þar sem dómarar eru gjarnan kosnir – eða hér á landi þar sem þeir eru skipaðir.
Fyrir utan nú rökleysuna að taka eitt tiltekið dæmi og ætla sér að alhæfa út frá því.
Hitt er svo þessi mótsögn fulltrúalýðræðisins, að fólk geti ekki haft nægilegt vit fyrir sjálfu sér í einstaka málum en geti samt haft nægilegt vit til að kjósa sér fulltrúa – út frá fyrirheitum um þessi sömu mál.
Það er rétt, að það eru til dæmi um að almenningur hafi látið blekkjast til að greiða atkvæði í þjóðaratkvæðagreiðslum og tekið þannig ákvarðanir sem hafa ekki reynst gæfulegar.
En það eru ekki síður dæmi um að fólk hafa kosið sér fulltrúa sem hafa blekkt kjósendur til að greiða sér atkvæði – og setið þannig uppi sem svipaðan kött úr keyptum sekknum.