Posts Tagged ‘Umræða’

Ég hef aðeins fylgst með umræðunni um breytingar á áfengislögum. Þetta skiptir mig kannski ekki svo miklu til eða frá hvort áfengi er selt í matvöruverslunum eða ekki. En mér finnst þetta talsvert mikið „prinsip“ mál. Og að hefðbundinni íslenskri umræðuhefð er ég gjarnan stimplaður sem talsmaður einhverra hagsmunahópa eða þaðan af verra um leið og ég leyfi mér að hafa skoðun.

Hitt er að ég hef talsverðan áhuga á bættri umræðu. Að málin séu rökrædd, skoðanir séu rökstuddar og rökin studd af upplýsingum.

Og það hefur verið einstaklega gremjulegt að fylgjast með umræðunni, hvort sem þar fara læknar, þingmenn og/eða þeir sem bara virðast hafa ríka þörf fyrir að vita betur en ég hvað ég vil..

Það er þekkt sagan (sennilega ekki sönn, en góð dæmisaga) um borgarstjórann sem vildi banna sölu á rjómaís í borginni. Hann hafði jú skoðað tölur og tekið eftir, réttilega, að dauðsföllum fjölgaði verulega í takt við sölu á rjómaís. Það var alveg klár fylgni á milli. Það var hins vegar ekki það orsakasamhengi að rjómaís væri að valda dauða. Skýringin var einfaldlega sú að þegar hitabylgjur gengu yfir þá keypti fólk meira af rjómaís – og á sama tíma fóru fleiri óvarlega við að kæla sig, óðu út í aðal á borgarinnar án fyrirhyggju og afleiðing var að fjöldi fólks drukknaði.

Umræðan um sölu áfengis í matvöruverslunum er því miður mjög lituð af því að farið er mjög óvarlega með upplýsingar og tölur. Fullyrt er að tölfræðileg fylgni sýni fram á orsakasamhengi. Og oft er látið nægja að skauta á hundavaði yfir aðgengilegar tölur, í stað þess að rýna í þær og velta fyrir sér hvort mótsagnir í gögnunum gefi ekki tilefni til að skoða betur.

Ég sá frétt um að dauðadæmdum fanga hafi loksins verið sleppt eftir nokkra áratugi í fangelsi. Það er ekki í frekari frásögur færandi.

En ein athugasemdin við fréttina vakti athygli mína, en þar bar einhver það saman við beint lýðræði að hafa kviðdóm og taldi þetta sanna, eða amk. dæmi um, hversu vont beint lýðræði geti verið.

Fyrir það fyrsta þá er ansi margt ólíkt með beinu lýðræði og kviðdómi, kviðdómendur eru valdir af handahófi, beint lýðræði gerir ráð fyrir að allir áhugasamir geti tekið þátt.

En aðallega þá er það enginn trygging fyrir betri niðurstöðu þó færri sjái um að dæma, þó þeir séu löglærðir, næg eru dæmin um alvarleg afglöð dómarar – hvort sem er í Bandaríkjunum (þaðan sem fréttin er) þar sem dómarar eru gjarnan kosnir – eða hér á landi þar sem þeir eru skipaðir.

Fyrir utan nú rökleysuna að taka eitt tiltekið dæmi og ætla sér að alhæfa út frá því.

Hitt er svo þessi mótsögn fulltrúalýðræðisins, að fólk geti ekki haft nægilegt vit fyrir sjálfu sér í einstaka málum en geti samt haft nægilegt vit til að kjósa sér fulltrúa – út frá fyrirheitum um þessi sömu mál.

Það er rétt, að það eru til dæmi um að almenningur hafi látið blekkjast til að greiða atkvæði í þjóðaratkvæðagreiðslum og tekið þannig ákvarðanir sem hafa ekki reynst gæfulegar.

En það eru ekki síður dæmi um að fólk hafa kosið sér fulltrúa sem hafa blekkt kjósendur til að greiða sér atkvæði – og setið þannig uppi sem svipaðan kött úr keyptum sekknum.